Að ofan frá vinstri: Sindri Freysson og Hermann Stefánsson. Að neðan frá vinstri: Kristín Helga Gunnarsdóttir og Hallgrímur Helgason.

Kjósið mig!

– Rithöfundasambandið velur nýja stjórn

Framundan eru kosningar til stjórnar Rithöfundasambands Íslands. Sex buðu sig fram í hinar ólíku stöður og þar af voru tveir – Gauti Kristmannsson og Jón Kalman Stefánsson – sjálfkjörnir. Tveir takast á um stöðu meðstjórnanda, þeir Hermann Stefánsson og Hallgrímur Helgason. Sjálft formannsembættið – sem er hálft starf – vilja þau Kristín Helga Gunnarsdóttir og Sindri Freysson. Allt eru þetta rithöfundar vel kunnir af verkum sínum og hafa tekið þátt í íslenskri bókmenntastofnun um langt árabil, ekki bara með bókmenntum sínum heldur einnig ýmsum félagsstörfum, kjarabaráttu og margs konar pólitískri starfsemi.

Síðustu misseri hefur verið tekist á um margt í Rithöfundasambandinu, meðal annars nýsamþykkta útgáfusamninga, nýliðun, ritlaunasjóð og fleira. Starafugli lék hugur á að vita hver afstaða frambjóðendanna fjögurra, sem ekki voru sjálfkjörin, væri til þessara málefna og baunaði á þá fjórum lykilspurningum.

1. Á hvað muntu helst leggja áherslu náirðu kjöri? Hver eru mikilvægustu verkefnin framundan og hvernig telurðu best að tækla þau?

Kristín Helga:
„Enn er þetta draumsýn sem síst hefur orðið að veruleika og þvert á móti hefur [Bókasafnssjóður] nýlega rýrnað stórlega – fór úr 42 milljónum niður í 22 milljónir króna. Þarna bíður okkar stórt og mikið starf.“

Inn á borð RSÍ koma fjölmörg mál sem taka þarf á hverju sinni og ég mun að sjálfsögðu ganga í þau eftir því sem þau berast. Auk þess vil ég skoða félagið, starfssemi og rekstrarfyrirkomulag. Það er hollt að skoða reglulega hvað vel er gert og hvað betur má fara. Slíka vinnu má setja af stað í samráði við þá sem stýra skútu, þ.e. stjórn og framkvæmdastjóra. Samningar við útgefendur eru að baki til næstu tveggja ára, en brýn verkefni bíða allra hagsmunaaðila á bóksöfnunum um allt land. Þar þarf að finna samvinnuflöt með menntamálayfirvöldum til að stækka Bókasafnssjóð og færa hann til þess horfst sem tíðkast til dæmis í Danmörku. Þegar ég kom fyrst að stjórn Rithöfundasambandsins þá mat nefnd á vegum þáverandi menntamálaráðherra, Björns Bjarnasonar, fjárþörf Bókasafnssjóðs upp á 90 milljónir króna. Þannig átti sjóðurinn að standast samanburð við önnur Norðurlönd. Enn er þetta draumsýn sem síst hefur orðið að veruleika og þvert á móti hefur sjóðurinn nýlega rýrnað stórlega – fór úr 42 milljónum niður í 22 milljónir króna. Þarna bíður okkar stórt og mikið starf. Talsmenn rithöfunda þurfa líka að standa í lappir og brýna hnífa vegna yfirvofandi hættu á hækkun virðisaukaskatts. Slíkar aðgerðir yfirvalda gætu haft alvarlegar afleiðingar um ókomna framtíð. Þá eru ótalin skólabókasöfnin og sú atlaga sem hefur orðið að þeim. Þessi stóru verkefni vinnur formaður alls ekki einn. Til þess að hreyfa við hlutum þarf að starfa með stjórnvöldum hverju sinni og öllum þeim hagsmunaaðilum sem hlut eiga að máli. Auk þess koma fjölmargir félagsmenn að ómetanlegu og fjölbreyttu starfi fyrir sambandið allt árið um kring.

Hallgrímur:
„Stofnun Bókmenntahúss í Reykjavík. Allar menningarborgir eiga slík hús og Bókmenntaborgin hefur málið á dagskrá. Þetta verður langtímaverk en við getum byrjað á því að breyta Gunnarshúsi í bókmenntahús.“

Að standa gegn niðurskurði, styrkja stöðu bókmennta, verja þær þegar þarf og reyna að finna leiðir til að sporna gegn minnkandi bóklestri. Ýmsar hættur steðja að: Niðurskurður, neikvæð umræða, fækkun forlaga, fækkun lesenda…

Ný stjórn þarf að standa gegn hugsanlegri hækkun virðisaukaskatts á bókum og berjast fyrir afturkalli niðurskurðar á hlutum eins og Bókasafnssjóði höfunda og Miðstöð íslenskra bókmennta. Finna þarf sniðugar leiðir til að tækla umræðuna um starfslaunin sem blossar upp árlega, og beita stílvopnum í því endalausa áróðursstríði. Varðandi læsismálin og stöðu bókmenntanna almennt þarf líka að finna nýjar leiðir. Ég er með þrjár byrjunarhugmyndir.

