Reykjavík halanna, heimkynni halanna

Þar sem einstaklega góður rómur var gerður að umfjölluninni um dægurlagatextann við lagið „Kling Kling“ um daginn er lífinu nauðsynlegra að halda áfram á þeirri braut og skoða fleiri texta. Einkum og sér í lagi féllu tíkur, mellur og aftaníossar í stafi yfir framtakinu. Er því eftirfarandi texti tileinkaður þeim, svo og auðvitað öllum þeim sem kunna að ríma. Þeir söngtextar sem fyrir valinu verða eru því að gera valdir af handahófi. Þess er þó vandlega gætt að ekki sé um ómerkinga að ræða (nóbodí heitir það víst á nútímalegri íslensku). Engum er greiði gerður með að taka til umfjöllunar aðra en þá sem í hið minnsta státa af hálfri milljón í gúmmíteygju eður eðla faratæki sem einhverju sinni var metið út frá rakamyndun í kynfærum kvenna. Hvað um það. Sá texti sem hér er skoðaður er eftir hinn óstjórnlega melluelskandi (ef það er einhver sem elskar mellur meira er það líkast til Erpur Eyvindarson (1977) eða Blaz Roca) Emmsjé Gauta sem ugglaust fær að vera Gauti Þeyr Másson (1989) í fermingarveislum og hjá ríkisskattstjóra. Textinn var tekinn héðan. Ekki er fett fingur út í innsláttar- eða stafsetningarvillur. Það er bara lummulegt. Með villum varstu í heiminn borinn, með villum skaltu í heimi lifa. Eins og í fyrri skrifum verður hér eigi lagt mat á ágæti lagsins þótt augljóst megi taktlausustu mönnum þykja að það býður upp í dans, vel hugsanlega vangadans efedríns og skjannahvíts strigaskós.

Titill lagsins gefur innihald texta til kynna. Höfuðborg Íslands, Reykjavík, tilheyrir okkur. Ekki er gefið upp hverjir þessir við eru. En álykta má að hér sé um rappmælanda og félaga hans að ræða sem hafa þá í yfirfærðri merkingu tekið borgina eignarnámi. Erfitt er að ráða í yfirfærðu merkinguna en líklegt verður að teljast að hér sé um andlega yfirtöku í þeim skilningi að rappmælandi og lagsmenn (vera má að sveitungi eigi hér betur við) hans séu á einhvern hátt tákngervingar Reykjavíkur, lifandi og virkrar borgar, skapandi borgar. Hinir nýju Skúlar Magnússynir Reykjavíkur, feður Reykjavíkur. Borgar sem á sér enga móður svo vitnað sé til texta Magnúsar Þórs Jónssonar „Skúli fógeti“ á hljómplötunni Loftmynd (1987). Undangengin orð leggja ekki beint út frá textanum sem slíkum. Ekkert innan hans styður þessa fullyrðingu eða réttlætir hana.

Þessi texti er af öðru sauðahúsi en sá síðasti. Sá var blátt áfram og fremur einfaldur í sínum mannalátum og mammonsdýrkun. Eintóna var hann aukinheldur þar sem eiginlega var sínkt og heilagt hamast á hinu sama líkt og einkvænismaður í heimahúsi. Hér þarf að setja á sig önnur gleraugu. Þrátt fyrir önnur gleraugu er hér einnig viss borginmennska á ferð. Yfirlætið felst í því að eigna sér borgina. Kíkjum á …

[Pre-Hook]
Kroppar
Má ég sjá þá hoppa
Bassinn er svo þungur
Ég finn gólfið byrja að brotna
Svo ef þú vilt koma
Mundu ekki fokkast
Því ég held það sé á hreinu að Reykjavík er okkar

