Ég er í rauninni ekki enn búinn að jafna mig á Dylan hneysklinu. Mér fannst við í raun rétt byrjuð að melta þau tíðindi almennilega þegar það rennur upp fyrir mér að það sé kominn tími til að verðlauna næsta höfund. Eftirvæntingin var ekki nærri eins mikil í þetta skiptið, en það kom mér þó nokkuð ánægjulega á óvart að það skuli hafa verið Kazuo Ishiguro. Jæja, hann skrifar allavega bókmenntir. Það er eitthvað til að fagna. Ekki nóg með það heldur vill svo til að ég hef lesið tvær af bókum hans – eitthvað sem var áður fyrr a.m.k. mjög sjaldgæft þegar kom að handhöfum þessa stærstu og virðulegustu verðlauna bókmenntanna.
Kazuo Ishiguro fæddist í Nagasaki árið 1954 en fluttist til Englands þegar hann var fimm ára þar sem hann ólst upp. Hann lærði ritlist við háskóla í Englandi og gaf út fyrstu skáldsögu sína, A Pale View of Hills, árið 1982. Þrátt fyrir að hún og seinni skáldsaga hans, An Artist of the Floating World (1986), gerist báðar í Japan er Ishiguro fyrst og fremst enskur höfundur sem hefur báðar fætur kirfilega í þeirri hefð, frekar en japönskum bókmenntum. Hann segist sjálfur hafa lesið höfunda eins og Natsume, Tanizaki og Kawabata – í þýðingum þar sem japanska hans er mjög takmörkuð – en sú ímynd af Japan sem hann setur fram í skáldsögunum kemur fyrst og fremst úr japönskum kvikmyndum, Ozu sérstaklega, sem hann segist draga mun meiri innblástur frá. Ég tel ekkert ólíklegt, í ljósi þess, að Rashomon hafi einnig haft nokkur áhrif á hann og þemu verka hans, hvort sem það var smásaga Akutagawa eða kvikmyndaaðlögun Kurosawa.
Áhrif Ozu eru einnig vel greinanleg í skáldsögum hans. Eins og japanski meistari kvikmyndanna fjallar hann um hversdagslíf venjulegra persóna á lágstemmdan hátt og hvernig þær takast á við og reyna að sætta sig við sorg lífsins á hógværan, virðingarfullan máta. Frá enskum bókmenntum má helst greina áhrif frá Virginiu Woolf í helstu þemum hans: minni, tími, eftirsjá, sjálfsblekkingu, o.fl. Tengingin við Proust er einnig augljós, þó hann neiti henni sjálfur og segist ekki vera hrifinn af honum. Aðrir höfundar sem honum er oft líkt við eru t.d. Henry James og Jane Austen.
Í The Remains of the Day (1989) er sjónarsviðið hins vegar Bretland og er bókin sögð frá sjónarhóli persónu sem gæti ekki verið meira bresk: bryta að nafni Stevens (Ishiguro sagði sjálfur að Jeeves væri helsta fyrirmynd persónunnar). Frásögn Stevens fer fram og aftur í tíma, aftur að tíma hans í þjónustu Darlington lávarðs á fjórða áratug tuttugustu aldar, en í nútímanum er hann alræmdur föðurlandssvikari fyrir stuðning við fasisma – eitthvað sem gerðist þegar Stevens vann hjá honum. Stevens leiðir lesandann í gegnum störf sín og segir frá þessum atburðum frá sínu sjónarhóli. Lesandanum fer þó fljótt að gruna að Stevens er ekki eins traustur sögumaður og annars fagmannlegt yfirbragð hans gefur til kynna. Margir helstu atburðir frásagnarinnar eru einungis gefnir í skyn, og hvernig Stevens segir frá þeim (oftast með orðunum „as I recall…“) vekur upp spurningar um ábyrgð, hliðhollustu, skyldu og áreiðanleika minnisins – spurningar sem krefjast sjálfsrannsóknar og heiðarleika sem Stevens er með öllu ófær um að stunda. Gerir það m.a. út af við samband hans við aðra helstu persónu bókarinnar, Miss Kenton, sem hann vann saman með hjá Darlington lávarði og hittir svo aftur í nútímanum – en síðasta skiptið sem þau hittast er mjög sorglegt og eftirminnilegt atriði.