1. Stofnun Bókmenntahúss í Reykjavík. Allar menningarborgir eiga slík hús og Bókmenntaborgin hefur málið á dagskrá. Þetta verður langtímaverk og þessi hugmynd er góð, en við getum byrjað á því að breyta Gunnarshúsi í bókmenntahús, halda þar höfundakvöld ofl.

2. Fá RÚV til að flytja menningarfréttir í lok hvers útvarps- og sjónvarpsfréttatíma, líkt og gert er með íþróttir. Stofnaði Facebook-grúppu um þetta fyrir margt löngu.

3. Þá hef ég lengi gengið með þá hugmynd í maganum að RÚV myndi starfrækja sérstaka útvarpsrás eingöngu helgaða ljóðum, gömlum og nýjum, kvæðalögum, eddukvæðum, rímum, rómantík, nútímaljóðum sem og ljóðaslammi, þar sem safnað væri upptökum af upplestrum í stóran sístækkandi banka og þær síðan sendar út 24 tíma á dag, með kynningum inná milli. Rásin héti Ríkisútvarpið Ljóðvarp, og gæti orðið einstök á heimsvísu. Fyrri útvarpsstjóri var alltaf í niðurskurði svo ég fór aldrei á hans fund með þessa hugmynd en það myndi eflaust virka vel að nota RSÍ til að ýta við núverandi útvarpsstjóra.

Sindri:
„Hvort sem varðar tæknilega hlið bókaútgáfu eða aðgerðir ríkisvaldsins í menningarmálum er ljóst að mál geta þróast mjög hratt, á ófyrirséðan hátt og til hins verra. Hlutverk RSÍ hlýtur óhjákvæmilega að vera að halda í við þessa hröðu þróun í öllum málum og bregðast við henni þegar hún leiðir til skerðinga á kjörum eða réttindum höfunda.“

Ég vil skerpa á hlutverki RSÍ sem stéttarfélags sem starfar í þágu ALLRA félagsmanna og tryggja að festa og ákveðni ríki í samningagerð við hið opinbera, útgefenda og aðra viðsemjendur. RSÍ verður að standa vörð um alla bókmenntasköpun í landinu, gæta þess að launasjóðurinn rýrni ekki heldur eflist og að um hann ríki sem mest sátt.

Ég vil sömuleiðis auka sýnileika RSÍ á meðal almennings og bæta skilning hans á hlutverki stéttarinnar og mikilvægi bókmenningar almennt. Mjög brýnt verkefni er síðan að herja á ríkisvaldið til að endurreisa Bókmenntasjóð höfunda og IHM-sjóðinn, sem báðir hafa þurft að þola mikla skerðingar og eru vanburða til að sinna ætluðu hlutverkum sínu í þágu félagsmanna.

Mikilvægt er einnig að marka stefnu um hvernig við bregðumst við stórhættulegum hugmyndum ríkisvaldsins um hækkun virðisaukaskatts á bækur, og hvernig samstarfi okkar við aðra hagsmunaaðila í þeirri baráttu, einkum útgefendur, verði háttað.

Við þurfum síðan að taka virkan þátt í baráttunni fyrir auknum lestri á Íslandi og taka upp hanskann fyrir bókasöfnin sem hafa þurft að sæta mikilli skerðingu undanfarin ár. Hvort sem varðar tæknilega hlið bókaútgáfu eða aðgerðir ríkisvaldsins í menningarmálum er ljóst að mál geta þróast mjög hratt, á ófyrirséðan hátt og til hins verra. Hlutverk RSÍ hlýtur óhjákvæmilega að vera að halda í við þessa hröðu þróun í öllum málum og bregðast við henni þegar hún leiðir til skerðinga á kjörum eða réttindum höfunda.

RSÍ á einnig að rækta betur ráðgefandi hlutverk sitt og efla upplýsingjagjöf og samskipti við félagsmenn. Ég vil að félagsmenn eigi auðveldara með að leita til sambandsins með úrlausn sinna mála, umkvörtunarefni og hugmyndir um úrbætur. Það er afar mikilvægt að formaður og stjórn RSÍ hlusti gaumgæfilega á sjónarmið og skoðanir allra félagsmanna, þeir eigi greiðan aðgang að stjórn og geti treyst því að málaleitan þeirra fái fljótvirka og sanngjarna afgreiðslu. Svo fátt eitt sé nefnt.

