Fjölskylda Björgólfs sviðsetti eigið líf í Þjóðleikhúsinu

Björgólfur Guðmundsson og fjölskylda leigðu Þjóðleikhúsið árið 2008, skömmu fyrir hrun og sviðsettu líf Björgólfs og eiginkonu hans, Þóru Hallgrímsson, á stóra sviðinu. Þetta kemur fram í DV í dag og er þarna vitnað í nýútkomna bók blaðamannsins Inga Freys Vilhjálmssonar þar sem hann ljóstrar þessu upp.

Í umfjöllun DV um málið segir meðal annars að einvalalið listamanna hafi komið að uppsetningunni auk þess sem börn Björgólfs léku í sýningunni. Edda Heiðrún Backman leikstýrði leikritinu. Þórarinn Eldjárn skrifaði textann og spaugstofumaðurinn Pálmi Gestsson lék eitt af aðalhlutverkunum.

„Þetta var lífshlaup þeirra hjóna ef ég man rétt, allt frá því þau giftu sig. Þetta voru einhverjar persónulegar myndir úr þeirra lífi; myndir sem ég þekki ekki vel […] Þetta var ósköp saklaust og fallegt hjá þeim,“ segir Pálmi í viðtali við DV um leikritið en sýningin var um 40 mínútur að lengd.

Þá er greint frá því í Hamskiptunum að Pálmi hefði verið fenginn til að taka þátt þar sem hann hafði með góðum árangri hermt eftir Björgólfi í Spaugstofunni og við fleiri tækifæri.

Björgólfur Thor lék svo föður sinn þegar hann var ungur og Pálmi túlkaði hann eftir að árin höfðu færst yfir.

Kristín Ólafsdóttir, eiginkona Björgólfs, tók sömuleiðis þátt í sýningunni, sem og Bentína, dóttir Björgólfs. „Þau léku öll hlutverkin sjálf og langaði með því að gleðja Björgólf og Þóru á þessum tímamótum,“ segir Edda Heiðrún í bók Inga Freys, en að hennar sögn var um að ræða „nokkurs konar þakkargjörð barnanna fyrir samstöðu þeirra í gegnum tíðina“.