Sú bók á reyndar svolítið sérstakan sess hjá mér, þar sem hún var ein af fyrstu raunverulegu bókmenntaverkunum sem ég las og hafði virkilega gaman af. Hún var sem sagt skyldulesning í menntaskóla og ég hafði fram að því haft nákvæmlega engan áhuga á bókmenntum – að sjá þessa bók á leslistanum vakti vægast sagt litla hrifningu. En við lesturinn heillaðist ég þó gjörsamlega af bókmenntatækni Ishiguros, sérstaklega hvernig hann treystir lesandanum: gefur t.d. mikilvæg atriði í skyn frekar en að útlista þá, reiðir sig á að lesandinn búi yfir nægilegri sögulegri þekkingu til að skilja atburðarrásina, o.fl. Fyrst og fremst féll ég þó fyrir sálfræðilegri dýpt Stevens, en það var kannski fyrst og fremst það sem sýndi mér hvaða lúmska krafti bókmenntir geta búið yfir og átti þessi lestrarupplifun stóran þátt í að kveikja áhuga sem varð svo að lífslangri (enn sem komið er a.m.k.) ástríðu fyrir bókmenntum.
Hin bókin sem ég hef lesið eftir Ishiguro er Never Let Me Go (2005). Þar er sögusviðið einnig England, en „einhvern tímann á seinni hluta tíunda áratugarins“, eins og fyrstu orð bókarinnar lýsa yfir á eftirminnilegan hátt. Sögumaðurinn er Kathy, ung stúlka sem býr, ásamt öðrum ungum krökkum, á einhvers konar stofnun. Lesandinn skynjar fljótt að aðstæður eru mjög skrýtnar, og verða sífellt dularfyllri, eitthvað sem Ishiguro gefur í fyrstu aðeins í skyn á ýmsan hátt án þess að veita nein svör. Á endanum lærum við þó að Kathy og vinir hennar á stofnuninni, Tommy og Ruth, eru klón hvers hlutverk er að gefa líffæri sín til „alvöru fólks“ – eitthvað sem þau hafa ekkert val um, en þau eru búin til og öluð upp einungis í þessum tilgangi. Þau lifa þannig aðeins í þrjá áratugi – örlög sem þau taka ekki alfarið þegjandi og hljóðalaust en þó með áhrifaríkri og sláandi sátt við hlutskipti sitt.
Þrátt fyrir að Ishiguro fari út í vísindaskáldskap í seinni bókinni eru bækurnar nauðalíkar. Báðar fjalla í grunninn um persónur sem reyna að skilja aðstæður sínar, eitthvað sem sögumennirnir lýsa báðir fyrir lesandanum í miklum smáatriðum þrátt fyrir að stóra samhenginu sé haldið óljósu og dularfullu framan af. Mikið af ánægjunni sem felst í lestrinum er að komast til botns í þessari dulúð sem höfundurinn skapar og sjá í gegnum sjálfsblekkingar og réttlætingar sögupersónanna. Persónurnar sem slíkar eru einnig mjög líkar að því leyti að þær virðast einfaldlega ekki færar um að takast á við aðstæður sínar og skilja þær á hreinskilin hátt – einfalt mál þeirra stendur hreinlega ekki undir því. Það gerir þær að mjög tragískum persónum sem lesandinn fær mikla samúð með (minna í tilfelli Stevens þó). Þrátt fyrir að í Never Let Me Go fjalli Ishiguro, með hjálp vísindaskáldskapar, með beinni hætti um tilvistarlegar spurningar, þá eru þær ekki alveg fjarverandi í The Remains of the Day. Sú síðari er áframhaldandi rannsókn á flestum af sömu þemunum.
Þar sem ég hef ekki lesið fleiri bækur eftir hann byggi ég mat mitt á þessum tveimur bókum, en af þeim að dæma er enginn vafi um að Kazuo Ishiguro er mjög góður rithöfundur. Bækurnar eru báðar meistaralega skrifaðar og áhrifaríkar – sitja í manni eftir lesturinn. Hann er einnig áhugaverður að því leyti að hann er óhræddur við að feta ótroðnar slóðir, en hann hefur ekki einungis farið út í vísindaskáldskap, nýjasta bók hans The Buried Giant (2015) er víst fantasía (og er lengi búin að vera á leslistanum hjá mér).
Þó hefur Ishiguro aldrei verið í neinu persónulegu uppáhaldi. Raunar langt í frá. Ég hugsa reyndar líka að ef Dylan hefði ekki verið fyrir valinu í fyrra væri ég mun ósáttari við þetta val Nóbelsnefndarinnar.