Hermann:
„Á næstu árum þarf örugglega að takast á um hugmyndir og bókmenntastefnu og eflaust fara í harða hagsmunabaráttu og stefna að nýjum samningi og eins gott að gera það fallega, faglega og kurteislega.“

Ég hef ekki prófað að sitja í stjórn RSÍ, þótt ég hafi setið í nefndum fyrir sambandið. Ég vil hafa hlutina svolítið formfasta, hafa ákveðna reglufestu svo að ekki ríki heimóttarleg átakafælni og ekki heldur óbærilega hatrömm átök sem ekkert leiða af sér. Ætli ég mundi ekki byrja á að mæta í kaffi endrum og sinnum og tala við skemmtilegt fólk og borða konfekt. Rithöfundarnir sjálfir þurfa alltaf í öllum löndum að láta hressilega í sér heyra þegar stefna stórnvalda sýnir andúð á tjáningarfrelsi, bókmenntum, menningu og listum. Samtök þeirra þurfa að vera regnhlíf, tala máli bókmenntanna af yfirvegun og ábyrgð, og vera í sátt við alla meðlimi. Það þarf að sinna hagsmunamálum rithöfunda, gagnvart stjórnvöldum og menningarstofnunum og í samningum við bókaútgefendur og vinna af krafti að verkefnum eins og Skáld í skólum. Á næstu árum þarf örugglega að takast á um hugmyndir og bókmenntastefnu og eflaust fara í harða hagsmunabaráttu og stefna að nýjum samningi og eins gott að gera það fallega, faglega og kurteislega. Ég hef enga stefnuskrá, beinlínis, enda er ég ekki stjórnmálaflokkur. Það er gott að það séu valkostir í boði, annað er ekki lýðræði. Annars kemur þetta allt fram í kosningalaginu sem Jón Hallur bróðir minn samdi fyrir mig:

2. Hver er afstaða þín til síðustu samninga, sem samþykktir voru í desember – þá sérstaklega a) lækkaðrar kiljuprósentu b) rafbókaákvæða og c) ákvæða sem flýta leið skáldverka á útsölur?

Sindri:
„Það er ekki hlutverk rithöfunda að tryggja útgáfunum örfáar meiri krónur í sinn hlut af ódýrari vöru. Mér finnst í raun algjörlega óskiljanlegt að höfundur eigi að fá lægri launaprósentu af kilju en bók í harðspjöldum og held að það skipti miklu að leiðrétta ranglætið sem í þessu felst.“

a) Mér skilst að samninganefndin hafi barist hetjulegri baráttu við útgefendur en því miður ekki uppskorið meira en 18%, einsog eðlilega hefur vakið athygli og umtal. Röksemd útgefenda er sú að kiljuútgáfa hafi minnkað og með því að greiða höfundum lægri prósentu aukist líkurnar á að bækur séu gefnar út í kilju, og bentu á að að erlendis væri jafnan greitt lægra hlutfall fyrir kiljuútgáfu. Að mínu viti borgar kiljuútgáfa sig annað hvort eða ekki og það er ekki hlutverk rithöfunda að tryggja útgáfunum örfáar meiri krónur í sinn hlut af ódýrari vöru. Mér finnst í raun algjörlega óskiljanlegt að höfundur eigi að fá lægri launaprósentu af kilju en bók í harðspjöldum og held að það skipti miklu að leiðrétta ranglætið sem í þessu felst, sem og að fyrirbyggja hættuna á að útgefendur reyni að taka fleiri skref í þá veru að lækka hlut höfunda á hæpnum forsendum. Samningurinn rennur út á næsta ári og verður þá að sjálfsögðu tekinn til endurskoðunar.

b) Höfundarlaun af rafbókum eru 25% af heildsöluverði af fyrstu 2200 eintökum bókar og 28% af seldum eintökum eftir það. Á meðan það er óljóst í hvaða farveg rafbókaútgáfa fer í náinni framtíð held ég að þetta sé viðunandi í biðstöðunni. Útgefendur segja að prentkostnaður sé aðeins 20-25% af kostnaði við bók og vænta þess að að rafbækur verði iðulega á lægra verða en út úr búð, þannig að höfundaprósentan verður tæpast miklu hærri að óbreyttu. En fleyti rafbókaútgáfunni hins vegar hratt fram mun eflaust renna upp sú stund að útgáfuforlög í þeirri mynd sem við þekkjum hverfi af sjónarsviðinu, og þá veltur prósentuhlutfallið á allt öðrum forsendum og hlutur höfunda væntanlega hærri.

c) Þarna vísarðu til þess að ákvæði í gamla samningnum um að tvö ár ættu að líða frá útgáfu þangað til verk færi á „bókamarkað” var tekið út. Ég er ekkert sérstaklega sáttur við að nýútkomnum bókum sé dembt á bókamarkað í febrúar á niðursettu verði, en staðreyndin var auðvitað sú að enginn hafði fylgt þessu ákvæði árum saman, þannig að í raun var bara verið að horfast í augu við raunveruleikann með því að taka út þetta ákvæði. Ég held þó að útgefendur séu ekki að gera sjálfum sér neinn greiða með því að verðlækka nýjar bækur svo stuttu eftir jól, það leiðir einfaldlega til þess að margir bíði með að kaupa bækur þangað til eftir áramót. Eitt ár frá útgáfu væri skynsamlegra fyrir alla aðila. Mér finnst þó enn brýnna að andmæla umboðssölukerfinu á nýjum bókum, sem kemur öllum illa.

