Ekki fólk, ekki zombíar heldur ömurleikinn einn

Zombíland – bókaumfjöllun
Höfundur: Sørine Steenholdt
Þýðandi: Heiðrún Ólafsdóttir

Þar sem ég las fyrstu smásöguna „Zombí“ nýbúin að svæfa son minn, lá við að ég ældi af óhugnaði. Saga af móður sem snappar með slæmum afleiðingum. Zombíland lýsir einni tilfinningu: ömurleika.

Bókin vakti fyrst athygli mína þar sem henni var lýst sem pólitískri ádeilu á þá samfélagsþróun sem átti sér stað á Grænlandi þegar nútímanum var neytt upp á samfélagið með slæmum afleiðingum. Þó svo að um næstu nágranna við okkur á Íslandi sé að ræða þá er algengt að Íslendingar viti hartnær ekkert um samfélagið á Grænlandi.

Við lestur þessarar bókar, sem er safn smásagna, hefur ég oft velt því fyrir mér út frá hvers lags forsendum maður ætti að fjalla um bækur, út frá hvaða mælikvarða maður ætti að dæma þær. Vegna þess að ég hefði ekki haldið áfram með þessa bók nema fyrir þær sakir að ég hafði skuldbundið mig til þess að skrifa þessi orð. Og raunar sé ég eftir því að hafa staðið við þá skuldbindingu. Bókin vakti óhug með mér og hafði ömurleg áhrif á líðan mína.

Og kannski að sumir hugsi nú: „Eitthvað hlýtur nú að vera varið í þessa bók fyrst hún vakti upp svo sterk viðbrögð.“ En ég er ekki viss. Ef bókin er metin sem pólitískur gjörningur þá gæti gildi hennar verið nokkuð sem blaut tuska framan í danska pólitíkusa.

En sem bókmenntaverk, semsagt út frá persónusköpun, uppbyggingu sagnanna, stemningu og speglun á lífinu og tilverunni, þá finnst mér bókin ekki aðeins lýsa ömurleika heldur vera ömurleg. Mér finnst erfitt að skrifa þessi orð þar sem ég hef það fyrir reglu að reyna að vera styðjandi, uppbyggileg í gagnrýni og gefa almennt af mér ást til heimsins. Ég hefði getað tekið tekið kurteisa-brosandi-stelpu-gjörninginn minn á þetta og týnt til jákvæða punkta en ég nenni því ekki. Bókin er ekki að reyna að gefa af sér ást til heimsins en það er ekki ástæða þess að mér finnst hún ömurleg, nema að hluta. Ég man varla lengur eftir neinu öðru við þær nema ömurleikann. Sögurnar eru flatar og fyrirsjáanlegar og persónusköpun eiginlega alltaf einvíða.

Ég hugsaði þó með mér þegar ég mætti enn einni alka-mömmunni við lesturinn: Kannski er þetta einmitt leiðin til þess að lýsa zombíum, þeir eru nú einu sinni lifandi dauðir og persónusköpunin ætti að fara eftir því. En mér finnst það ekki einu sinni rétt. Til þess að vera zombí þarft þú einhvern tímann að hafa verið lifandi en í þessari bók hefur fólkið aldrei verið það og því í raun ekki um zombía að ræða.

Ég vil ólm vita meira um Grænland og ég væri til í að við hefðum meiri kynni af þeim hér á klaka. En mér finnst þessi bók ekki vera leiðin til þess. Ég gæti borið fyrir mig þeim allt að því klassísku, póstmódernísku rökum að samkvæmt þessari bók þá skorti Grænlendingum algerlega gerendavirkni eða það sem á enskunni kallast agency; að þeim sé lýst sem algerum fórnarlömbum og aðhafist ekkert sjálfir. En það er ekki einu sinni það sem plagar mig heldur einfaldlega að lýst er tilveru einnar tilfinningar, þ.e. áðurnefnds ömurleika, þegar lífið er ekki ein tilfinning. Ég vildi einfaldlega fá að kynnast Grænlandi í margbreytileika sínum í gegnum bókmenntir og annað, ömurleikanum og hlátrinum, sorginni og skynseminni.

 

PS. Ég hef ekki fullar forsendur til að meta þýðinguna þar sem ég þekki upprunalega textann ekki en stundum voru hnökrar á íslenskunni þótt hún hafi líka á köflum flætt vel. Hins vegar hefði þurft að bæta prófarkalestur nokkuð, stafsetninga- og innsláttavillur voru ekki óalgengar.