Ermete Novelli leikur Shylock.

Löglegt – siðlaust

All things that are,
Are with more spirit chased than enjoy’d.

2.6.13–14

Atburðarás

Blankur feneyskur aðalsmaður, Bassanio að nafni, ákveður að fara í bónorðsför til ríkrar yngismeyjar í nágrenninu og biður vin sinn og aðdáanda, kaupmanninn Antonio, um farareyri. Antonio er í lausafjárkrísu en slær lán hjá hinum fyrirlitna gyðingi Shylock, sem tekur veð í holdi kaupmannsins. Vinur Bassanios er á sama tíma að gera sér dælt við dóttur Shylocks og nemur hana á brott ásamt hluta af eignum hans. Bassanio vinnur hjarta Portiu, og það sem meira er, leysir þrautina sem faðir hennar hafði krafist að vonbiðlar hennar spreyttu sig á. Þau frétta að ekki hafi leyst úr peningavandræðum Antonios og Shylock gangi eftir veðinu. Bassanio fer til að liðsinna vini sínum, og það sama gerir Portia, dulbúin sem ungur lögmaður og tekst með lagakrók að afstýra því á síðustu stundu að Shylock skeri hjartað úr kaupmanninum. Henni tekst (í dulargerfinu) að láta Bassiano gefa sér hring að launum sem hún hafði áður fengið hann til að lofa að skilja aldrei við sig. Þegar þau hittast aftur krefur hún hann um hringinn en ljóstrar þvi upp um síðir að hún hafi verið hinn ungi lögmaður. 

Ekkert Shakespeareleikrit ber annan eins farangur með sér inn á sviðið og The Merchant of Venice. Það er samt ekki beinlínis leikritinu eða höfundi þess að kenna, eins og allir vita. Það er svo til marks um listrænan styrk þess, túlkunarvíddir og stöðu innan höfundaverksins að það skuli vera meðal mest leiknu og dáðustu verkanna eftir miðja tuttugustu öld, en ekki sópað niður í ruslflokk með Two Gentlemen og King John.

Það er líka til marks um margræðni þess og möguleika að meðal nafntogaðra túlkenda Shylocks á undanförnum áratugum má nefna gyðingana Anthony Sher, Henry Goodman og Dustin Hoffmann. Peter Hall segir frá vinnunni með Hoffmann í ævisögu sinni og efasemdum leikarans um rulluna, sem Hall kallar „insane“ og bætir við: „The very heart of the play is a vivid demonstration of the perils of racism and how it can poison the persecutor as well as the persecuted“ (Peter Hall: Making an exebition of myself, 383)

Kannski fullmikið sagt. The Merchant of Venice er ekki UM rasisma í sama skilningi og Et Dukkehjem er UM stöðu kvenna og Death of a Salesman er UM ameríska drauminn. Það er einn af helstu styrkleikum þess hvað allt orkar stöðugt tvímælis. Hvað hetjur og skúrkar búa möglunarlaust innra með öllum persónunum, og hvað pólitískar mótsagnir eru skilmerkilega sýndar og settar fram, en hvorki leystar né gagnrýndar á einfaldan, hvað þá einfeldningslegan, hátt. Það má meira að segja vel vera að Shakespeare hafi alls ekki haft allar þessar mótsagnir meðvitað í huga. Það er t.d. alls ekki útilokað að aldrei hafi staðið til að maður fengi á tilfinninguna að Antonio væri frústreraður hommi og svo má vel vera að The Merchant of Venice sé rasískara „frá höfundarins hendi“ en það birtist okkur í dag, eftir allt sem á undan er gengið bæði í sögu gyðinga og hagíógrafíu Shakespeares.