Hermann:
„Þarna er líka ákvæði sem segir að metsöluhöfundar fái hærri prósentu en þeir sem lítið selja. Merkilega vond hugmynd að setja svoleiðis í almenna samninga. Almennt líta samningarnir út eins og þeir grundvallist á bestsellerisma og séu gerðir í uppgjafar- og mæðutón.“

Rithöfundar gerðu samning sem var í öllum meginatriðum verri en sá gamli. Þetta var ekki óhjákvæmilegt og varnarsigur, bara vondir samningar eins og hjá hverju öðru fagfélagi. Ég hef ekkert sérstaklega miklar áhyggjur af hruni bóksölu, íslenski bókamarkaðurinn er fáránlega sterkur miðað við mörg önnur lönd og Íslendingar eru lestrarhestar. Bókaútgáfa er ekki á slíku flæðiskeri stödd að þurfi kerfisbundna kjaraskerðingu rithöfunda.

a) Lækkaða kiljuprósentan merkir kjaraskerðingu á línuna því kiljuvæðing er frekar almenn eftir langa og sérstaka sögu af harðspjaldamenningu; þetta merkir að nýgræðingar og jaðarhöfundar fá minna í sinn hlut því þeir koma aðeins út í kilju. b) Rafbókaákvæðin eru óbreyttur tilraunasamningur sem gerður var fyrir tveimur árum og taka þarf til endurskoðunar, fyrr en síðar, hlutirnir þróast Þessi tilraunasamningur var hikandi varfærið fyrsta skref sem ég samþykkti út af forskeytinu tilrauna-. c) Ákvæðin sem flýta leið skáldverka á útsölur koma til móts við þann plagsið að drífa bækur á útsölu fjórum mánuðum eftir að þær koma út, sem ég tel að vinni gegn hagsmunum útgefenda jafnt sem rithöfunda.

Þarna er líka ákvæði sem segir að metsöluhöfundar fái hærri prósentu en þeir sem lítið selja. Merkilega vond hugmynd að setja svoleiðis í almenna samninga. Varíantar ef þessu fyrirkomulagi geta virkað vel í sumum tilvikum, til dæmis hjá samyrkju- og höfundaforlögum úti í heimi, en slíkt á ekki að setja í viðmiðunarsamninga. Almennt líta samningarnir út eins og þeir grundvallist á bestsellerisma og séu gerðir í uppgjafar- og mæðutón.

Ég hef ekkert sérstakt vit á tölum. Það þarf einfaldlega að fá talnaglöggt fólk í samninganefnd, harðsnúið lið, og hafa svo víðtækt samráð við félagsmenn. Ég vil fylgja lögum allra annarra stéttarfélaga og setja samninga í almennar og leynilegar kosningar. Það merkir að hinum almenna félagsmanni gefst færi á að samþykkja eða hafna samningi, leynilega. Leynd er mikilvægur hluti lýðræðis. Þannig kosningar eru bakland fyrir samninganefndir því þá geta þær mætt aftur að samningaborðinu ef félagsmenn svara ótvírætt neitandi. Þannig losna samninganefndir líka við að vera brigslað um óheilindi. Það þarf bara að fara alla leið í reglugerðarmennsku, þótt lýðræðið geti verið bæði þungt í vöfum og leiðinlegt.

Kristín Helga:
„Það fer því alveg eftir stöðu höfundar og verka hans hvort hann getur samið um þessi atriði, gert frávikskröfur og breytingartillögur. Svo er það útgefandans að ákveða hvort hann telur útgáfuna geta gefið þetta eftir. Það verður alltaf eitthvað eftir fyrir menn að semja um.“

Mér finnst drepfúlt að kiljuprósentan lækki. Ég vil sjálf ákveða hvar rafbókarrétturinn minn liggur og í einhverjum tilfellum finnst mér afleitt að flýta leið bókarinnar á útsölu. Hinsvegar er ég afar meðvituð um að samningurinn við útgefendur er viðmiðunarsamningur. Það fer því alveg eftir stöðu höfundar og verka hans hvort hann getur samið um þessi atriði, gert frávikskröfur og breytingartillögur. Svo er það útgefandans að ákveða hvort hann telur útgáfuna geta gefið þetta eftir. Það verður alltaf eitthvað eftir fyrir menn að semja um. Rafbókarhluti samningsins er í mínum huga galopið fyrirbæri og rafbókarrétturinn svo sannarlega alls ekki meitlaður í stein. Samningurinn er til tveggja ára og hverjum og einum í sjálfsvald sett að gera sérkröfur í sínum aðstæðum. Ég tel samninginn við útgefendur nú síðast vera varnarsigur í stöðunni. Það er engin gósentíð í bókaútgáfu þessi dægrin. Samningurinn er kannski ekkert til að hrópa húrra fyrir í fullkomnum heimi, en lykillinn í svona langhlaupi eru sterkar samninganefndir. Ég er afar sátt við það fólk sem stóð í brúnni fyrir okkar hönd og tel að það hafi náð fram því sem hægt var við þær aðstæður sem nú ríkja. Svo er ekki síst mikilvægt að félagsmenn deili sinni reynslu af þessum nýju samningum og dragi fram kosti og ókosti. Þannig söfnum við kröftum, þekkingu og rökum til að bæta samninginn hið fyrsta.

