Halldór Laxness skrifaði stóran hluta Vefarans mikla frá Kasmír í Taormina á Sikiley. Þar bjó á fyrstu áratugum 20. aldar þýski ljósmyndarinn Wilhelm von Gloeden, sem er þekktastur fyrir hómóerótískar myndir af sikileyskum piltum.

Úr Stund klámsins: Feimnismálin. Hvaða erindi eiga þau inn í bókmenntirnar?

Millistríðsárin voru tími pólitískra og menningarlegra átaka á Íslandi. Borgarmenning undir erlendum áhrifum var að skjóta rótum í Reykjavík og árið 1925 skrifaði Halldór Kiljan Laxness, sem frægt er orðið, að höfuðstaðurinn hefði nú „í skjótri svipan eignast hvað eina, sem heimsborg hentar, ekki að eins háskóla og kvikmyndahús, heldur einnig footboll og hómosexúalisma“. Halldór tók sér gjarnan stöðu sem málsvari nútímalegra hugmyndastrauma og erlendra siðmenningaráhrifa í menningarumræðu þessara ára. Árið 1927 gaf hann út þá skáldsögu sem oft er talin marka upphaf íslenskra nútímabókmennta, Vefarann mikla frá Kasmír, en hún fjallar um glímu aðalsöguhetjunnar Steins Elliða við að staðsetja sig í hugmyndafræðilegu umróti tímans. Í háfleygum hugleiðingum hans um hlutverk konunnar og samskipti kynjanna mátti finna ýmsar sláandi fullyrðingar. Hann bar saman hlutverk eiginkonunnar og hórunnar og komst að þeirri niðurstöðu að báðar þjónuðu þær sama tilgangi (það er fyrir karlmanninn) en önnur væri fastráðin, hin ekki. Annars staðar sagði að kynvillan væri æðsta stig kynferðislegrar fullnægingar vegna þess að þá væri kynhvötinni, æðstu gleði mannsins, svalað án þess að af henni fæddust nýir menn.

Þessir kaflar vöktu athygli Jónasar frá Hriflu, eins af atkvæðamestu mönnunum í íslenskum menningarstjórnmálum á fyrri hluta 20. aldar. Jónas tók saman nokkrar eldfimar klausur úr Vefaranum mikla frá Kasmír og birti í Tímanum með kaldhæðnislegum athugasemdum um andríki höfundarins. Daginn eftir var í Morgunblaðinu bent á samantekt Jónasar á nokkrum „af svæsnustu klámyrðum Kiljans“ og hnýtt við: „Rógtungan smjattar á kláminu.“ Þessu reiddist Halldór og hugðist stefna Morgunblaðinu fyrir meiðyrði en féllst á að draga það til baka á þeim forsendum að pillunni hefði verið beint að Jónasi en ekki honum sjálfum. Halldór neitaði því „eindregið og ákveðið, að nokkuð komi fyrir frá upphafi til endis bókar minnar, Vefarinn mikli frá Kasmír, sem nálgast það að geta heimfærst undir klám.“ Í bréfi til vinar síns Jóns Helgasonar bætti hann þó við: „Annars hefur hjal þetta ekkert smávegis auglýsíngagildi.“

Eftir því sem leið á 20. öld varð það smám saman viðtekin skoðun á Vesturlöndum að bersögul sviðsetning og vísanir til kynferðismála væru undir vissum kringumstæðum ásættanlegar, jafnvel æskilegar. Farið var að meta listrænt eða vísindalegt gildi bersögulla verka þeim til tekna. Flokkarnir „list“ og „klám“ voru taldir útiloka hvor annan; sönn list gæti ekki verið klámfengin og raunverulegt klám gæti ekki verið listrænt. Einn bandarískur dómari orðaði það svo að á meðan listin væri fyrir listina væri klám „skíturinn fyrir skítinn“, dirt for dirt‘s sake. Walter Kendrick lýsir því svo að saga kláms á 20. öld hafi verið „yfirþyrmandi og vonlaus viðleitni við að sortera verðmætin frá ruslinu“. Flestir voru sammála um að ritskoða ætti „raunverulegt“ klám – spurningin var bara hvernig ætti að skilgreina það.

Enski rithöfundurinn D.H. Lawrence var til dæmis sakaður oftar en einu sinni um að brjóta gegn almennu velsæmi. Skáldsaga hans The Rainbow var gerð upptæk og brennd í London árið 1915 og Elskhugi lady Chatterley var ritskoðuð víða um lönd. Lawrence fór ófögrum orðum um ritskoðara sinna eigin bóka – kallaði þá „ritskoðunarhálfvitana“ – en í greininni „Pornography and Obscenity“ frá 1929 lýsti hann hins vegar yfir fullum stuðningi við ritskoðun á raunverulega klámfengnu efni:
En jafnvel ég myndi ritskoða raunverulegt klám, og það rækilega. Það væri ekki sérlega erfitt. Í fyrsta lagi þrífst raunverulegt klám næstum alltaf neðanjarðar, það kemur ekki fram í dagsljósið. Í öðru lagi getur maður þekkt það á því hvernig það smánar undantekningalaust bæði kynlífið og mannsandann.

