Fyrsta tilraun Shakespeares til að færa Englandssöguna í leikrænan búning eru þrjú leikrit um valdatíð Hinriks sjötta. Í framhaldinu kom svo fyrsta óumdeilda meistaraverkið, The Tragedy of Richard III, sem hangir með þríleiknum bæði ritunartímalega og í krónólógík efnisins en er að mörgu öðru leyti annars lags leikrit. Saman eru þessi verk stundum kölluð „fyrri sögukvartettinn“. Hann spannar tímabilið frá 1429, þegar Hinrik fimmti deyr, og fram að valdatöku Hinriks sjöunda á Bosworth-völlum 1485. Í bakgrunninum – og oft í forgrunninum líka – eru tvær átakahrinur. Annars vegar síðasti hluti Hundrað ára stríðsins milli Englands og Frakklands og hins vegar borgarastríð sem þekkt er undir nafninu Rósastríðin.
Hér eru til umræðu leikritin þrjú sem kennd eru við Hinrik sjötta.
The King of the Kindergarten
Henry VI part 1
Þríleikurinn um Hinrik sjötta, samferðamenn hans og andskota, eru meðal þeirra Shakespeare-verka sem ég þekki minnst. Hafði ekki lesið þau og ekki séð, utan snjalla en mjög svo niðursoðna sjónvarpsgerð frá í fyrra, The Hollow Crown 2, þar sem þríleikurinn er notaður sem hráefni í tvær myndir, með Ríkarð III sem þá þriðju. Verkin þykja hafa á sér talsverðan byrjendabrag og njóta því ekki sömu „snilldarverkaverndar“ og síðari verk sömu ættar. Það skýrir mögulega hvað er til mikið af frjálslegum sjónvarpsaðlögunum. Til viðbótar við Hollow Crown er hægt að finna á YouTube tveggja kvölda rammpólitíska versjón English Shakespeare Company og svo sjónvarpsgerð af The Wars of the Roses, rómaðri uppfærslu Peters Hall og John Barton fyrir Royal Shakespeare Company, sem öðrum sýningum fremur mótaði nálgun þess kompanís, og bresks leikhúss almennt, við verk Shakespeares á síðari hluta 20. aldar.
Allar eru þessar myndir rækilega styttar og „túlkaðar“ svo ég ákvað að horfa frekar á sjónvarpsgerð Jane Howell úr hinni smáðu heildarútgáfu BBC á leikritunum. Howell á fleiri myndir í síðari hluta þessa verkefnis BBC og kom heilt yfir mjög vel út úr þessari vinnu. Ég sá Vetrarævintýrið hennar í sjónvarpinu in ðe eitís og hef æ síðan verið staðfastur aðdáandi þess vanmetna verks. Rósastríðaferna Howell er almennt álitin einn af hápunktum heildarútgáfunnar og að mati Ronald Knowles, ritstjóra Arden-útgáfunnar á 2 Henry VI, ein áhugaverðasta nútímatúlkun kvartettsins. Þannig er nú almennt ekki talað um BBC-uppfærslurnar og Edward Burns, ritstjóri Arden-útgáfu fyrsta leikritsins, kallar túlkun hennar naíva og amatöríska, sem fyrir einkennilega tilviljun eru einmitt orð sem alveg mætti velja því verki sjálfu, eða í það minnsta lökustu hlutum þess.
Það er margt gott við Hinriksmyndir Jane Howell. Sviðsmyndin (í grunninn sú sama í öllum leikritunum) finnst mér snilldarleg, minnir einna helst á klifurvirkið á leikvellinum í dýragarðinum í Berlín, enda hugmyndin sótt í slík mannvirki. Persónurnar sannfærandi með örfáum undantekningum. Þeirra mikilvægust kóngur og drottning. Virka of gömul og Paul Benson með alltof einfeldningslega túlkun á Hinrik, sem má illa við því. Julia Foster fer líka í frekar ódýran „skúrkaleik“ með Margréti sína drottningu. En heilt yfir glæsilegt. Og gaman að sjá Brendu Blethyn leika Jóhönnu af Örk í fyrsta leikritinu eins og hressa norðurenska frekju.
