Þýðing: Eiríkur Örn Norðdahl

Úr stafrófinu eftir Inger Christensen

8

hvíslið er til, hvíslið er til,

haustið, heimssagan, og halastjarna

Halleys; herskararnir eru til, hjarðmúgurinn,

höfðingjarnir, holurnar, og inni í holunum

hálfskugginn, inni í hálfskugganum af og til

hérarnir, af og til laufskrúð fyrir holunum þar sem

burknarnir eru til; og brómber, brómber,

af og til hérarnir í skjóli laufskrúðsins

og húsagarðarnir eru til, garðyrkjulistin, yllisins

fölu blóm, kyrr einsog sefandi

sálmur; og hálfmáninn er til, hálfsilkið,

allt heila sólmiðjumistrið sem dreymt hefur

þessa elskulegu heila, heppni þeirra; og húðin

húðin og húsin eru til, Hades sem

hýsir hestinn og hundinn og dýrðarinnar

forsælu, vonin; og hefndarflóðið, hagl

undir grjóthimni er til, og hortensíunnar

hvítu, skærskínandi bláu eða grænleitu

svefnþokur, stundum ljósrauðu, stakir

skikar ófrjóir eru til; og fram undir

himinhvolfsins hallandi Harmageddón eitrið,

eiturþyrlunnar suðandi harpa yfir hjartarfa,

vegarfa og hör; hjartarfi, vegarfi

og hör, þessi síðasta launhelga skrift,

sem bara börn skrifa annars; og hveitið,

hveitið á hveitiökrunum er til, hveitiakranna

svimandi lárétta vitneskja, helmingunartímar,

hungursneyðir og hunang; og innst í hjartanu,

annað einsog alltaf bara innst í hjartanu,

rætur hesliviðsins, hesliviðurinn varnarlaus

á bjargi hjartans, harðger og nægjusamur,

uppsafnaður hversdagur úr orðum englanna;

hraðskreiður, hýasintískt í hnignun sinni lífið,

svo á jörðu sem á himni. ‘

Fyrstu sjö erindin má finna hér