Valentín bjargar Sylvíu frá Próteusi eftir William Holman Hunt. Mynd: Wikipedia.

Fjórir skotnir krakkar

The Two Gentlemen of Verona

Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra.  Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Nú ætlar Starafugl að birta þessar ritsmíðar. 

Ég las The Two Gentlemen of Verona sennilega um 1997, en þá átti Sævar vinur minn einmitt stórleik á einleikjanámskeiði hjá Viðari Eggertssyni sem Launce (Lóni), vitur einfeldningur og hundeigandi. Ég las Helgaþýðingu og þótti þetta ágætlega skemmtilegt, og augljós skyldleikinn við stóru gleðileikina frá blómaskeiðinu: Much Ado about Nothing, As You Like It og Twelfth Night, Jafnvel Romeo and Juliet, þó eðlilega væri meira vatn í grautnum þarna í upphafi ferilsins, og Shakespeare ekki búinn með sveinsprófið.

Þessi einleikur er líka upphafsreitur áhuga míns á varðveislu- og upprunagrúski í sambandi við leikritin. Nánar til tekið þessar línur, þar sem Launce sviðsetur kveðjustund heima hjá sér með hjálp hundsins síns:

Nay, I’ll show you the manner of it. This shoe is my father: no, this left shoe is my father: no, no, this left shoe is my mother: nay, that cannot be so neither: yes, it is so, it is so, it hath the worser sole. This shoe, with the hole in it, is my mother, and this my father; a vengeance on’t! there ’tis: now, sit, this staff is my sister, for, look you, she is as white as a lily and as small as a wand: this hat is Nan, our maid: I am the dog: no, the dog is himself, and I am the dog–Oh! the dog is me, and I am myself; ay, so, so. Now come I to my father; Father, your blessing: now should not the shoe speak a word for weeping: now should I kiss my father; well, he weeps on. Now come I to my mother: O, that she could speak now like a wood woman! Well, I kiss her; why, there ’tis; here’s my mother’s breath up and down.  Now come I to my sister; mark the moan she makes. Now the dog all this while sheds not a tear nor speaks a word; but see how I lay the dust with my tears.“ 

2.3. 1–32

Virkar eins og kæfa á síðunni, en um leið og farið var að vinna með textann úti á gólfi varð meira og minna ljóst hvaða bissness átti við. Það sem meira var: orðin virtust sprottin úr bissnessnum, frekar en á hinn veginn. „This is my mother’s breath up and down“ augljóslega innblásið af því að þefa af skónum sem Launce hefur sett í hlutverk móður sinnar.

Og þetta varð drullufyndið (sem alls ekki er tilfellið með allt grínið í verkinu, eða fyndni Shakespeares almennt). Auðvitað hjálpaði hvað Sævar er flinkur kómíker, bæði í textameðferð og físík, og hvað Viðar er kröfuharður og snjall. En ég fyrir mitt leyti varð sannfærður um að þetta hafi enginn skrifað niður heima hjá sér við skrifborð. Þetta eru spunaglósur, þar sem handritshöfundur (eða jafnvel sýningarstjóri) tekur niður það sem vellur upp úr leikaranum – sem hefur næstum örugglega verið William Kempe, goðsagnakenndur kómíker og spunarokkur þegar Shakespeare var að læra til verka. Maðurinn sem nokkrum árum síðar var farinn að pirra skáldið svo mikið með einkaframtaki sínu að hann fær þessa frægu glósu frá sjálfum Hamlet:

And let those that play your clowns speak no more than is set down for them, for there be of them that will themselves laugh to set on some quantity of barren spectators to laugh too, though in the meantime some necessary question of the play be then to be considered. That’s villainous, and shows a most pitiful ambition in the fool that uses it.

3.2. 40–47

Glíma Sævars og Vidda við Lóna, hundinn og Shakespeare er eitt af leiðarljósunum sem ég nota við að skýra fyrir mér þessa texta, hvaðan þeir koma og hvers vegna þeir eru eins og þeir eru.

Annars ganga aðalvangavelturnar um ástand og uppruna handritsins, sem Two Gentlemen var sett eftir fyrir Folioútgáfuna 1623, aðallega út á skort á samræmi staðarheita og titla á aukapersónum og fleiri smáatriði sem „ganga ekki upp“. Allt er það tómt gisk, en eitt er víst: staðarnöfnin hafa ekki hljómað hjáleikurunum eins og þau standa í verkinu, það hefði bara verið hlegið að þeim.

En nóg um þetta. Hvað með innihaldið?

Ást sem ungs (karl)manns klikkun og amorísk blinda er grunntónn flestra gamanleikja Shakespeares og allsráðandi hér. „If you love her, you cannot see her“ segir vikapilturinn Speed við Valentín húsbónda sinn snemma í verkinu. Enda eru ungu félagarnir Valentín og Próteus af þessu ástsjúka sauðahúsi. Valentín reyndar kokhraustur í upphafi og lætur sér fátt um kærustusífur Próteusar finnast, en óðar hann er kominn til hirðar hertogans (í Mílanó? Veróna? Padúa?) er hann fallinn í sömu blinduna sjálfur.