Að þessu öllu sögðu þá er ég svo sem líka svolítið sammála Mr. Burns. Leikskólablærinn á uppfærslu fyrsta leikritsins er dálítið erfiður, ekki síst af því hvað hann á vel við.
Þegar til kom nennti ég samt ekki að horfa á alla fjóra tímana af þessari fyrstu mynd og skipti yfir á stytta versjón English Shakespeare Company. Þrusuflott, og fer mun betur með „bernskuna“ en Howell. Þar er líka snilldarleg heilög Jóhanna hjá Mary Rutherford, líka með dreifbýlisblæ á máli sínu, en í alvöru göldrótt og með sviðsnæveru sem skilar sér á tölvuskjá við hörmuleg myndgæði.
Edward Burns, er ekki ákvarðanafælin maður. Hann rýfur aldalanga hefð í rithætti nafna tveggja aðalpersóna verksins, kallar franska krónprinsinn „The Dolphin“ en ekki „Dauphin“ og Jóhanna af Örk heitir hér „Joan Puzel“ en ekki „Joan La Pucelle“ eins og tíðkast hefur. Aðalritstjórar seríunnar sjá ástæðu til að þvo hendur sínar af þessum ákvörðunum Mr. Burns í eftirmála, en leyfa flippinu þó að standa.
Þeir minnast hins vegar ekkert á að hann talar einatt og meðvitað um „The dramatists“ þegar við á í formála sínum, algerlega sannfærður um að höfundar verksins séu fleiri en einn. Hann fer reyndar ekkert djúpt í saumana á hver gerði hvað eða hverjir aðrir gætu hafa átt hlut að máli. Nefnir þó, eins og margir, Thomas Nashe til sögunnar. Hann gerir líka ráð fyrir að verkið sé „collaboratively devised“, samvinnuverkefni frekar en að Shakespeare hafi lappað upp á gamalt leikrit, eða öfugt, að einhverjir hafi tekið upp þráð meistarans.
Burns er ekki maður tæpitunguna og hefur þessi orð um titilinn á forsíðu verksins:
„Shakespeare’s King Henry the Sixth, Part One“ is, for me, a necessary commercial fiction.
Búmm!
Nú er ég enginn sérfræðingur en óneitanlega finnst manni bragðmunur á textanum eftir þáttum. Í grófum dráttum má segja að textinn „Sheikspírist“ þegar á líður. Þetta er ekki beinlínis gæðamunur. Samt svolítið. Líkingamál verður beittara og líkara því sem maður býst við miðað við önnur verk. Þetta er t.d. allt í lagi, en væntanlega hefði okkar maður gert betur í stuði:
Hung be the heavens with black, yield day to night!
Comets, importing change of times and states,
Brandish your crystal tresses in the sky,
And with them scourge the bad revolting stars
That have consented unto Henry’s death!
King Henry the Fifth, too famous to live long!
England ne’er lost a king of so much worth.
England ne’er had a king until his time.
Virtue he had, deserving to command:
His brandish’d sword did blind men with his beams:
His arms spread wider than a dragon’s wings;
His sparking eyes, replete with wrathful fire,
More dazzled and drove back his enemies
Than mid-day sun fierce bent against their faces.
What should I say? his deeds exceed all speech:
He ne’er lift up his hand but conquered.1.1.1–16
Sennilega hefðum við látið þetta slæda, en úr því farið er að efast á annað borð. Nei, ekki William. Eins er þras Humphreys af Gloucester og biskupsins af Winchester bæði barnalegt sem slíkt og bernskt í framsetningu.
Burns fer ekki ofan í smáatriði eða nákvæm rök en fullyrðir að a.m.k. allt sem lýtur að Ríkarði af Jórvík og síðari hluti sögunnar af stríðshetjunni Talbot sé Shakespeares. Ég fellst á þá kenningu. Dramatúrgían, uppbyggingin verður líka smám saman agaðri og ekki eins frumstæð og framan af.
