Nirvana fyrir drykkjumenn

Ko Un, dauðinn og hversdagurinn

Horfa á tunglið, segirðu?
Gleyma fingrinum sem
bendir á það, segirðu?
Meiri þvermóðskan í þér!

Tunglið og fingurinn,
gleymdu þeim báðum
eða láttu þetta eiga sig.

(úr ljóðinu Tunglið, bls. 113)

Ahemm. Afsakið útúrdúrinn: Á Íslandi hafa ungskáldin skipt sér í fylkingar – á aðra höndina er talað um „spíttskáld“ og og hina „strætóskáld“ – ekki seinna vænna nú þegar Nýhilskáld og Nykurskáld eru öll meira og minna flutt í úthverfin, þar sem Partusskáldin skutu rótum sínum strax við fyrsta brum – og nýverið var það sem fyrst var nefnt „nýi fiðrildaskólinn“ endurskírt „gáfuskáld“ (af halamiðum innan úr innstu myrkrum gamla fiðrildaskólans, enda gekk ekki að nafninu væri stolið) og Medúsuskáldin eru öll upp til hópa að hafa sig til, raka sig og greiða sér, því nú fá þau bráðum Nóbelsverðlaun, á meðan Fyndna kynslóðin er í senn hætt að drekka og full á Facebook fram eftir kvöldum, og svo framvegis og svo framvegis í gegnum aldirnar.

Nema hvað, nú komum við að kjarna málsins, þið afsakið – kóreska ljóðskáldið Ko Un er allir þessir skólar, gáfuskáld, spíttskáld, strætóskáld, fiðrildaskáld, allar þessar klisjur í einum manni og tugþúsundum ljóða: bóhem og bodhisattva, ólærður og aflærður menntamaður, byltingarsinnaður hefðarsinni, jarðbundin dramadrottning, grjótharður rómantíker, mínimalískur mikilmennskubrjálæðingur og efnishyggjumaður með hausinn í skýjunum og hendur í vösum, alltaf iðjulaus en hefur gefið út ríflega 150 bækur og séð allan heiminn – þótt hann sé augljóslega bara alltaf í sama litla smáþorpinu utan við Seoul, það segir sig sjálft. Það er einsog hann hafi einfaldlega leyst upp  í óteljandi hugmyndir um sjálfan sig og þær eru allar í viðstöðulausri – og viðnámslausri – mótsögn við sjálfar sig, flytjast gegnum heiminn einsog fingur gegnum vatnið, wu wei, amen og insjallah.

Nema Ko Un er auðvitað ekki íslenskur. Hann er, einsog áður segir, kóreskur, fæddur í Gunsan þann 1. ágúst árið 1933 – árið sem Hitler komst til valda – á þeim tíma þegar Kórea var undir járnhæl japanskeisara, og hér verður aftur tíunduð sagan (úr ljóðinu) sem er alltaf tíunduð þar sem Ko Un er annars vegar: þegar hann var spurður af barnaskólakennara hvað hann ætlaði að verða þegar hann yrði stór, svaraði hann því sem hann taldi þá að væri göfugast, hann ætlaði auðvitað að verða keisari, og var barinn. Þegar hann var svo spurður aftur sagðist hann vilja verða póstburðarmaður (einsog ekki ómerkilegra fólk en Bragi Ólafsson og Kristín Svava Tómasdóttir).

Sem barn – tólf ára gamall – gekk Ko Un fram á yfirgefna bók í göturæsinu í heimabæ sínum og bókin, sem innihélt ljóð eftir holdsveikiskáldið Han Ha-un, umturnaði lífi hans. „Holdsveikiskáld“ er enn sem komið er eitt af fáum skáldaídentítetum sem Ko Un hefur ekki tileinkað sér, þrátt fyrir að það hafi í raun verið upphaflega meiningin:

Ég las allt safnið í einni beit. Það var þarna ljóð um hvernig tærnar á honum höfðu fallið af að kvöldi, um morguninn vaknaði hann með engar augnabrúnir … Tilfinningin sem greip mig var ekki að mig langaði að skrifa svona heldur meira að mig langaði að verða þessi manneskja – að sjúkdómur hennar yrði minn sjúkdómur.