Ástæðan er aðallega sú að – þrátt fyrir að ég heillaðist af henni sem unglingur – þá er einmitt sálfræðilegri dýpt persóna hans mjög ábótavant. Ég upplifi þær ekki sem raunverulegar persónur af holdi og blóði. Ishiguro tekst mun betur til með Stevens en Kathy sem býr ekki yfir mikilli dýpt yfirhöfuð. En jafnvel hjá Stevens er sú dýpt sem hann hefur alltof gervileg og tilbúin, það vantar allan neista, óreiðuna sem er nauðsynlegur fylgifiskur sjálfsins. Frásögnin sjálf hjá honum, í báðum þessum tilvikum a.m.k., er einnig alltof klippt og skorin. Þrátt fyrir að Ishiguro sé mjög góður í að skapa dulúð framan af, er skilið við hlutina þannig að engu er ósvarað. Í Never Let Me Go er afhjúpunin á eðli stofnunarinnar og hlutverki krakkanna eitthvað sem á meira skylt með týpískri Hollywood mynd (sem báðar bækurnar voru auðvitað gerðar að, með fínum árangri myndi ég segja). Að þessu leyti stenst Ishiguro engan samanburð við mun flóknari og dýpri verk Austen og James og persónur þeirra. Raunar hef ég einnig heyrt hann borin saman við Kafka, eitthvað sem mér finnst svo augljóslega út í hött og óskiljanlegt að ég á bágt með að trúa að það sé eitthvað sem þurfi að ræða?
Samanburðurinn við Ozu sem ég minntist á áður er kannski áhugaverður í þessu samhengi, ef við höldum aðeins áfram með hann. Þrátt fyrir að Ishiguro virðist vera undir áhrifum frá honum að einhverju leyti, þá er stór munur falinn í hvernig Ozu kemur hversdeginum í allri sinni flóknu magræðni til skila, sem hann gerir á mun áhrifaríkari og betri hátt. Í myndum hans eru engin skýr svör og mjög fjölbreyttum persónum tekst misvel upp að takast á við þær ólíku aðstæður sem lífið kallar á. En maður er aldrei í vafa um að þar eru á ferðinni persónur af holdi og blóði með sögu, persónur sem við fylgjumst með tímabundið áður en þau halda áfram með líf sitt. Í bókum Ishiguro hins vegar var ég allan tímann fullmeðvitaður um að ég var að lesa skáldskaparpersónu sérhannaða til að takast á við vissar, skapaðar aðstæður þar sem frásögninni er stýrt alveg niður í minnstu smáatriði.
Þegar allt kemur til alls standast bækur hans ekki einföldustu þumalputtaregluna sem aðgreinir meistaraverk frá öðrum bókmenntum: myndi maður vilja lesa þær aftur? Eða kannski frekar: finnur maður sig knúinn til að lesa þær aftur? Svarið er skýrt nei í tilfelli þessara bóka Ishiguros. Þrátt fyrir frábær stílbrögð hans bjóða þær einfaldlega ekki upp á dýpt sem stenst endurlestur. Allt liggur fyrir við fyrsta og ekkert ásækir lesandann og kallar hann tilbaka.
Það eru auðvitað skiptar skoðanir um hvað nákvæmlega Nóbelsverðlaunin í bókmenntum eigi að verðlauna. Hafa þær deilur skiljanlega orðið líflegri eftir sigur Dylans. Opinber útskýring verðlaunanna sjálfra eru auðvitað mjög óljós og opin fyrir túlkunum, eins og alkunna er. Það virðist vera algengt sjónarmið að verðlaunin eigi að vekja athygli á ólíkum höfundum og bókmenntahefðum frá öllum heimshornum. Þannig er það lofsvert þegar þau fara til mikilvægs höfundar sem annars fengi litla athygli – hlutverk sem er enn mikilvægara á þessum síðustu og verstu tímum fyrir bókmenntir. Frá þessu sjónarmiði er Kazuo Ishiguro ekki sérlega verðugur handhafi verðlaunanna. Hann er auðvitað með frægari rithöfundum og þarf engan veginn á neinni kynningu að halda.
Ég hef þó alltaf verið ósammála þessu sjónarmiði. Ég er kannski naívur en mér hefur alltaf fundist verðlaunin eiga að fara til besta höfundar hvers tíma og einungis bókmennta- og fagurfræðileg gildi ættu að ráða ferðinni í valinu (það myndi einnig vera besta kynningin fyrir bókmenntir að mínu mati). Þetta er auðvitað ómögulegt af mörgum augljósum ástæðum. En ætti þó að vera takmarkið.
En útfrá því er Ishiguro heldur ekkert sérstaklega verðugur vinningshafi. Þrátt fyrir meistaralega skrifuð verk, þá skortir hann eitthvað mikilvægt sem kemur í veg fyrir að hann nái hæstu hæðum. Ég kýs ennþá að kalla það snilligáfu þótt það sé vissulega ekki vinsælt hugtak í dag.
Þó ég fagni kannski ekki beint þessari niðurstöðu þá er ég heldur ekkert ósáttur þannig. Allt virðist geta gerst í þessu nú og því hefði þetta getað farið mun verr. Hinn frægi japanski rithöfundurinn sem nefndur er hvert ár hefði allteins getað unnið.