Óneitanlega er líka sheikspírskur kraftur og írónía í hinum hroðalegu senum þar sem sendiboðar reyna í örvæntingu að fá prímadonnurnar Ríkarð af Jórvík og Játmund af Somerset til að standa við loforð sín um liðsauka fyrir Talbot og þeir víkja sér undan með kjaftæði sem ætti fullkomlega heima í munni pólitíkusa í Kastljóssettinu.
Og makalaust samtal Talbots og sonar hans, sem mætir á vígvöllinn einmitt á stund ógæfunnar, og harðneitar að flýja, enda drukkið hetjuretóríkina með móðurmjólkinni. Feður og synir, börn og foreldrar, hugsjónir og veruleiki – það er nú aldeilis eitthvað sem Shakespeare elskar að sökkva tönnunum í og á eftir að japla á næstu árin.
Í samhengi þríleiksins alls staldrar maður við það magnaða augnablik þegar hinn ungi og óstöðugi Hinrik ákveður að næla í sig rauða rós, beinlínis til að sanna að það skipti engu máli hvort hann skarti rauðri rós eða hvítri. Sem er kannski rétt á hugmyndaplaninu þar sem Hinrik lifir lífi sínu. En í raunveruleikanum? Aldeilis ein af orsökum hroðans sem framundan er.
HENRY VI part 2
Brjótum það sem brotnar
Almennt er talið að Shakespeare hafi farið fjallabaksleið að hætti George Lucas að ritun þríleiksins. Ekki hina hefðbundnu Hálfvitaleið: einn, tveir og þrír, heldur byrjað á númer tvö, skrifað svo þrjú og að lokum bætt einum prequel við með smá hjálp frá vinum sínum. Engu að síður eru 2 og 3 talsvert burðugri smíðar en fyrsta verkið, hvað sem veldur.
Ritstjóri annars leikrits, Ronald Knowles, gefur sviðssögu verksins og kvartettsins alls mikið rými í inngangi sínum, ekki síst túlkun hins guðhrædda en atkvæðalitla konungs og drottningarinnar, hinnar mikilfenglegu Margrétar af Anjou. Að öðru leyti er mestur fengur að athugasemdum hans um átök og spennu milli forsjónardrifinnar miðaldaheimssýnar og machiavellískrar „realpólitíkur“ endurreisnartímans í gangi sögunnar, afstöðu persónanna, túlkun höfundar og heimildunum sjálfum. Að auki er Knowles vel heima í hugmyndum rússneska bókmenntarýnisins Mikhaíl Bahktín um „hið karnevalíska“ og skoðar almúgauppreisn Jack Cade og fleiri efnisþætti með þeim gleraugum, sem er maklegt og frjótt.
Óhætt er að segja að æsileg atburðarás, fremur en háfleygur skáldskapur, sé drifkraftur verksins. Frá fyrstu senu er hrokafull valdagræðgin á yfirborðinu og öllum ljós nema kannski hinum mélkisulega kóngi sem á aungvan vin annan en Guð, sem er ósýnilegur og – ef marka má hörmungarnar – fjarverandi. Traust Hinriks á sinn vin væri kannski aðdáunarvert ef hann væri ekki í þessari miklu ábyrgðarstöðu:
KING HENRY VI
Welcome, Lord Somerset. What news from France?
SOMERSET
That all your interest in those territories
Is utterly bereft you; all is lost.
KING HENRY VI
Cold news, Lord Somerset: but God’s will be done!
3.1. 83–86
Attitjúd sem nýtur sín betur hjá valdalausum heimspekingum:
Not a whit, we defy augury. There is a special providence in the fall of a sparrow. If it be now, ’tis not to come; if it be not to come, it will be now; if it be not now, yet it will come. The readiness is all.
Hamlet 5.2.233–238
Enda fer allt hægt og rólega í bál og brand hjá Hinriki, þó eiginlegt borgarastríð brjótist ekki út fyrr en undir lokin. Fyrir þann sem ekki veit hvað gerist er þetta glettilega spennandi. Sem er magnað ef haft er í huga að verkið er algerlega sniðið að viðtökum þeirra sem vita NÁKVÆMLEGA hvernig fer.
