Bláa Hawaii: Bergþóra


Herr Fleischer vill vita meira um Flórída. Ég veit
ekki hvað ég á að segja honum.
Flórída heitir ekki Flórída í alvörunni.
Flórída á of marga vini fyrir Facebook en enginn
hringir í hana þegar hún á afmæli.
Flórída varð fræg fyrir að hafa verið í rokkhljómsveit
á áttunda áratugnum, fyrir að koma alltaf fram
ber að ofan í leðurbuxum.

Hendurnar á Flórída eru svo mjúkar að hún getur ekki
brotið egg. Hvað þá þrastarháls eða kattarhrygg.

Suðurríkin eru óljósar útlínur –
fljótandi fellingar af holdi undir glerúða, viskastykkjum og
pastellitum stuttermabolum. Silfri sem þurfti stöðugt að
pússa, sífrandi þögn.

Í dýpinu fékk kerlingin að vera ein. Umkringd sveimandi
Kyrrahafssardínum með Jim Beam í mjólkurglasi.
Flórída heldur að hún sitji þar enn. Klippi skjálfhent út
afsláttarmiða fyrir fjölskyldu sem er löngu horfin.

Kjúklingalifur á hálfvirði!
Bakaðar baunir á einn dollar!
Tveir fyrir einn af öllu morgunkorni!
Tvöfaldir hundaskítspokar í kaupbæti!

Ljóðakvöldið Bláa Hawaii verður 22. nóvember næstkomandi. Bergþóra er eitt af skáldunum sem les upp.

Feisbúkk viðburð fyrir Bláa Hawaii má nálgast hér