Það er ágætt að hafa í huga að þegar verkið var frumsýnt hafði gyðingum verið úthýst frá Englandi í þrjú hundruð ár, en engu að síður voru þar nokkrir á stangli, þar á meðal líflæknir drottningar, Roderigo Lopez, sem nýlega hafði verið tekinn af lífi fyrir njósnir, og Bassano (já ég sagði það) fjölskyldan, tónlistarmenn sem Shakespeare gæti auðveldlega hafa þekkt og umgengist. Ein þeirra, Emilia Lanier, er kanditat til að vera „The Dark Lady“ sem Shakespeare syngur um í sonnettunum sem hann var líklega byrjaður að yrkja um þetta leyti.

Hitt er nokkuð solid hjá Hall, að lýsa Shylock sem „An entire and fallible man made evil by persecution“.

Allavega talsvert meira solid en það sem John Drakakis ber á borð í inngangi sínum í Ardenútgáfunni. Það er nú aldeilis leiðinleg og ófrjó bókmenntafræði, gegnsýrð af vaðalstíl fræðanna. Mjög skýrt dæmi um hvað standpínan, sem heltekur fræðinga og textagreina nútímans þegar þegar kynþáttaspenna,  „The Other“, óríentalismi og blessað feðraveldið eru annars vegar, birgir þeim sýn.

Hvaða gagn er t.d. í þessu:

The „dangerous rocks“ and „roaring waters“ that beset Antonio’s mercantile ventures are the properties of the patriarchal force that is at once hostile and seductive, paternal and maternal. 

eða

Jessica is Derridean pharmakon, in that she can poison her father’s life through her wilfully reductive violation of those intimate rituals that authorize his patriarchal power, but by actually crossing over “into the other” she becomes the vehichle through whom a Christian Venetian cure is administered.

Skelfileg kæfa. sem varð til þess að ég leit aðeins í kringum mig að læsilegri greiningum, og fann þrjá frábæra texta. Kaflinn um Kaupmanninn í bók Marjorie Garber, Shakespeare after all, er jafn ágætur og restin af þeirri ágætu bók, og svo átti ég ritgerðasafnið Director’s Cut ólesið, en þar eru greiningar leikstjórans Michael Bogdanov á hinum ýmsu Shakespeareverkum, allt mjög hressandi eins og hans er von og (pínu þröng og marxísk) vísa. Og svo minnist Drakakis í inngangi sínum á ritgerð Audens um verkið, Brothers and Others, sem varð til þess að ég fann ritgerðasafn skáldsins, The Dyer’s Hand á netinu í illlæsilegri innskönnun, tók til í henni og kom á nothæft kindil-form. Snilldarleg ritgerð. Þessar þrjár virðast mér segja á mannamáli nokkurnvegin allt sem Drakakis pakkar inn í sína bókmenntafræðilegu holtaþoku. Látum lokaorð Marjorie Garber fljóta hér með:

The Merchant of Venice is a deeply disturbing play, whose interpreters over time have sought to purge it of its most dangerous and disturbing energies. It is a play in which the question of intention, of what Shakespeare may have intended, is relevant but not recoverable, and finally not determinative. Portia the goddess, or Portia the spoiled rich girl, the wealthy heiress? Shylock the noble man of suffering and dignity, or Shylock the small minded patriarch who prizes spiteful victories? Bassanio the impassioned lover, or Bassiano the fortune-hunter? Comedy or tragedy? The history of the play’s interpretations encompasses all of these alternatives, and more. Meaning is disseminated here – it will not be contained.

Stíllinn snöggskánar hjá Ardenritstjóranum þegar kemur að ítarlegu yfirliti yfir skrautlega sviðssetningarsögu verksins. Hnoðið hverfur þegar fræðanna er ekki lengur þörf og maðurinn reynist alveg geta tjáð sig í rituðu máli. Hann er samt varla nema hæfilega innvígður í töfra leikhússins. Ég á t.d. pínu bágt með þá skilgreiningu á Teatre de Complicité að þar fari „a company specializing in slapstick comedy and mime“.

