Sturlaðir menn, sögulausir menn

Eru sturlaðir hryðjuverkamenn sturlaðir vegna þess að þeir eru „sögulausir“? Ég veit það ekki, en mig langar að velta því fyrir mér.

Eftirfarandi brot las ég nýverið og það settist djúpt í mig:

Sagt hefur verið að einn þátturinn sem greini okkur, sem dýr, frá öllum öðrum dýrum sé sú staðreynd að líf okkar verði að vera sögur, frásagnir, og þegar sögurnar okkar hverfi töpum við áttum, verðum hættuleg, stjórnlaus og viðkvæm fyrir mættinum sem felst í handahófskenndum öflum. Þetta er ferlið þar sem maðurinn glatar sinni eigin sögu; þar sem hann verður „sögulaus“.

Að vera sögulaus er tæknilega leiðin til að segja að maður „eigi sér ekkert líf “.

„Sveinn á sér ekkert líf “. „Anna er sögulaus.“

Þar til nýlega skipti engu máli hvar eða hvenær í heiminum þú fæddist; menningin bauð upp á alla þá þætti sem nauðsynlegir eru til að maðurinn geti skapað sér sjálfsmynd. Þessir þættir voru meðal annars: Trúarbrögð, fjölskyldulíf, hugmyndafræði, stétt, landfræðileg staðsetning, stjórnmál og einnig sú tilfinning að lífi sínu lifði maður í einhvers konar sögulegri framvindu.

En fyrir u.þ.b. tíu árum, þegar holskefla rafrænna upplýsinga og miðla tók að berast inn í líf okkar, fóru þessir stenslar sem við notum til að ramma inn líf okkar að hverfa, nánast í einni svipan, ekki síst á vesturströnd Bandaríkjanna. Þar með varð mögulegt að lifa lífi sínu án nokkurra trúarbragða, fjölskyldutengsla, hugmyndafræði, stéttarvitundar,  stjórnmálaviðhorfa eða sögulegrar tilfinningar. Í söguleysi.[1]

Þessar setningar kanadíska höfundarins Douglas Coupland höfðuðu beint til mín. Ég kannaðist við það, eins og kannski fleiri, að maður er stöðugt að segja sjálfum sér og öðrum söguna af sér, eigin fortíð, reynslu, viðburðum. En maður notar sögur líka til að varpa sér út úr núverandi stöðu og inn í framtíðina. „Hver er ég?“ Það er sívinsæl spurning, almennt í lífinu. Við hlið hennar, vinstra megin, stendur spurningin „hver var ég?“. Og hægra megin lúrir svo þessi spurning, sem heldur áfram að vera mikilvæg: „Hver verð ég?“

„Hvert liggur mín leið?“

Það er þannig sem maður spyr sig, að minnsta kosti þegar maður leyfir sér að hugsa heiminn í línulegum tíma og framvindu.

Einhvers staðar og einhvern tímann las ég kenningu um það að við sköpuðum okkur í raun ekki framtíð heldur gætum við þvert á móti skynjað eigin framtíð á einhvern hátt og að við toguðum okkur í átt að henni, hinni óhjákvæmilegu framtíð okkar, með gjörðum dagsins í dag. Að framtíðin, sem sagt, væri fastinn en óvissan væri í núinu; að vanlíðan okkar í núinu stafaði stundum af því að við værum ekki að haga gjörðum okkar í stefnu við óhjákvæmilega framtíð, værum á „rangri“ leið og að gera okkur lífið erfitt og flókið, því að fastaframtíðin yrði alltaf að veruleika, sama hvaða leið við færum.

Hljómar þetta nýaldarlega? Gott og vel, við þurfum ekki að fara svona djúpt og skarpt. Það nægir okkur að vita að þegar maður horfir til framtíðar er hluti af leiknum sá að sjá fyrir sér þessa vörpun frá deginum í dag og inn í næstu skref.

Framtíðin verður því að vissu leyti til í núinu með draumum og sýn – og að sjálfsögðu byggir hún alltaf á þeim forsendum sem við búum yfir í dag.

Nú.

Allt þetta fékk mig til að hugsa um sturlaða menn sem sprengja upp fólk eða skjóta það með skipulögðum hætti í frönsku leikhúsi.

Sturlaða menn sem voru ekki alltaf sturlaðir en eru núna til í að höggva jafnvel höfuð eða tvö af öðrum manneskjum.

