Reitt skáld, beitt með köflum

Haugabrim – Ljóð eftir Stefán Sigurðsson
Orðastaður ehf gefur út.

Ég verð að viðurkenna að þegar ég byrjaði að lesa ljóðabókina Haugabrim varð ég svo pirruð á stílnum að ég lét hana frá mér í fússi tvisvar með velgju yfir yfirdrifnu myndmálinu og tilgerðinni. Ég átti erfitt með að halda þræði í orðbylnum sem virtist raðað í línur ekki eftir hrynjandi heldur hvað leit best út á blaðsíðunni. Helvítis. ´Ég meina það eru ljóð hér eins og Griðarstaður sem er bara „Áð / Ró.“ Kommon!

En svo las ég hana aftur. Reyndi að lesa í einum rikk, ekki eftir línuskiptingu. Það hjálpaði. Og einu sinni enn, þvingaði mig til að gefa þessu öllusaman meiri séns, reyna virkilega að rýna til gagns (hvað sem það þýðir). Hvað var skáldið að vilja? Kom þá sitthvað snjallt í ljós. Innilokun og Útilokun eru, til að mynda, tvö ljóð sem kallast á og mynda sterka sýn á ástand, einhverskonar hvirfilbyl sem tvinnast saman og þyrlast um lesandann. Rómatík ehf. fangar kapitalískt mentalitet og gegnumsýringu. Sjónvarpshöfuð lýsir upplýsingaöldinni miklu sem við lifum á um leið og að gagnrýna hana á beinskeittan máta. Að loknu dagsverki og Sístreymi eru snotur, það síðara bæði fallegt og beitt. Orð er eins og góð byrjun á leiðara, það er ljóst að skáldinu liggur mikið á hjarta en stundum er eins og formið eigi ekki alveg við. Áhugaverðar pælingar engu að síður og greinilegt að Stefán hefur góð tök á tungumálinu.

Öðru er ég ekki eins hrifin af. Miðborgin okkar flæðir yfir af svo miklum ofsa og fyrirlitningu að myndmálið gleypir sjálft sig og lesandinn situr uppi með hugmynd af villuráfandi unglingi en í stað þess að tengja þá mynd við Reykjavík sér hún fyrir sér Stefán. Svolítið eins og John Osborne eða Dagur Sigurðarson i den er hér ungur reiður maður á ferð, og eins og hjá Osborne er ástand fangað, en án húmorsins sem Dagur réð yfir. Langt niðurbælt örvæntingaróp gefur til kynna viðhorf hans, svartsýnn er hann, pólitískur, andsnúinn peningagræðginni og ljóðið les ég eins og ákall til fátæklinga heimsins, en eins og flest ljóðlist virðist kallið koma frá sjónarhóli þess sem hefur forréttindi umfram þá sem hann vill hreyfa við. Líf með fyrirheit segir kannski betur hvað skáldinu liggur á hjarta, við höfum val um að bæta heiminn, lifa betur, en neitum okkur um það. Það má alveg taka til sín, og yfir það heila er hér fullt sem hreyfir við og lýsir nútímanum, en það væri kannski auðveldara að heyra boðskapinn ef ekki væri kallað yfir haf töffaraskaps og tilgerðar.