Klám er tilraun til þess að smána kynlíf, til að skíta það út. Það er ófyrirgefanlegt. Tökum sem dæmi lágkúrulegustu birtingarmyndir þess, myndapóstkortin sem eru seld undir borðið, í undirheimunum, í flestum borgum. Þau sem ég hef séð hafa verið svo ljót að mann langar til að gráta. Óvirðingin við mannslíkamann, óvirðingin við þessi lífsnauðsynlegu mannlegu tengsl! Þau gera mannlega nekt ljóta og ódýra, þau gera kynmökin ljót og einskis virði, ómerkileg, ódýr og andstyggileg.
Það voru ekki bara myndapóstkortin sem Lawrence þóttu ljót og klámfengin. Um einræðu persónunnar Molly Bloom undir lok Ódysseifs (Ulysses) eftir James Joyce, bókar sem lenti í „ritskoðunarhálfvitunum“ á svipuðum tíma og Elskhugi lady Chatterley, skrifaði hann: „Hún er það sóðalegasta, klúrasta, siðlausasta sem hefur verið skrifað. Hún er ógeðsleg.“

Elskhugi lady Chatterley var fyrst þýdd á íslensku árið 1943 af manni sem Jón Yngvi Jóhannsson hefur lýst sem „einhvers konar D.H. Lawrence norðursins“, Kristmanni Guðmundssyni, en hann skrifaði melódramatískar sögur um ástir fólks og sálarlíf sem sumum þóttu í djarfari kantinum. Kristmann ákvað þó að stytta bók Lawrence um ýmislegt sem honum þótti ekki koma efninu við, þar á meðal nokkuð af kynferðislegu lýsingunum. Bókin var gefin út af Víkingsútgáfunni í Reykjavík, eða öllu heldur „prentuð sem handrit“, en það bragð var stundum notað til að koma í veg fyrir ritskoðun bóka þar sem því var haldið fram að ekki væri um raunverulega útgáfu að ræða. Fremst í bókinni kom fram að hún yrði „ekki höfð til sölu í bókaverzlunum“ og hana mætti „ekki auglýsa né sýna í búðargluggum, og ekki má afhenda hana neinum yngri en 18 ára“. Það er ekki ljóst hvort þessir varnaglar voru einhvers konar sölubrella af hálfu útgefandans, Ragnars Jónssonar í Smára, eða hvort hann hafði raunverulega áhyggjur af því að yfirvöld myndu bregðast illa við útgáfunni. Jónas frá Hriflu hafði lýst yfir opinberri andstöðu sinni við útgáfu verksins tveimur árum áður en hún kom út en hann taldi að bókin væri sálsjúkur dónaskapur.

Það voru vissulega skiptar skoðanir um ágæti bersögulla kynferðislýsinga í opinberu prentmáli, jafnvel þótt þær væru settar fram innan ramma viðurkenndra fagurbókmennta eða fræðslu. Skáldið Guðmundur Friðjónsson frá Sandi lagði til dæmis áherslu á að rithöfundar bæru virðingu fyrir þeirri helgi sem ríkti yfir nánustu samskiptum manns og konu. Umfjöllun um slíkt þyrfti að vera söguleg nauðsyn og innihalda meiri áherslu á það sem fram færi ofar þindar en neðar. Í grein sinni „Feimnismálin. Hvaða erindi eiga þau inn í bókmentirnar?“ frá 1931 gagnrýndi Guðmundur óþarfa bersögli nafna síns Guðmundar Kamban í fyrsta bindi skáldsögunnar Skálholt en bókin fjallar um Brynjólf Sveinsson, biskup í Skálholti á 17. öld, Ragnheiði dóttur hans og barneign hennar utan hjónabands. Guðmundur hrósaði hins vegar verkum höfunda á borð við Gest Pálsson þar sem í þeim væru engir ónauðsynlegir „þankastriks-viðburðir né punkta-æfintýr“.

Guðmundur frá Sandi beindi spjótum sínum einnig að þeim kynfræðslubókum sem komið höfðu út á íslensku undangengin ár. Íslenskir læknar höfðu byrjað að gefa út forvarnarit gegn kynsjúkdómum á öðrum áratug 20. aldar. Á þriðja og fjórða áratugnum komu síðan út nokkrar bækur um stýringu barneigna og almenna kynfræðslu, bæði þýddar og frumsamdar, og fóru íslenskar menntakonur fremstar í flokki við útgáfu þeirra. Dýrleif Árnadóttir þýddi Heilsufræði hjóna og fleiri bækur eftir Kristiane Skjerve úr dönsku og Björg C. Þorláksson, fyrsti íslenski kvendoktorinn, þýddi Hjónaástir Marie Stopes. Árið 1931 flutti kvenréttindakonan og sósíalistinn Katrín Thoroddsen læknir frægan fyrirlestur um takmarkanir barneigna og gaf hann út undir titlinum Frjálsar ástir.

Aðkoma kvenna að útgáfu þessara bóka gæti hafa ýtt undir andúð Guðmundar á bersögli þeirra. Viðauki Hjónaásta eftir Marie Stopes taldi hann að gengi út á „svo blygðunarlausar lýsingar og umsagnir, að yfirstígur allt, sem eg hefi heyrt í gangnamannakofum og sjóbúðum“. Staðirnir sem Guðmundur vísar til sem viðtekins vettvangs blygðunarlausra kynferðislýsinga eru fyrst og fremst rými karla þar sem lögð var rækt við gamlar hefðir kláms, níðs og kerskni. Kynfræðslubækurnar sem fyrrnefndar konur þýddu og skrifuðu tilheyrðu hins vegar öðru rými en kveðskapur gangnamannakofa og sjóbúða; almennu, opinberu og ókynbundnu.


Kristín Svava Tómasdóttir er sagnfræðingur og ljóðskáld. Hún hefur áður sent frá sér þrjár ljóðabækur, síðast Stormviðvörun árið 2015, en Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar er hennar fyrsta fræðiverk.