Þegar Kóreustríðið hófst – Ko Un var undanskilinn herþjónustu vegna líkamsburða, hann var ekki nema „40 kíló með skólatösku“ einsog sagt er – vann viðkvæmt ungskáldið við að urða og brenna lík, sem olli honum svo mikilli sálarkröm að hann gerði sína fyrstu alvarlegu tilraun til þess að sálga sér, ætlaði að „drekkja hávaða heimsins“, einsog hann orðaði það, með því að hella eitri í eyrun á sér (ping Van Gogh!) og heyrir, til þessa dags, ekki bofs á öðru þeirra. Í kjölfar þessa ákvað hann að leita uppbyggilegri leiða við að minnka harm sinn og gerðist munkur, fór í læri hjá Hyobong, og eyddi áratug í að tigna hið búddíska alltumlykjandi tóm, betla sér til lífsviðurværis og þvælast um landið. Skömmu áður en þeirri göngu lauk gaf hann út sitt fyrsta ljóðasafn, Næmi annars heims, og fyrstu skáldsögu sína, Kirsuberjatré í öðrum heimi.

Árið 1962 lét hann af munkalíferninu og gerðist samstundis hamslaus níhilisti – drakk sér til óbóta dag eftir dag, fjölgaði sjálfsmorðstilraununum og sökkti sér á kaf í annars konar og meira eyðileggjandi tóm en hina búddísku kyrrð. Á þessum tíma starfaði Ko Un sem (þunnur) barnaskólakennari á Jeju-eyju. Ko Un er enn mikill talsmaður víndrykkju, en í þá daga rann aldrei af honum, einu sinni pínulítið. „Á kóresku er sama orð notað fyrir drykk og fyrir drottinn“, sagði Ko Un og bætti við. „Ég er af drottni.“ 1

Ljóðskáld og vín eiga saman. Þetta hafa menn skilið í Bretlandi, þar sem lárviðarskáldin fá tunnu af sérríi að gjöf. Ljóðskáld nútímans óttast um heilasellur sínar og drekka ekki, en ef þú ert með svona máttlausan heila ertu of mikill aumingi til þess að yrkja. Ég er 85 ára gamall og edrú jafnaldrar mínir í ljóðabransanum eru allir dauðir. 2

Eftir um áratug í ástríðufullum faðmlögum við Dýonisos rakst hann fyrir tilviljun á frétt um starfsmann í textílverksmiðju sem hafði kveikt í sér til þess að mótmæla bágum aðstæðum verkamanna. Og aftur umturnaðist líf Ko Un. Hann gerðist rammpólitískur og fór að starfa af miklum móð gegn ofríki suðurkóreska einræðisherrans Park Chung Hee – varð fljótt helsti ræðumaður andspyrnunnar og var sendur þrívegis í fangelsi, þar sem hann var laminn og pyntaður. Eftir síðustu og erfiðustu fangelsisvistina, frá 1980 til 1982 – í kjölfar valdaránstilraunar, eftir að Park Chung Hee var ráðinn af lífi – þar sem hann var laminn sem aldrei fyrr og glataði enn meiru af heyrn sinni, dró hann sig að einhverju leyti í hlé, þótt hann væri áfram lykilmaður í skipulagningu andspyrnunnar.

Ári síðar gifti hann sig og gerðist smáborgaralegur fjölskyldufaðir úti í sveit. Konan sem hann giftist og er enn giftur heitir Lee Sang-wha. Hún er prófessor í enskum bókmenntum og hefur haft hönd í bagga með mörgum þýðingum á ljóðum hans.

