Fínt byrjendaverk

Ég get ekki sagt að ég hafi vitað nein deili á GDRN og tók að mér að skrifa um fyrstu plötu hennar Hvað ef til þess að ögra sjálfum mér. Neyða sjálfan mig til að víkka sjóndeildarhringinn og hlusta á tónlist sem ég hlusta ekki á að öllu jöfnu. Kannski heyra og kunna að meta eitthvað sem ég átti ekki von á að höfðaði til mín. Eins ákvað ég, þegar eitthvað fór úrskeiðis og ég fékk engar upplýsingar um hvað væri hér í gangi og hverjir gerðu það að vera ekkert að grúska neitt á internetinu um frekari upplýsingar.

Út frá þeim takmörkuðu upplýsingum sem koma fram á streyminu þá vinnur GDRN að þessari plötu með Ra:tio að mestu leyti en Auður kemur að tveimur lögum. Svo koma nokkrir gestir við sögu eins og Floni, Reynir Snær Magnússon, Matthias Eyfjord og Magnús Jóhann. Á plötunni eru 11 lög, tíu þeirra frumsamin og eitt er ábreiða af Hlið við hlið sem er úr ranni Friðriks Dórs. Ég verð að viðurkenna að ég kannast ekkert við flesta þeirra.

Hvað ef hefst á stuttu ósungnu lagi sem leggur línunar um það sem koma skal, lágstemmd en lostafull R&B tónlist og máski má heyra einhvern trega þarna líka. Þetta eru flest nokkuð einföld lög með lágstemmdum, látlausum elektrónískum hljóðheimi en sterkum söng og þetta virkar oft nokkuð vel. GDRN er sjálf stjarna plötunnar og enginn gestanna kemst nokkurn tímann nálægt henni í þeim efnum.

En sá löstur er þó á að laglínur eru margar frekar keimlíkar og líkjast mörgu öðru sem ég hef heyrt úr þessum geira. Nokkur lög ná samt að skera sig úr og þeim fjölgar eftir því sem oftar er hlustað. Bestu lög finnst mér vera titillagið Hvað ef og hið stórkostlega Án mín. Þetta eru líka einu lögin á plötunni þar sem er að finna lifandi hljóðfæraleik. Í því fyrra er blandað við elektróníkuna yndislega slepjulegum bassaleik og skemmtilega djössuðum gítar í lokin en það síðarnefnda er hins vegar borið uppi af bassa og gítar af djössuðu tagi.  Eins má minnast á Ein og ábreiðuna Hlið við hlið en þau virka mjög vel.

Textar plötunnar eru misjafnir að gæðum og ég átti nokkrum sinnum erfitt með mig. Fyrir það fyrsta þá eru þeir ekki á neinn hátt skáldlegir. Virðast frekar vera einhverskonar stream of consciousness breim. Ég segi breim því hér er oftast á ferðinni losti ekki ást, því miður virðist lostinn hvorki vera miði að hamingju né ánægju. Því eins og fyrr segir þá eru lögin oft nokkuð tregafull.

Það eru nokkur lög þar sem ég hváði við vegna texta. Í laginu Það sem var kemur eftirfarandi lína fyrir: „Meinar eitt, segir eitt“. Í laginu Treystu mér segir „Þegar þú segir treystu mér þá deyr allur efi innan í mér“. Vita ekki allir að fólk sem biður mann um að treysta sér er ekki treystandi? Í titillaginu Hvað ef á Auður eftirfarandi erindi:

Tíminn virðist standa í stað,
hjá þér fæ ég griðarstað
.
Þú ert svo sólbrún á sumrin,
setur fingurna á munninn.

Getur varla verið hollt að hugsa um þig svona oft. 

Svei mér þá ef þetta er ekki eitthvað það versta sem ég hef heyrt í íslenskum skáldskap. Kannski á þetta að vera fyndið, ég veit það ekki.

Mér leiddist aldrei við að hlusta á plötuna og í það heila þá er þetta hið fínasta byrjendaverk og GDRN er mjög góð söngkona með sterka nærveru. Hún hefði þó mátt leggja meiri vinnu í textana. Lög eins og Hvað ef og Án mín sýna það að hæfileikarnir og færnin er til staðar og gefa ástæðu til þess að vænta mikils af henni í framtíðinni.