Það er brauðskortur í Róm og múgurinn æstur. Hann telur aðalinn hamstra hveiti og kennir stríðsgarpinum og þekktum lágstéttarhatara, Caiusi Martius, sérstaklega um stöðu mála. Þingmanninum Meneniusi tekst að róa liðið og í framhaldinu eru tveir lýðsstjórar kjörnir til að tala fyrir hönd fólksins. Nágrannaríki Volsca gerir innrás í ríki Rómverja og Caius fer fyrir hernum á vettvang. Við borgarhlið Corioli ræðst hann einn til inngöngu meðan hinir óbreyttu hermenn gefast upp, en hefur sigur og heldur áfram þar til hann mætir erkióvini sínum, Aufidiusi, foringja Volsca, í bardaga sem lyktar án þess að annar fái drepið hinn. Fyrir frækilega frammistöðu sína fær Caius nafnbótina Coriolanus og öldungaráðið skipar hann konsúl með fyrirvara um samþykki almennings. Caius er tregur til að sýna þá formlegu auðmýkt sem krafist er, og þó honum takist að og fái atkvæði fjöldans tekst lýðsstjórunum að snúa hug þeirra og fá Caius dæmdan í útlegð. Hann gengur til liðs við Aufidius og þeir ráðast til atlögu við Róm. Æðstu menn borgarinnar reyna að telja honum hughvarf, en ekkert bítur á hann fyrr en móðir hans biður sínu fólki griða að hann ákveður að semja frið. Að því loknu lætur Aufidius taka hann af lífi fyrir landráð gegn Volscum.
Caius Martius
Well then, I pray, your price o’ the consulship?
First Citizen
The price is to ask it kindly.2.3.81–82
I
Most French audiences have only seen four or five plays by Shakespeare. They have seen Coriolanus and therefore conclude that Shakespeare is a fascist. He is a great writer, they say, but he is a fascist.
Þannig farast Peter Brook orð í ágætri viðtalsbók, On Directing Shakespeare, þar sem nokkrir helstu gúrúar í faginu á upp úr miðri síðustu öld fara yfir málin. Það er áhugavert að hann nefnir fyrst Coriolanus sem eitthvað sem er í standard leikhúsminni Frakka, umfram eitthvað ríflega þrjátíu önnur verk skáldsins. Þetta er alveg mögulega rétt hjá Brook, en það er ekki vegna þess að Frakkar væru alltaf að leika Coriolanus. Hins vegar fór hann upp hjá Comédie Francaise 1933 og varð sú sýning minnisstæð, jafnvel sögufræg. Af henni hlutust uppþot þar sem segja má að andlýðræðissinnaðir hægrimenn (fasistar) hafi fylgt sér um málstað Caiusar Marciusar, en þetta tengdist líka frægum frönskum pólitískum skandal.
Og áður en lengra er haldið: Ég ætla að halda mig við að kalla aðalpersónuna „Caius Marcius“, eða „Marcius“ og helga leikritinu um hann nafnið „Coriolanus“.
Peter Holland hefur sinn ágæta inngang að Ardenútgáfunni af Coriolanus á nokkrum orðum sem hann segir (réttilega held ég) gjarnan vera notuð jöfnum höndum til að lýsa titilpersónunni og leikritinu um hann. „Óbilgjarn, ósveigjanlegur, oft óaðlaðandi óviðkunnanlegur á köflum,“. Já ætli það ekki bara? Við þetta má bæta orðinu „utangarðs“. Caius Martius upplifir sig úr tengslum við borgaralegt líf og segir sig að lokum úr lögum við samfélagið sem hann hefur verið tilbúinn að verja með lífi sínu. Coriolanus er áberandi minna þekktur – minna elskaður – en aðrir harmleikir sem Shakespeare skrifar eftir að hann nær tökum á forminu. Hann er til að mynda eini „stóri“ harmleikur skáldsins sem aldrei hefur ratað á íslenskt leiksvið, allavega ef við skiljum Anthony and Cleopatra útundan, og ég er alveg til í það. Samt blandast fæstum hugur um að Coriolanus er meistarastykki sem á heima í upptalningunni sem hefst á Hamlet og lyki á Macbeth ef ekki kæmi til þessi svanasöngur harmleikjaformsins hjá Shakespeare.
