Um Sorgarmarsinn eftir Gyrði Elíasson

Mér finnst dálítið skrítið, en jafnframt heiður, að skrifa um verk Gyrðis Elíassonar. Hann stendur mér svo nærri og hefur fylgt mér um langt árabil – á pappírnum auðvitað, ekki bókstaflega (það væri krípí). Hann hefur hvílt í jakkavasanum á rölti mínu um erlendar borgir, legið með mér uppi í sófa á íslenskum skammdegiskvöldum, setið við hliðina á mér á lestarferðalögum um hina fallegu, deyjandi veröld okkar.

Og mér sýnist, án þess að ég þori þó að sverja fyrir það, að ég hafi lesið höfundarverk hans nokkurn veginn komplett, bæði frumsamin verk og þýðingar. Gott ef framleiðslan slagar ekki núorðið upp í fimmtíu titla. Ég blaða í ljóðaþýðingunum mánaðarlega, ef ekki vikulega; Tunglið braust inn í húsið og Flautuleikur álengdar eru einstakar bækur. Sum frumsaminna verka hans hef ég enn fremur lesið margoft; einkum verður mér hugsað til sagnasafnsins Á milli trjánna.

Þýðir þetta að mér líki höfundarverk Gyrðis?

Já, og þó fara sögumenn hans stundum í taugarnar á mér. Mig langar að tuska þá til, tala yfir hausamótunum á þeim. Á sama tíma skil ég þá svo vel; þessa hlédrægni þeirra, flóttann, uppburðarleysið. Þegar ég var yngri fundust mér sögur Gyrðis stundum boða hálfgerða uppgjöf gagnvart lífinu, og gagnvart öðru fólki, og ég vildi að höfundurinn stigi skrefinu lengra – lýsti ekki einungis því sem bjátaði á í veröldinni heldur framreiddi einnig lausn. En bækur hans veittu aldrei neina lausn frá einmanaleikanum nema þá kannski hlýjuna sem lesandinn fann til á meðan hann hvarf inn í bókina. Kannski er það líka yfrið nóg, og græðgi að ætlast til nokkurs meira.

Í nýjasta skáldverki Gyrðis, Sorgarmarsinum, segir frá Jónasi, atkvæðalitlum og innhverfum manni sem starfar á auglýsingastofu, er hnepptur í djúpstæða sorg (hefur misst dóttur sína) og að flosna upp úr hjónabandi. Hann er rola, en um leið afar geðþekkur, mennskur. Hann hefur fundið sér afrep í litlu þorpi á Austfjörðum: Ég kom í húsið til að semja tónlist. Samt er ég ekki tónskáld, ekki misskilja mig, en ég hef gaman af að setja músík á blað. (9) Að dómi Jónasar er tónsköpunin aðeins dundur og fikt, og þó er hún það sem helst skilgreinir hann sem manneskju. En hann felur þennan kjarna kirfilega fyrir augum umheimsins: Eftir öll þessi ár er ég ekki enn farinn að sýna neinum það sem ég skrifa, eða leyfa hlustun. (39)

Það skemmtilegasta, og langáhugaverðasta, við Sorgarmarsinn, er hvernig höfundur nálgast það skynfæranna fimm sem oft er vannýtt í skáldskap. Ég hripa niður allt sem ég heyri, og andartak er eins og veröldin sé bara fjölbreytilegur tónblær, ekkert annað. (30) Verkið er um margt fagnaðarerindi eyrans, áskorun til okkur um að leggja við hlustir. Í dag ætla ég ekki að gera neitt nema vera ég sjálfur, og hlusta eftir því sem rigningin færir mér hljóðrænt. (41) Athygli vekur að innblástur Jónasar að tónverkum kemur oftast úr umhverfinu frekar en frá öðru mannfólki; frá veðrinu, dýrum, stundum vélum. Jónas semur til að mynda tónverk út frá nið þakrennu í rigningu: Hún syngur þessi þakrenna, hún syngur! Hún er miklu ánægðari með rigninguna en nokkur annar í heiminum. (40.) Hann yrkir um steina (Söngl steinsins) og stelur jafnframt laglínu frá hitakatli (Serenaða fyrir píanó og hitaketil). Svo mætti áfram telja. Mér fannst þessi áhersla á hljóðheim söguviðsins skemmtileg, og fela í sér þarfa áminningu um að vera móttækileg fyrir umhverfi okkar. Ég fór að hugsa um hvernig æ færri okkar stíga út úr húsi án þess að vera með svokölluð heyrnartól í eyrunum – tæki sem hjálpa okkur raunar ekki að heyra heldur hafa það hlutverk að einangra okkur. Bókstafleg merking orðsins „heyrnartól“ og notagildi fyrirbærisins stangast á: við notum heyrnartólin ekki til að hjálpa okkur að heyra heldur til að stanga úti hljóð umheimsins. En Jónas hlustar…

Sorgarmarsinn er, eftir því sem ég kemst næst, lokahnykkurinn í þríleik sem hófst með Sandárbókinni. Þar lýsti höfundur hlutskipti (og útskúfun) listmálara í samtímanum. Í næstu skáldsögu, Suðurglugganum, lýsti höfundur hlutskipti (og útskúfun) rithöfundar í samtímanum. Og nú er kominn út Sorgarmarsinn, þar sem höfundur lýsir hlutskipti (og útskúfun) tónskálds í samtímanum. Glöggir lesendur ættu nú þegar að hafa komið auga á þráð sem gengur í gegnum öll verkin.

Það er þessi mótsögn: að þurfa einlægt að hörfa í skjól frá lífinu til að geta moðað úr lífinu listaverk – og rústa þá í leiðinni líf sitt með því að vera á eilífum flótta undan öðru fólki og skyldum hversdagsins. Þarna kemur upp „einskonar pattstaða í flóknu samspili lífs og listar,“ eins og segir á bókarkápu Sorgarmarsins. Hvers vegna höldum við alltaf áfram að skapa listaverk? Er það vegna þess að lífið hefur sært okkur? Eða særði lífið okkur vegna þess að við vorum einlægt að glíma við að semja listaverk, og gleymdum að hlúa að lífinu sjálfu?

Sorgarmarsinn er falleg bók, listavel skrifuð og haganlega uppbyggð. Það er dásamlegt, finnst mér, hvað við Íslendingar eigum marga framúrskarandi rithöfunda. Sumir þeirra, svo sem Gyrðir, senda reglulega frá sér verk á heimsmælikvarða. Ég vona bara að við eigum enn framúrskarandi lesendur til að taka vel á móti þeim…