Samtíminn er XXXXX

Um skáldsöguna Hans Blævi eftir Eirík Örn Norðdahl. Mál og menning gefur út. Útgáfuár 2018. Síðutal 335.


Um samtímann má segja að hann sé á reiki, að hann sé á sífelldu breytingaskeiði. Mörk hins eðlilega breytast frá degi til dags. Oft á tíðum mætti hafa á tilfinningunni að allt stýrist af einhvers konar geðþóttaákvörðunum. Sú er auðvitað ekki raunin, líklega ekki. Sé litið, ekki svo mörg ár, aftur í tímann var allt í fastari skorðum. Sennilega. Konan var heima við, sá um börnin, eldamennskuna og þrifin. Maðurinn vann fyrir heimilinu, datt í það og lumbraði á konunni ef hún var með múður. Börn fæddust annað hvort strákur eða stelpa, strákar voru klæddir í blátt, stúlkur í bleikt. Strákar hrifust af stelpum, stelpur hrifust af strákum. Samkynhneigð þekktist ekki nema kannski hjá Guðbergi Bergssyni. Ef einhver var svo óheppinn að fæðast sódó, eins og samkynhneigð var kölluð þá, og fór ekki í grafgötur með kynhneigð sína átti sá hinn sami á hættu að tekið yrði í lurginn á honum fyrir vikið.1 Var það talið réttlætanlegt, normal. Hörður Torfason gæti næsta víst frætt marga um þá tíma. Ef horft er til Íslands var landið kristið, kristin gildi voru í hávegum höfð, í anda Lots og dætra hans, og orðinu múslimi kunni að vera ruglað saman við orðið múslí. Hafi einhver vitað deili á öðrum trúhneigðum var næsta víst að sá aðili var þeirrar skoðunar að hin hneigðin væri álíka röng og mannsmorð (skipti þó máli hver lét lífið). Gyðingar voru samt ókei svo framarlega sem þeir voru í Ísrael, gasklefanum eða ofninum. Ekki er heldur svo langt síðan hörundsdökkt fólk var álítið skör lægra sett en bleiknefjar (sumir hafa að vísu ekki enn fengið skilaboðin um að svo sé ekki). Á Íslandi litaðist þetta mikið til af framandleikanum. Drengur einn fæddur 1975 hafði til að mynda einvörðungu séð einn litaðan mann (Ívar Webster) fyrir tíunda aldurárið og hafði ekki hugmynd um að karlmenn gætu gerst ástleitnir í garð annarra karlmanna né að konur gætu farið á konu. Að ekki sé nú talað um hópkynlíf og hjálpartæki ástarlífsins. Hefði þessi sami hnokki fengið veður af að eitthvað væri til sem kallaðist intersex, trans, tvíkynhneigð, BDSM, transkynkona, transkona, sískyngervi, epalhommar og svo framvegis og fengið útlistun á hugtökunum hefði hann líklega fengið taugaáfall. Enn verr hefði farið hefði hann fengið að vita að hann ætti að læra að elda og vaska upp svo og að úti í hinum stóra heimi borðaði fólk eitthvað annað en svið og slátur. Raunar á þessi drengur að líkindum enn í mestu erfiðleikum með þann nýja veruleika sem samtíminn býður upp á. Hann borðar samt pítsur flatbökur og taílenskan mat. Kannski á hann í svo miklum erfiðleikum að hann hefir dálæti á Donald Trump, Kim Jong-un, Vladimir Putin, Viktor Orbán, Gillzenegger og fleirum af því sauðahúsi og allt að því ímugust á Önnu Kristjáns, Friðriki Ómari og Barack Obama, að Völu Grand og femínistabeyglunum ógleymdum. Svo hlustar hann auðvitað bara á Bubba Morthens og Gylfa Ægisson og vill að Ísland sé fyrir Íslendinga og er þeirrar meiningar að allt hafi verið svo fínt fyrir EES, Samtökin 78 og ástandið svo og að erlent kjöt sé eitrað. Auðvitað! Þurfi hann svo að rúnka sér þá gerir hann það yfir myndum af brjóstmikum beibum, 100% kvenfólki og gerir það að sjálfsögðu einn heima undir sæng í öllum fötunum ekki á KitKatClub eða einhverjum viðlíka stað. Að sjálfsögðu fer hann með sjálfsflekkunina eins og mannsmorð…

En nú hefir margt fengið á sig annan blæ.