Og endirinn: Pjúra cliffhanger.
Auðvitað litar nánasti samtími lestur manns á svona pólitískum texta, og það eru alveg gæsahúðir í kaflanum þar sem Cade og stuðningsmenn hans ætla að stúta öllum sem kunna að lesa og öllum sem drekka „lítinn bjór“ (sem þýðir reyndar pilsner, og hefur ekki með magn að gera). Og þar er kannski frægasta setning verksins:
The first thing we do, let’s kill all the lawyers.
4.2.71
Hér talar Dick the Butcher, hægri hönd byltingarleiðtogans. Það er erfitt annað en að hugsa bæði um Occupy Wall Street og grasrót Trumps þegar maður les um þetta anarkíska afl sem leyst hefur verið úr læðingi. Sérstaklega í ljósi þess að þessi almúgabylting er ekki sjálfsprottin, heldur mögnuð upp af hertoganum af Jórvík til að skapa jarðveg fyrir hans eigið valdarán. Það hefur sennilega verið nærtækt hjá Knowles að brúka Bahktín til að skýra þessa glóruleysingja útgáfuárið 1999 en núna finnst manni Fox News ekki síður verðugt.
Allt orkar tví- ef ekki þrímælis í þessu verki. Þetta eru t.d. spakleg orð og stjórnviskuleg eins og staðan er:
Now ’tis the spring, and weeds are shallow-rooted;
Suffer them now, and they’ll o’ergrow the garden
And choke the herbs for want of husbandry.3.1.31–33
En hér mælir Margrét við bónda sinn. Ekki af umhyggju fyrir honum sérstaklega, heldur til að ryðja keppinauti, Gloucester-hertoga, um yfirráð yfir huga hans úr vegi. Og það má Hinrik eiga að hann trúir engu illu upp á frænda sinn. Réttilega. En hann ræður heldur engu. Svo hertoginn fer í varðhald þar sem hann er myrtur. Þar fáum við aftur skemmtilega nútímalegan enduróm (foróm?):
See how the blood is settled in his face.
Oft have I seen a timely-parted ghost,
Of ashy semblance, meagre, pale and bloodless,
Being all descended to the labouring heart;
Who, in the conflict that it holds with death,
Attracts the same for aidance ‘gainst the enemy;
Which with the heart there cools and ne’er returneth
To blush and beautify the cheek again.
But see, his face is black and full of blood,
His eye-balls further out than when he lived,
Staring full ghastly like a strangled man;
His hair uprear’d, his nostrils stretched with struggling;
His hands abroad display’d, as one that grasp’d
And tugg’d for life and was by strength subdued:
Look, on the sheets his hair you see, is sticking;
His well-proportion’d beard made rough and rugged,
Like to the summer’s corn by tempest lodged.
It cannot be but he was murder’d here;
The least of all these signs were probable.3.2.160–178
CSI Síðmiðaldir? Hér standa menn yfir líki prúðmennisins Gloucester, sem í upphafi verks er með öll völd í hendi sér, verndari og helsti ráðgjafi konungsins, bróðursonar síns. Reyndar er konan hans einhverskonar útsöluútgáfa af Lady Macbeth og reynir að kukla hann til konungdóms. En það mistekst og skömmu síðar er kallinn dauður á þennan voveiflega hátt.
Tvær persónur héðan munu fylgja okkur allt til enda fjórleiksins. Margrét af Anjou er hér ung og fríð, af óvinakyni en frá upphafi á heimavelli í seigfljótandi suðupotti valdataflsins við hirðina, orkustöð við hlið síns veika eiginmanns. Stolt og miskunnarlaus. Túlkun Sophie Okonedo í Hollow Crown er mögnuð.