Ég hef reyndar séð Coriolanus á sviði, merkilegt nokk. Það hefur verið um 1996, í Mermaid-leikhúsinu í London og Steven Berkoff, einn af sérkennilegustu leikhúsmönnum Breta, við stjórnvölinn og í aðalhlutverkinu. Þetta var blendin ánægja. Sýningin mjög í hinum Berkoffska anda, kröftug og stílíseruð til dauðs, fyrir utan aðalleikarann sem veltist um hana eins og ofvirkur krakki innan um þaulkóreógraferaða mótleikarana. Fasískt myndmál í forgrunni og lítið fór fyrir túlkunarlegum „núönsum“.
Fyrir utan þennan fyrrnefnda franska millistríðsárahasar leiðir Holland fram ýmsar afleiður verksins. Bendir t.d. á þematengsl þess við tvö af verkum Ibsens; Brand og En Folkefiende. Einnig þar er blendin og mótsagnarkennd sýn á „ofurmennið“ og samspil þess við raunheima til meðferðar og veldur hver á heldur um túlkunina. Hann ver líka drjúgum orðafjölda í Delmore Schwartz, hálfgleymt amerískt skáld sem orti Coriolanus and his mother: a dream of one performance, sextíu blaðsíðna bálk þar sem ljóðmælandi, ungur drengur, rekur uppfærslu á verkinu, með fimm drauga sér við hlið: Beethoven, Marx, Freud, Aristóteles og ónefndan fimmta. Og að sjálfsögðu minnist Holland á leikrit austurríska frístundaleikskáldsins Heinrich Joseph von Collin um sama efni, sem lifir í minni nútímans eingöngu fyrir forleikinn sem Beethoven samdi fyrir frumuppfærsluna 1804. Síðast en ekki síst fær Brecht pláss fyrir sína versjón, og svo Günter Grass fyrir sín viðbrögð við þeirri umsköpun og stöðu Bertolts sjálfs gagnvart valdinu. Þetta er jú allt um valdið, hver hefur það og hvað hann gerir við það.
Hann fer líka yfir sögulegt samhengi ritunartímans. Ekki síst pólitískan óróa í Bretlandi undir Jakobi I sem naut ekki sérlega mikillar lýðhylli, svo vægt sé til orða tekið. Veðrið, uppskerubrestur, einkavæðing sameiginlegra akra og kapítalísk græðgi hleypti líka af stað reglulegum uppþotum í Englandi í byrjun sautjándu aldar. Það var ekkert skrítið að þessi saga um stéttaátök og stöðu hins einstaka í samfélagi manna hafi þótt verðugt viðfangsefni.
II
Það er að mörgu leyti skiljanlegt að Coriolanus hafi ekki alveg vinsældastatus nærliggjandi harmleikja. Það er eitthvað ófullnægjandi við úrvinnslu Shakespeares á efniviðnum, einhver skortur á sálrænni djúpköfun sem hann var búinn að skapa væntingar um með Othello, King Lear og Macbeth. Það liggur líka í efniviðnum sjálfum, eða því hversu mikla virðingu skáldið kýs að sýna honum. Raunveruleikinn er ekki plott, og það er raunveruleikablær yfir þessari sögu Plútarkosar, fremur en dramatík. Eða kannski: Dramatíkin er utan á en ekki innan í persónunum. Við fréttum ekkert af líðan Cajusar Martiusar í aðdraganda þess að hann ákveður að ganga til liðs við óvininn. Við vitum bara að hann gerir það, og skiljum það alveg, þannig séð. Hrokafullt ólæsi hans á pólitíska strauma er algert. Skilningsleysi hans á að allt er leyfilegt í valdabaráttu torgsins, líkt og í stríði.