Sturlaða menn sem virðast taka  ákvörðun um að stíga út úr eigin veruleika í vestrænum ríkjum og ganga til liðs við það sem virðist vera sturlaður málstaður – ef hægt er að teygja sig svo langt í orðalagi.

Hvaða sturluðu u-beygju þarf einstaklingur að taka til að ferðast úr vestrænu velferðarríki þar sem allt á jú að vera til alls og lýðræði og mannréttindi í blómlegasta blóma allra blóma?

Gefum okkur að kenning Douglas Coupland haldi vatni – að stór grunnþáttur í lífi manneskjunnar sé sá að flétta atburði eigin lífs saman við stærri sögu og samhengi svo að líf manns öðlist annan og meiri tilgang en að viðhalda bara sjálfu sér.

Gefum okkur þetta.

Hefur þá hryðjuverkafyrirbærinu – sem stundum á að kalla Daesh og stundum ISIS og stundum Íslamska ríkið – tekist að segja þessum flóttahryðjuverkamönnum betri sögu? Sögu sem höfðar meira til þeirra? Sögu þar sem þeirra brotnu púsl geta fallið inn og haft áhrif? Sögu sem þeim býðst að fléttast saman við á grunni þeirrar blindu ástríðu sem felst í heilögu stríði?

Ég er enginn sérfræðingur í aðlögunarferli innflytjenda í löndum Evrópu. En það þarf engan sérfræðing til að vita að fæstar þjóðir gera í raun nóg. Við gerum ekki nóg sjálf. Við erum með tvær hendur, þær eru oftast báðar tómar og þær eru heldur ekki útréttar. Þetta gildir um okkur sem einstaklinga, sem vinahópa, sem fjölskylduhópa, sem vinnustaði, sem yfirvöld og sem þjóð.

Enginn gerir nóg.

Árið 2013 voru alls 9.363 Pólverjar búsettir á Íslandi, samtals 3% allra landsmanna.[2] En þekki ég einhvern Pólverja sem er búsettur á Íslandi? Tja, einn. Hann er 13 ára skólafélagi sonar míns. Á ég vini af erlendum uppruna? Kunningja? Nei. Nefnilega ekki. Er það af því að ég er fordómafullur og vil ekki eiga vini af erlendum uppruna? Nei, svo sannarlega ekki.

En þannig er það samt.

Kannski væri þetta þolanlegra ef eitt gengi yfir allra þjóða börn og fullorðna. En þannig er það einfaldlega ekki. Jafnvel þau víðsýnustu okkar eiga erfiðara með að byggja brýr yfir til Íraka eða Pólverja eða Letta eða Nígeríubúa heldur en til „kósí“ innflytjenda á borð við Þjóðverja, Hollendinga eða Kanadamenn.

Enginn gerir nóg.

Hluti af því að flytja til annars lands, smeygja sér inn undir aðra menningu, er það að kynnast sögu þjóðarinnar, uppruna hennar, forfeðrum og rótum, en líka að kynnast framtíðarsögu þjóðarinnar – hvert hún stefnir með gjörðum sínum og gildum í deginum í dag.

Hvað gerist ef innflytjandi passar ekki inn í þessa sögu, þessa sagnagerð? Þarf hann ekki að finna sér aðra sögu?

Rifjum upp orð Couplands:

Þar til nýlega skipti engu máli hvar eða hvenær í heiminum þú fæddist; menningin bauð upp á alla þá þætti sem nauðsynlegir eru til að maðurinn geti skapað sér sjálfsmynd. Þessir þættir voru meðal annars: Trúarbrögð, fjölskyldulíf, hugmyndafræði, stétt, landfræðileg staðsetning, stjórnmál og einnig sú tilfinning að lífi sínu lifði maður í einhvers konar sögulegri framvindu.

Sumir en ekki allir innflytjendur missa tengslin við fjölskyldu sína, þeir hætta að tilheyra (oft) skýrt skilgreindri stétt í heimalandi og færast oftast nær niður á við í hinu oft ógreinilega íslenska stéttakerfi, landfræðileg staðsetning þeirra breytist (umturnast gjarnan) og þeir missa tengslin við stjórnmálin sem þeir þekkja.

Hvað stendur þá eftir? Trúarbrögð. Hugmyndafræði. Tilfinningin um að tilheyra sögulegri framvindu. Og sammannlega löngunin eftir þessari sögulegu framvindu.

