Með lest til Nasistan

Gautaborgardagbók: Dagur 1

Ég skrifaði dálitla fréttaskýringu eða pistil um deilurnar vegna Bókamessunnar í Gautaborg hér á vefinn í apríl síðastliðnum. Þar sagði ég frá þátttöku nýfasíska tímaritsins Nya Tider í bókamessunni og massífri sniðgöngu sænskra rithöfunda á messunni af þeim sökum. Síðan þá hefur margt gerst. Meðal annars er búið að skipuleggja stóra hliðardagskrá hér og þar um bæinn – nasistalausa – og framkvæmdastjórar margra helstu forlaga Norðurlandanna hafa sagt að verði Nya Tider með að ári sjái þeir engan tilgang með því að mæta. Maður selur ekki barnabækur í nasistaveislu.

Stærstu fréttirnar bárust svo í byrjun mánaðarins þegar lögreglan gaf Nordiska Motståndsrörelsen (NMR // Norrænu andspyrnuhreyfingunni – sem kallar sig reyndar „mótstöðuhreyfingu“ á Íslandi) leyfi fyrir kröfugöngu í borginni. NMR er langstærsta hreyfing nýnasista á Norðurlöndunum. Samkvæmt leyfinu máttu NMR safnast saman fyrir utan bókamessuna og halda þar til nokkra stund, ganga svo í gegnum bæinn – meðal annars nálægt sýnagógu (á Jom Kippur) og framhjá bókmenntadagskrá þar sem Gudrun Schyman, leiðtogi sænska femínistaflokksins, verður á sviði, og svo alla leið upp á Gustav Adolfs torg.

Lögreglan var þrábeðinn um að afturkalla leyfið eða breyta gönguleiðinni – af pólitískum ástæðum og af einföldum öryggisástæðum – en þvertók fyrir það. Það þykir fólgin í því talsverð ógnun að velja þessa staði – bókamessu, sýnagógu og svæði þar sem búast má við femínistafjöld. Þá er talið að anarkistar skipuleggi harða andspyrnu.

Lögreglan gaf NMR tilmæli um að mæta ekki einkennisklæddir, bera ekki fána og að marsera ekki – en slík skilaboð hafa þeir fengið margsinnis áður og komist upp með að skella skollaeyrum við. Sjálfir auglýstu þeir gönguna sem stærstu göngu þjóðernissósíalista á norðurlöndunum frá lokum seinna stríðs. Háværar raddir hafa einnig verið uppi um að hreyfingin verði einfaldlega skilgreind sem hryðjuverkasamtök – og starfsemi hennar þar með ólögleg. Fyrir því má færa nokkuð góð rök.

Hreyfingin eða meðlimir hennar bera meðal annars ábyrgð á sprengjuárásum á flóttamannabústaði í kringum Gautaborg, sem og á félagsheimili syndikalista. Í Helsinki börðu þeir mann til bana fyrir ári síðan – og deildu stoltir myndbandi af árásinni á samfélagsmiðlum (en tóku það niður þegar ljóst var að maðurinn hafði látið lífið). Þeir hafa ráðist á kröfugöngur til stuðnings flóttamönnum og verið í því sambandi dæmdir fyrir margföld brot á vopnalögum. Þá hafa þeir ráðist að tilteknu fólki og myrtu til dæmis verkalýðsforingjann Björn Söderberg árið 1999.  Forystumenn og meðlimir eru auk þess margir með dóma á bakinu fyrir að dreifa kynþáttahatri, hatursorðræðu o.s.frv. Samkvæmt rannsókn tímaritsins EXPO árið 2013 var meirihluti þekktra meðlima samtakanna með einhvers konar ofbeldisdóm á bakinu (í því eru ekki taldir með dómar fyrir hatursorðræðu eða slíkt).

Það fór nokkuð fyrir NMR þegar ég bjó í Oulu í Finnlandi 2010-2012. Þá sá maður þá reyndar aldrei í eigin persónu – og þeir voru ekki farnir að marsera undir fánum – en þeir voru duglegir að bera út áróður í póstkassana í hverfinu og hengja límmiða á trén í skóginum. Á þeim tíma var líka stórt mál þegar félagskráin þeirra lak út. Nú fara þeir ekki nærri jafn lágt lengur og þótt þeir séu augljóslega húlíganar virðast þeir engu að síður kæra sig um að sjást opinberlega.

Einn af fylgifiskum þessa upphlaups er síðan að nærvera Nya Tider á messugólfinu, sem áður fékk allan fókus, virðist næstum því normal – einsog Svíþjóðardemókratarnir virðast stundum normal í samanburði við Nya Tider. Brjáluðusut öfgamennirnir í röðum nasista þjóna meðal annars því hlutverki að normalísera hina og færa miðjuna í stjórnmálunum til. Þannig hafa margir stjórnmálaflokkar í Svíþjóð – á köflum líka kratarnir – tekið undir „áhyggjur“ nasistanna – lokað landamærum, daðrað við að banna betl, o.s.frv. – í þeirri von að þá missi þeir ekki allan stuðning til verstu popúlistanna. Sú taktík bítur ekki á vinsældum Svíþjóðardemókratanna og hefur engin önnur áhrif en að normalísera fasíska stefnu úr hinni áttinni. Mannvonska verður eðlilegri með hverjum deginum sem líður.

Í vikunni þvinguðu dómstólar lögregluna til þess að breyta eða réttara sagt stytta gönguleið NMR um Gautaborg – sem er ekki til að bæta það orðspor lögreglunnar að þar grasseri kynþáttafordómar og samúð með málstað NMR. Þeim er nú gert að byrja 300 metra frá bókamessunni með þeim rökum að þar verði fyrir mjög mikið af fólki – þetta er stærsta bókamessa á Norðurlöndunum – og fá ekki að fara jafn nærri sýnagógunni og þeir vilja. Talsmaður NMR, Pär Öberg, lét hafa eftir sér að honum þætti alls ekki ólíklegt að þeir myndu brjóta gegn tilmælum lögreglunnar og haga göngunni eftir eigin behag.

Sjálfur sit ég í lest á leiðinni til Gautaborgar þar sem ég mun taka þátt í Bókamessunni og Alternatífu Bókamessunni á Heden (þar sem áðurnefnd Gudrun Schyman verður á morgun). Dagskráin á sjálfri bókamessunni tekur að mið af stemningunni, enda er hún mikið til á vegum „fólksins á gólfinu“ – forlaga sem hafa ekki efni á að sleppa henni og bókmenntaspekúlanta sem eru almennt áhyggjufullir vegna þróunarinnar. Þannig mun ég sitja í samtali um bókmenntir og þjóðarmorð ásamt sænska höfundinum Jörgen Gassilewski – sem gaf nýverið út magnþrungna bók um þjóðarmorðin í Rúanda, Hastigheten – og ræða við þýðandann John Swedenmark um ljóð og þýðingar á „myrkum tímum“, sem og á panel með Steinunni Sigurðardóttur og Bergsveini Birgissyni um „hlutverk rithöfundarins í samtímanum“. Það er erfitt að ímynda sér þann panel í húsinu þar sem „aðstæðurnar“ koma ekki til tals.

Það verða mótmæli á morgun klukkan 11 og svo hefst nasistagangan fljótlega upp úr hádegi. Ég verð sjálfur sennilega enn í fullu í dagskrá og það er frekar tæpt að ég komist í mótmælin. En ég ætla að reyna að segja einhverjar fréttir hérna yfir helgina.