Og svo er það litli fatlaði snáðinn sem við sjáum bregða fyrir snemma leiks, en tekur fyrst til máls í fimmta þætti:
Oft have I seen a hot o’erweening cur
Run back and bite, because he was withheld;
Who, being suffer’d with the bear’s fell paw,
Hath clapp’d his tail between his legs and cried:
And such a piece of service will you do,
If you oppose yourselves to match Lord Warwick.5.1.151–157
Ríkarður Plantagenet er strax byrjaður að ögra, og ekki stendur á svarinu hjá viðmælandanum, vígamanninum Clifford, sem gefur tóninn um hvernig talað er við og um þennan „Son of York“:
Hence, heap of wrath, foul indigested lump,
As crooked in thy manners as thy shape!5.1.158–159
Í lokaorrustu verksins, þar sem hin hvíta rós Yorks og sona hans sigrar konunginn og hans rauðu Lankasterrós er Ríkarður hetja. Bjargar m.a. lífi stríðskempunnar Warwick þrívegis, en sá gamli neitar alltaf að hlífa sér. Hér birtist kroppinbakurinn fyrst og fremst sem efnilegur kappi. Miskunnarlaus en réttsýnn, réttur maður á réttum stað á vígvellinum. Góður við gamalmenni.
Sjáum hvað Part 3 hefur upp á að bjóða til að breyta honum í plottara og sýkópata lokaverksins.
Og spyrjum að leikslokum.
Tvígengisvélar tímans
Henry VI part 3
Ein uppskafnings-kráka er á kreiki og skreytir sig okkar fjöðrum. Með „tígrislæðu hjarta í leikara ham“ þykist hann geta staðið hverjum ykkar sem er á stakhendusporðinum og sem sannkallaður þúsundþjalasmiður telur hann sig eina Skakspjótið á svæðinu.
Þetta er elsta prentaða heimildin um leikskáldið Shakespeare í (vægast sagt) lauslegri þýðingu minni. Hana er að finna í stuttum bæklingi, „A Groats-worth of Wit“ (Fimm aura brandari?) sem leikskáldið Robert Greene lauk við rétt fyrir dauða sinn og kom út nokkrum vikum eftir að Greene gaf upp andann, haustið 1592. Eins og frægt er liggja upplýsingar um skáldið okkar ekki á lausu svo hverjum svona mola er velt endalaust við. Er Greene að saka Shakespeare um ritstuld, eða bara að þusa yfir að illa menntaður sveitastrákur sé að kássast upp á lærðra manna jússur, og benda kollegunum á að hann sé að minnsta kosti jafn fjölhæfur og fimur að kássast og þeir? Um þetta hefur verið rifist frá upphafi Shakespearegrúsks. Hitt eru menn nokkuð sammála um að í þessum texta sé vísað í þriðja leikritið um Hinrik VI, sem þar með hafi verið komið á svið þegar Greene reit reiðilesturinn.
Undir lok fyrsta þáttar hefur vígadrottningin Margrét handsamað konungsefni hinnar hvítu rósar, hertogann af Jórvík, og skemmtir sér við að kvelja hann áður en hún styttir honum aldur. Honum gefst tími til skrautlegra formælinga og meðal þess sem hann hreytir í drottningu er að hún hafi „Tiger’s heart wrapt in a woman’s hide”. (1.4.137).
Af þessu öllu hafa menn dregið ýmsar ályktanir um stöðu Shakespeares, virðingu hans í leikhúsheiminum, frægð hans og auðvitað ritunartíma Rósastríðaleikritsins. Já og óneitanlega styður þessi tilvísun þá kenningu að leikritið (eða að minnsta kosti þessi lína) sé eftir okkar mann, sem sumir hafa dregið í efa, líkt og um fleiri „lakari“ verk.
Því já, þetta er að mestu leyti frekar lágfleygur skáldskapur, með nokkrum glæstum glömpum inn á milli. Mjög svo „framvindudrifið“ ólíkt síðari meistarastykkjum, svo mjög reyndar að það verður næstum skoplegt, ef ekki væri sífellt verið að drepa fólk og meiða.