Leikur hefst á „Pre-Hook“ áður en rennt er í viðlag. Í for-viðlagi fer rappmælandi þess á leit við kroppa að þeir hoppi. Bassinn er enda svo hrynþungur að gólfið skelfur. Má sjá fyrir sér öldurhús eða klúbb þar sem sálufélag skyldra rappanda hamast við að skekja skrokkinn sem mest það má. Næstu tvær línur eru torræðari. Er einhver ávarpaður, sennilega hlustandi, sem getur slegist í hópinn ef hann fokkast ekki ellegar gleymir eigi að ekki er eftirsóknarvert að fokkast. Við þá orðanotkun er rétt að staldra við. Sögnin fokka hefir mismunandi merkingar í íslensku. Ein felur í sér gauf, önnur er tengd engilsaxnesku sögninni fuck sem iðulega er notuð sem hnjóðsyrði þar sem sá sem móðgaður er hvattur til sjálfsflekkunar eður þá til þess að serða móður sína eða eitthvað því um líkt. Einnig er sögnin notuð í samhenginu þegar allt er farið í vaskinn eða þegar eitthvað hefir klúðrast. Fleiri merkingar, í mismunandi samhengi, koma ennfremur til greina.

Ef fyrri merkingin er látin gilda hvetur rappmælandi viðmælanda til að gaufa ekki, vera ekki með hangandi hendi (þetta mætti misskiljast). Athyglivert er að hann notar boðhátt og miðmynd. Miðmyndina mætti túlka á tvennan hátt í ljósi þess hvort um þolmyndar merkingu sé að ræða eða hvort leggja megi afturbeygðan skilning í sögnina. Þolmyndarmerkingin felur í sér að viðkomandi megi ekki gleyma að láta ekkert fokkast: Ekki láta neitt fara í vaskinn, ekki gleyma því. Afturbeygða merkingin gæti falið í sér að viðkomandi sé minntur á að ekki sé ráð að stunda handriða á þessari stundu. Í samhenginu er það eðlileg bón að viðkomandi haldi kynfærum sínum (hér er gengið út frá því að um getnaðarlim sé að ræða, þar sem rapp er afar karllægt) innanklæða eða sé ekki að fitla við þau. Eftir allt erum við stödd á dansgólfi. Líklega. Lokalínan dregur svo það heila nokkuð í efa með notkun viðtengingarháttar. Línan sú er í nokkurri andstæðu við fullyrðinguna: „Reykjavík er okkar“.

Kannski má leggja út frá þessu með því að vitna til tveggja ljóða:

Eitur! Meira eitur!
Ör vil ég dansa heitur!
Eitur! Eitur! Eitur!

(Sveinn framtíðarskáld)

 

Og

dansaðu fíflið þitt dansaðu
stressaðu þig ekki á heilanum
dansaðu hjartað er bara líffæri
dansaðu fíflið þitt dansaðu
hvað sem það kostar dansaðu
þar til dauðinn hrífur þig
inní diskótek sitt dansaðu
í öllum stellingum dansaðu
einsog flokkur á línu tímans
dansaðu SÉRÐ’EKKI hvað ástandið
í heiminum er klístrað dansaðu
meðan höfuð þitt springur
einsog kjarnorkuver dansaðu
þar til þú átt ekki afturkvæmt
í þennan stað sem þú villtist inná
er súrefnistjaldið var
dregið frá vitum þínum

(Einar Már Guðmundsson)

Hinir dansandi kroppar eru þá eigendur borgarinnar. Inn í það andrúmsloft er hinum ávarpaða (okkur) boðið ef við gleymum ekki að fokkast (sjá vangaveltur um boðháttinn og miðmyndina hér fyrir ofan) þar sem rappmælandi telur ekki loku fyrir það skotið að Reykjavík sé þeirra (hinna dansandi, hoppandi). Vissulega er freistandi að slást í þennan hoppandi hóp.

[Hook]
Reykjavík er okkar, já hún er okkar
Reykjavík er okkar, já hún er okkar
Reykjavík er okkar, já hún er okkar
Borgin dottar aldrei svo ég ætla ekki að sofna
Reykjavík er okkar, já hún er okkar
Reykjavík er okkar, já hún er okkar
Reykjavík er okkar, já hún er okkar
Borgin dottar aldrei svo ég ætla ekki að sofna

Viðlagið sem er einkar möntrukennt styður dansandi nálgunina. Reykjavík er borg sem ekki sefur, þar er alltaf eitthvað í gangi og til þess að verða ekki af neinu er ráðlegt að festa ekki blund (ekki þarf að túlka þetta í eiginlegri merkingu). Og hvað er betra en að dansa til að halda sér fjörugum nema ef vera skyldi að átt sé við notkun ólöglegra fjörefna. Hið síðastnefnda getur þó vart verið raunin enda væru það slæleg skilaboð til ungdómsins sem fellur í stafi í hvert sinn sem lag með Gauta hljómar á öldum ljósvakanna.

[Verse 1]

Tökum þetta erindi aðeins í sundur í viðleitni okkar til að fá botn í það.

Stimpla mig út
Því ég er búinn að skila mínu

Þessi hluti virðist auðskilinn. Rappmælandi sem skipt hefir yfir í 1. persónu og hefir lokið sinni dagsvinnu (Feierabend eins og Þjóðverjinn myndi segja að vinnulokum).

Vinn yfirvinnu í sirkustjaldi
Því að ég nýt mín að lifa á línum
Í jútópíu í dystópíu

Þessi hluti er aðeins illráðanlegri. Hefir rappmælandi lokið dagvinnunni og tekur við vinna í sirkustjaldi? Er hann hluti af sýningu þar? Alltént nýtur hann sín og það að hann lifir á línum virðist gefa til kynna að hann stundi línudans sem í senn getur verið góður og slæmur (jútópía á sennilegast að vera útópía eða fyrirmynda- eða draumaland. Dystópían er andstæða þess).

Jarðýtur og nokkrar listaspírur

Ekki er ljóst hvar ber að staðsetja þessa línu. Ennfremur er óljóst fyrir hvað jarðýturnar standa. Listaspírur eru líkast til bara listaspírur og hafa enga yfirfærða merkingu. Hafa ber í huga að orðið listaspíra er allajafna notað í neikvæðri merkingu yfir listamenn, ekki ósvipað og þegar sveitavargurinn talar um 101 miðbæjarrottur ellegar lattelepjandi lopatrefla. Hvað jarðýturnar varðar mætti ætla að þar sé átt við vöðvastæla félaga/menn. Þar eru andstæður hins vöðvastælta og mjóslegna, hinir vöðvameiri þá líklega í meirihluta.

Kæri vinur vertu skilningsríkur
Engar myndir hér í Kristjaníu

Fyrri línan er auðskiljanleg. Í þeirri seinni er ekki átt við Kristjaníu, hinn stuðvæna stað Kaupmannahafnar, í eiginlegri merkingu (varla) heldur að hinn ávarpaði eigi að virða friðhelgi rappmælanda sem staddur er í stuðlandi.

Auðvitað mætti hér gera jöfnumerki á milli REYK-javíkur og Kristjaníu en það getur vart verið. Eða?

Gef mér frelsi, gef mér pínu
Eitthvað sem lengir lífið

Það er nokkuð erfitt að ráða í þessar línur. Hvað felur frelsið í sér? Hvað er það sem sem hugsanlega gæti lengt líf rappmælanda? Fæðubótarefni? Ávextir og hollur matur? Andleg næring? Hreyfing? Verður hið síðastnefnda ekki að teljast líklegast? Dansa, hvað er betra en að dansa?

Gefðu mér bensín, gefðu mér eldfæri
Eitthvað sem kveikir í mér

Rappmælandi ætlar sér næsta víst ekki að kveikja í sér í eiginlegri merkingu. Slíkt er oft gert í mótmælaskyni eður sakir geðveiki. Og þó ekki sé loku fyrir það skotið að hann þjáist af geðveilu, Kleppur er jú víða, þá er ákaflega ólíklegt að hann vilji allt í einu, í miðjum dansi, hella yfir sig bensíni og taka sig af líf. Nei, hér má sennilegt þykja að átt sé við efni til að geta haldið dansinum áfram. Kannski koffíntöflur og vatnsglas?

Ég heyrði þig tala, bla bla bla bla
Skjóttu á mig, ratatata

Rappmælandi er í stuði og stoðar lítt að tala við hann. Hann heyrir bara bla bla bla bla. Engu að síður vill hann ekki að viðmælandinn hætti að skjóta á sig.

Hlæjum svo saman
Ég er svo fyndinn á leiðinni í bankann
Hahahaha

Eins og kom fram í síðasta pistli þá eru rapparar féelskir með endemum og finnst ekki leiðinlegt að stæra sig af því að vera loðnir um lófana. Þannig má líta á þessar línur. Þær koma þó nokkuð eins og skrattinn úr sauðaleggnum í ljósi þess að rappmælandi var á allt öðrum slóðum þar á undan.

Teppi upp við arininn að halda hita á hópnum
Ekki koma með í nösinni, ekki vaða inn á skónum
Þetta er svo rólegt partí, ég finn ekki fyrir ógnun
Því að allir sem að eru eitthvað eru í vinahópnum

Skipt um svið. Umgjörðin ólíkt huggulegri. Bræður undir brekáni. Rappmælandi er almennt hlynntur því að gestir fari úr skófatnaðinum áður en inn er stigið og séu ekki með í nösinni. Þrennt kemur til hugar hvað það áhrærir, allt sennilegt. Í fyrsta lagi vill hann enga aðila inn með sultardropa, hor í nösum. Þeir passa ekki. Líklega hafa þeir hinir sömu gleymt því að eigi skal fokkast. Í annan stað vill hann ekki menn sem hafa sogað einhver örvandi lyf í nefið. Og í þriðja lagi vill hann ekki menn með neftóbak í nösum. Það er svo subbulegt.

Þetta er augljóslega teiti fyrir útvalda.

[Pre-Hook]
Kroppar
Má ég sjá þá hoppa
Bassinn er svo þungur
Ég finn gólfið byrja að brotna
Svo ef þú vilt koma
Mundu ekki fokkast
Því ég held það sé á hreinu að Reykjavík er okkar

Við þetta er engu að bæta.

[Hook]
Reykjavík er okkar, já hún er okkar
Reykjavík er okkar, já hún er okkar
Reykjavík er okkar, já hún er okkar
Borgin dottar aldrei svo ég ætla ekki að sofna
Reykjavík er okkar, já hún er okkar
Reykjavík er okkar, já hún er okkar
Reykjavík er okkar, já hún er okkar
Borgin dottar aldrei svo ég ætla ekki að sofna

Við þetta er engu að bæta.

Hér verður haft sami háttur á og í fyrra erindi.

[Verse 2]
Ég finn malbikið banka
Í skósólann og ranka
Við mér með sólheimaglott því ég er á leiðinni í bankann

Upphefjast mannalæti. Rappmælandi rankar við sér í gleðivímu, minnist þess að hann er stöndugur. Spurningin er sú hvort sólheimaglottið sé áfast eða hvort það kemur í kjölfar þess að rappmælandi sé á leiðinni í bankann. Hvað sem því líður þá er ekki laust við að gorgeir láti hér á sér kræla.

Allt sem ég geri er svakalegt, vó þetta er nett
Byrtist í blaðinu, er þetta frétt
Mamma sjáðu hvað ég er nettur
Mamma horfðu, mamma sjáðu

Rappmælandi mærir sjálfan sig af miklum móð. Auðvitað elska flestallar mömmur afkvæmi sín en sú sem hér á í hlut vafalítið ögn meira en gengur og gerist þar sem sonurinn er svo nettur, vel liðinn og umtalaður. Klárlega enginn ómerkingur.

En líttu síðan undan svo þú verðir ekki brjáluð

Fáir lifa svo að öllum heimi líki, ekki Guð í himnaríki. Hér er augljóslega gefið í skyn að rappmælandi eigi það til að gera sitthvað sem móður kunni ekki að falla í geð. Sannast því hið fornkveðna: Was sie nicht weiß, macht sie nicht heiß.

Ég og vinir mínir lifum draumi sem við þráðum
Og við tókum fram úr fullt af liði sem við dáðum

Meiri derringur. En þessi derringur sem rímar. Meira að segja má finna snert af innrími hér. Þessar línur eru því ekkert minna en stórkostlegar.

Greddan er leikandi, bassinn deyfandi heilann minn
Chilla það mikið á Prikinu að þau halda að ég sé eigandinn

Síðari línan er nokkuð auðskiljanleg nema óljóst er hver þessi þau eru. Er átt við aðra gesti staðarins? Spurningin er hvort mikið feli í sér ofur-chill eður að hann sé oft þar. Líklegri skýring er ofur-chillið því hitt myndi fela í sér að rappmælandi gæti alveg eins álitið þau eigendur, því til að vita að hann sé þar oft þyrftu þau einnig að vera þar álíka oft og hann.

Seinni hluti fyrri línunnar einnig nokkuð auðskiljanlegur. Rappmælandi er, af aðstæðum og fyrri línum að dæma, hlýðandi á hrynþunga tónlist sem kemur honum í einhver konar dá eða trans. Það er spurning með hina leikandi greddu. Hvernig ber að skilja hana? Er hann leikandi graður? Er maður einhverju nær með ef svo er í pottinn búið? Er gredda í loftinu? Það er sennilegri skýring í ljósi þess sem gerist næst.

Þegar ég stend uppi á borði með hausinn á hvolfi
Akrakadabra og ég er horfinn

Varla er átt við að mælandi standi bókstaflega á haus upp á borði? Línurnar hljóta að tengjast greddunni sem er þess valdandi að hann lætur sig hverfa með álitlegum rekkjunaut (kannski). Að öllum líkindum kvenkyns sakir þess hve hómófóbía, ekki rugla saman við hómófóníu, er rík innan rappheimsins. Ekkert í textanum gefur þó kynhneigð hans til kynna svo að í nafni hómófóníu má alveg breyta konu í karl.

[Pre-Hook]
Kroppar
Má ég sjá þá hoppa
Bassinn er svo þungur
Ég finn gólfið byrja að brotna
Svo ef þú vilt koma
Mundu ekki fokkast
Því ég held það sé á hreinu að Reykjavík er okkar

[Hook]
Reykjavík er okkar, já hún er okkar
Reykjavík er okkar, já hún er okkar
Reykjavík er okkar, já hún er okkar
Borgin dottar aldrei svo ég ætla ekki að sofna
Reykjavík er okkar, já hún er okkar
Reykjavík er okkar, já hún er okkar
Reykjavík er okkar, já hún er okkar
Borgin dottar aldrei svo ég ætla ekki að sofna

Hvernig ber að taka þetta saman og túlka á heildrænan hátt? Hingað til hefir umfjöllun þessi verið í samræmi við textann. ADHD og út og suður. Ætli fari ekki best á því að túlka þennan dægurlagatexta (og lagið líka) sem teiti með útvöldum partýljónum, menn með mönnum, sem telja sig þess umkomna að eigna sér höfuðborgina í ljósi færni á dansgólfinu, í ljósi þess hve nettir þeir séu, í ljósi vímumóks (sé það gleði- eða vímuefnamók) á gólfi sem ruggast líkt og samkynhneigð lest í myrkvaklefa. Rappmælandi fer þar fremstur í flokki fríðra pilta, stærir sig eins og rappsiða er, en vill jafnframt að móðir sín sé stolt af halnum. Það er alkunna í rappheimum og menningu blökkumanna, þaðan sem rapptónlist á rætur sínar, að oft eru látin ófögur orð falla um mæður annarra. Oftlega þá um mömmur í yfirstærð, mömmur sem eru vergjarnari en andskotinn og þar fram eftir götunum. Hér er blessunarlega ekkert slíkt á ferð. Eiginlega bara andstæðan. Þótt svo höfuðborgin sé í lagaheiti þá spilar hún per se ekki svo stóra rullu í textanum. Hún er þó leynt og ljóst borin saman við Nýju Jórvík þar sem gert er því skóna að borgin sofni ekki og sé því uppspretta endalausra möguleika. Og halirnir í dægurlagatextanum eru málið eða eins og sagt er á íslensku: Þeir eru skíturinn!

Segjum við hér með þessari umfjöllun lokið.