Þegar Ko Un var sloppinn úr fangelsi hóf hann að vinna að sínu stærsta verki – Maninbo, sem er yfirleitt þýtt sem „Tíu þúsund æviskeið“ en stöku sinnum líka sem „Tíu þúsund fótspor“ – 30 bóka röð með ljóðum um allt það fólk sem Ko Un hafði mætt um ævina, hvern einasta einstakling. Þessu hafði hann lofað sér – og alheiminum – þar sem hann sat þjáður í fangelsismyrkrinu, ef hann kæmist nokkru sinni út. Í viðtali við tímaritið Wild Pilgrim, sem er vísað til hér að ofan, er hann sagður hafa jánkað því að verkið væri ort í anda „bodhisattva“ – hins fullupplýsta búddista sem kýs (tímabundið) að aðstoða aðra við uppljómun sína, og starfa að hreinni velgjörð í heiminum, frekar en að rjúfa samsara og leysast upp í nirvana – og glaðst mjög yfir samlíkingunni. Ljóðskáldið Gary Snyder hefur talað um „gárunga-dharma“ í verkum Ko Uns og Allen Ginsberg, sem skrifaði formálann að enskri útgáfu þeirrar bókar sem skapaði Ko Un nafn vestanhafs – What? 108 Zen Poems – talaði um „hugsanastöðvandi kóanættaða geðflugelda“ og sagði að Ko Un væri „djöfuldrifinn bodhissatva“.

Samband Ko Uns við búddismann er hins vegar ekki allt á jákvæðu nótunum. Einsog segir í formála Gyrðis að þeim þýðingum sem hér eru til umfjöllunar:

Á þessum tíma [þegar hann var munkur] var hann farinn að yrkja, en að ýmsu leyti var kóreskur búddismi, sem er að nokkru leyti frábrugðinn japönskum og kínverskum búddisma til dæmis, ekki endilega frjór jarðvegur fyrir verðandi skáld. Þar er hinu ritaða orði ekki skipaður hár sess, og þegar Ko Un tók seinna (löngu eftir að hann hafði gefið munklífið upp á bátinn) að yrkja ljóð sem gagnrýnendur kölluðu búddísk, þá benti hann sjálfur á að þetta væru eiginlega andstæður í sjálfu sér, allavega miðað við þann búddisma sem iðkaður væri í heimalandi hans. Hins vegar, líkt og áður er sagt, gat Ko Un mætavel lifað í sátt og samlyndi við mótsagnir, og hann hélt áfram að yrkja ótruflaður.

bls. ix

Bætir Gyrði því við síðar í formálanum að þau ljóð sem hann yrkir þarna eftir að komið er úr fangelsinu kalli Ko Un sjálfur „póstníhilísk“.

Munurinn á því að vera barnalegur og barnslegur er fólginn í því að sá barnalegi er fullorðinn en hagar sér einsog barn, á meðan sá barnslegi hefur aldrei fullorðnast. Skáldskapur Ko Uns er barnalegur og aldrei barnslegur. Hann nýtur sín best í miklu magni, stórum skömmtum, þar sem hann verður einsog alltumlykjandi hversdagur fullur af furðum.

Það sem er töfrandi í ljóðum Ko Uns – hinn töfrandi hversdagsleiki þeirra – er einmitt hversu lítið hann rembist við að eltast við hinn töfrandi hversdagsleika (en það er einmitt einkennismerki margra þeirra sem skrifa um þennan töfrandi hversdagsleika að spreyja hálfgerðu orða- og/eða hugmyndaglimmeri yfir hann). Hversdagsleiki Ko Uns er einhvern veginn hrárri, röflkenndari og óritskoðaðri – sum ljóðanna eru ekki áhugaverðari en að drekka kaffibolla eða renna yfir Facebookstatus, altso nákvæmlega jafn áhugaverð og maður leyfir þeim að vera og þar með fullkomlega heilög.

TÍU

Best er
þegar fólk getur talið upp að 10.
Um leið og það fer upp í 11 og 12
er fjandinn laus.

Æ! Einmana barn
við hafið að morgni.

bls. 9

Að lesa mörg ljóða Ko Uns, til að mynda þau úr Maninbo, er s.s. ekki ósvipað því að rekast á einn af þeim einstaklingum sem hefur orðið á vegi skáldsins. Þessa einstaklinga þarf ekki að gæða neinum heilagleika, þeir eru heilagir í sjálfum sér – í samræmi við búddíska kenningu – en til þess að sjá það þarf að gangast við heilagleikanum.