Ef þú býrð á Íslandi árið 2016 og ert af erlendum uppruna þarftu hins vegar ekki að vera nema hálfvakandi til að skilja að þú ert ekki eiginlegur hluti af þjóðinni. Þú ert ekki hluti af sögulegu framvindunni sem steypist fram í glæstum boga þjóðerniskenndar, samkenndar og styrks. Nei, þú ert viðhengi, neðanmálsgrein – þú ert „hinir“ og þannig verður það um aldir alda, að minnsta kosti fram í aðra eða þriðju kynslóð innflytjenda.

Jafnvel fjórðu kynslóð? Fimmtu? Við vitum ekki hversu langt er þangað til við hættum að spyrja hörundsbrún, íslensk börn „hvaðan þau komi“. Hversu langt þarf að líða þangað til við hættum að hrósa henni Agnieszku fyrir að tala „svona góða íslensku“.

Hvenær lýkur því?

Hvenær er innflutningi á manneskju lokið, hvenær hefur fjölskylda aðlagast og orðið íslensk?

Hvenær hefst Íslendingur?

Sveinn Ólafur Gunnarsson, leikari, stendur uppi á sviði í hlutverki nýnas­istans Arnórs; við erum stödd í leikverkinu Illska, það er lokasýning og hann öskrar með fingurinn reigðan ógnandi út í salinn og bendir á leikhúsgesti af handahófi:

Þú tilheyrir okkur! Þú tilheyrir okkur! Þú tilheyrir okkur ekki! Þú tilheyrir okkur! Þú tilheyrir okkur ekki! Þú tilheyrir okkur! Og við vitum aldrei hvort er verra … [3]

Við erum að fást við fjölmenningu þar sem gestgjafinn, móttökuþjóðin, sú sem ætti að þiggja allan þann mannauka og menningarauð sem býðst, er svo herpt af innbyggðri hugmyndinni um eigið ágæti umfram annarra þjóða kvikindi að hún megnar ekki að opna sig fyrir neinu sem er öðruvísi og heldur þess vegna öllum víðs fjarri.

Eða hvernig er hægt að læra að tilheyra þjóð þegar ekki er gert ráð fyrir manni?

Er það yfir höfuð hægt?

Eigum við sem þjóð t.a.m. að birta allt upplýsingaefni á öllum tungumálum allra þjóðarbrota sem hér búa? Nei, það er líklega ekki raunhæft. En við getum gert eitthvað. Við getum reyndar gert
mikið.

En hvað erum við að gera?

Á vef Reykjavíkurborgar, stærsta sveitarfélagsins þar sem líklega býr stærstur hluti allra innflytjenda á landinu, eru allar upplýsingar á forsíðunni á íslensku. Efst á síðunni er breskur fáni sem leiðir á undirsíðu á ensku. Þar, neðarlega, er loksins að finna vísbendingu um að aðrir en íslenskumælandi og enskumælandi gætu átt erindi inn á vefinn. Þessi hnappur vísar yfir á pólska
Facebook-síðu Reykjavíkurborgar:

rvk-facebook

Pólsk upplýsingasíða Reykjavíkurborgar – hún er vissulega til. Hana fann ég með krókaleiðum með því að gúggla orðunum „Reykjavík polska“. Miðað við dagsetningar á fréttum hefur hún ekki verið uppfærð í þrjú ár.

Þetta er eitthvað … en þetta er samt viðhengi, viðbót.

Á vefnum island.is, sem Þjóðskrá Íslands rekur fyrir innanríkisráðuneytið, er boðið upp á viðmót á ensku. Engin önnur tungumál eru í boði. Hversu stórt hlutfall íbúa þessa lands þurfa Pólverjar að verða til að reiknað sé með þeim í svona sjálfsögðum hlutum?