Eins hefur Shakespeare engan áhuga á áhuga Caiusar á að verða konsúll, né heldur hvort hann sé náttúraður fyrir svoleiðis verkefni. Við getum samt eiginlega séð að:
a) hann hefur engan áhuga en lítur á það sem skyldu sína og sjálfsagðan heiður sér til handa,
b) konsúlsmetnaðurinn er allur úr móður hans, og
c) hann hefur ekkert í þetta djobb að gera.
Reyndu Kanar ekki að gera Oliver North að þingmanni? Athugum líka að „Consul“ er ekki innantóm tignarstaða heldur alvöru hæstráðendaembætti í rómverska lýðveldinu.
Að þessum takmörkunum á tragískum áhrifamætti verksins gefnum þá er nú samt margt sem heillar í á leikritunartækniplaninu í verkinu. Til dæmis byrjunin. Ef við berum hana saman við aðrar frægar „almúgabyrjanir“ þá blasir tvennt við. Í fyrsta lagi hvað þær eru allar brilljant, jafnvel á mælikvarða þessa mikla opnunarmeistara. Um það eru upphafssenur Julius Caesar, Hamlet og Coriolanus glæsileg dæmi. Og í annan stað hvernig þessi síðasta greinir sig skýrt frá hinum. Þar sem varðmennirnir á Krónborg gegna fyrst og fremst hlutverki stemmingsgjafa og múgurinn í Júlíusi er þarna aðallega sem tilefni fyrir lýðsstjóranna til að fara yfir stöðu mála þá er vaðið beint í kjarna málsins í upphafi Coriolanus.
First Citizen
First, you know Caius Marcius is chief enemy to the people.[…]
First Citizen
Let us kill him, and we’ll have corn at our own price.11.7–11
Og svo þegar einhverjum efasemdum er hreyft við þessari róttækni þá má nú segja að leikritið sé súmmerað upp í heild sinni:
Second Citizen
Consider you what services he has done for his country?First Citizen
Very well; and could be content to give him good report fort, but that he pays himself with being proud.Second Citizen
Nay, but speak not maliciously.First Citizen
I say unto you, what he hath done famously, he did it to that end: though soft-conscienced men can be content to say it was for his country he did it to please his mother and to be partly proud; which he is, even till the altitude of his virtue.1.1.29–40
Allt liggur sem sagt meira og minna ljóst fyrir strax í byrjun hvað varðar „hetjuna“ okkar sem múgurinn hatar, óttast, virðir og elskar.
Aðrar senur eru líka eftirtektarvert flott mótaðar. 4.6. er sérdeilis glæsileg. Lýðstjórarnir tveir að springa úr yfirlæti og hroka yfir sigri sínum og brottrekstri Caiusar og eru varla búnir að sleppa orðinu um að það komi augljóslega ekki að sök að hafa hann ekki í sínu liði lengur, en fregnir fara að berast um að hann sé genginn til liðs við óvininn og nálgist borgina með her sinn.
III
I’ll never
Be such a gosling to obey instinct, but stand,
As if a man were author of himself
And knew no other kin.5.3.38–41
Hvernig maður er Caius Marcius? Það er skemmtileg þverstæða að annarsvegar er hann ein af leyndardómsfyllri hetjum Shakespeares, en á hinn bóginn algerlega allur þar sem hann er séður. Það er engin þörf á eintölum til að sjá í hug hans, egóið er af þeirri stærðargráðu að allt sem hann segir afhjúpar hans innri mann. Það er líka eitthvað einæðingslegt, eitthvað Sögu Norén-legt við Caius. Til dæmis hér, þegar hann er nýbúinn að vinna sitt helsta afrek, taka Corioli-borg einn síns liðs, og vill ólmur halda áfram að berjast:
CAIUS
Where is the enemy? are you lords o’ the field?