Hallgrímur:
„Þótt maður væri óánægður með ýmis atriði í þessum nýja samningi taldi ég betra að samþykkja ófullkominn samning en vera án samnings. Á þessum tímum er mikilvægt að höfundar og útgefendur geti líka staðið saman, beggja hagur er hagsmunir beggja.“

Ég sat í samninganefndinni og samþykkti þá á félagsfundi. Þetta var löng og strembin lota, hátt í tuttugu fundir.

a) Útgefendur voru harðir á því að lækka kiljuprósentuna, sögðu kiljuútgáfu orðna óhagstæða, enda hafi dregið úr henni. Eftir mikið þjark tókst okkur einungis að draga úr lækkun um nokkur prósent og fá inn stighækkun eftir ákveðinn eintakafjölda. Enginn af okkar fólki var sáttur við þessa lækkun en á móti fengum við inn ákvæði um haustuppgjör og aukauppgjör að vori, auk hækkunar á aðalprósentu við metsölu. Okkar helsta huggun fólst í orðum útgefenda að með lækkaðri kiljuprósentu yrðu fleiri kiljur gefnar út, fleiri ungir höfundar fengju bækur sínar á búðarborð. Sjáum nú til með það.

b) Rafbókaákvæði eru enn ófullkomin enda markaðurinn óþroskaður. Um þau þarf klárlega að endursemja strax næsta ár þegar taka má samninginn upp. Kannski verður þá líka komin meiri reynsla á útgáfu rafbóka. Að mínu mati er íslenski bókamarkaðurinn mjög brothættur en um leið mjög dýrmætur í núverandi mynd, þar sem jólasala á harðspjaldabókum er það sem heldur í raun öllum bransanum uppi. Hætt er við að aukin tilkoma rafbóka gæti raskað þeirri stöðu, en þó er það ef til vill óþarfa svartsýni. En hér verður að fara varlega og vanda til verka, því fyrstu skrefin geta reynst örlagarík.

c) Útsöluómenningin var rædd og mikið kvartað okkar megin en okkur varð ekkert ágengt með það atriði. Megináhyggjur mínar voru að þegar lesendur gætu farið að reikna með nýjum bókum á útsölu eftir jól gæti jólasalan smám saman farið að minnka, en útgefendur vildu ekki meina að slík hætta væri fyrir hendi og útsölurnar væru hluti af þessum einkennilega íslenska bókamarkaði, nauðsynlegar til að hámarka sölu og létta lagerkostnað.

d) Þótt maður væri óánægður með ýmis atriði í þessum nýja samningi taldi ég betra að samþykkja ófullkominn samning en vera án samnings. Á þessum tímum er mikilvægt að höfundar og útgefendur geti líka staðið saman, beggja hagur er hagsmunir beggja. Þetta hefur orðið deginum ljósara eftir nýlegar fréttir af lokun forlaga. Við þurfum líka að vera dugleg að fá ábendingar frá félagsmönnum til að næsta nefnd komi vel vopnum búin í samningalotu að ári.

3. Hver er afstaða þín til nýliðunar í sambandinu – er ástæða til þess að fella niður tveggja bóka regluna (meðal annars í ljósi þróunar nýrra útgáfuleiða)? Er árgjaldið kannski í sjálfu sér nægur stoppari? Ef þú vilt breyta inntökuskilyrðum, hvernig finnst þér að þau ættu að líta út?

Hermann:
„Rithöfundasambönd mega nú alveg vera örlítið snobbuð. Það má vera svolítil upphefð að fá inngöngu í Rithöfundasambandið.“

Í fyrsta lagi: Ég sit í inntökunefnd og álít mig bundinn trúnaði um störf hennar. Ég svara því almennt.

Ég held að rithöfundasambönd verði að vera mjög vakandi fyrir breytingum á útgáfuformum og mismunandi leiðum sem ritlist getur tekið á sig. Það var til ritlist fyrir Gutenberg. Hinsvegar eru inntökuskilyrðin ekki sérlega ströng og rithöfundasambönd mega nú alveg vera örlítið snobbuð. Það má vera svolítil upphefð að fá inngöngu í Rithöfundasambandið. Ég sé ekki knýjandi ástæðu til breytinga. Það er góð skilgreining á rithöfundi að það sé manneskja sem hefur sent frá sér tvö ritverk því þá verður til samspil milli tveggja samanburðarhæfra verka, hvort sem það eru skáldsögur eða ljóð eða fræðirit eða þýðingar eða sjónvarpsþýðingar. Nú eru auðvitað til höfundar sem gáfu bara út eina bók, Antonio Porchia var skáld, þurfti ekki að gefa út meira. Fínt að fá hann inn ef hann væri ekki löngu dauður og argentínskur (þjóðerni er svo annað sem breytist og þróast eins og útgáfuform (og þetta er ekkert nýtt, Gunnar Gunnarsson skrifaði á dönsku), það þarf ekki síður að skoða reglur sem tengjast þjóðerni og tungumáli). Ég deili ekki hugmyndum um að galopna fyrir inntöku. En ég held að það megi alveg skoða þessar reglur með opnum huga og endurskoða þær eftir þörfum (það er hlutverk stjórnar) og það er um að gera að hvetja ungt fólk til að sækja um inngöngu. En á móti kemur að fagfélög mega alveg og þurfa jafnvel að vera örlítið exklúsív.