Samt eru þarna innan um merkilegir molar. Meðal annars um stöðu Feneyja í hugarheimi Elísarbetarbreta. Furðulegt borgríki sem framleiddi ekki neitt, en lifði á að kaupa og selja það sem aðrir bjuggu til. Og var þar að auki næstum lýðræðislegt í stjórnarfari. Og fjölmenningarríki, sem sést best á því að þau tvö leikrit Shakespeares sem snerta á kynþáttamálum gerast bæði í Feneyjum. En fyrst og fremst eru Feneyjar viðskiptaveldi. Kannski þess vegna m.a. sem Merchant er svona ofboðslega frjótt verk fyrir nútímaleikhús að fjalla um, þrátt fyrir hinn eldfima kynþáttafarangur. Þetta er „stóra peningaleikritið“.

Annað merkilegt er svo (sem ég hef reyndar lesið áður og annarsstaðar, en gleymi jafnóðum, sennilega í sjálfsvörn) að öldum saman var staðalgervi leikara í hlutverki Shylocks rauð hárkolla og/eða rautt skegg!

Svo má nefna þá forvitnilegu en ómerkilegu staðreynd að nafnið „Shylock“ er enskt nafn, en ekki semitískt. Af einhverjum ástæðum hefur það dottið úr tísku á síðari öldum.

Og að lokum í trivíunni: Af því við vorum að tala um farangur leikritisns og fræga gyðinga sem hafa smellt á sig rauðu hárkollunni, þá er aðeins vitað um eina uppfærslu á The Merchant of Venice í Þriðja ríkinu. Og það þurfti aðeins að tvíka. Gefum Reiner Schlösser ríkisdramatúrg (já í alvöru) orðið í bréfi til Göbbels:

In this version Jessica is played not as the daughter but only as the foster-daughter of the Jew; race-political difficulties, therefore, are cleared out of the way.

Því ekki hefði gengið að láta júðastelpu giftast „arískum“ Feneyingi, það sér hver maður!

Hitt væri gaman að vita, hvort þessi orð Shylocks hafi ekki hljómað kunnuglega í eyrum aríanna:

What if my house be troubled with a rat
And I be pleased to give ten thousand ducats
To have it baned? What, are you answer’d yet?
Some men there are love not a gaping pig;
Some, that are mad if they behold a cat;
And others, when the bagpipe sings i’ the nose,
Cannot contain their urine: for affection,
Mistress of passion, sways it to the mood
Of what it likes or loathes. Now, for your answer:
As there is no firm reason to be render’d,
Why he cannot abide a gaping pig;
Why he, a harmless necessary cat;
Why he, a woollen bagpipe; but of force
Must yield to such inevitable shame
As to offend, himself being offended;
So can I give no reason, nor I will not,
More than a lodged hate and a certain loathing
I bear Antonio, that I follow thus
A losing suit against him.

4.1.43–61

Mælskur, Shylock. Fyrir vikið verða lokaorð hans í verkinu, þegar hann hefur (spoiler alert) glatað öllu svo áhrifarík í einfaldleika sínum og algerum skorti á mælsku:

I pray you, give me leave to go from hence;
I am not well: send the deed after me,
And I will sign it.

4.1.391–393

„I am not well“

Brill.

Annars er hvorki ræðan né lokaorðin sérlega dæmigerð fyrir hið sérstaka, og mjög svo gamlatestamentislega málsnið Shylocks með tíðum endurtekningum og orðaröð sem oft gefur til kynna að hér tali eldklár maður á öðru máli en sínu eigin.

Það eru ótal spennugjafar í þessu þaulhugsaða verki. Nefna má hvernig sálrænt raunsæi og þjóðfélagsrýni er látið þrífast og blómgast innan um þjóðsagnakennd plott-tvist á borð við kistlana þrjá sem geyma lykilinn að hönd (og auði) Portiu. Og hvernig við sjáum tvo biðla klikka áður en sá þriðji hittir í mark. Reyndar með augljósri hjálp frá söngnum sem festarmærin lætur syngja fyrir Bassanio, einan biðla:

Tell me where is fancy bred,
Or in the heart, or in the head?
How begot, how nourished?
Reply, reply.
It is engender’d in the eyes,
With gazing fed; and fancy dies
In the cradle where it lies.
Let us all ring fancy’s knell
I’ll begin it,–Ding, dong, bell.