Og Próteus reynist aldeilis brigðull vinur og elskhugi: um leið og hann er kominn á eftir vini sínum gleymir hann heimasætunni Júlíu, heillast af Silvíu, svíkur vininn og bregður fæti fyrir keppinaut um ástir stúlkunnar. Með Júlíu í karlmannsgervi sér við hlið.

Já og svo eru skógarmenn.

Það er ágætur slatti af skáldlegri snilld í textanum. Sennilega álíka mikið og af alveg hroðalegum fimmaurabröndurum. Hér er eitt dæmi um gullfallega ræðu um ástarraunir, sem endurómar hér og hvar hjá hinum rómantíska Shakespeare næstu árin:

And why not death rather than living torment?
To die is to be banish’d from myself;
And Silvia is myself: banish’d from her
Is self from self: a deadly banishment!
What light is light, if Silvia be not seen?
What joy is joy, if Silvia be not by?
Unless it be to think that she is by
And feed upon the shadow of perfection
Except I be by Silvia in the night,
There is no music in the nightingale;
Unless I look on Silvia in the day,
There is no day for me to look upon;
She is my essence, and I leave to be,
If I be not by her fair influence
Foster’d, illumined, cherish’d, kept alive.
I fly not death, to fly his deadly doom:
Tarry I here, I but attend on death:
But, fly I hence, I fly away from life.“

3.1.170–187

Annar frábær bútur er í 4. þætti, 4. sviði: samtal Silvíu og Júlíu (í karlmannsgervi) þar sem sú síðarnefnda er að sendast fyrir sinn fyrrum ástmann Próteus í viðreynslutilraunum hans gagnvart þeirri fyrnefndu. Alvöru sársauki og vottur af þeirri ævintýralegu íþrótt sem Shakespeare átti eftir að ná tökum á með kyn- og dulargervi. Þessa sena er til dæmis langbesti hlutinn af afar andlausri sjónvarpsmynd úr heildarútgáfu BBC frá 1983.

Verst með Próteus. Það er einfaldlega ekki hægt að „kaupa“ þennan ótrúlega samviskulausa og sjálfselska skíthæl. Eða réttara sagt: það er ekki hægt að trúa að hann sé einhverskonar jafningi hinna ungmennanna þriggja, bæði fyrir og þó sérstaklega eftir að allt kemst upp. Og að bæði Valentín og Júlía taki hann í sátt – elski hann jafnvel. Ef þú ert með svona persónu (og Shakespeare átti eftir að skapa marga síkópata) þá verður framferði hans og réttlætingar á því að vera miðlægar, en ekki afgreiddar flausturslega og hegðunin skoðuð jafn yfirborðskennt og hér. Og ef svoleiðis persóna kemst upp með syndir sínar þá varpar það skugga á allt verkið. Ekkert bendir til að Shakespeare hafi litið svo á.

Fyrir vikið verður einhver „gervibragur“ á leikritinu. Sem undirstrikast af hinum skoplega öru sinnaskiptum persónanna. Valentín fyrirgefur Próteusi skíthælmennskuna á núll einni og ástin grípur unglingana á sama hraða. Fjórum árum síðar (ef marka má krónólógíuna sem ég styðst við, allt er þetta umdeilt) skrifaði Shakespeare meistarastykkið A Midsummer Night’s Dream og þótti ófært að bjóða upp á svona hröð „skot“ nema hafa krakkana undir áhrifum eiturlyfja.

Ég veit ekki til þess að Two Gentlemen hafi ratað á íslensk svið. Það næsta sem það hefur komist því er sennilega þegar ljóðasöngvarar okkar syngja hið fræga lag Schuberts, An Sylvia, við ástarsöng úr verkinu. Ég hef líka samið lag við það ljóð. Það er betra. Allavega réttara. Kalt mat. Kalt þingeyskt mat. Enginn myndi syngja lagið hans Franz undir glugga ungrar stúlku um miðja nótt. Nema kannski píanóflutningamaður.

Talandi um tónlist: Í grúski tengdum lestrinum komst ég að því að til er samnefndur amerískur söngleikur upp úr verkinu. Fékk meira að segja Tonyverðlaun 1971. Tónlistin er eftir Galt MacDermot, sem frægastur er fyrir Hárið, sem þýðir að heimskuleg framvinda truflar hann ekki vitund. Sennilega hentar þetta bernska ástarbrallsverk ágætlega í mjúsíkal, þó þessi hafi ekki öðlast framhaldslíf frekar en önnur verk Galts að hippastuðinu frátöldu.

https://www.youtube.com/watch?v=M7DLIK-D4Nk

Ef fólki mislíkar ekki gervimennskan eða finnur kreatíva leið til að láta hana virka sem skemmtilegt element (og finnur út úr þessu með „tæknifeilana“) þá er örugglega alveg hægt að sækja efni í skemmtilega leiksýningu í Two Gentlemen. Held samt að það verðskuldi ekki að sá texti sem við höfum í höndunum sé meðhöndlaður eins og helgur dómur.

Svo ber líka að hafa í huga að a.m.k. þrjátíu verkanna eru betri og þurfa minni hjálp.

 

Texti verksins.