Ljóð um dóttur mína


Sunnudagskvöldið 2.október, á Gauknum, Tryggvagötu 22, halda Starafugl og Samtök ungra skálda (SUS) ljóðapartí.

Eiríkur Örn Norðdahl (f. 1978) er uppgjafa framúrstefnuskáld, útnárabúi og úrvinda skáldsagnahöfundur. Hann hefur gefið út fjölmargar ljóðabækur, þar á meðal Þjónn, það er fönix í öskubakkanum mínum! (2007) sem er án efa ein þyngsta ljóðabók aldarinnar (í grömmum talið). Hann hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin (2013) fyrir skáldsögu sína Illsku, og hefur hlotið gott orð fyrir hljóðaljóðaupplestra sína víða um heim. Þá ritstýrir hann menningarvefnum Starafugl.

Ljóð um dóttur mína

Kæra. Spilaðu á rafmagnsgítar, leiktu þér með dúkkur og farðu í fóstureyðingu (ef þig langar). Spilaðu á rafmagnsgítar, farðu í fóstureyðingu, ekki sofa hjá nema snyrt, ekki sofa hjá nema gift, farðu í fóstureyðingu og leiktu þér með dúkkur. Leiktu á trommur, skaraðu fram úr, þénaðu pening, farðu til sjós og haltu þig á bakvið eldavélina. Vertu mella í eldhúsinu og eldabuska undir sæng, framakona á heimilinu og móðurleg á vinnustað. Konur eru konur flestar. Vertu grönn og stælt og heilbrigð og sátt við líkama þinn einsog hann er. Ekki skammast þín fyrir líkama þinn og ekki sýna hann á almannafæri. Spilaðu á rafmagnsgítar, taktu daginn eftir pilluna, p-pilluna, e-pilluna og passaðu glasið þitt. Heklaðu dúllur, heklaðu dúka og dúllur og prjónaðu lopahúfur. Prumpaðu inni á klósetti, borðaðu nóg af kjöti, forðastu nammi og snakk, það er kvenlegt, og kveiktu í fretinu með kveikjara. Prumpaðu í lófann og lyktaðu, prumpaðu undir sænginni og lyktaðu. Syngdu fallega, það er kvenlegt, skrifaðu fallega, það er kvenlegt, boraðu í nefið og klóraðu þér í rassinn, til að fagna frelsinu. Taktu þátt í kosningum, þú mátt það, þú mátt bjóða þig fram, þú mátt kjósa aðra(r), þú mátt fagna frelsinu. Þú mátt keyra bíl og læra félagsfræði, þú mátt stofna fyrirtæki og spila á rafmagnsgítar. Stelpur geta líka „rokkað“. Fáðu fullnægingar, það er kvenlegt. Láttu færa þér fullnægingar, það er kvenlegt. Konurnar geta notið endaþarmsmaka, ekki gleyma því, konurnar geta notið þess að njóta sín. Konurnar geta notið þess að gleðja aðra(r). Vertu kurteis og gerðu uppreisn, það er skylda þín. Vertu djörf og gættu þess að trana þér ekki fram. Dramb og hégómi er engum til framdráttar. Mundu að spila á rafmagnsgítar og syngja fallega, það er kvenlegt. Láttu drauma þína rætast, láttu drauma okkar rætast, ekki vera á valdi draumóra og gættu þín á fantasíunum, þær eru birtingarmynd heilaþvottar samfélagsins. Njóttu þess að vera heima með börnunum, þau eldast svo hratt, fyrren varir eru þau farin. Gefðu brjóst, það er hin fullkomna gjöf. Gefirðu brjóst fórnarðu sjálfstæði þínu, þú ert ekki kýr. Gefðu barn, gefðu egg, gefðu blóð. Gakktu með barn. Þrammaðu með það. Hlauptu. Það er einhver á hælum þér. Passaðu drykkinn þinn og farðu á sjálfsvarnarnámskeið. Farðu í jóga og drekktu Boozt. Það er kvenlegt. Skrifaðu greinar í blöðin, það vantar svoleiðis, það vantar konurnar í viðtöl og konurnar sem geta komið sér á framfæri, vantar agressífar konurnar, ekki láta útskýra fyrir þér heiminn, treystu kviðnum, hann fæðir börn. Það er kvenlegt. Farðu á túr og taktu pilluna, spilaðu á rafmagnsgítar og ekki ríða strákum sem eru ekki með smokka, það er ekki þitt að vera með smokka, smokkar eru fyrir stráka. Fáðu þér vinnu. Settu þér markmið. Ekki hafa röng markmið og ekki velja ranga vinnu og ekki vinna fyrir of lítinn pening. Forgangsraðaðu rétt og ekki láta segja þér hvernig þú átt að forgangsraða. Farðu í megrun. Farðu í ræktina. Farðu út að borða. Farðu út að hlaupa. Drekktu litríka kokteila. Vertu skapandi. Lærðu stærðfræði. Lestu ljóð og farðu í lögfræði. Settu á þig kynjagleraugun. Ekki taka þau af. Skrifaðu greinar í blöð um kynjagleraugun. Það vantar konurnar sem láta sig málefni kvenna varða. Málefni kynja. (Konurnar eru ekki bara hitt kynið þær eru líka eina kynið). Það vantar konurnar sem kunna að elda. Nútildags. Það vantar konurnar í pilsum og kjólum. Það vantar konurnar sem þora að vera konurnar. Er alveg dottið úr tísku að kunna að mála sig? Hvar eru megrunarráðin? Nútildags? Hvar eru módernísku skáldsögurnar, úttektirnar á stöðu konunnar? Úttektirnar á afstöðu konunnar? Ekki gefa stúlkum barbídúkkur, gefðu þeim aksjónkalla. Ekki gefa stúlkum bækur, gefðu strákum bækur. Stúlkur eiga annað hvort að vera í bleiku eða engu eða engu bleiku. Vertu þú sjálf. Það er kvenlegt. Sýndu innsæi. Það er kvenlegt. Sýndu umhyggju og gæsku. Það er kvenlegt. Ekki láta strákana halda aftur af þér. Ekki láta fordóma um kvenleg gildi halda aftur af þér. Ekki láta halda aftur af þér. Ekki halda aftur af þér, vertu hömlulaus. Spilaðu á rafmagnsgítar, farðu á túr og ekki taka hormónalyf. Ekki þiggja fé fyrir líkama þinn, ekki ganga með börn fyrir aðra, ekki stunda kynlíf fyrir aðra, ekki vera eigingjörn, farðu á sjóinn og spilaðu á rafmagnsgítar. Finndu þér góðan mann. Meðvitaðan kynjafræðing eða einhvern sem skaffar vel. Einhvern sem er góður við börnin þín. Ef hann skaffar ekki vel skaltu senda hann á sjóinn. Ekki daðra. Ekki halda framhjá. Ekki drekka of mikið og passaðu glasið þitt. Stattu með kynsystrum þínum. Stattu, sittu og hlauptu, drekktu 5 lítra af vatni á dag, spilaðu á rafmagnsgítar, forðastu kolvetni, farðu í fóstureyðingu og ekki sleppa glasinu þínu úr augsýn. Ekki láta aðra skilgreina þig. Ekki láta aðra segja þér hvernig þú átt að vera. Vertu bara þú sjálf. Þú ert dásamleg nákvæmlega einsog þú ert.

Og svo framvegis og svo framvegis.