Þula ‒ jöklabréf


Peningar bragðast eins og aska. Ég bjó þar til nýlega undir jökli, eins og þú veist. Að vinna, ég þarf enn að borða. Úti í sveit, mögulega haldinn votti af útópískri þrá, löngun til að stíga út fyrir samfélagið, búa til nýtt samfélag einhvers staðar langt í burtu. Sem er auðvitað kjaftæði. Túristarnir vildu vita hvort það væru einhver eldgos í gangi. Stundum eru smá hræringar undir íshellunni og þá verða allir dulítið spenntir. Skiljanlega. Hver hefur ekki gaman að eyðileggingu? Manstu þegar það gaus fyrir nokkrum árum og Ólafur Ragnar kom í fjölmiðla og sagði einhverja drullu eins og „bíðið bara þangað til Katla gýs, þá skuluð þið sko sjá hvað við getum“. Manstu þegar það gaus fyrir tuttugu árum og askan settist á allt? Hún var undarleg á bragðið, sérstaklega á málmi, til dæmis klinki. Jæja. Gat ekki að því gert en fljótlega fóru allir þessir ferðamenn að renna saman í eitt fyrir mér, stundum sá ég ekki betur en að þeir væru allir meira og minna eins, í einkennisbúningum og með staðalbúnað, máð ljósrit af hvor öðrum, sjálfsagt eins og við öll, Vesturlandabúar, rennandi eftir fyrirfram ákveðnum brautum, hafandi að hluta látið sannfærast, að hluta sannfært okkur sjálf, um hve raunveruleg og sönn hún sé, þessi upplifun sem við erum búin að borga fyrir, umkringd glansandi bæklingum með fyrirsögnum eins og :„Purity and Power“ – Lingua tertii imperii FTW. Kannski gæti Þjóðfylkingin eða Norræna mótstöðuhreyfingin tekið að sér að hanna og skrifa þessa bæklinga. Að því búnu gætu meðlimir þeirra síðan rekið alla erlenda ferðamenn á dyr, ferðast um landið og hitt enga nema hvorn annan í speglasal þar sem allir speglarnir eru svartir eins og hrafntinna. En já. Ég ætlaði að segja þér frá jöklinum. Hann er þetta stórkostlega tóm, neind, óstaður, konungsríki dauðans með kolsvartan hrafn sem hliðvörð, þetta risavaxna ekkert í miðju landinu sem núllar út öll mannanna verk, það er að segja kapítalismann. Því jökullinn er jafnvel betri en kapítalið, sjálfur meistari niðurbrots og sundurmolunar, í því að brjóta og mola undir sig allt sem á vegi hans verður. Nú hefur ís vissulega neikvætt orðspor í sumum bókum sbr. Kókýtus þar sem Satan er frosinn fastur upp að mitti, en ég er ekki sammála því, þótt það geti verið gaman að ímynda sér að hann sé þar japlandi sínum þremur munnum á Ólafi Ragnari, Bjarna og Sigmundi. Ó já. Ísinn er mörg þúsund ára og svo þéttur að ekki einu sinni hugmyndafræðin getur smogið inn í hann. Og hann kann bæði að varðveita og skapa. Hann er kristalíseruð höfnun, níhílískt frumstig allrar uppreisnar sem síðan getur leitt annað hvort til fordæmingar eða frelsunar. Stundum sætti ég mig við það. En ég vonast samt eftir nýrri ísöld. Megi hún bresta á eins og goshlaup, megi jökullinn svelgja í sig fellihýsi, flygildi, selfie-stangir, kaupauka, kvenhatara háa sem lága, arðgreiðslur, útgerðir, Útlendingastofnun og lögregluna. Megi hann geyma allt þetta í faðmi sér og varðveita og umbreyta því í eitthvað fegurra og betra. Megi feitir þríhöfða ísbirnir graðga í sig leifunum af síðustu rasistunum á þessari tilvonandi jökulplánetu, eins og tungli Júpíters. Eilífur snjór í augu mín, þín og okkar allra.