Sindri:
„Með rýmkun og endurskoðun inntökureglna tekst okkur vonandi að fjölga þar félagsmönnum og treysta fjárhagslegan grundvöll og bolmagn sambandsins.“

Ég legg mikla áherslu á að aukna nýliðun innan sambandsins. Ég vil opna sambandið fyrir sem flestum rithöfundum, leikskáldum, fræðibókahöfundum, þýðendum o.s.frv. Með rýmkun og endurskoðun inntökureglna tekst okkur vonandi að fjölga þar félagsmönnum og treysta fjárhagslegan grundvöll og bolmagn sambandsins. Með því að breyta tveggja bóka reglunni, gera stranga kröfu til þess verks sem er grundvöllur umsóknar og líta til annarra skrifa umsækjanda, ætti það markmið að nást. Árgjaldið er í raun ekki hátt og það ætti enginn að láta það stoppa sig frá því að sækja um aðild, enda væri hann fljótur að fá það endurgoldið í þeim fríðindum sem aðild fylgja, jafnvel þeim einföldustu á borð við frían aðgang að leiksýningum og svo framvegis. RSÍ þarf að endurnýjast einsog önnur félög til að viðhalda styrk sínum og vera fært um að rækta tilgang sinn.

Hallgrímur:
„Mér finnst allt í lagi að það sé þarna smá þröskuldur. Ansi margir Íslendingar gefa út eina bók og fara svo úti í hænsnarækt eða inn á þing.“

Ég tel að inntökuskilyrði séu fín eins og þau eru. Mér finnst allt í lagi að það sé þarna smá þröskuldur. Ansi margir Íslendingar gefa út eina bók og fara svo úti í hænsnarækt eða inn á þing. Sambandið á helst að vera vettvangur og samtök þeirra sem ætla sér að skrifa. Ungt fólk hefur alltaf verið fámennt í sambandinu, það liggur í eðli starfsins. Þetta er seinþroska stétt. Margir höfundar gefa ekki út sína fyrstu bók fyrr en um þrítugt og bók númer tvö þegar þeir eru 35 ára, svo ég taki dæmi af sjálfum mér.

Kristín Helga:
„Öflug nýliðun er nauðsynleg og víða í stéttarfélögum eru starfandi sérstakar nýliðunarnefndir. Þeim er ekki síst ætlað að finna nýliðana og sannfæra þá um gildi samstöðunnar og gleðina í hópastarfinu. Inntökuskilyrði eru skýr og fyrst og fremst afar rúm.“

Eins og ég kom inn á áður þá þarf stéttarfélag eins og RSÍ stöðugt að vera í endurskoðun. Öflug nýliðun er nauðsynleg og víða í stéttarfélögum eru starfandi sérstakar nýliðunarnefndir. Þeim er ekki síst ætlað að finna nýliðana og sannfæra þá um gildi samstöðunnar og gleðina í hópastarfinu. Þetta mætti vel hugsa sér að gera fyrir Rithöfundasambandið. Lög RSÍ eru inni á heimasíðu félagsins og þar í 4. grein eru inntökuskilyrði skýr og fyrst og fremst afar rúm.

Þrír menn eru kosnir í inntökunefnd á aðalfundi og tveir til vara. Þetta fólk má ekki vera úr stjórn og er inntökunefnd kjörin til eins árs í senn. Enginn má sitja í nefndinni lengur en þrjú ár og stjórnin starfar allt árið. Við veljum þetta fólk úr okkar röðum. Það eru nokkuð ör mannaskipti í inntökunefnd og það eykur á lýðræðið og svigrúmið. Inntökureglur eru rúmar og miðast alls ekki eingöngu við tvö útgefin bókverk. Ég bendi á fimmta lið í fjórðu grein laga RSÍ þar sem til greina koma: … Höfundar annars efnis sem inntökunefnd metur fullnægjandi til inngöngu. Þarna rúmast eitt og annað, til dæmis efni hinna nýju miðla. Enn og aftur þurfum við að reiða okkur á heillindi, víðsýni og faglegt mat félaga okkar sem við höfum valið til nefndarstarfa hverju sinni.  Rithöfundasambandið er í eðli sínu og samkvæmt lögum hagsmunavörsluaðili og stéttarfélag fólks sem hefur ritstörfin að atvinnu að hluta eða fullu og sjálfsagt að hafa einhverjar viðmiðunarreglur um inntöku. En í nefndum okkar er fólk sem vegur og metur, horfir vítt yfir og skoðar frá öllum hliðum. Því verðum við að treysta.

4. a) Hvernig hyggstu tækla umræðuna um listamannalaunin þegar hún kemur upp, einsog vænta má að hún geri á sínum klassísku forsendum? b) Finnst þér ástæða til þess að sambandið skipti sér af eða álykti um úthlutun úr launasjóði, skipulag sjóðsins eða hverjir fá (t.d. hvort gætt sé að kynjaskiptingu, aldursskiptingu eða búsetu launþega)?

