Við lifum enn í þögulli örvæntingu

Walden

Í frægu verki sínu Heimspeki sem lífsmáti setur franski heimspekingurinn Pierre Hadot fram áhugaverða greiningu sína á heimspeki í fornöld. Í stuttu máli er greining hans sú að heimspekihefðin sem á uppruna sinn hjá Sókratesi hafi falist í athöfn sem snerist fyrst og fremst um andleg málefni sjálfsins. Heimspekiástundun var þannig æfingar og leiðir til að umbreyta og bæta einstaklinginn – eitthvað sem gert var í gegnum samræðu fyrst og fremst. Slík heimspeki er auðvitað nokkuð framandi þeim skilningi sem lagður er í hugtakið í dag. Óhætt er að segja að hann einkennist fyrst og fremst af akademíu og störfum innan hennar: lestur, skriftir, kennsla, fyrirlestrar, o.s.frv. Slíka heimspeki, eða vísi að henni a.m.k., mátti þó einnig finna í fornöld, en stóru heimspekingarnir eins og Platon og Aristóteles voru auðvitað duglegir að stofna akademíur. Það var þó þessi heimspeki sem hafði yfirhöndina og var mest lifandi á götum og torgum Aþenu og víðar í hinum helleníska heimi, t.d. í gegnum skóla og stefnur eins og epíkúrisma, stóuspekina, efahyggjuna, o.fl. Á miðöldum helst hún að einhverju leyti á lífi í gegnum hina ýmsu trúarsöfnuði kristninnar á fyrstu öldum hennar (auk ýmissa gnostískra hópa o.fl.). En Hadot vill meina að þegar komið sé fram á nýöld hafi hlutirnir snúist við. Heimspekin hörfar þá smám saman inn fyrir veggi háskólanna þar sem hún hefur haldist þar til í dag. Með nokkrum mikilvægum undantekningum þó, Hadot nefnir t.d. Wittgenstein og Foucault sem heimspekinga sem eru hliðhollari þessari hefð en hinni akademísku.

Henry David Thoreau er annar sem ég vil meina að hægt sé að skilja innan þessarar hefðar, en stórvirki hans Walden: eða lífið í skóginum hefur nýlega verið gefið út af Dimmu forlagi í þýðingu Elísabetar Gunnarsdóttur og Hildar Hákonardóttur.

Það er þó sjaldan sem Thoreau er veitt athygli sem heimspekingi fyrir utan Bandaríkin. Sem sagt að hann hafi eitthvað sérstakt af mörkum að leggja til heimspekinnar. Það er þá í mesta lagi að rit hans Civil Disobedience sé rætt innan stjórnmálaheimspeki. En að Walden sé lesin sem heimspekirit er mjög sjaldgæft. Jafnvel það eru ýkjur. Ég hef einu sinni séð Thoreau ræddan af alvöru af heimspekingi sem ekki var bandaríkjamaður (hann lærði þó í Bandaríkjunum!). Þar er hann þó auðvitað bæði kenndur og ræddur innan heimspekideilda. Hann er t.d. einn helsti áhrifavaldur ekki minni heimspekings en Stanley Cavell.

Þetta á svo sem við um aðra höfunda sem Thoreau er skyldur. Læriföður hans Ralph Waldo Emerson til dæmis. Montaigne (meira um hann neðar). Pascal jafnvel stundum. Kannski Kierkegaard að vissu leyti, en það breytir þó engu fyrir hann. Stærð hans brýtur alla flokka hvort sem er. En þeir virðast lenda á einhverju svæði milli bókmenntanna og heimspekinnar og eru skiptar skoðanir um hvaða flokki þeir tilheyra mest. Þessir höfundar, ásamt mörgum heimspekingum sem tilheyra hefðinni sem ég ræddi ofar eins og Markús Árelíus, eru oft settir í einhvern óljósan flokk vísdóms- eða andlegra bókmennta (e. wisdom/spiritual literature) í bókabúðum. Oft hefur maður séð nútíma sjálfshjálparbækur á sama stað. Fólk sem gerir slíkt á auðvitað bara að skjóta á staðnum.