YUK-SON

Yuk-Son er yngri bróðir Pang Sang-Gil
í Saeto. Hann fæddist með aukafingur
sem hann notast við ásamt hinum.
Hann sviptir hálmpoka léttilega á loft.
Maður lítur eiginlega ekki á hann
sem fatlaðan. Hann hefur bara
einn fingur umfram aðra.
Hann hefur einn auka til taks
þegar á þarf að halda.

Ef einhver hendir í hann steini
glennir hann fingurna sex
og grípur hann auðveldlega.

Annað veifið brestur á með dálítilli rómantík en aldrei þannig að keyri um þverbak – þessi hversdagur verður aldrei Coelhískur eða einu sinni tilfyndinn þótt hann sé oft fyndinn og oftar sniðugur (Ko Un er áreiðanlega maður sem flissar mikið).

ÁSTVINUR

Þegar þú saknar ástvinar þíns
er sérhver lífvera mikilvæg.
Hver einasta – jafnvel svínin
og flærnar á hundinum.

Húmorinn er kannski ekki síst dálítið sturlaður og ófyrirleitinn, manískur jafnvel.

SKÍTUR

Undir þessum runna
sá ég hund skíta.
Hann lyfti rófunni
og skeit.

Þarna rétt hjá
skeit ég og er í sólskinsskapi.

Ég er glaður, glaður.
Seinna rann upp fyrir mér
að þetta var ekki ég.
Það var ekki ég, það var
hundurinn, sem skeit.

Nú þegar ég veit það, er ég
bæði glaður og dapur.

bls. 31

Og undir niðri hvílir auðvitað allt hið brjálæðislega dýpi hversdagsins – lífsháskinn, trámað og ástin sem safnast upp í áratugalöngu lífi, á öldum þjóða, árþúsundum ættbálka.

Enn önnur ljóð birtast manni líka í óvenjulegu ljósi – þegar einn harmur rekst á annan, hjá lesanda og höfundi, í róti viðburðanna sem dynja á manni alla daga jafnt. Til dæmis las ég þetta ljóð fáeinum klukkustundum eftir að Aftonbladet skellti þeirri spurningu á forsíðu hjá sér, hvort Íslandi væri að verða Norður-Kórea Norðurlanda.

NORÐUR-KÓREA

Hvenær,
hvenær
verður þú nútíð mín.

Í kvöld nötra ég enn á ný
af ofsafengnum
eftirskjálftum heillar aldar
af jarðhræringum.

bls. 90

Og ljóðið fékk auðvitað á sig óvenju Jóhannesarlegan blæ:

Sovét-Ísland
óskalandið
hvenær kemur þú?
Er nóttin ekki orðin nógu löng
þögnin nógu þung
þorstinn nógu sár
hungrið nógu hræðilegt
hatrið nógu grimmt?
Hvenær…?

(Jóhannes úr Kötlum: Samt mun ég vaka, 1935)

Ko Un er vel að merkja ákafur talsmaður sameiningar Kóreu – vill raunar meina að í tvennu lagi sé landið hreinlega ekki til, það sé dautt, en það megi lífga við með sameiningu. Og þótt hann sé engin vinur yfirvalda í Suður Kóreu er ekki þar með sagt að hann kæri sig heldur um stjórnarfarið í Norður Kóreu. Hann er ákafur andstæðingur alræðis og ofríkis.

Við lestur þessara ljóða – þessa hvínandi hversdags – verður manni samt ljóst að sá sem hefur aldrei reynt að steypa lífi sínu í fullkomna og algera glötun, sleppt sér út í kaosið án björgunarvestis, getur aldrei handleikið það sem Ólafur Kárason kallaði „kraftbirtingarhljóm guðdómsins“ og er sjálf ljóðlistin, með öllum sínum lífsháska. Einsog Ko Un orðaði það sjálfur í viðtali við Dagens Nyheter, sem er vísað til hér að ofan, þá liggur dauðinn til grundvallar öllum hans bókmenntum.