Hallgrímur:
„Hér má líka alltaf minna á hvaða fólk þjóðin tengir helst við verðmæti: Skáld og listamenn eru enn fjölmennasta stéttin sem prýðir peningaseðlana okkar.“

a) Já, ný stjórn má endilega ganga á hólm við umræðuna, finna beittar og háðskar glósur til að henda út á netið og í blöðin. Við verðum að vera soldið herskárri, án þess að fara niður á slorplanið. Helst að reyna nýjar og óvæntar nálganir, húmor vel þeginn. Hér má líka alltaf minna á hvaða fólk þjóðin tengir helst við verðmæti: Skáld og listamenn eru enn fjölmennasta stéttin sem prýðir peningaseðlana okkar.

b) Sambandið á ekki að álykta eða skipta sér af úthlutun hverju sinni en má skora almennt á nefndarmenn að hafa kynja- og sjönrusjónarmið í huga. Þrátt fyrir umræðulegan mótbyr við hverja úthlutun eigum við að vera stolt af okkar góða launasjóði. Í hvert sinn sem maður er beðinn að lýsa þessu kerfi fyrir erlendu bókmenntafólki fattar maður hversu mikilvægur og dýrmætur sjóðurinn er. Hann er örugglega að stórum hluta ábyrgur fyrir gróskunni í íslenskum bókmenntum sem staðið hefur undanfarin ár.

Kristín Helga:
„Umræðan úti í samfélaginu hefur oftar en ekki einkennst af sleggjudómum og fáfræði, upphrópunum úr öllum hornum. Launasjóðurinn er fjöregg og lífæð. Öflug og virk varðstaða um hann hefur verið megin verk stjórna, formanna og framkvæmdastjóra og verður það áfram.“

Umræðan um launasjóð rithöfunda er gömul en afar virk handsprengja sem fólk kastar reglulega sín á milli. Þegar upp er staðið og allt er skoðað þá eru sem betur fer flestir landsmenn sammála um að við viljum hafa bókmenntir í okkar fámenna þjóðfélagi og gera greininni kleift að vaxa og dafna. Án ritlaunanna þrífst þessi listgrein ekki. Það vitum við og það vita þeir sem stýra menntamálum. Þá fyrst yrði þetta fátæktarland. Umræðan úti í samfélaginu hefur oftar en ekki einkennst af sleggjudómum og fáfræði, upphrópunum úr öllum hornum. Launasjóðurinn er fjöregg og lífæð. Öflug og virk varðstaða um hann hefur verið megin verk stjórna, formanna og framkvæmdastjóra og verður það áfram, auk þess að þrýsta á stækkun hans. Því stærri og sterkari sem sjóðurinn verður því minni ágreiningur mun ríkja um hann meðal félagsmanna.

Ég tel afar varasamt að stjórn og forysta sambandsins skipti sér af útlhlutunum úr sjóðnum. Þar hafa alltaf verið mjög skýr skil á milli stjórnar og úthlutunarnefndar. Öll afskipti stjórnar RSÍ af ákvörðunum stjórnar launasjóðs rithöfunda myndi draga stórlega úr trúverðugleika og faglegum vinnubrögðum. 

Viðmiðunarreglur eiga þó stöðugt vera til endurskoðunar, eins og allar reglur í heimi hér. Það ætti þó ekki að vera í verkahring stjórnar RSÍ að endurskoða þær, heldur mætti skipa um slíka endurskoðun sérlega fagnefnd. Það mun aldrei nást algjör sátt um launasjóð á meðan svo margir fá synjun úr honum. Stóra verkefnið er og verður að stækka sjóðinn og það er langhlaup.

Hermann:
„Á hinn bóginn má halda því fram að ekki sé skrýtið að almenningi blöskri ef það er svo að rithöfundar með milljón á mánuði í bóksölulaun fá ritlaun ofan á það. Það er spurning hvort mætti nýta það fé betur og sleppa því að fóðra menntahatur almennings.“

