Trausti Ólafsson. Mynd: Hrafnhildur Björk Sigurbjörnsdóttir.

Leikhúsmál – annar hluti

Leikhús er listform sem við í vestrænni menningu kynnumst mörg hver frá blautu barnsbeini í einni eða annarri mynd. Líka þar sem leikhúsaðsókn er sögð vera afar lítil, eins og sums staðar í Mið-Evrópu. Það að almenningur í löndunum þar sækir ekki LEIKHÚS merkir ekki endilega að almenningur sæki ekki leikhús. Í langflestum skólum í Evrópu sem ég hef haft spurnir af er miklu meiri áhersla lögð á leiklist í skólastarfi en hérlendis. Þannig er það bæði í Sviss og Austurríki, en þar sækir ALMENNINGUR opinber stofnanaleikhús miklu, miklu verrr en við. En í báðum þessum löndum og víðast hvar annars staðar í Evrópu og Norður-Ameríku er hvers kyns leikstarfsemi ótrúlega algeng.

Við þau vestrænu þekkjum þess vegna leikhúsformið og við erum alveg undir það búin að láta hrífast af list leikarans á sviðinu sýni hann okkur að honum sé alvara þó að hann sé að þykjast. Þetta er líklega meginástæða þess að Lilja Guðrún sem Rebekka í Eldrauninni hrífur okkur. Ég segi þetta af því að í Leikhúsmálum 1 var ég búinn að lofa að svara því hvernig stendur á því að leikari sem þykist vera einhver annar en hann er getur snert okkur djúpt – og þá nefndi ég Lilju Guðrúnu. Hún er ekki Rebekka þar sem hún stendur á sviðinu – það vita allir í leikhúsinu og hún sjálf áreiðanlega best – en hún LEIKUR karakter og lífsreynslu Rebekku í Eldrauninni alveg frá því að hún birtist fyrst á sviðinu snemma í sýningunni til þess að vitja um dóttur prestsins sem þykist vera veik og lömuð eftir viðskipti við djöfulinn þangað til hún bíður aftöku sinnar undir lok leikritsins.

Það er ekki algengt að leikarar beri með sér alla leikpersónuna um leið og þeir birtast fyrst á sviðinu. Enda eru leikarar misjafnlega færir í list sinni, þeim lætur misjafnlega vel að túlka þau hlutverk sem þeim eru fengin, og þeim er mislagið að segja satt á sviðinu mitt í þeim leiklistargjörningi sem allar leiksýningar eru og hljóta að vera. En þegar það gerist að leikarinn sýnir okkur allan karakter persónu sinnar um leið og hann gengur á svið í fyrsta sinn fyllist næmur áhorfandi lotningu því að hann hefur orðið vitni að hámarki natúralískrar leiklistar. Þetta gerði Sigríður Hagalín í sýningunni á Degi vonar hjá Leikfélagi Reykjavíkur fyrir guð veit hvað mörgum árum. Um leið og hún kom út um dyrnar sínar á efri hæðinni íklædd svarta kjólnum vissu áhorfendur allir, meðvitað eða ómeðvitað, hvers konar manngerð var þarna á ferð. Ég gæti nefnt fleiri, Regínu Þórðardóttur í Horft af brúnni, Helgu Valtýsdóttur í Mutter Courage, Þröst Leó í Grandavegi 7. Og miklu fleiri – en það yrði bara merkingarlaus upptalning.

Hvernig ætli leikarar fari að því að gera svona nokkuð – eitthvað sem er svo óraólíkt því að vera til dags daglega? Jú, auðvitað hafa þeir hæfileika til þess að leika. Það liggur í augum uppi enda er það að leika í rauninni partur af hverjum manni. Til þess að sannfærast um það er nægilegt að fylgjast með því hvernig heilbrigð börn taka út þroska. En þessa hæfileika þarf að rækta og þjálfa annars verður ekki neitt úr neinu, allt verður tóm látalæti á leiksviðinu og voða lítið gaman að horfa á slíkt. List leikarans krefst ekki síður en önnur listiðkun endalausrar síþjálfunar. Í natúralískum leik reynir á marga sálræna þætti samtímis, tilfinningu, vilja og vit [og náttúrlega ímyndunarafl] og eru þó fáir taldir. Alla þessa þætti verður leikarinn að efla með sér eins og fiðluleikarinn verður að æfa skala bæði í dúr og moll endalaust til þess að geta spilað Beethoven og Bach. Þess vegna er það einhver æðsta skylda hvers leikhúss sem rekið er fyrir opinbert fé að leggja rækt við leikarana sína, virða reynslu þeirra eldri og veita sköpunargleði þeirra yngri rými til að þroskast. Og um leið þarf leikhúsið að gæta þess að ofgera ekki leikurunum sínum. Það er ekkert gamanmál að eiga að leika margar leiksýningar í einni og sömu vikunni, kannski mörg mismunandi hlutverk, og vera alltaf ferskur. Leika alltaf eins og það sé í fyrsta sinn. Það er auðvelt að brenna út undir slíku álagi og ef leikhúsið gætir ekki að því að geyma vel gullsins sem góður leikari er bregst það sjálfu sér, áhorfendum og listinni.

Fyrsti hluti leikhúsmála.