En jæja, við komum aftur að þessu í lokin.

Henry David Thoreau er einn stærsti og ástsælasti rithöfundur Ameríku. Hann átti sér marga gagnrýnendur á meðan hann lifði sem hvorki botnuðu í né höfðu þolinmæði fyrir uppátækjum hans. Ásamt Louisu May Alcott var hann einn af helstu fylgjendum og boðberum transcendentalista hreyfingarinnar sem Ralph Waldo Emerson kom á fót og var guðfaðir yfir. Sú hreyfing átti uppruna sinn í nauðsyn þess að skapa Ameríku sína eigin menningarlegu sérstöðu og skilja hana frá evrópskri menningu sem öllu réði þar langt fram á 19.öld. Emerson hamraði á mikilvægi þessa í klassískum fyrirlestrum sínum og boðaði grunnhugmyndir transcendentalismans. Hann er þó ekki laus við evrópsk áhrif, en segja mætti að hann sé bara í rauninni útgáfa af ensku rómantíkinni. Með séramerískum einkennum þó. Þar er það helst hin róttæka einstaklingshyggja, hálf-fanatísk áhersla á mikilvægi þess að vera sjálfum sér nægur (e. self-reliance). Þar fyrir utan er hann í raun trúarhreyfing sem er þó mjög fjandsamleg trúarbrögðum. Trúariðkun, að komast í samband við guðdóminn, er innra með einstaklingnum, eitthvað sem hann tekur sér fyrir á eigin spýtur. Til dæmis með að flytja í kofa úti í skógi og finna hið guðdómlega í náttúrunni.

Þessar hugmyndir eru því undirliggjandi verki Thoreau. Eins og hann útskýrir ástæður sínar fyrir skógarævintýrinu:

Ég flutti út í skóg vegna þess að mig langaði að lifa af ráðnum hug, til að standa aðeins andspænis grundvallarstaðreyndum lífsins og til að sjá hvort ég gæti ekki lært það sem lífið hefði að kenna mér og komast ekki að því á dauðastundinni að ég hefði aldrei lifað. (bls.100)

Samanstendur verkið þannig af ítarlegum lýsingum hans á þessari dvöl sinni, kofanum sem hann byggði, daglegu lífi þar sem hann sýnir mikla útsjónar- og nægjusemi, fallegum lýsingum á náttúrunni allt í kring, ásamt því að hann rekur vissa kafla úr ævi sinni. Hann sýnir svo mikinn metnað að hann fer meira að segja með lesandann í gegnum bókhaldið sitt ásamt því að reiða fram ýmsar mataruppskriftir sem henta við slíkar aðstæður. Stór hluti bókarinnar er þó lagður undir gagnrýni hans á samfélaginu og því lífi sem það býður fólki upp á ásamt ýmsum vangaveltum um trúarleg og heimspekileg efni. Frægasta setning bókarinnar er fullyrðing hans um að „Flestir lifa lífinu í þögulli örvæntingu“ (bls. 18). Hann hvetur því fólk til að tileinka sér einfaldari og hægari lifnaðarhætti, vera vakandi og taka eftir umhverfi sínu. Er Walden þannig einnig á vissan hátt handbók fyrir fólk sem hefur áhuga á því.

Það virðist líka ekki vera neinn skortur á slíkum áhuga. Walden er og hefur verið gríðarlega vinsæl. Miðað við óhefðbundið efni hennar og form er raunar nokkuð ótrúlegt að slíkt bókmenntaverk frá miðri 19.öld skuli njóta slíkrar hylli og slíks lestrar enn í dag (þótt heyrst hafi að stór hluti þessa aðdáendahóps byggi áhugann meira á örfáum tilvitnunum úr henni sem þeir hafa rekist á frekar en að þeir hafi raunverulega lesið bókina…).