If not, why cease you till you are so?COMINIUS
Marcius,
We have at disadvantage fought and did
Retire to win our purpose.CAIUS
How lies their battle? know you on which side
They have placed their men of trust?1.6.60–65
Ég veit ekki hvort einhver hefur skoðað Caius út frá rófi OCD-Asberger-einhverfu, en það gæti vel gagnast leikurum sem þannig eru þenkjandi. Ofangreint samtal beinir athyglina í þá átt, en það má líka hugsa um þráhyggjukennt tal hans um líkamslykt og andfýlu, óþol gagnvart nánd og jafnvel lykilatriðið varðandi að vilja ekki sýna sár sín. Stolt og hroki já, en kannski eitthvað fleira, eitthvað dýpra.
Við vorum að tala um vel mótaðar senur áðan. Orustusenan mikla, undanfari þessa þráhyggjurauss, er kannski sú allra besta af því taginu sem Shakespeare skrifaði.
í henni er lykilatriðið að liðsmenn Caiusar bregðast honum á ögurstundu og eru svo snöggir að hella sér yfir herfangið sem hann hefur unnið, en ekki þeir. Sem er skiljanlegt, þetta eru hungraðir menn. En fyrirlitning hans á þeim er líka skiljanleg, þeir hafa staðfest fyrir honum að hún er verðskulduð. Að hann eigi síðan frama sinn undir þessu liði er óþolandi. Honum er lífsins ómögulegt að fela af neinni sannfæringu hvað hann hugsar. Honum tekst reyndar að blekkja pöpulinn smá, en lýðsstjórarnir eru fljótir að fletta ofan af honum. Og völdin eru þrátt fyrir allt fólksins. Í svoleiðis samfélagi þrífast ekki menn eins og Caius Marcius. En jafnvel svoleiðis samfélag þarfnast manna eins og Caius Marcius. Sú óleysanlega þverstæða mannlífsins er eldsneytið í aflvél leikritsins.
Það er gott að skoða ákvarðanir Caiusar út frá hollustu. Fyrirfram og umhugsunarlaust finnst okkur blasa við að svona menn séu trúir föðurlandi sínu. Það er rétt, svo langt sem það nær. En það nær ekki ýkja langt í tilfelli Caiusar. Hann er fyrst og fremst trúr sínu eigin egói og afleiðum þess, hugmyndum sínum um sæmd stríðsmannsins sem trompar hollustu við lög samfélagsins.
Við getum borið þetta við aðra ofurmannlega stríðsmenn Shakespeares, frá Talbot í Henry VI part 1, sem vissulega er „The Warrior’s Code of Honour“ holdi klæddur, en stjórnast samt fyrst og fremst af föðurlandsást eins og Titus Andronicus, til Macbeths sem hefur sinn persónulega pólitíska frama (og velþóknun eiginkonunnar) að leiðarljósi öðru fremur. Með viðkomu í hinum strangheiðarlega málaliða Othello og karismatískum en prinsipplausum leiðtogum á borð við Anthony og Henry V.
Hverjum líkist Coriolanus mest? Hann er dálítið eins og eimuð útgáfa af mörgum þeirra. Dýrð stríðsmannsins stendur ein eftir. Það er fögur sjón, en um leið og hann er kominn í samhengi mannlífsins hellist óhjákvæmileg ógæfan yfir.
Vissulega eru lýðsstjórarnir skúnkar og hrinda af eigin hagsmunum af stað þeirri atburðarás sem endar með útlegðardómi yfir Caiusi. En engar leikreglur eru brotnar í því ferli. Engin svik eiga sér stað. Caius telur sig yfir gangverk lýðræðisins hafinn. Ranglega. Eða ekki. Því hans er jú mátturinn. Shakespeare býður ekki upp á neinar efasemdir um að Caius og Aufidius hefðu rústað Róm. Hvers virði eru leikreglurnar þá? Aftur: óleyst þverstæða. Djörf skoðun á raunveruleika valdsins. Heimavöllur Shakespeares, jafnvel umfram djúp sálarinnar.
IV
Hin sálræna togstreita er í aukahlutverki hér, en dregur til sín hlutfallslega mikið af athygli rýna og greinenda. Hún stendur milli Caiusar og móður hans og svo milli Caiusar og Aufidiusar.
Byrjum á mömmu. Þetta byrjar jú allt þar.
Volumnia er móðir allra sviðsmæðra. Caius er sköpunarverk hennar. Segir hún allavega. Hún hefur alið son sinn upp í hreinum og beinum línum, en auðvitað er hann kannski þannig frá náttúrunnar hendi. Það er nú smá Norén-einæðingstónn í þessu súrrealíska samtali:
MENENIUS
True! I’ll be sworn they are true. Where is he wounded?[…]
VOLUMNIA
I’ the shoulder and i’ the left arm there will be large cicatrices to show the people, when he shall stand for his place. He received in the repulse of Tarquin seven hurts i’ the body.MENENIUS
One i’ the neck, and two i’ the thigh,–there’s nine that I know.VOLUMNIA
He had, before this last expedition, twenty-five wounds upon him.MENENIUS
Now it’s twenty-seven: every gash was an enemy’s grave.2.1.148–161
Og hún er fljót að eigna sér dygðir sonarins og gera hann ábyrgan fyrir löstunum:
Thy valiantness was mine, thou suck’dst it from me,
But owe thy pride thyself.3.2.157–158
„Þú hefur þetta ekki frá mér!“ Sem er reyndar líklega rétt. Volumnia er ekki sami einæðingurinn og sonurinn, eins og sést þegar hún færir realpólitísk rök fyrir því að hann eigi að friðmælast við múginn og lýðsstjórana:
You might have been enough the man you are,
With striving less to be so;3.2.23–24
Sem hann felst á að gera, mömmustrákurinn sem hann er, en getur svo ekki. Það er ekki mikil dýpt í lýsingum verksins á samskiptum þeirra mæðgina, en hitt er ljóst: Þó hann sé harðari er hún sterkari. Hann lúffar. Og tapar.
Auðvitað er það samt ekki hún sem sveiflar aftökusverðinu. Þar kemur hitt stóra persónulega „samband“ Caiusar. Það er alltaf gert mikið úr hinni „hómóerótísku“ spennu milli Caiusar og Aufidiusar. Og henni verður auðvitað ekki afneitað með neinni sannfæringu:
AUFIDIUS
thou hast beat me out
Twelve several times, and I have nightly since
Dreamt of encounters ‘twixt thyself and me;
We have been down together in my sleep,
Unbuckling helms, fisting each other’s throat,
And waked half dead with nothing.4.5.134–139
En hún er varasöm sem leiðarljós túlkunar. Enda sér hún alveg um sig sjálf. Í þeim myndum sem ég hef horft á núna er reyndar alveg ljóst að það ríkir ansi mikil einstefna hvað varðar hver girnist hvern. Og það er fleira sem grefur undan því að líta á Caius og Aufidius sem spegilmyndir. Til dæmis þessi litla staðreynd í ofangreindri ræðu: Staðan í viðureignum þeirra er 12–0. Arsenal–Tottenham.
Og svo það mikilvægasta: Þegar Caius gengur til liðs við Volsca hefst mikil sigurganga þeirra, sem allir eru sammála um að muni endanlega færa þeim Róm. Í 4.7. ræðir Aufidius við trúnaðarmann sinn um stöðu mála og þá verður ljóst að hann hefur af henni talsverðar áhyggjur, sem trompa sigurgleðina. Hann sér líka fyrir að Caius sé fyrst og fremst tæki í höndum Volsca/sínum og verði fórnað þegar hann hefur gert sitt gagn. Aufidius er – eins og „lúserar“ gjarnan eru – að mörgu leyti áhugaverðari karakter en makker hans. Og ekki bara áhugaverðari, heldur hreinlega „Shakespearskari“. Í honum er meiri tvíræðni, meiri innri átök. Meiri pólitík. þetta er ekki hans leikrit, en samt sjáum við bregða fyrir þessum kappa sem skilur heiminn. Ólíkt titilpersónunni sem er bara kappi og skilur ekki neitt.
Ef taflinu væri snúið við er óhugsandi að Caius myndi hugsa eins og Aufidius í 4.7. Og það er svolítið pointið með leikritinu. Hvort sem við köllum það fláttskap, hræsni eða pólitískt raunsæi þá sker aðalsöguhetjan sig úr með að hafa ekki gramm af henni í sínum karakter. Það greinir Caius ekki bara frá múgnum og hinum slepjulegu lýðsstjórum, heldur líka frá þeim sem standa honum næst, tilfinninga- og afstöðulega: Aufidiusi og Volumniu.
Og þrátt fyrir allt finnst okkur hann betri en þau. Á einhverju ídealísku astralplani þar sem enginn býr, allavega.
Ég horfði á tvo kvikmyndaða Coriolanusa. Annar þeirra var sendur út á vegum NT Live 2014, uppfærsla Josie Rourke úr Donmar leikhúsinu. Þar á bæ er fagmennskan við völd, en kannski ekki alltaf sérstök listræn djörfung og dálítið treyst á að stórstjörnur dragi fólk í leikhús. Þannig er það líka hér. Tom Hiddlestone er reyndar fyllilega vandanum vaxinn, en örlítið minni glóra er að kalla til Mark Gatiss (Sherlock, League of Gentlemen) til að leika Menenius og hreinræktuð tækifærismennska að finnast Birgitte Hjort Sørensen (Borgen) tilvalin í lítið hlutverk eiginkonunnar. Verst er samt að það er hreinlega engin kemistría milli Hiddlestones og Deboruh Findley í móðurhlutverkinu. Þá er á brattann að sækja. Flott og smart sviðsetning samt.
Leikstjórnardebút Ralph Fiennes frá 2010 með sjálfan sig í titilhlutverkinu er hinsvegar ekkert minna en stórkostlegt, ekki síst þar sem það gneistar milli hans og Vanessu Redgrave. Bæði æði. Kvikmyndaaðlögun og nútímavæðing efnisins er róttæk en ákaflega snjöll hjá Ralph og handritshöfundinum John Logan og leikur á öðrum póstum skotheldur. Rúmlega það sumsstaðar, t.d. er Brian Cox magnaður Menenius og James Nesbitt og Paul Jesson geggjaðir lýðsstjórar. Svo var extra gaman að lesa um það að Gerald Butler, sem er flottur Aufidius hér, debúteraði á atvinnumannasviði í uppfærslu Berkoffs á Coriolanus, sem ég sá í firndinni.
En allt veltur þetta á Ralph og Vanessu. Þvílíkt og annað eins! Á efri helmingi topp-tíu listans yfir bestu Shakespearemyndir.
Coriolanus er stórkostlegt leikrit en staða þess í „annarri deild“ vinsældanna er ekkert óskiljanleg. Það hefur ekki flugeldaterturnar sem Hamlet, Lear og Macbeth búa yfir, endirinn er pínu antiklæmax eins og stundum gerist þegar „sannsögunni“ er fylgt út í fullmiklar æsar. En sem opin og umhugsunarvekjandi hugleiðing um vald, mátt, hagsmuni og undiröldu tilfinninganna í mannlegu samfélagi á það fáa jafningja. Og þó hér séu engin eintöl eða tilsvör sem allir þekkja þá greipast setningar í því nú samt í hugann. Þegar lýðsstjórunum hefur lánast að hrekja Caius í útlegð veitist valkyrjan Volumnia að þeim. Að þeim atgangi loknum vill Menenius vinur hennar bjóða henni að borða með sér. Svarið:
Anger’s my meat; I sup upon myself,
And so shall starve with feeding.4.2.68–69
Ofboðsleg orðamynd. Skýr og sterk, súrrealísk og á mörkum þess að standast, merkingar- og málfræðilega. Ógleymanleg.
Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnveginn í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra. Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast.