Þrjú ljóð eftir Kára Pál


Ljóð úr bókinni Ekkert tekur enda eftir Kára Pál Óskarsson.Útgefandi er Deigma. Bókin er fáanleg í helstu bókaverslunum. (Myndljóðið að ofan er líka eftir Kára Pál)

Það er alltaf einhver neðar í fæðukeðjunni. Eirgræna nú á öllu, einnig skýjum, birtubrigðum, plöntum, minningum, orðum. Of mikill orðaforði. Hunskastu. Annarlegar kvöldstundir í furðuheimum. Illa lyktandi kjallaraherbergi. Lexía lærð: að ljóð eru leiðinleg. Ég reyndi að láta sem fæst uppi. Upphringisamband. Stundum var bekkurinn látinn semja sína eigin íslenskustíla, stakar setningar af handahófi. Uppgefinn, gat ekki hlaupið alla hringina og fannst það fáránlegt, svo ég sleppti þeim síðustu, sem var ekki fyrirgefið svo glatt. Staðhættir móta sinar, bein og fleira. Hver sneið af ostinum jafn þunn, jafn bragðlaus.

Sýna menn

Auðvitað hafa Íslendingar
lengi dregið upp mynd
af landi og þjóð gagnvart öðrum sem
er hægt að túlka sem ákveðna glansmynd
Það var stundum sagt
fyrir þrjátíu árum
að einu póstkortin sem þú gast keypt á Íslandi
– á þeim var alltaf sól.
Þegar menn eru að túlka sjálfan sig
eða staði
eða samfélög
gagnvart öðrum,
að þá… sýna menn, sýna menn sitt besta

besta

Þegar menn eru að túlka
gagnvart öðrum
þá sýna menn
þá sýna menn
sitt besta

Auðvitað hafa Íslendingar
lengi túlkað land
túlkað þjóð
túlkað staði
túlkað samfélög
túlkað sól
túlkað menn
túlkað þrjátíu ár
túlkað póstkort
lengi selt póstkort
selt
selt
og á þeim var alltaf
á þeim var alltaf
alltaf
sól
sól

einu staðirnir sem þú gast keypt
á Íslandi
á þeim var alltaf sól

fyrir þrjátíu árum
alltaf sól

Íslendingar hafa lengi dregið upp
dregið upp
dregið
mynd
gagnvart öðrum

einu samfélögin sem þú gast keypt
á Íslandi
var hægt að túlka sem ákveðna menn
sem ákveðna
sem

þrjátíu ár
samfélög sem þú gast keypt
í þrjátíu ár

Einu mennirnir sem þú gast keypt
á Íslandi
þegar menn eru að kaupa menn
á Íslandi
þá sýna menn, þá sýna menn sitt besta

þá sýna menn
þá sýna menn
þá sýna menn

sitt besta

sitt besta