AUÐ SÍÐA

Nótt þegar ekkert ljóð kemur.
Nótt endalausra loftárása með mannlausum flugvélum.
Nótt gamals manns af ættbálki Pastúna
sem missti tvö barnabörn
auk sonar og tengdadóttur,
öll í einu
í bakhýsi við árbakka í Kabúl.
Nótt drengs í húsi skammt frá
sem missti hægri fótinn og svalt í hel.
Nótt þegar blóðug óreiðan er lífið sjálft.
Þvílíkur munaður er sorgin, og Guð!
Hve úreltir skrautmunir er þetta tvennt!
Nótt þegar ekkert ljóð fæðist á minni auðu síðu.

Þýðingar Gyrðis Elíassonar eru mikil prýði og fátt sem truflar, sem er nokkuð afrek í 200 blaðsíðna ljóðasafni – textinn ber mjúklegri og óuppáþrengjandi stílgáfu Gyrðis gott vitni, og hefði vel mátt finna þýðendur sem pössuðu Ko Un talsvert verr. Ég spurði mig þó að því hvar Chang-Sun frá Mijei hefði lært að syngja Hvíta máva Björns Braga Magnússonar, einsog hún gerir í ljóðinu sem nefnt er eftir henni, á síðu 180 – úr Maninbo – en það var sennilega eini staðurinn þar sem ég hváði nokkuð.

Úrvalið er bærilegt. Það er ekki heiglum hent að velja úr ljóðum Ko Uns, svo mörg sem þau eru. Í þessu safni – Sorgin í fyrstu persónu – er að finna nokkuð af mínum eftirlætis ljóðum. Ég nefni Eitt epli (bls. 20), Enn í myndhverfingum (bls. 75), Sagt (bls. 196), Hvítleiki (bls. 103), Skarnhaugur bernskunnar (bls. 64) og áðurnefnt Skítur – ég gæti haldið áfram að fletta og talið tuttugu í viðbót. En ég sakna líka fleiri ljóða úr Maninbo, ég sakna hins fræga ljóðs Bréf, þar sem áðurnefnd saga um ósk Ko Uns að verða keisari er sögð, og ég sakna Fyllibyttunnar, sem ég leyfi mér hreinlega að þýða sjálfur (eftir enskri þýðingu Claire You og Richard Silberg) og henda mér með, enda stutt og laggott:

FYLLIBYTTA

Ég hef aldrei verið einn náungi,
sextíu milljón frumur!
En það er ég sem ræð.
Sextíu milljón frumur,
blindfullar!

En það er líka bara af því ég hef svo gaman af þessu tiltekna ljóði – minn smekkur getur eðli málsins ekki verið ráðandi í ljóðaúrvali annarra. Það væri þess utan hægt að halda alveg jafn lengi áfram að telja upp þau ljóð sem ég saknaði og þau sem ég gladdist að sjá.

Það er talsverðan fróðleik að finna í formálanum – sem hefst á viðeigandi tilvitnun í Rainer Maria Rilke: „Vissulega er öll list afrakstur þess að hafa lent í háska, að hafa gengið í gegnum slíka reynslu allt til loka, þar til ekki verður lengra komist“. Eðli málsins samkvæmt er Ko Un borinn upp og mátaður við önnur ljóðskáld – og vegna áðurnefnds margbrotins eðlis hans sem skáld, hans sem tilheyrir öllum skólum jafnt og hefur allt upplifað, er listinn ansi langur. Fyrir utan Rilke og Han Ha Un eru það Shuntaro Tanikawa 3, Jannis Ritsos, Whitman 4, Thoreau og Emerson 5, Edgar Lee Masters 6, Goethe, Hölderlin, Li He, Olav H. Hauge, Rolf Jacobsen, Yi Sang, Milarepa, Jóhannes úr Kötlum 7 og William Blake 8. En eðli málsins samkvæmt nær samanburðurinn eiginlega aldrei mjög langt, og er lýsandi fyrir sérstæði Ko Uns – sem er einmitt samt svo almennur! – og friðsamlega sambúð allra þeirra mótsagna sem einkenna þennan litla kóreumann, sem er öllum stærri.

Bókinni er skipt í fjóra hluta og ég á svolítið bágt með að skilja hvað hver þeirra á að fyrirstilla. Hugsanlega eru þetta lífsskeið Ko Uns – mér sýnist þau vera í einhvers konar tímaröð – en ég er bara ekki nógu þaullesinn í honum til að bera kennsl á það, til þess að vita hvað tilheyrir þá níhilismanum, hvað búddismanum, hvað póstníhilismanum o.s.frv. Þetta er fyrsta bók Ko Uns á íslensku og þótt ég hafi áður lesið hann á ensku og sænsku eru sennilega flestir lesendur þessarar bókar að kynnast honum í fyrsta sinn. Auðvelt hefði verið að taka það fram hvaðan ljóðin eru fengin, hvaða ár þau eru ort, og ég biðst velvirðingar hafi það farið framhjá mér að það sé einhvers staðar gert (en ég er búinn að þaulkíkja).

Að lokum finnst mér skorta aðeins á upplýsingar um úr hvaða máli sé þýtt. Ég hef alltaf litið svo á að þýðingar úr þýðingum séu fullgildar – ég er ekki púrítani í þeim efnum – en mér finnst að þá verði helst að geta milliþýðandans. Ég skil að þetta geti verið flókið, sérstaklega þegar, einsog Gyrðir nefnir að sé stundum gert, það er búið að steypa saman þýðingunni „úr tveimur eða jafnvel þremur gerðum þýðinga, til að fá þá niðurstöðu sem mér þótti á einhvern hátt fanga anda skáldsins best“, en varla þó flóknara en að þýða sjálf ljóðin – sem hér er gert af natni. Gyrðir nefnir að vísu fjóra þýðendur í formála sínum, Brother Anthony of Taizé, Gary Gach, Young Moo Kim og áðurnefnda eiginkonu Ko Uns, Lee Sang-wha, og tiltekur að hann hafi haft norskar þýðingar til hliðsjónar að auki, en nefnir engan norskan þýðanda á nafn. Hægur leikur hefði verið að birta nöfn enskra og norskra þýðenda og titlana á bókum þeirra – þótt ekki væri nema til virðingarvottar við þýðendastarfið.  Þótt bækur Ko Uns á kóresku séu allt að því óteljandi eru bækur með þýðingum hans á norsku og ensku ekki svo margar að undir þetta hefði þurft að fórna meira en einni síðu, í mesta lagi.

En sem sagt – kvartið á ekki að yfirgnæfa gleðina hér, þetta er dásamlega þýtt, safnið er dásamlegt og bæði þýðandi og útgefandi (Dimma) eiga mikla þökk skilið, þetta er ekki starf sem neinn verður ríkur af, nema fólkið sem talar þetta tungumál (íslensku) sé talið með.

   [ + ]

1. https://www.themonthly.com.au/issue/2012/november/1351733081/barry-hill/wild-pilgrim
2. https://www.dn.se/kultur-noje/ko-un-mitt-liv-och-min-poesi-ar-en-produkt-av-doden/
3. Sem Gyrðir hefur líka þýtt – hann hlaut Íslensku þýðingarverðlaunin fyrir Listin að vera einn.
4. „Er ég í mótsögn við sjálfan mig? Jæja þá, ég er í mótsögn við sjálfan mig. So sue me!“
5. Og nokkuð rætt um hugsæishyggjuna, ég þurfti að spyrja mér gáfaðra fólk hvað það væri, það er transendentalisminn.
6. Maninbo minnir á Skeiðæingatal.
7. Ekki fyrir Sovét-Ísland samt!
8. Eitt ljóða Ko Uns – sem er reyndar ekki að finna hér – heitir á ensku Song of Innocence, en frægasta safn Blakes heitir auðvitað Songs of Innocence and Experience.