Með Svavari á myndinni er Gerri Griswold.

Svavar Knútur í Connecticut

Föstudagskvöldið 7, október lék Svavar Knútur tónleika í skemmu í White Memorial Conservation Center í Litchfield, Connecticut. Tónleikarnir voru skipulagðir af Gerri Griswold sem hefur áður haldið miklar Íslandshátíðir hér í fylkinu. Þær kallast Iceland Affair og meðal þeirra er tónlistarhátíðin Fire and Ice Music Festival. Hún rekur líka ferðaskrifstofuna Krummi Travel sem skipuleggur aðallega háklassaferðir fyrir Bandaríkjamenn til Íslands.

Ég sá Svavar Knút í fyrsta sinn sumarið 2013 á Fire and Ice tónleikum sem ég sótti aðallega til að sjá Sóley, sem kom þar fram. Ég get ekki sagt að ég hafi þá fallið kollflatur fyrir honum og var við það að ganga út og keyra heim eftir tvö fyrstu lögin. Ég ákvað samt að gefa þessu séns og þá byrjaði hann að reyta af sér brandara. Í stuttu máli sagt þá vann hann mig yfir á fyndninni og ég sat allt settið hans. Tónlistin vann á seinna.

Þessir tónleikar voru eins þeir fyrri sem ég sá með honum blanda af þessu tvennu. Húmor og tónlist. Hann var að hefja leik vel upplýstur standandi fyrir framan íslenska fánann þegar ég mætti inn í annars myrkraða skemmuna og settist niður við ljúfa tónana. Þarna í myrkrinu sátu u.þ.b. 100 manns og gátu sótt sér kaffi og með því að íslenskum hætti á meðan tónleikunum stóð. Vínartertan var stórkostleg, svo góð að konan mín með glútenofnæmið lét sig hafa það að borða hana og var með illt í maganum í tvo daga á eftir.

Tónleikar með Svavari eru, eins og ég veik að áður, í raun samblanda af uppistandi og tónlist. Kímnin fór um víðan völl, hann gerði grín að þjóðsöngvum ýmissa landa þ.á.m. þeim bandaríska og íslenska og um leið tíðum stríðsrekstri bandaríkjamanna, húmor hans leitar einnig stundum inn á við, helst, er hann gerir lítið úr hæfni sinni í samskiptum við hitt kynið. Kímninni var vel tekið, kannski best þegar hann útskýrði fyrir áheyrendum af hverju Íslendingar segja ekki „please“. Eina skiptið sem honum kannski förlaðist var þegar hann talaði um hvernig Tékklendingar enduðu uppi trúlausasta þjóð í heimi. Það má vera að hlutfall trúaðra í áhorfendahópnum hafi verið hærra en hann átti von á. Það má líka deila um það hvort honum hafi förlast eða ekki. Það voru samt ekki nógu margir sem hlógu.

Tónlistin var að mestu róleg og ljúf , eins og maður á kannski helst von á frá honum, og hann flutti að mestu lög með íslenskum textum. Þessi skortur á enskusungnum lögum fór ekkert í kanann og öllum lögum var vel tekið af áheyrendum. Flutningur var að mestu hnökralaus fyrir utan að Svavar ruglaðist í textanum á einu lagi, Wanderlust, að mig minnir. Maður hefur nú bæði gert verr og orðið vitni að verra. Hann var duglegur að fá fólk til að syngja með sér og notaði til þess svipaða tækni og Pete Seeger heitinn. Það er, að áður en lína var sungin þá sagði hann hana. Svavar tekur sig hins vegar ekki jafn alvarlega og Seeger gerði og var allt í einu farinn að segja línur eins og heittrúaður predikari.

Hann hóf seinna sett sitt með því að hóa í Gerri Griswold til að syngja með sér Baby, Would You Marry Me við góðar undirtektir. Það var vel lukkað enda Gerri góð söngkona. Næstsíðasta lagið var Brot, sem er mitt uppáhaldslag með honum og ég var hrifinn af hvernig hann náði að halda stigvaxandi kraftinum í því einn með kassagítar. Ég var líka ánægður með það að hann gætti góðs meðalhófs þegar kom að ukulelinu, sem er ekki hljóðfæri sem ég vil heyra of mikið í. Þetta var alveg mátulegt hjá honum.

Þrátt fyrir að Svavar Knútur hafi upphaflega náð mér á sitt band með húmornum þá stóð ég mig að því að spyrja sjálfan mig hvort þetta væri of mikið því góða. Hvort væri í aðalhlutverki, uppistandið eða tónlistin. Ég get varla sagt að ég hafi komist að neinni haldbærri niðurstöðu þar heldur. Þetta virkar vel saman hjá honum og gæti vel trúað því að með húmornum nái hann oft til fólks sem myndi kannski aldrei hlusta á tónlist hans vegna hvað þunglyndisleg hún getur verið. Samt myndi ég vilja sjá hann einhverntímann þar sem tónlistin væri í algjöru aðalhlutverki. En þá myndi ég sjálfsagt sakna brandaranna. Það er vandlifað í henni veröld.

Þegar allt kemur til alls þá skemmti ég mér konunglega og það gerðu allir sem þarna voru staddir. Maður þyrfti að vera algjör fýlupúki eða tepra til að hafa ekki gaman af Svavari Knúti. Ég hlakka til næstu heimsóknar hans til Connecticut.