Henry VI 3 hefur nú samt átt sína aðdáendur. „It stands up in its own right, sholder-high at least to the twin peaks of Henry IV“ sagði ofurkrítíkerinn Kennth Tynan þegar verkið fékk sína fyrstu „nútímauppfærslu“, í Birmingham árið 1953. En hann var reyndar með hrifnæmari mönnum þegar hann datt í stuð.
Skoðum aðeins frægustu senu verksins. Í miðri orrustu dregur konungurinn sig til hlés, enda liðónýtur stríðsmaður og þvælist bara fyrir. Hann sest á moldarhrúgu og hugleiðir annað hlutskipti:
O God! methinks it were a happy life,
To be no better than a homely swain;
To sit upon a hill, as I do now,
To carve out dials quaintly, point by point,
Thereby to see the minutes how they run,
How many make the hour full complete;
How many hours bring about the day;
How many days will finish up the year;
How many years a mortal man may live.
When this is known, then to divide the times:
So many hours must I tend my flock;
So many hours must I take my rest;
So many hours must I contemplate;
So many hours must I sport myself;
So many days my ewes have been with young;
So many weeks ere the poor fools will ean:
So many years ere I shall shear the fleece:
So minutes, hours, days, months, and years,
Pass’d over to the end they were created,
Would bring white hairs unto a quiet grave.2.5.21–40
Einfalt, næstum banalt. En virkar. Hér er dregin upp rómantísk mynd af lífi hversdagsmanns af manni sem þekkir harma hásætisins en hefur aldrei dýft hönd í kalt vatn. Við hugsum um hugleiðingar Ríkarðs annars um tímann, þar sem hann situr í fangelsi afa núverandi kóngs rétt fyrir morðið sem hleypti þessari ógæfu allri af stað, og við munum líka eftir skoskum kóngi að velta fyrir sér tímanum í örvæntingu sinni.
Kóngur er ekki lengi einn. Inn kemur ungur stríðsmaður með lík andstæðings í eftirdragi og býst til að leita að verðmætum á því, en sér þá að hann hefur drepið föður sinn, sem fyrir duttlunga borgarastríðsins hefur lent í herbúðum andstæðingsins.
Úr hinum vængnum kemur eldri garpur með annað lík. Sem reynist vera sonur hans.
Sorgarræður sonar og föður eru ekki merkilegur skáldskapur á Shakespearskan mælikvarða. En samt: hvílík sena! Konungur sem dreymir um hið einfalda líf almúgans. Tveir almúgamenn andspænis ólýsanlegum hryllingi stríðsins sem háð er um pjáturgjörðina um höfuð konungsins, en bitnar á endanum einna helst á þeim.
Methinks it were a happy life …
Það veitir ýmsum betur í þessum slag og sumar vendingarnar eru furðulegar og í frásögur færandi. Hinrik tapar kórónunni til Játvarðar af ætt Jórvíkinga, en sá hugsar með fermingarbróðurnum og fær bæði Frakka og stríðsmaskínuna hertogann af Warwick á móti sér svo Hinrik er krýndur á ný. Og tapar aftur. Og lýkur þar vetri rauna vorra.
Óneitanlega er athygli okkar samt á næstyngsta syni hertogans af Jórvík. Snemma verks er yngsti sonur hertogans myrtur, barn að aldri, og hann sjálfur drepinn líka. Það er þess virði að veita athygli viðbrögðum Játvarðar, sem nokkrum þáttum síðar er orðinn kóngur, og Ríkarðs, sem þarf að bíða ögn lengur, við þessum harmafregnum:
EDWARD
O, speak no more, for I have heard too much.
RICHARD
Say how he died, for I will hear it all.
2.1. 48–49
Sorgin gleypir Játvarð, en Ríkarður finnur eldsneytið í henni:
I cannot weep; for all my body’s moisture
Scarce serves to quench my furnace-burning heart:
Nor can my tongue unload my heart’s great burthen;
For selfsame wind that I should speak withal
Is kindling coals that fires all my breast,
And burns me up with flames that tears would quench.
