Mynd: Heimasíða Þjóðleikhússins.

Á ágætu flugi með hláturkitl í maganum

Um Fly Me to the Moon í Þjóðleikhúsinu

Ég hafði nánast gleymt hversu snjallt og vel skrifað handrit með litla sem enga umgjörð og góða leikara getur skapað frábært leikhús. Orðin of vön því að velja stóru sýningarnar þar sem öllu er tjaldað til; dansnúmerum, glimmeri og helst fallbyssu. Fly Me to the Moon í Þjóðleikhúsinu er í einfaldleika sínum gott leikrit. Grínleikrit sem er í alvöru fyndið, ekki bara svona pína-sig-að-hlæja-í-meðvirkni fyndið. Allir hljóta að hafa upplifað slíkt í leikhúsi. Kannski mun ég bara koma hérna með allar klassísku klisjurnar, en ég fann alveg að brosvöðvarnir voru stífari eftir sýningu. Góð þjálfun. Margir hefðu gott af slíkri þjálfun, þó ekki væri nema eina kvöldstund. Sumir helst fleiri.

Kannski ekki að undra að salurinn sé fullur af hlátri. Þær Anna Svava og Ólafía Hrönn eru meðal fyndnustu leikara landsins. Þær voru samt ekki bara mjög fyndnar, heldur líka mjög trúverðugar. Þær ljáðu persónum sínum svo skemmtilega eiginleika og gerðu þær svo lifandi að mér fannst ég kannast við Lorettu og Francis annarsstaðar frá. Leikritið er að vísu mjög einfalt og stutt, engar nýjungar hér á ferð. Eins og ég sagði áður, engir flugeldar. Leikurinn er samt fantagóður og skemmtilegur. Persónusköpun góð og handritið ekki einungis fyndið heldur líka gott innlit inn í margslungna mannlega samvisku. Það er eitthvað sérstaklega gaman að leikritum sem sýna inn í heim verkamannastétta. Ekki það að þessi veruleiki sem sýndur er í verkinu sé eitthvað algildur. Ég veit samt fyrir víst að einn mesti ótti við að vinna í félagsþjónustu er einmitt það sem gerist fyrir þær Francis og Lorettu. Verst að maður er oftast einn í vitjunum hér. Svo auðvitað vitum við öll hin að við myndum bregðast allt öðruvísi við í sömu aðstæðum – eða hvað?

Verkið er eftir írska leikskáldið Marie Jones, en hún leikstýrir einnig sýningunni. Guðni Kolbeinsson íslenskar verkið og gerir það bara nokkuð ágætlega, en haldið er í breskan uppruna verksins með nöfnum persóna og annarra breskra dægurtilvísana sem er nokkuð skemmtilegt. Leikmynd er mjög látlaus og búningar í takt við verkið. Þetta er auðvitað ekki verk sem kallar á ljósasýningu eða sjónhverfingar.  

Sýningin er góð og létt kvöldskemmtun, ekki leiksýning sem festist kannski í minninu og situr með manni lengi eftir á, en gerir gott í þær mínútur sem hláturvöðvarnir fá að hreyfast. Samtvinnun persónusköpunar og handrits er einn sterkasti þáttur sýningarinnar. Anna Svava og Ólafía Hrönn eiga mest hrós skilið, enda eiga þær salinn.