Ferðalag vitundar

Um ljóðabókina Skollaeyru

Skollaeyru eftir Guðrúnu Brjánsdóttur kom út hjá Gini ljónsins árið 2017. Framan á bókakápu er ritað „Gin ljónsins 001“. Þetta er sem sagt fyrsta og, enn sem komið er, eina bókin sem Ginið gefur út, en ég geri ráð fyrir að ætlunin sé (hafi verið?) að þetta sé jafnframt fyrsta bókin í seríu. Þá ef til vill til þess að þjóna svipuðu hlutverki og meðgönguljóð hafa til þessa þjónað, en þeirri seríu var slúttað nú í haust.

Þegar ég hafði lokið fyrsta lestri á bókinni var ég óviss um hvað mér ætti að finnast. Sum ljóðin virkuðu vel, ég tók eftir nokkrum myndum og þráðum sem koma aftur og aftur fyrir og ná að gera textann að samhangandi heild. Sum ljóðin las ég bara hratt í gegn og skildu lítið sem ekkert eftir. Ég festist svolítið í ritstjórnargír, langaði til að taka fram rauðan penna og leggja til að höfundur sleppti stökum línum og í einu tilviki heilu ljóði. Sem er auðvitað ruddaskapur og tilgangslaust. Bókin er komin út og er eins og hún verður. 

Mig langaði t.d. til þess að henda ljóðinu Í upphafi. Ljóðið er lítið annað en staðhæfing um að enginn skilji tilurð „þessarar plánetu“, ekki einu sinni sá sem skapaði hana. Það endar á línunum:

vissulega
voru rétt skilyrði

en engin
orsök

Þarna er ekkert sem heillar mig, þetta virtist eingöngu vera grunnspekileg vangavelta um hvaðan þetta kemur, þetta allt saman. Og ef ég hefði ekki ætlað að skrifa um bókina hefði ég stoppað við þetta. Þokkaleg bók, slatti af fínum ljóðum og eitthvað af drasli. Ég er almennt frekar latur lesandi, hraðles ljóðabækur og glugga bara aftur í þær sem ná að grípa mig. En ég las aftur og aftur, hripaði hjá mér stikkorð og fór að athuga betur heildarbraginn og sagan fór að koma í ljós. Kvenkyns ljómælandinn byrjar í fyrsta ljóðinu, Mamma, að tala um ferðalag, hve mikið hún sakni móður sinnar áður en hún er lögð af stað en uppgötvar þegar út er komið að hún saknar hennar ekki lengur:

því mér fannst ég vera
þú –
var það strengur
sem þú bjóst til handa okkur?

eða varð ég
að móður?

Þessi strengur er einn af meginþráðum bókarinnar. Hann á eftir að spennast upp, rifna, slakna, fara í tvennt. Hún á eftir að sauma þúsund þræði á nóttunni sem verða að böndum sem herpast um hana. Myndirnar eru viðeigandi enda bókin að miklu leyti um samband og sambandsleysi. Hún saknar ekki móður sinnar því á milli þeirra er strengur, móðirin er nálæg þrátt fyrir fjarlægðirnar.

Svo reynist þessi pláneta sem olli mér pirringi vera einn af aðalþráðum bókarinnar. Ljóðmælandinn er staddur á henni og, þegar betur að er gáð, er það ekki einfaldlega jörðin heldur líking yfir fjarlægðina sem myndast hefur á milli hennar og annars fólks, og þá aðallega fyrrverandi kærasta hennar. Í ljóðinu Til að vera spyr ljóðmælandi hvort hún eigi að búa hér og ljóðið endar á:

það þarf tvo
til að vera hér
en samt er ég
hér

Í næsta ljóði segist hún hræðast þessa eyðisanda“. Annars staðar kvartar hún yfir þessum ömurlega kalda stað. Hún horfir upp í stjörnurnar og veltir því fyrir sér hvort það sé hlýtt „hjá ykkur þarna“. Hún er í ástarsorg. Svo einangruð að hún er á einhverri allt annarri plánetu en annað fólk. Þar er óskaplega kalt og þegar vorar fær hún sand í augun og kærir sig ekkert um að það hlýni:

en ég vil ekki
búa þessum stað
betri skilyrði

Og með þessari innsýn virkar ljóðið sem ég vildi áður henda bara nokkuð vel. Þá er þetta ekki rosalega almenn vangavelta um tilurð jarðarinnar heldur spurning um hvernig hún hafi komist á þennan stað. Hún skilur að skilyrðin voru rétt, viðrar vel til ástarsorgar, til eymdar. Það er hún sjálf sem er skaparinn sem skilur ekki tilvist plánetunnar og veit ekki til hvers og af hverju.

Eða eitthvað svoleiðis. Bókin er í heild í það minnsta einhvers konar ferðalag vitundar. Í titilljóði bókarinnar sem er jafnframt næstsíðasta ljóðið, talar ljóðmælandi um gildi þess að hafa átt „annað barn en sjálfan sig“ og að hafa þurft að svæfa það.

hvernig
svæfir maður?

hvernig
sofnar maður?

hvernig skellir maður skollaeyrum
við orðum alkulsins?

ég hlýði á minn eigin hljóm
og greini þar rödd mína –

Ljóðmælandi vísar í fyrri orð sín um að finnast hún vera orðin móðir. Hún veltir því fyrir sér hvernig sé hægt að hundsa alkulið, sorgina, hvernig maður sleppi burt frá þessari köldu plánetu. Þessu svarar hún svo í síðustu tveimur línunum. Ferðalaginu er lokið, hún er komin aftur til sjálfs sín og fundið rödd sína á ný.

Síðasta ljóðið sker sig úr restinni af bókinni, ljóðmælandi hefur fundið rödd sína og horfir á sjálfan sig yfir hafið uppi á Esjunni og minnist þess hvernig hún leystist upp í fyrirbærin í kringum sig, og loks í eindir, en hefur lokið ferðalagi sínu. Hún segist full orða og útskýrir það svo: „því ég er orðin“. Þá væntanlega bæði fullorðin (í merkingunni tilbúin) og orðin sem eru í bókinni, sem fylla hana. Hún var áður eindir en núna föst saman í orð. Til að byrja með las ég bókina einmitt í eindum, las hana ljóð fyrir ljóð. Áður en ég áttaði mig á því að hún væri best lesin sem heild.

PS. Annars ætlaði ég alltaf að tala um útlitið en kom því einhvern vegin ekki inn í textann. Umbrotið er fullt af stælum. Blaðsíðutalið er efst til hægri. Heftin sem halda bókinni saman hafa verið beygð svo þau mynda króka, eins og til þess að hengja bókina upp á vegg. Letrið er óvenju stórt og tveggja síðna ljóð eru oft á sitthvorri opnunni svo lesanda er komið á óvart með seinni hluta ljóðs sem hann hélt að væri búið. Ég er almennt svolítið hrifinn af stælum svo þessir fengu mig sennilega til þess að lesa bókina af meiri nákvæmni. Stóra letrið gerir það líka að verkum að ef færið væri út í seríu mætti vel lengja bækurnar talsvert án þess að fjölga blaðsíðum eða breyta stærð.