Ástæðan fyrir þessum vinsældum eru auðvitað nokkrar. Thoreau er fyrst og fremst frábærlega hnyttinn og skemmtilegur rithöfundur. Walden er stútfull af húmor og lúmskum bröndurum. Á sama tíma ræðir hann um mjög djúp samfélagsleg, trúarleg og andleg efni á áhrífaríkan hátt. Hann á það til að hitta beint í mark hjá lesendum. Það er þó líklega ekki stærsta ástæðan. Þessi tilraun hans, að lifa einföldu og nægjusömu lífi upp á eigin spýtur fjarri öllu og öllum, er eitthvað sem snertir virkilega einhverja djúpa taug hjá mörgum. Þetta sést líka í gríðarlegum vinsældum bókar Jons Krakauer Into the Wild fyrir nokkrum árumen Thoreau og Walden komu einmitt fyrir í henni líka (Sean Penn leikstýrði myndinni árið 2007). Að einhverju leyti er þetta kannski bara afleiðing leiðinda og tilbreytingarsnauðs lífs: sammannleg þörf fyrir ævintýramennsku, ásamt aðdáun á fólki sem lætur verða af því og gerir eitthvað óhefðbundið sem krefst hugrekkis og staðfestu.

Ég tel þó að veigamesta skýringin sé einmitt sú sem Thoreau bendir á: að fólk lifi upp til hópa einmitt í þögulli örvæntingu. Sú örvænting er ekki einungis enn til staðar í dag, heldur verður hún sífellt háværari. Í vestrænum samfélögum nútímans finnur sístækkandi hópur fólks sig firrt frá náttúrunni (á skala sem Thoreau hefði ekki getað dreymt um), frá samfélaginu og frá sér sjálfum. Reyndar er eitt vandamál þarna sem er mun stærra í dag en þegar Walden var skrifuð og það er einmanaleiki. En í löndum eins og Bretlandi og Bandaríkjunum er farið að tala um farald sem er löngu kominn á krísustig. Þessi tilraun Thoreau er því kannski í sjálfri sér ekki eins heillandi fyrir alla í nútímanum. En Walden býður þó einnig uppá tímalausa innsýn og þekkingu sem höfðar til allra.

Ekki eru allir jafn hrifnir af sérviskusama vitringnum. Síðustu ár hafa átt sér stað þónokkrar deilur um ágæti hans og Walden á síðum bandarískra bókmenntatímarita. Voru þær auðvitað sérstaklega líflegar á tvö hundruð ára afmæli hans á síðasta ári. En af þessari umræðu verður að nefna grein Kathryn Schulz í The New Yorker frá 2015 þar sem hún í löngu máli ræðst á Thoreau af fádæma hörku og jafnvel hreinni andúð (greinin ber titilinn „Pond Scum“ hvorki meira né minna). 1 Eins og áður segir hefur Thoreau ávallt verið fádæma ástsæll, því vakti slík meðferð þó nokkra athygli sem leiddi í kjölfarið til deilna og umræðna þar sem gagnrýnendur tóku ýmist til varnar eða bættu í.

Af þeim langa lista yfir hluti sem Schulz finnur Thoreau og Walden til foráttu má nefna fyrst og fremst að hún telur hann einfaldlega vera lélegan rithöfund. Eða í besta falli stórlega ofmetinn. Hún kallar hann svo hræsnara og loddara og rekur þá frægu staðreynd að – þrátt fyrir að hann segi það ekki beinlínis berum orðum – hann lætur líta út fyrir að hann sé staddur út í einhverjum óbyggðum lengst frá allri mannabyggð. Sannleikurinn var hins vegar sá að kofinn var ekki í meira en smáspöl frá næsta bæ. Tjörnin sem verkið dregur nafn sitt af er bókstaflega í bænum. Ofan á það var einsemdin og einangrunin ekki meiri en svo að kofinn var á landareign Emerson og þeir heimsóttu hvor annan reglulega. Það sem toppar allt er svo að mamma hans sá um þvottinn fyrir hann. Schulz einblínir að öðru leyti á persónu hans og kallar hann sjálfumglaðan narsissista sem vissi ekkert um annað fólk og örvæntingu þeirra, skeytti engu um það í þokkabót og segir allt verkefnið byggt á arfavitlausri þráhyggju sem engan lærdóm ætti að draga af. Það sem vekur athygli er að Schulz er þekkt fyrir skrif sín um umhverfið og náttúruvernd í þokkabót – en Thoreau er jafnan í miklum metum meðal umhverfisverndarsinna vegna magnaðra skrifa sinna um náttúruna í Walden.

Aðrir gagnrýnendur hafa þrætt fyrir þessa lýsingu á Thoreau á ýmsan hátt, benda t.d. á önnur skrif hans þar sem hann lýsir djúpri samkennd með öðru fólk á listilegan hátt. Það sem mér finnst athugavert við þessa gagnrýni Schulz er kannski aðallega tvennt: í fyrsta lagi hafði Thoreau eflaust marga slæma eiginleika. Hann var flókin persóna, fullur af mótsögnum og vandamálum. Er við öðru að búast af manni sem getur skrifað verk eins og Walden? Hún virðist vera föst í þessari algengu og þreytandi gryfju að listamenn geti einungis verið dýrlingar eða illmenni. Ef við komumst að því að þeir séu ekki hið fyrra (sem er oftast af einhverjum ástæðum sjokkerandi) þá fara þeir beint í hinn. Hvaðan kemur þetta? Fólk með svo lítinn mannskilning ætti kannski bara að halda sig frá bókmenntum og list.

Því þessi nálgun á verkið er meingölluð: að lesa það eins og það snúist um hann, sögulegu persónuna Henry David Thoreau. Walden fjallar ekki um hann, ekkert frekar en Song of Myself fjallar um Walt Whitman. Hér er um bókmenntaverk að ræða, og það skal lesin sem slíkt. Ég held að svona gagnrýni hefði aldrei getað komið fyrr en einmitt núna nýlega, í menningarástandi þar sem allt yfirflæðir af endurminningum og sjálfsævisögum sem fylla vinsældarlistanna. Þegar það eina sem fólki er farið að detta í hug að skrifa um er sjálft sig, og les aðeins um annað fólk ef það er fullvíst um að þar sé fjallað um „raunveruleikann“ en ekki sé um skáldskap að ræða, þá er það kannski óhjákvæmilegt að bókmenntaverk verði einnig lesin á sama hátt? Eða kannski er Schulz einfaldlega lélegur lesandi.

Hún er allavega úti á túni þegar hún kallar Thoreau lélegan rithöfund. Stíll hans er frábær og röddin einstök í bókmenntasögunni. Hann er oftast borinn saman við Montaigne sem er að vissu leyti skiljanlegt. Báðir hafa sjálfsþekkingu og sjálfsrækt að markmiði í verkum sínum sem einkennast af fjölbreyttum vangaveltum um alls kyns efni, einkum þó trúarlegum og heimspekilegum. Hann aðhyllist einnig einhverja gerð af efahyggju, þó hún sé ekki eins róttæk og sú sem kennd er við Montaigne. Það sem vakti sérstaka athygli mína, hafandi tiltölulega nýlega lesið Montaigne, og lesið svo Walden aftur núna, er hversu tíðrætt þeim báðum er um frumbyggja. Nú er ég ekki viss um hvort þetta er eitthvað sem Thoreau tekur meðvitað frá honum, en báðir nota þeir menningu og siði frumbyggja til að varpa gagnrýnu ljósi á sína eigin. Með mikilvægum mun þó. Því Thoreau virðist falla í gryfju rómantísku (og rasísku) hugmyndarinnar um göfuga villimanninn (e. the nobel savage) sem ósnertur er af siðmenningu og lifir á einhvern náttúrulegri hátt, í sátt og samlyndi við umhverfi sitt í fullkomri hamingju. Það er þó enginn alvarlegur löstur fyrir Thoreau, slíkt er auðvelt að fyrirgefa rithöfundi frá því um miðbik 19.aldarinnar í Bandaríkjunum. Montaigne hins vegar, sem var uppi þegar könnun nýja heimsins var rétt að byrja, skildi málin á svolítið annan og áhugaverðan hátt. Á tímabili í sögunni þar sem svo gott sem allir litu á frumbyggja N-Ameríku sömu augum og dýr (ef það var þá svo gott) las Montaigne af gríðarlegum áhuga allar þær skýrslur, dagbækur og lýsingar könnuða sem hann mögulega komst yfir – eitthvað sem hann hafði töluvert fyrir að verða sér úti um. Niðurstaða hans var sú að þar væri hvorki um guð- og skynlausa „villimenn“ að ræða, né einhverja óspillta frumútgáfu af manninum. Hann áttaði sig einfaldlega á því að þarna var um fólk að ræða, sem rétt eins og þjóðin sem hann tilheyrði samanstóð af alls kyns einstaklingum. Að það fólk var gott og slæmt og allskonar, hvorki betra eða verra en annað. Þetta er nokkuð áhugavert afrek. Sérstaklega þegar maður hugsar til þess að stór hluti íbúa Vesturlanda í dag, með stöðugan aðgang að öllum heimsins upplýsingum og þekkingu, er ekki fært um það sama þegar kemur að vissum hópum fólks. En þetta var smá útúrdúr.

Þeir voru líka mjög ólíkar persónur. Thoreau var alþýðumaður sem þurfti að vinna fyrir sér í alls kyns störfum (hann hefur þó verið sakaður um að ýkja fátækt sína og slæmar aðstæður nokkuð). Montaigne var hins vegar auðvitað sterkefnaður og ofdekraður yfirstéttamaður sem gat bara lokað sig af í kastalanum sínum og helgað líf sitt skrifum þegar honum flaug það í hug. Ég ætla ekki að fullyrða um að hvaða miklu leyti það spilar inní, en þrátt fyrir að Thoreau sé frábær rithöfundur, þá er hann töluvert langt frá snilligáfu Frakkans og allir samanburðir sem leggja þá að jöfnu á villigötum. Það er þó engin gagnrýni á Thoreau, verk þeirra eru líka gjörólík og of mikið gert úr þessum líkindum sem ég nefndi ofar. Montaigne er í deild alveg útaf fyrir sig.

Komum aftur að því sem við ræddum í byrjum: hvernig hægt er að sjá Thoreau sem heimspeking og verk hans sem heimspekirit. Hann setur vissulega ekki fram neinar heimspekikenningar eða kerfi í neinum hefðbundnum skilningi. Hann er heldur ekki mikið að gagnrýna og eiga í samræðu við aðra heimspekinga og söguna (hann vitnar þó oft í fyrri tíma hugsuði). Vangaveltur hans og gagnrýni er um víðan völl, og oft ætlaðar frekar til að stuða og vekja til umhugsunar, frekar en eitthvað sem hann trúir sjálfur og heldur fram í fullri alvöru með ítarlegum rökstuðningi (slík retórík og írónía minnir auðvitað mikið á Kierkegaard). En hann ber mörg einkenni þess sem Hadot átti við með heimspeki sem lífsmáta. Thoreau var einstaklingur sem sýndi heimspekina í sínu daglega lífi og reyndi að lifa eftir henni. Hann var endalaust forvitinn um umhverfi sitt, sigldi óhikað á móti straumnum ef sannfæring hans kallaði eftir því, reyndi sífellt að þekkja sjálfan sig betur og bæta sig (mistókst þó auðvitað oft), en síðast en ekki síst: hann reyndi að vekja aðra til umhugsunar og hefur gefið óteljandi einstaklingum innblástur og hvatningu til að rannsaka og bæta sjálft sig. Það er heimspekingur í allra hæsta gæðaflokki og Walden er rík auðlind heimspekilegra hugmynda og vangaveltna.

Það er ekkert annað en frábært að Walden sé loks komin út í þýðingu og orðin aðgengileg íslenskum lesendum. Þýðingin er mjög vandlega unnin og bókin sjálf í fallegri útgáfu sem gerir hana að aðlaðandi safngrip. Ég ýki ekkert þegar ég segi hana vera skyldulesningu. Að dvelja í kofanum við tjörnina í Concord með Thoreau er einfaldlega ferðalag sem allir verða að taka a.m.k. einu sinni.

   [ + ]