Þegar hláturinn fjarar út

Akkúrat um leið og ég hendi mér inn í djúpa rannsókn á cultoral iconinu Sex and the City berst mér póstur um leikverk sem þarf að gagnrýna. Ég vel verkið Insomnia eftir leikhópinn Stertabendu án þess að vita neitt um efni þess. Það eina sem ég veit er að vinkona mín vildi ólm sjá það og ég vildi ólm sjá fyrra verk leikhópsins, en missti því miður af því. Svo dillandi skottinu og spennt fyrir leikhúsi sem mun koma mér á óvart, því ég elska að sjá sýningar sem ég veit ekkert um, mæti ég í Kassann í Þjóðleikhúsinu. Þess ber einnig að geta að ég hef enn sem komið er séð flestar mínar uppáhalds sýningar í þessu smáa, nána og vinalega rými sem er ekki endilega gert til að setja upp svokallaða epík á borð við Óþelló, heldur frekar öðruvísi sýningar, skrítnar sýningar, sem spurja áleitinna spurninga um samtímann og lífið. Það að komast svo að því að verkið er um sjónvarpsþáttinn Friends og uppbyggingu á sjálfsmynd kynslóðar í gegnum últra-hvítt og útilokandi bandarískt sjónvarpsefni er auka plús. Ég gerist sek um, sem partur af þessari Friends kynslóð, að kunna alla þættina utanað, rétt eins og Sex and the City. Ég er ekki að grínast, spurjið mig á förnum vegi, og ég get hent í Friends-þátt eftir pöntun. Ég hef þó ekki farið varhluta af því að þroskast og njóta þess að lifa til að sjá samfélagið þróast og breytast og heyra og vera sammála gagnrýnisröddum um þetta fyrrum uppáhalds sjónvarpsefni mitt. 

Í sýningu Stertabendu er heimurinn óræður – þér, sem áhorfanda, er hent inn í þennan undarlega heim dósahláturs og hugsanlega skaðlegra vinasambanda, en í þokkabót er kannski heimsendir. Enda er ekki heimsendir í raun hjá Friends og þeim sem samþykkja þeirra þankagang? Hafa dagar homma- trans- og konubrandara liðið undir lok? Er ekki skrítið að ímynda sér að allir í New York séu hvítari en ég eða snjórinn? Jú, vissulega. En í hugsanlegum dauðahryglum líðandi þankagangs berjast margir á móti. Hláturinn er að fjara út. Þetta er ekki fyndið lengur. Cis kona leikur trans konu sem gert er stólpagrín að, ekkert er verra en að vera álitinn kvenlegur eða hommi og svart fólk er ekki til. Það er vandræðalegt ef fyrrum eiginkona þín er samkynhneigð og guð forði þér ef faðir þinn er kona. Þrátt fyrir þessar birtingarmyndir minnihlutahópa, eða skort þar á, fékk þáttaröðin verðlaun fyrir að sýna minnihlutahópa í jákvæðu ljósi. Og ef þættir gerast sekir um sömu birtingarmyndir í dag eru þeir harðlega gagnrýndir og fá varla verðlaun.

En snúum okkur nú að verkinu. Leikararnir hefja sýninguna klædd í hvítt, lit hreinleikans, án þess að vera sýnilegir karakterar þannig séð. Þau eru í einskonar allslausum heimi og velta því fyrir sér hvernig skuli hefja nýtt samfélag. Rétt eins og margir af minni kynslóð í hinum raunverulega heimi vilja þau öll að samfélagið sé sem best og réttsýnast en burðast þó með einhverja innbyggða fordóma. Þau reyna að leggja reglur nýja heimsins og takast þannig á við ákveðin málefni sem eru til tals á líðandi stundu, svo sem hvort það sé siðferðislega rétt að nota plaströr. Friends-þáttaröðin hins vegar pældi, ef ég man rétt, aldrei í hvað mátti og mátti ekki í samfélaginu og talaði ekki um pólitík. Þau gengu meira að segja svo langt að búa í New York og taka ekki einu sinni eftir þegar tvíburaturnarnir hrundu.

Leikarar brugðu sér svo í hlutverk aðalpersóna þáttanna og léku ýmis atriði úr þáttunum, eða vísuðu sterklega í þau. Þrátt fyrir að þau brygðu sér ekki algerlega í líki leikara þáttanna var serían svo vinsæl og áhrifarík á sínum tíma, og enn í dag, að ég held að jafnvel einhver sem lá ekki yfir þáttunum árum saman myndi ná flestum þeirra. Sýningin tekur svo á sig Brechtískari blæ og leikarar tala beint til áhorfanda og virðast brjóta karakter eftir þörfum. Mér finnst þetta hafa verið nokkuð vinsælt á síðustu leikárum, að ganga út frá því að áhorfendur kunni að meta sýnilega hrárri og eða íronískari nálgun á leikhúsið, þar sem við vitum auðvitað öll að þetta er allt leikur, hvort sem einhver talar beint til okkar, segir okkur hvað hann heitir í alvöru eða talar við salinn. Rímar sú aðferð uppsetningar ágætlega við rannsóknarefni sýningarinnar sjálfrar, við horfum nú til dags á Friends vitandi hvað margt í heimi vinanna gengur ekki upp. Já við vitum að íbúðirnar eru of dýrar, ekki allir í New York eru hvítir og guð forði okkur, af hverju fer þetta fólk aldrei í vinnuna en er samt aldrei rekið? Einnig vitum við að karakterarnir eru ekki vinir okkar í raun, en samt hefur heil kynslóð plús náð að tengjast og samsama sig svo algerlega með leiknum persónum að við látum mörg hver eins og þau séu vinir okkar í raun.

Mér finnst í heildina hópurinn standa sig vel í því að ráðast á intellectual leti þáttanna án þess þó að kalla þá algjört drasl, því jú, vissulega eru þeir fyndnir og allt það þrátt fyrir að vera börn síns tíma. Enda held ég að besta gangrýnin sé sú sem leyfir hinu jákvæða að fá sitt hrós en tekst uppbyggilega á við það neikvæða.

Og það er það einmitt það sem ég held að sé lokaniðurstaða mín um verkið – ég er ánægð með það sem mér fannst vel gert, og ef eitthvað má betur fara má gagnrýna það á uppbyggilegan hátt. Aðallega fyndist mér ósanngjarnt að krefjast af þessum hópi sem er að reyna að gera eitthvað uppbyggilegt og jákvætt, benda á neikvæða hluti og á sinn hátt uppfræða fólk, að þau geri allt fullkomlega. Við getum öll gert betur en ættum að muna að kunna að meta þá sem eru að reyna að gera betur, og gagnrýna fremur þá sem reyna ekki. Auðvitað á uppbyggilegan hátt.