a) Þetta er meira spurning fyrir aðalmanneskjuna, formann. Hinn drepleiðinlegi árlegi héraðsbrestur, formaður þarf að lægja öldurnar, sjálfur er ég bara þakklátur fyrir að almenningi þyki bókmenntir skipta svo miklu máli að það taki því að fjargviðrast endalaust yfir nokkrum krónum, þau eru ekki svo heppin í Belgíu þar sem er miklu sterkari sjóður og öllum er sama um hann. b) Það er í mínum huga algert nónó að stjórn fari að hafa afskipti af úthlutunum úr launasjóði, stjórn verður að hafa faglega fjarlægð og má ekki skipta sér með einum eða neinum hætti af störfum fagmanna, ekki einu sinni með reykmerkjasendingum, þarna reynir bara á hreina fagmennskuhugsun. Stjórn getur hinsvegar í sjálfu sér ályktað það sem henni sjálfri sýnist og rætt innan sinna vébanda það sem henni þykir þurfa að ræða. Ég tek því bara þegar og ef þar að kemur. Um þessi efni sem þú nefnir, kynjaskiptingu, aldursskiptingu og búsetu launþega, hefur orðið einhver þróun á síðustu árum svo að nú er gefin út skýrsla sem sýnir dreifingu á milli kynja og sést svart á hvítu að hún er í takt við umsækjendafjölda og þá í samræmi við jafnréttislög. Þetta er gott. Ég held að á alþjóðavettvangi einkennist svona nefndarstarf (sem hlýtur að vera drepleiðinlegt) af sífellt meiri ábyrgðarskyldu, það er að segja að fólk geti sýnt fram á faglegar ástæður ákvarðana sinna þegar þess er krafist, sem er gott fyrir alla aðila. Hinsvegar má kannski ekki rugla saman faglegri trúnaðarskyldu og leyndarhyggju. Trúnaðarskylda er ekkert sett út í bláinn og hefur ekkert með leyndarhyggju að gera. Og fullkomið accountability með skýrslum og kæruskrifstofu og öllu tilheyrandi, manneskju í fullu starfi, er þungt í vöfum í litlu landi. Þróunin er góð en það má ekki vera þvingun í þessu, allra síst frá stjórn RSÍ, það er galin hugmynd að mínu mati. En fyrst þú ert að velta upp viðkvæmum málum má líka spyrja sig hvort rétt sé að hverfa aftur til þess sem einhverju sinni var á Íslandi að skila þurfti launaupplýsingum og skattskýrslu með ritlaunaumsókn. Ég hef ekki svör við því. Langflestir rithöfundar hafa mjög óöruggar og lágar tekjur og laun eru á einhvern hátt einkamál þótt launaleynd sé að sama skapi bönnuð með lögum. En á hinn bóginn má halda því fram að ekki sé skrýtið að almenningi blöskri ef það er svo að rithöfundar með milljón á mánuði í bóksölulaun fá ritlaun ofan á það. Það er spurning hvort mætti nýta það fé betur og sleppa því að fóðra menntahatur almennings. Þetta er eitthvað sem má alveg ræða krítískt og opinskátt. En fæstir höfundar geta gert ráð fyrir því fyrirfram að peningastreymið sé stöðugt, kannski enginn nema Arnaldur Indriðason og hann er löngu hættur að sækja um ritlaun.

Í sem stystu máli: Stjórn getur rætt skipulag sjóðsins og beint erindum til stjórnvalda um lagabreytingar ef ástæða þykir til. En það ætti að fara frekar varlega í róttækar breytingar á kerfi sem fúnkerar um margt ágætlega og þóast auk þess í góða átt án neinna lagabreytinga. Og það er algert tabú að stjórn fari að skipa fagfólki í nefndum fyrir verkum. Stjórn RSÍ á aðallega að borða konfekt.

Sindri:
„Það er alveg sjálfsagt að ef á einhverja tiltekna höfunda hallar vegna eðlis skrifa þeirra, kyns eða búsetu, að sambandið lýsi opinberlega yfir skoðunum sínum, í þeirri von að það hafi jákvæð áhrif.“

a) Hið ársvissa fjaðrafok í tengslum við úthlutanir úr starfslaunasjóðunum er yfirleitt á svo hörmulegu plani að flestir forðast hana einsog heitan eldinn, skiljanlega. Sumar fullyrðingar sem heyrast eru tæplega svaraverðar, hreint skítkast, en ef um er að ræða einstaklinga sem hafa stefnumarkandi völd á borð við þingmenn eða ráðherra verður auðvitað að svara samstundis. Á víxl þurfa þau svör að vera upplýsandi og skýrandi á afar kurteisan hátt – svipað og þegar fengist er við flugdólga í byrjun óláta, en síðan þarf að beita öðrum meðulum og sterkari. Ég hef stundum hugleitt hvort að unnt væri að auka skilning fólks á eðli starfslauna með því að kalla Starfslaun listamanna öðru nafni, til dæmis Verkefnasjóð menningarmála eða eitthvað þess háttar, en slík nafnabreyting kallar á frekari umræður á meðal listamanna.

b) Rithöfundasambandið getur vitaskuld ekki skipt sér beint af úthlutunarferlinu en það er alveg sjálfsagt að ef á einhverja tiltekna höfunda hallar vegna eðlis skrifa þeirra, kyns eða búsetu, að sambandið lýsi opinberlega yfir skoðunum sínum, í þeirri von að það hafi jákvæð áhrif. Ég tel t.d. að umræða á sínum tíma um að barnabókahöfundar og konur bæru skarðan hluta frá borði í úthlutunumhafi leitt til umbóta í þeirra þágu. Rithöfundasambandið á aldrei að vera skoðanalaust þegar kemur að réttindum rithöfunda.

Sú staðreynd að flestir rithöfundar teljist einyrkjar eykur á mikilvægi þess að þeir standi einarðlega saman gagnvart viðsemjendum sínum og sýni samstöðu og samtakamátt í orði og verki. Heildin er sterkust. Formaður RSÍ gegnir mikilvægu hlutverki við að tryggja að sú samstaða sé ævinlega sem mest og best og að rithöfundar stilli saman strengina í þeim málum þar sem hagsmunir þeirra og réttindi eru í húfi.“

Kjörgögn eiga að hafa borist meðlimum sambandsins með pósti en kosið verður á aðalfundi þann 8. maí næstkomandi.