[Til] þess að geta öðlast nýtt líf, til þess að lifa af, til þess að fjölskylda mín lifi af, þarf einhver að trúa sögu minni. Þótt ég eigi kannski enga möguleika á að sanna
hana. Saga mín er allt sem ég á.[4]

Fyrir nokkrum vikum kom út skáldsagan Vinkonur eftir Rögnu Sigurðardóttur, en þar hefur höfundur tekið með óvenju hraðvirkum hætti á nýlegum og brennandi málefnum. Sagan fjallar öðrum þræði um dómsmálaráðherra, Hafdísi Hannesdóttur, og flókin samskipti hennar við hælisleitandann Ghulem, en til stendur að flytja hann úr landi með tilheyrandi mótmælum og umróti. Í samskiptum þeirra kemur margt fram sem kemur heim og saman við vangavelturnar um sagnaþörf hverrar manneskju – og einnig um það hvernig það er að tilheyra samfélagi að nafninu til. Í þrunginni heimsókn ráðherrans í aðsetur hælisleitenda spyr Ghulem óvenjulegra spurninga um íslenskt samfélag, t.d. um það hvernig sé að eiga kött á Íslandi. Eftir byrjunarörðugleika vegna vandræðagangs Hafdísar leggja ýmsir viðstaddir ýmislegt til málanna um þetta hugðarefni Ghulems og eftir langar umræður segir hann:

„Ég hef dvalið hér í 923 nætur,“ sagði Ghulem. Hann sagði það hægt og skýrt. „Níu hundruð tuttugu og þrjár nætur. Þá er nægur tími til að velta hlutunum fyrir sér. Fortíðinni. Skiljanlega get ég ekki hugsað til framtíðar.“ […] „Ég velti því fyrir mér hvernig fólkið lifir, það er eðlilegt. Ég hef vingast við nokkra ketti hérna í nágrenninu.“

Hafdís kinkaði kolli. „Og nú veistu hvernig það er að eiga kött á Íslandi,“ sagði hún, í tilraun til að binda enda á umræðuna.

„Nei,“ sagði Ghulem. Það veit ég ekki. Ekki fyrr en ég reyni það. En nú veit ég hvernig á að fara að.“[5]

Hælisleitandi sér ekki eigin sögu fyrir sér. Innflytjandi sér sig ekki sem hluta af fortíð íslenskrar þjóðar og skynjar sig ekki sem hluta af íslenskri þjóð í deginum í dag. Þeir sjá samfélagið en fá ekki að taka þátt í því til fulls; þeir fá ekki að reyna hvað er að tilheyra þjóðinni.

Þeir fá ekki að halda kött á Íslandi … þeir fá í mesta lagi að vita hvernig maður gerir það.

Hver er framtíð þeirra?

Að sjálfsögðu hlýtur að myndast tómarúm sem í besta falli er dapurlegt og átakanlegt en í versta falli hættulegt. Er ekki hægt að sturlast af því að tilheyra ekki? Af því að vera fastur í limbói í daglegu lífi, án tengingar við sögulega framvindu samfélagsins? Í stað þess að segja söguna af því hvernig hann aðlagaðist og varð Íslendingur segir innflytjandinn söguna af því hvernig honum var haldið utan kjarnans í íslensku samfélagi.

Í útlegð innan samfélagsins.

Í söguleysi.

Tilvísanir

[1] Douglas Coupland, Polaroids From The Dead, bls. 179–180. Þýðingin er mín. Það var nokkrum vandkvæðum bundið að þýða meginorðið í pælingunni, nefnilega orðið „de-narrated“, en með svolitlum snúningum var hægt að láta þýðinguna „sögulaus“ duga til. Í umræddum texta er Coupland að fjalla um söguleysið sem myndaðist í þeim draumalendum á vesturströnd Bandaríkjanna þar sem hinir ríkustu og frægustu hafa lifað og dáið, t.d. O.J. Simpson, einkum Brentwood–hverfinu í Kaliforníu.
[2] Heimild: https://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/34101
[3] Leikverkið Illska eftir leikhópinn Óskabörn ógæfunnar var sýnt í Borgarleikhúsinu árið 2016 við góðar undirtektir, en verkið er byggt á samnefndri skáldsögu Eiríks Arnar Norðdahl. Ein af þremur aðalpersónum leikverksins er Agnes Lukauskaite, barn litháískra foreldra en fædd á Íslandi
og búsett í Kópavoginum, og líklega er hún fyrsta alvöru kvenhetjan í íslenskum bókmenntum og listum sem er af erlendu bergi brotin.
[4] Orð hælisleitandans Ghulems. Ragna Sigurðardóttir, Vinkonur, bls. 212. Forlagið, 2016.
[5] Ragna Sigurðardóttir, Vinkonur, bls. 51. Forlagið, 2016. Leturbreyting er mín.

Ádrepan birtist fyrst í Tímariti Máls og menningar.