Mynd: Af Facebooksíðu gjörningahátíðarinnar „A!“

Ætli allir finni frið í súrrealískri hljóðkúlu?

Ég sat inni í Hofi, á 1862 bistro, að fylgjast með gjörningi. Á Akureyri stóð yfir gjörningahátíð sem ber hið áhugaverða og margræða heiti „A!“. Fyrir þessu góða móti menningar og mannmergðar standa mörg góð félög á Akureyri ásamt einni alþjóðlegri leiklistarhátíð, Reykvískri danshátíð, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar og Listhúsinu á Ólafsfirði.

Sá gjörningur sem ég varð vitni að var einhverskonar spiritúal hljóðupplifun. Listamaðurinn, kona að nafni Gabrielle Cerberville, hafði sett saman eða smíðað tjald og komið því fyrir í miðjan móttökusal í Hofi. Kannski tjald sé heldur skrautlegt orð til lýsingar þessu apparati, það minnti hálfpartinn á tjald en einnig mætti kalla þetta einskonar hljóðkúlu. Innan í kúluna hópuðust eitthvað á annan tug manns, sitjandi í stólum eða á gólfinu og jafnvel einhverjir lágu flötum beinum innan í kúlunni. Umhverfis kúluna stóðu hátalarar sem létu hljóðbylgjur dynja á viðfangsefnum gjörningsins.

Drynjandi tónlistin hljómar langt út fyrir kúluna. Þar sem ég sit, í öruggri fjarlægð frá því sem ég ímynda mér að sé ógurlegur hávaði, fæ ég smjörþefinn af upplifuninni sem á sér stað. Verandi staddur mitt á milli upplifunarinnar og þess sem á sér stað utan hennar upplifi ég eitthvað á við hálfgjörning, ég gerist minn eigin listamaður (hálfgerður listþjófur sem túlkar persónulega upplifun þess sem ekki þorir að baða sig í ljóma sköpunar annarra nema til hálfs en lætur sem slíkt sé eitthvað til jafns á við hina eiginlegu sköpun). Innan í kúlunni sé ég hvernig sumir loka augunum og leyfa tónlistinni að færa sig inn í upplifun. Upplifunin virðist vera eitthvað alveg einstakt, eitthvað sem ég hef enga hugmynd um hvað er enda ekki hluti af gjörningnum svo heitið geti. Ég ímynda mér að upplifunin sé friður. Hljóðin sem berast úr hátölurunum, þrátt fyrir einstaka truflandi hljóðbrot sem minna á eitthvað út úr hryllingsmynd, eru róandi ef ekki eilítið absúrd.

Jafnvel sitjandi fjarri gjörningnum, sötrandi á vatni og hripandi tryllingslega á lítinn blaðsnepil sem mér tókst að sníkja út úr afgreiðslukonunni í veitingasalnum, er ég ekki ósnortinn. Þrátt fyrir að vera utan sterkasta áhrifarammans finn ég fyrir friðsæld og breyttri sýn á fallegt landslagið sem gluggar byggingarinnar sýna manni — Fjallaskara, ótruflað útsýni inn í dal sem mér þykir liggja beint á móti mér — og getu mína til að láta umheiminn algjörlega afskiptalausan í þessum aðstæðum. Ég sé ölduganginn sem ruggar bátunum við bryggjuna, áhugalaus.

Stjórnandinn/listamaðurinn stendur utan áhrifakúlunnar, ein laus við áhrif tónanna. Hún minnir einna helst á hugmynd okkar um Guð: óséð af langflestum en ýtir á takka og fylgist með því hvaða áhrif það hefur. Hún hefur jafnvel lofað viðfangsefnunum frelsi, fólk má koma og fara úr kúlunni að vild, sumir taka sér pásur; stíga út fyrir áhrifasviðið og horfa inn. Mér hugkvæmdist að eitt af tvennu bærðist innra með þeim á þeirri stundu, annaðhvort horfa þau löngunaraugum á staðinn þar sem friðurinn, ástin og rifan á hulu samfélagsins — sem hefur verið sveipað yfir okkur öll — finnst eða fegnir því að vera lausir við ágenga ásókn hljóðanna á skynfæri sín.

Gegnumgangandi þráður minnar upplifunar, þráður lífsins sjálfs, hlýtur að vera sá að ég veit ekki hvað fólk upplifði. Ég stóð fyrir utan og lét mér nægja að fá smjörþefinn, finnast ég vera að gera eitthvað áhugavert en ekki til fulls. Þeir einir sem sátu innan hringsins vita hvað þar er að finna og því hlýtur það að vera fyrir öllu að hvetja fólk til þess að setjast innan hringsins, hvar og í hvaða formi svo sem hann dúkkar upp næst; tón-, mynd-, hljóð- og leiklist er að finna í ýmsum myndum nær allsstaðar og geta litað líf jafnvel hins grámyglulegasta tryggingasölumanns svo trúa mætti að um eiginlega manneskju sé að ræða.

Í framhaldi af gjörningnum tekur vitaskuld við raunveruleikinn. Truflanirnar sem tónlistinni tókst að gera að áhugaverðum ópum, sem hún tók í sinn faðm, sem óvæntan hluta verksins urðu að skvaldri og ónærgætnum hávaða fólks í kring að gjörningnum loknum. Veitingastaðurinn tók upp á því að kveikja á píanótónlist, einhverskonar ambíans sem losar um pyngjuna og svæfir ístruna að lokinni afar fágaðri og dýrri máltíð sem skilur þó ekki alveg nóg eftir sig. Umhverfið utan steyptra virkisveggja Hofs verður eilítið grárra, öldurnar ískyggilegri og bátarnir fúnari á að líta. Rómantíkin hverfur ásamt rósemdinni og friðnum. Guð opinberar sig sem afar mennska berfætta, fallega konu í leit að skærum.

Eftir sit ég, friðlaus nú, með sömu spurningar og ég hafði í farteskinu þegar ég mætti og sá kúluna fyrst. Kannski lítillega friðsælli þegar ég loka augunum og heyri eina, tvo tóna úr verkinu klingja eyrnanna á milli innra með mér.