3.2.65–74

Hér vísar rímið í fyrstu línunum beint á „lead“, og það sama gerir þessi afdráttarlausa höfnun á því sem er „fancy“ fyrir augað. Blýkistillinn er svarið. Ævintýrið er á enda og unnust þau bæði vel og lengi…

Nei annars, raunveruleikinn/leikskáldið er með aðra hugmynd.

Í lokin á frábærri bók sinni um fræga uppfærslu á Ríkarði III segir Anthony Sher frá áformum sínum og leikstjórans Bill Alexander að ráðast næst á Kaupmanninn, sem þeir og gerðu. Fyrsta hugmynd þeirra er að enda verkið á réttarsenunni þar sem Shylock er í þann mund að sarga pund af holdi Antonios en er stöðvaður á lagatæknilegu smáatriði. Sleppa öllu þessu leiðinlega ástarkjaftæði með hringana, sem Portia og Nerissa hafa gefið eiginmönnum sínum, en narra af þeim aftur, dulbúnar sem lagaséní og aðstoðarmaður. Það gerðu þeir ekki, hafa líklega áttað sig á að þó örlög Shylocks séu svakaleg þá eru þau ekki eini kjarni málsins í þessu snilldarlega fléttaða víravirkisverki. Þar er trúnaður, svik, ást og hreinskilni líka í stóru hlutverki, og ef vel er haldið á hlutum eru samskipti Portiu og Bassanio langt í frá leiðinleg. Þau eiga ekki síður tilkall til að teljast miðpunktur verksins en hefndaræði gyðingsins. Og svo er það hin kvalda og (misvel) leynda ást Antonios á skjólstæðingi sínum, hún þarf líka sitt pláss.

Þetta er alveg ljóst í báðum myndunum sem ég horfði á. Kvikmyndagerð Michaels Radford frá 2004 er ákaflega fögur á að líta, eins og Titian hafi séð um útlitshönnun, og innihaldinu smekklega komið til skila. Hóflega og mjög skynsamlega stytt og aðlöguð frásagnarmáta bíósins. Eina sem mér finnst beinlínis galið er að kippa út þeirri klásúlu að hver sem reynir sig við skrínin hennar Portiu verið að lifa án kvenna til æviloka ef hann tapar. Myndin líður líka aðeins fyrir afstöðuleysi leikstjórans. Sérstaklega veit maður ekkert hvað Bassanio er að pæla. Mögulega vegna þess að um leið og farið er að hugsa of mikið um ungu mennina í verkinu þá verða þeir of ógeðfelldir fyrir meinstrím ástar- og búningabíó. Al Pacino er ótrúlega hófstilltur í hlutverki Shylocks, jafnvel svo að maður hefði viljað sjá hann tyggja leikmyndina aðeins meira. Sama má segja um kyrrláta og smekklega lögn Jeremy Irons í titilhlutverkinu. Meinstrím bíógerðarmenn hugsa auðvitað öðruvísi en sviðsleikstjórar. Þeir eru alltaf að gera hlutina í eitt skipti fyrir öll. Djarfar, ferskar og afdráttarlausar (endur)túlkanir á klassískum leikritum koma auðveldar til leikhússmannana. Ágæt mynd engu að síður.

Kvikmynduð sviðsuppfærsla Trevors Nunn frá 2000 er hins vegar vel rúmlega ágæt. Eiginlega brilljant. Umhverfið er dekadens millistríðsáranna og gyðingahatrið í ríkramannakreðsum Feneyja eftir því óþægilegt á að horfa. Hér er unga fólkið svo sannarlega ekki skoðað hlutlaust, þó þeir Bassanio og Gratiano séu full-útgeislunarlausir (maður þekkir ungmennagerið varla í sundur) og óþarflega gamlir. David Bamber er frábær sem kaupmaðurinn, skemmtilega slepjulegur og ógeðfelldur. Bamber og Nunn velja honum líka norðurenskan lágstéttarhreim og undirstrikar þannig utanveltu hins nýríka í þessum snobbheimi, Salerio og Solanio herma eftir honum, betur og kvikindislegra en þegar þeir „taka“ gyðinginn skömmu síðar.

Það er fullt af svona snjöllum smáatriðum. T.d. að láta Shylock og Jessicu tala saman á jiddísku heima. Og bræðiskastið sem Portia tekur þegar Bassanio hefur valið rétta kistilinn og hún grýtir þessum andstyggilegu kúgunartækjum pabba síns í næsta vegg. Og að veggirnir hjá henni séu skreyttir með verkum Gustav Klimt. Hún grýtir kistlunum ekki í þau.

Og réttarhaldið – sem frá höfundarins hendi er eitthvað alveg nýtt í spennu og framvindukrafti – er brilljant hér: hvernig allt í einu er skýrt að Portia veit ekkert hvað hún er að gera. Þessi Portia vissi ekki einu sinni hvar hún á að standa! Marjorie Garber leggur mikla heimspekilega vigt á setninguna:

Which is the merchant here, and which the Jew?

4.1.170

Sem er óneitanlega kyndug, sérstaklega í ljósi rauðu hárkollunnar sem fyrr var minnst á. Í Nunn-myndinni er hún fyrsta merkið um fákænsku og „útivallarspilamennsku“ Portiu. Enda stynja vinir kaupmannsins: hvaða auli er þetta eiginlega? Og svo er hér alveg ljóst að hún taldi að þessi frægasta ræða verksins myndi duga til að sannfæra gyðinginn:

The quality of mercy is not strain’d,
It droppeth as the gentle rain from heaven
Upon the place beneath: it is twice blest;
It blesseth him that gives and him that takes:
‘Tis mightiest in the mightiest: it becomes
The throned monarch better than his crown;
His sceptre shows the force of temporal power,
The attribute to awe and majesty,
Wherein doth sit the dread and fear of kings;
But mercy is above this sceptred sway;
It is enthroned in the hearts of kings,
It is an attribute to God himself;
And earthly power doth then show likest God’s
When mercy seasons justice. 

4.1.180–193

Meira hafði hún ekki fram að færa og panikerar augljóslega þegar Shylock haggast ekki í áformum sínum. Þangað til henni dettur í hug þetta snjallræði með blóðið sem ekki má úthellast við niðurskurðinn. Á elleftu stundu.

Derbhle Crotty er frábær Portia. Sjálfri fullkomlega ofboðið yfir meðferð Antonios og hertogans á Shylock eftir sigur hennar á honum og hvernig Bassanio er tilbúinn að fórna henni. Þess vegna er hringasenan í lokin svona áhrifarík og snjöll.

Og svo er Henry Goodman ekkert minna en stórkostlegur sem gyðingurinn. Oft nefndur sem sá besti í manna minnum, jafnvel hjá hinum langminnugustu meðal okkar.

Mikið væri síðan gaman ef fyrirhuguð stuttmyndagerð Orsons Welles hefði varðveist í heilu lagi en ekki bara brot. Þetta lúkkar gríðarlega vel, þó maður sé pínu efins um að safi leikritsins hefði þolað svona mikla kreistingu, og trúlegt að lítið hefði staðið eftir annað en hinir Shylocksku hápunktar.

Þetta er ægilega gott leikrit. Og ískrandi nútímalegt. Það sást síðast á íslensku leiksviði 1974. Hvað erum við búin að fá marga Hamletta, Léa og Makbeða síðan? Kaupmaðurinn er betra góðærisverk. Upp með það hið snarasta!

Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra.  Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast. 


Textinn.