Ísland í dag. Tilfinning fyrir ástandi. Allt er mögulegt. Yfir öllu má reiðast. Yfir öllu má taka andköf. Auðvelt er að ausa úr skálum reiði sinnar yfir óréttlæti heimsins á internetinu. Það geta allir. Gildir þar einu hvort viðkomandi hneykslist á að boðið sé upp á typpasleikibrjóstsykur eða því að ekki sé nóg af typpasleikibrjóstsykri fyrir alla í gleðigöngunni, að boðið sé upp á BDSM og transkynningu í skólum eða að ekki sé boðið upp á slíka kynningu, yfir því að konur séu of heimtufrekar eða því að þær láti ekki nóg að sér kveða, yfir því að sum orð megi ekki lengur nota (óþarfa viðkvæmni) eða því að sum orð séu notuð (ekki nóg viðkvæmni), að talað sé opinberlega um meinta gerendur í nauðgunarmálum, að ekki sé talað um opinbera gerendur í nauðgunarmálum (reyndar er talað mikið um það þema). Svona má áfram telja en líkast til skiljum við fyrr en skellur í tönnum. Ef ekki þá er gáfnastigið ekki upp á marga fiska (má segja það?) og þá ættuð þið að láta það eiga sig að lesa áfram. Alltént. Lykilorðin í þessu samhengi eru mega og möguleiki, vaxandi möguleikar til að tjá sig um öll tabú heimsins (allavega í hinum vestræna heimi, hinir geta étið það sem úti frýs), rétturinn til að reiðast yfir hinu og þessu án þess (oftast) að það hafi í för með sér stórkostlegar afleiðingar, frelsið til að haga sínu lífi eins og maður vill og segja kynþáttahöturum, hommahöturum, kvenhöturum, karlhöturum og Hatara að hoppa upp í rassgatið á sér. Slíkt hefði verið vandkvæðum bundið þegar áðurnefndi drengurinn var að vaxa úr grasi. Auðvitað er enn æskilegra að konur gæti orða sinna. Tilgangurinn hér helgar samt meðalið.

Það vill nefnilega svo til að orðfærið í skáldsögunni, sem er hvatinn að þessum skrifum, er oftlega fyrir neðan þind, óvægið, miskunnarlaust, klámfengið. Orðfæri sem sannlega er, eða ætti að vera, efniviður í andköf, hneykslunarhellu, fordæmingu, úlfúð. Næsta víst hefði bókin verið brennd hefði hún komið út anno Domini 1933, kannski jafnvel 1975. Bókin hefir að vísu enn burði til þess að vera umdeild og raunar má hneykslast á því að verkið sé ekki umdeildara, að það sé ekki meira á milli tannanna á fólki, að Jón Valur Jensson og Margrét Friðriksdóttir skuli ekki standa fyrir opinberri brennu á verkinu. Ótrúlegur helvítis andskoti sem það er! Aukinheldur ættu Samtökin 78 og Trans Ísland að stuðla að því að Ísafjörður (heimabær höfundar) verði sniðgenginn uns bókin verði sniðin að kröfum allra kynja heimsins. En þau eru samkvæmt umræddri bók 43.046.721 talsins (bls. 289).


Allajafna myndi hér fylgja lýsing á söguþræði bókar, hér ætti að vera talað um stíl, notkun persónufornafna, frásagnarform, sögutíma, sögusvið, sögumann, söguhöfund etc. Hafa mætti orð á ofhlæði, ranti, mótsagnakenndum langdregnum runum (slíkt kallast reyndar mjög vel á við samtímann en getur reynt á þolrif lesenda), að bókin atarna eigi máski eitthvað sammerkt með Hatara, að nafnið Hans sé stytting á Hannes eða Jóhannes og að kvenkyns útgáfa orðsins sé Hanssína, að Blær megi bæði nota fyrir besefa og láfur, hvað það sé að vera á rófinu eða hvernig aðalpersóna sögunnar, Hans Blær sé á rófinu, intersex, karl (stundum), kona (stundum eða eitthvað þar á milli, tala mætti um skurðaðgerðir í Taílandi, eiturlyfjanotkun aðalpersónunnar, netfrægð hennar, toll, nettröll, lygar í sannleika, sannleika í lygi og svo framvegis og svo framvegis.

Um verkið mætti hafa mörg orð. Það verður þó látið vera (sannlega þyrfti og ætti að hafa um þetta mörg orð, en orð kosta tíma og orð kosta (ættu að) pening). Skal látið nægja að segja að hér sé verk á ferð sem speglar margar hræringar samtímans, verk sem hafa má á hornum sér, verk sem hefja má upp til skýjanna, verk sem henda má á bálið. Þetta er verk sem ætti að hafa áhrif, neikvæð eða jákvæð, á kynfæri, heila, sál og saur. Raunar ætti þetta verk sannlega að vera meira í umræðunni. Þannig er það.

   [ + ]

1. Það er haft fyrir satt að slíkt þótti mikið sport á Íslandi í eina tíð að finna homma til að lemja.