Ljósmyndina á plötuumslagið tók Baldur Kristjánsson en Þormar Melsted sá um hönnun.

Þægileg og djúp

Út er komin ný plata með þeim Tómasi R. Einarssyni og Eyþóri Gunnarssyni. Gripinn kalla þeir Innst inni. Á plötunni er að finna 11 lög eftir Tómas, flest ný en önnur eru nýjar útgáfur af áður útgefnum lögum. Hún var tekin upp á þremur dögum, hljóðblönduð af Jóhanni Rúnari Þorgeirssyni og hljóðjöfnun var í höndum Hafþórs Karlssonar. Blánótt gefur út.

Þeir Tómas og Eyþór eru bara tveir á þessari plötu, það eru engir aðrir hljóðfæraleikarar á henni. Þessi skipan hentar lögunum vel oftast nær en aldrei illa. Hins vegar finnst mér stundum að það hefði mátt bæta við hljóðfæraleikurum. Í Hlíð, upphafslagi plötunnar, gæti ég ímyndað mér að vel hefði farið að hafa þar með rólegan trommuleikara að beita burstunum á snerilinn og svo baritón saxafón. Hins vegar þá er lagið frábært alveg eins og það er, sóló þeirra beggja eru smekkleg og lagið líður dreymandi áfram.

Næsta lag, Kristín, gæti ég ekki séð fyrir mér öðruvísi en það er. Svo góður er flutningurinn að þegar ég ákvað að tékka á upprunalegri upptöku lagsins, er það hét Róandi vals fyrir rassblautt barn og píanó, að þá leist mér fyrst ekkert á gömlu útgáfuna. En gamla útgáfan er góð, upptakan finnst mér hins vegar barn síns tíma, með sínum eitísglans, og lagið græðir tvímælalaust á því að glata trommunum. Það má segja það sama um önnur áður útgefin lög plötunnar að þau bæta við sig með því að vera svipt aukahljóðfærum.

https://www.youtube.com/watch?v=XVkPpaJnId4

Platan er öll keimlík en það, ásamt góðum lagasmíðum að sjálfsögðu, er hennar helsti styrkur og verður aldrei sá galli sem maður ætti frekar von á. Hljómurinn er svo afskaplega þægilegur og djúpur að stundum hverfur maður inn í tónlistina. Gleymir stað og stund, samræður stöðvast og sú nautn algeymis sem aðeins næst í gegnum tónlist kemur og fer á meðan platan rennur í gegn.

Bestu lög plötunnar finnst mér fyrrnefnd Hlíð og Kristín og svo einnig Kveðja sem minnir nokkuð á Kattadúett Rossini sem ég heyrði mikið í æsku í flutningi Guðrúnar Á. Símonardóttur. Ekki er svo hægt að ljúka umfjöllun um Innst inni án þess að minnast á hvað myndin framan á umslaginu er flott og hvað hún hefði notið sín vel á umslagi utan um vínylplötu.

Þessi plata er enn ein glæsileg viðbótin við þegar glæsilega ferla Tómasar og Eyþórs. Hún á sjálfsagt ekki eftir að fara eins hátt og Bongó gerði í fyrra og er það verr.