To weep is to make less the depth of grief:
Tears then for babes; blows and revenge for me
Richard, I bear thy name; I’ll venge thy death,
Or die renowned by attempting it.2.1. 79–88
Glæsleg ræða, og mögulega fyrstu vísbendingar um að það sé ekki allt í lagi með það sem gerist í hausnum á Ríkarði. Þarna erum við samt enn að horfa á „eðlilegar“ hvatir og tilfinningar, þó í stríðssamhengi sé og hitinn mögulega hættulegur. Sorg og bræði vegna föður- og bróðurmissi. Trygglyndi við bræður sína og algerlega óskoraðan stuðning við valdabröltið sem elsti bróðirinn erfir nú. Ást.
Það er ekki fyrr en í næsta þætti sem Ríkharður sýnir á spilin sín, eða þá að hann er ekki samur maður þar og áður. Þetta slær mig meira eins og galli heldur en útsmogin snilld hjá Shakespeare. Og ég tek ekki undir með öldunginum Michael Billington, gagnrýnanda The Guardian, að Ríkarður í sínu eigin leikriti verði ekki skilinn nema í ljósi undanfaranna tveggja. Þvert á móti myndi ég segja.
Hitt er annað mál að Ríkarður fær tvær glæsilegar aríur til að sýna okkur í hug sinn í seinni hluta þessa verks. Þær eru algerlega af sama meiði og hin fræga upphafsræða Richard III. Og eigum við ekki að segja að þessi bútur úr þeirri síðari sé með glæsilegri sjálfslýsingum síkópata í bókmenntaögunni, ekki síst síðustu fjögur orðin:
I have no brother, I am like no brother;
And this word ‘love,’ which graybeards call divine,
Be resident in men like one another
And not in me: I am myself alone.5.6.80–83
BBC-myndin frá 1983 er afbragð. Fullt af snjöllum hugmyndum hjá Jane Howell. Lúkkar frábærlega: leikvallarleikmynd Olivers Bayldon nýtur sín stórkostlega í stríðsdrunganum og búningar Johns Peacock glæsilegir og ógnvekjandi. Þó einstaka leikari sé pínu skinkulegur eru aðrir magnaðir, einkum tveir ofurstríðsmenn: Mark Wing-Davey sem „Warwick the Kingmaker“ og Oengus MacNamara sem barnamyrðirinn Clifford, sem verður sennilega eftirminnilegastur allra, þó hann sé úr sögunni áður en fyrsti þáttur er allur. Hvorugur þeirra náði neinum frama í sjónvarpi eða bíói. Wing-Davey hef ég reyndar séð áður, sem Zaphod Beeblebrox í gömlu sjónvarpsþáttunum upp úr Hitchhiker’s Guide. Og Game of Thrones áhangendur gætu kannast við andlitið á Oengus, þar hefur hann verið eitthvað í aukarullum. Julia Foster og Peter Benson njóta sín mun betur hér en í leikritinu á undan, sem Margrét og Hinrik. Og gaman að sjá John Benfield bregða fyrir í smárullum, einn af þessum bresku leikurum sem staðfastir sjónvarpsáhorfendur á miðjum aldri gjörþekkja en muna sjaldnast eftir.
Stráksleg túlkun Ron Cook á Ríkarði er líka prýðileg. Meira um hann síðar, þegar stríðsgæfan tekur sinn lokasnúning og afsannar orð kjánans Játvarðar IV:
… why, ’tis a happy thing
To be the father unto many sons.3.2.104–105
Þegar á heildina er litið eru þessi þrjú frumraunaverk um Hinrik sjötta spennandi sýnishorn af því hvað Shakespeare getur og hvað hann mun ráða við á næstu árum. Formið, frásagnarmátinn, sem einkennir líka síðari söguleikrit og í raun verkin öll, birtist óvenju-tær hér. Að mörgu leyti eru þetta verkin til að læra af, frekar en meistarastykkin. Hver verður einhvers vísari um hvernig á að skrifa leikrit af því að lesa Hamlet? Þar sem Rósastríðaþríleikurinn rís hæst er hann á pari við ansi margt. Og þar sem verkin dala minna þau á það sem á vantar og mun batna.
Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra. Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast.