Frá íveru, til óveru, til tilveru

Um Daga höfnunar eftir Elenu Ferrante

Aldrei rétt Olga

Innan veggja heimilisins hefur hún völd til þess að stjórna, hún umgirðir alheiminn; hún viðheldur mannkyninu. Þrátt fyrir það afneitar hún aldrei guðdómleika Hans, sérstaklega þar sem hann neitar allri ábyrgð (de Beauvoir, 467).

Maður fer frá Konu. Í rauninni er það það eina sem þessi saga fjallar um. Þó hægt væri að fara ítarlega inn í fremur einfaldan söguþráð bókarinnar þá gæfi það ekki frekari innsýn inn í hugarheim persónanna, né skilning lesanda. Verkið snýst um skilnað: Skilnað ásta, skilnað kynja, skilnað sjálfsmynda og skiptingu raunveruleika. Frá íveru, til óveru, til tilveru.

 

Eftir fimmtán ára hjónaband, ákveður Maríó að skilja við Olgu eiginkonu sína og skilur hana eftir með börnin þeirra tvö, húsið og hundinn. Á því augnabliki rífur hann frá henni þá undirstöðu sem hún hafði byggt sér með honum, hennar sjálfsmynd, sjálf og verund. Hún uppgötvar sér til skelfingar að hún hefur ekkert sjálf til að grípa í lengur, því allt sem hún var, var hún með honum. Hún var aðeins hún, þegar hann var til staðar. Því var hennar rödd farin, draumar, vonir og væntingar. Nafnið var úrelt, hlutverkið gengisfellt.

 

Í bókinni Dagar Höfnunar eftir Elenu Ferrante, fylgir lesandi Olgu, sem lengi vel er nafnlaus, í gegnum skilnað, uppgjöf, örvinglun, raunveruleikafirringu, endurreisn og loks, sátt. Hún glatar glórunni, skynseminni, ljósglætunni í lífinu og endurskapar hana loks upp úr öskunni sem eftir verður.

 

Karlmannsleysið og konugreyið Venus

 

Byrjun sögunnar einkennist af karlmannsleysi. Í karlmannsleysi staðnar tíminn, pláneturnar hætta að snúast og hjörtu hætta að slá. Guð er farinn, og allt eða ekkert er hægt. Án Hans stendur hún hvoru tveggja fyrir fullkomnu frelsi en sömuleiðis algjörri stöðnun.

 

Í gegnum verkið ber hún sig ítrekað saman við konu sem hún mundi eftir úr æsku. Hún var nafnlaus en var ávallt kölluð konugreyið. Maður hennar hafði farið frá henni fyrir yngri konu og því ráfaði hún um göturnar sem draugur, tóm skel fyrri sjálf síns, með börnin í eftirdragi. Þessi yfirgefna kona [var] vorkunn alls heimsins, því án karlmanns missir kona sjálfið, verundina og nafnið. Þegar hún nær ekki að halda í karlmann, glatar hún öllu (11).

 

„Konan tapar öllu, líka nafninu (kannski hét hún Emilía), verður „Konugreyið“ í augum allra, við vorum þegar farið að tala þannig um hana.“ (12)

 

Lesandi hefur sömuleiðis enga þörf fyrir að vita nafn aðalpersónunnar, því nafnið er tekið af henni í fyrstu setningum verksins þegar maðurinn gengur út, og það kemur ekki fram fyrr en í blálok sögunnar, þegar baráttunni er lokið og hún hefur staðfest nýtt og persónulegt sjálf, sem er hennar eigið. Jafnvel þá talar hún um nafn sitt, Olga, í þriðju persónu sem manneskju sem hún tengir ekki lengur við en á víst að gangast undir. Þetta er nafn fyrra hlutverks, rifið af henni. Og eftir situr hún tóm, nafnlaus frammi fyrir óaflátanlegu frelsi nýs sjálfs.

 

Það er nefnilega öryggi í fyrirframgefnu hlutverki. Í hlutverkinu fær viðfangið að kasta af sér hrekkjóttum hugmyndum um frelsi, gegn betri vitund, og lætur af stjórn mannsins, samfélagsins og þess hugarheims sem það hefur byggt sér. Því er að sjálfsögðu freistandi að lifa í öryggi hlutgervingarinnar og það er einmitt hlutgervingin sem hún saknar; hlutverkið sem sagði henni hver hún væri og hvað hún ætti að gera, hvernig hún ætti að hugsa. Frelsið var ekki inni í myndinni. Heldur var það huggunin við það að færi hún eftir þeim reglum sem hlutverkið setti henni fengi hún í staðinn öryggi, ást og umhyggju. Áfallið skellur hvað fastast þegar hún áttar sig á því að þessar reglur voru ekki heilagar og þær hömlur sem stóðu í vegi hennar voru sjálfsskapaðar, og því finnur hún sig í stöðu þess sem var, í ákveðnu fljótandi tómi, Tabula Rasa.

 

„Mér fannst í raun eins og búið væri að afmá mig, mér leið eins og plöntu sem hafði verið vökvuð árum saman, og svo skyndilega látin skrælna upp.“ (17)

 

Athöfnin sem fylgir því að vera sífellt vökvuð af ást, eða tilgerðri ást, af karlmanni og sæði hans, verður að ákveðinni réttlætingu á merkingarleysinu. Í því er sömuleiðis augljós hlutgerving, þar sem konan verður að hálflifandi skrautmuni sem hugsa þarf um, sem ekki getur hugsað um sjálfa sig. Kona setur sig í hlutverk plöntu, demants eða perlu, þegar hún er fengin til að fegra líkama sinn með blómum, skartgripum, málningardóti, fötum. Sömuleiðis er ætlast til þess að hún beri á sig ilmi sem eiga að hylja hráan líkamleika hennar, lyktina (de Beauvoir, bls. 190), sem og að sjálfsögðu feluleiki með klósettþarfir og blæðingar. Í því tærist persóna hennar upp, hún verður að engu, hún gengur inn í íveru.

 

„Við erum tilviljanir. Eignumst lífið og glötum því vegna þess að einhver náungi fyrir langa löngu var svo elskulegur að velja okkur, umfram aðrar konur, til að tæma sæði sitt í.“ (72)

 

Þegar kona þarf í sífelldu að meta sig við frummynd fullkomleikans, hina heilögu hreinu og tæru Venus þá kæfir hún niður líkamleika sinn, og tekur þátt í eigin hlutgervingu og kynlegri ritskoðun. Fegurðin verður þá að þrotlausri baráttu við holdið og eigin líkamleika sem dirfist vilja staðfesta veru sína. Fegurð verður til þegar kona getur fengið karlmann til að gleyma hvað líkami er í raun og veru,en hinsvegar þegar eiginmaðurinn fer frá aðalpersónunni okkar þá hrynur þessi feluleikur og hún finnur að hún getur leyft sér að vera líkamsvera aftur. Hún týnir af sér þá ósýnilegu hlekki sem henni voru gefnir í fæðingagjöf, hún berháttar sig af öllum fyrri gildum. Hún hættir að klæða sig upp, mála sig, eða vanda tal sitt. Hún verður ruddaleg í tali, hrækir á götuna og lætur fyrir sér fara. Hún leyfir líkama sínum í fyrsta skipti að taka pláss.

 

„Ég er lifandi kjötsekkur, fullur af úrgangi, með auma þvagblöðru og sára görn. Þetta var engin sjálfsvorkunn, aðeins blákaldar staðreyndir.“ (93)

 

Henni finnst nauðsynlegt að leyna fyrir manninum hinn auma veikleika holdsins,og þeim óhjákvæmilega holdleika sem ógnar fullkomnuninni. Maðurinn hræðist samtímis örlög hennar sem líkamsvera, þegar spegillinn brotnar og Venus er ekki lengur Venus, af því hann leitast eftir því að hafa hana breytingarlausa eins og styttu. Venus fer ekki á túr, Venus kúkar ekki, Venus rífur ekki kjaft. Venus er, og stendur, í fullkomleika sínum, fullkomleika sem er á hans forsendum. Maðurinn leitast því eftir því að finna í andliti hennar, á líkama hennar og útlimum, frummynd þess fullkomna (de Beauvoir, 191).

 

„Ef mér tækist að fela það fyrir sjálfri mér að líf mitt væri að renna úr mér eins og blóð og munnvatn og slím við uppskurð á skurðstofu, þá myndi mér kannski takast að blekkja Maríó líka.“ (34)

 

Þegar maður elskar konu, þrátt fyrir holdlega veikleika hennar, þá setjum við það á stall sem dyggð, þar sem við erum búnar að ala upp í okkur sjálfum að aðeins dyggðugur og góður maður geti horft framhjá líkamleika holdsins. Við elskum það þegar maður ríður okkur, af því að hann er að ríða okkar líkama, en ekki öðrum líkama, „hann er svo einstakur og honum finnst ég vera það líka.“ (72) Þegar kona gefur hold sitt til karlmanns, skilur hún við líkama sinn og horfir á hann úr fjarlægð, eins og hlut, í gegnum gler. Ekki til staðar, heldur aðeins líkamlega fyrir hann, því hún verður að líta vel út í hverri stellingu, hvernig sem líkami hennar snýr, teygist, pósar, eins og stytta. Í höfnuninni fyllist hún því djúpri þrá að halda í þetta eignarhald, því hún telur líkamann og fegurðina vera hennar sterkasti gjaldmiðill. Hún þráir afbrýðisemina, „hvort hann áliti sig enn hafa eignarhald á líkama [hennar], hvort hann gæti samþykkt að annar maður fengi aðgang að honum.“ (38).

 

„Ég hrökk upp við eigin rödd sem sönglaði í höfðinu á mér:

„Ég er falleg, ég er falleg.““ (19)

 

Í bókinni er þó augljóst að aðalpersónan, Olga, gerir sér hægt og rólega grein fyrir þeim samfélagslegu hlekkjum sem hún hefur haldið í og reynir hún meðvitað að sundurgreina hverju hún þarf að sleppa og hverju hún þarf í örvæntingu að halda í, svo hún tapi sér ekki allri. Hún veit hvaða leið konugreyið fór, og hún veit hvað gerist ef hún heldur ekki í það litla sjálf sem hún finnur innra með sér, „Þú ert enginn skrautgripur, engin kona er brothættur skrautgripur“ (55), segir hún ítrekað við sjálfa sig. „Maríó hafði tekið allt frá mér en ekki sjálfa mig, ekki persónu mína, ekki aðlaðandi útlit mitt“ (82).

 

Hún er ennþá persóna, og hennar sterkasti gjaldmiðill hefur ekki hrunið.

 

Allt fyrir ástina

 

„Ég elska manninn minn og þessvegna hefur allt þetta einhverja merkingu.“ (86)

 

Ástin krefst þess af konunni að yfirgefa sjálfa sig; hún baðar sig í óvirku sleni; með lokuð augu, nafnlaus, týnd, henni líður eins og hún sé gefin öldusjó, kastað til og frá af stormi, umkringd myrkrinu: myrkri holdsins og legsins, grafarinnar. Tortýmd, verður hún ein með almættinu, sjálfið er afnumið (de Beauvoir, 658).

 

Að sjálfsögðu varð ekkert til í ástleysi. Þetta hjónaband varð ekki til í tómi. En það var í þeirri athöfn að verða ástfangin að hún gaf honum allt, glaðlega. Án þess að taka eftir því lagði hún nafnið á hilluna og þegar heimilið fer í rúst á hún erfitt með að finna það aftur. Hún verður að skilja sig frá, því maðurinn er sömuleiðis birtingarmynd þess heilaga, þess nauðsynlega, og er hún gengur inn í hans veruleika getur hún réttlætt fyrir sjálfum sér að þetta hjónaband sé ekki sigur hans yfir henni, heldur sigur hennar á merkingarleysinu. Þar með verður ást hennar til hans einskonar trúarbragð. Orðið er laust.

 

Hún efast um hverja einustu hugsun. Hún hættir að geta gert einföldustu hluti, eins og að opna skrár, svara símanum, elda mat, hugsa um börnin, halda hundinum á lífi, hugsa um eigin líkamsþarfir. Ekki af því hún getur það ekki, heldur af því að efinn um að hún geti það ekki er nægilega sterkur til þess að lama hana. Olga hættir að hafa samband við fólk, hún kemst ekki út úr íbúðinni, enginn sími virkar, hún hættir að geta tjáð sig. Vissulega þar sem Maríó hafði verið milliliður hennar og alheimsins. Milliliður heimilisins og þess utanaðkomandi. Hún þurfti aðeins að setja tilveru hennar í hans hendur og þannig gaf hann henni merkingu (de Beauvoir, 534) Milli íveru og tilveru. Eitthvað sem gaf henni, líkama og sál, merkingu.

 

Þegar hann fer síðan frá henni, kastast hún aftur til jarðar, á rúmið, í ljósið; hún fær nafnið sitt aftur, andlitið: hún er sigruð, fórnarlamb, hlutur (ibid, 653).

 

„Hvar er ég? Hvað er ég að gera? Hvers vegna?“  

 

Ljóðið sem ég skrifa ekki
ljóðið sem ég á ekki skilið
yfir hræðslu þess að verða tvær
leiðir inn í spegil:
einhver sefur innra með mér
borðar mig og drekkur mig.
(Pizarnik, 1962)

 

Olga starir í spegilinn. Þegar hún horfir í spegil þá skiptir nafnið henni engu máli, andlitið sem hún sér í speglinum skiptir engu máli. Öll hennar sjálfsmynd er horfin. Til þess að kastast ekki ofan í örbirgð þá púslar hún sér saman í blindni, hún „[verður] að treysta á þessa tvo vangasvipi, fremur vegna framandleika þeirra en kunnugleika, og fikra mig svo áfram hægt og bítandi í áttina að því að öðlast sjálfstraust og fullroðnast.“ (124)

 

Hún var aðeins sú sem  hann sá hana sem. Hann hafði raðað og endurraðað henni saman út frá eigin hugmyndum. Hann bjó til það sem  hann varð ástfanginn af, en sem varð sömuleiðis svo fráhrindandi að hann hætti að elska. Sömuleiðis skapaði hann ástina í annarri konu, þegar sú mynd sem hann hafði skapað í Olgu var orðin leiðinleg.

 

Hún heldur að hún gæti ekki lifað án hans, en uppgötvar í lok sögunnar að með honum var hún ekki á lífi. Hún er meira líf-andi án hans heldur en með honum. Hún hafði í þessu samhengi ekkert sjálf utan hjónabands eða barneigna. Hún vissi ekki hver hún var án hans, og hún beið aðeins eftir því að hann kæmi og blæsi í hana lífi eins og dúkka, lífgaði hana við (Friedan, 1963). Og því var ekkert til að grípa í, ekkert áþreyfanlegt líf sem hún gat tileinkað sér eftir brotthvarf hans. En þessir hlekkir voru vissulega sjálfsskapaðir úr vanhugsuðum hugmyndum, misskildum staðreyndum, af ófullgerðum sannindum og ímynduðum valmöguleikum. Þeir voru hvorki vel sjáanlegir, né auðfjarlægðir (ibid., 31). Þesskonar ráðandi orðræða, samfélagsleg gildi og hefðir hafa leitt af sér sjálfsmyndir sem efast, blekkjast og sakast við eigið sjálf. Sakast við eigið kyn.

 

En Maður fór frá Konu, og jörðin hélt áfram að snúast.

Heimur konu á enn rétt á sér án karlmanns.

Heimur konu er nægilega sterkur til að standa einn.

 

Það er skilið við lesanda í ró. Það er ekki reynt að fylla í þetta tóm á neinn hátt, heldur er lesanda gerður skilningur um að sjálfið sé blekking, það sé nákvæmlega það sem þú gerir það að. Það sjálf sem hún skapar sér án hans, er jafn mikill tilbúningur og hið fyrra, nema núna er það á hennar forsendum. Sé því kippt undan henni í annað sinn þá er hún undirbúin, hún veit úr hverju undirstaðan er byggð. Sé hér einhver sigur er það vissulega sigur Olgu yfir eigin sjálfsmynd sem og eigin djöflum, en höfundur reynir ekki að hlúa að lesendum með hugmyndum um tilgang lífsins, né einfeldnislegrar tvíhyggju milli svikullar og sannrar sjálfsímyndar. Það sem Olga gekk í gegnum var brottför hennar úr einu sjálfi yfir í annað. Sjálfi sem henni var gefið, yfir í sjálf sem hún gaf sér.

 

Eina úrlausnin sem lesandi fær að hugga sig við er að núna eru hlutirnir öðruvísi. Við uppgötvun neindarinnar er ekkert ígrip. „Það er enginn botn, engin sylla. Það er ekkert“ (191).

 

Ferrante, Elena, Dagar Höfnunar, þýdd úr ítölsku af Höllu Kjartansdóttur, Benedikt Bókaútgáfa, Reykjavík, 2018.

De Beauvoir, Simone, The Second Sex, H. M. Parsley ritstýrði og þýddi, Vintage Books, London, 1997. (Kom upprunalega út 1949 sem Le Deuxième Sex, Frakkland.)

Friedan, B., The Feminine Mystique, W.W. Norton & Company, INC, New York, 1963.

Pizarnik, A., Árbol de Diana, París, 1962.