Þrjú ljóð eftir Eyrúnu Ósk

Klámblöð og kofasmíði

Skítugur plastpoki
fylltur regnblautum
klámblöðum
er ágætis ástæða
til að byggja kofa.

Stríðsógn

Fyrsta miðvikudag í hverjum mánuði
klukkan tólf á hádegi
prófa þeir almannavarnaflauturnar.

Fyrsta miðvikudag í hverjum mánuði
hleyp ég heim eins og fætur toga
læt mömmu kveikja á útvarpstækinu
og stilla á RÚV.

Hver segir að kjarnorkustyrjöld
geti ekki líka hafist
fyrsta miðvikudag í hverjum mánuði
klukkan tólf á hádegi?

Almennar hættur

(og hvernig ber að forðast þær)

Ekki pota í píkuna
puttarnir gætu dottið af.
Ekki fikta í kerti
þá deyr sjómaður.
Ef þú svíkur loforð
myrðir þú engil.
Ef þú brýtur spegil
boðar það sjö ára ógæfu.
Ekki drepa járnsmið
þá fer að rigna.
Ef þú snýrð þér í hringi
dettur heilinn úr þér.
Ef þú klippir út í loftið
klippir þú í englavængi.
Ef þú bendir á flugvél
hrapar hún.
Ekki vaka á nóttunni
því þá nær Boli í þig.
Ef þú hlýðir ekki
kroppar Grýla úr þér augun
brýtur í þér beinin
rífur utan af þér skinnið
og étur þig.

Það er vandlifað.

Eyrún Ósk Jónsdóttir hlaut nýverið Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar.