Myndir: Vefur Borgarleikhússins.

Kynusli og karnívalið

Um Rocky Horror í Borgarleikhúsinu 

Þegar hið stílhreina og skinheilaga kærustupar Brad og Janet drepur á bílnum sínum í myrkri sveit á leið sinni á einhvern mjög tilviljanakenndan fund með gömlum prófessor eiga þau ekki von á að öðlast skyndilega allt annað sjónarhorn á lífið. Ljósið sem þau sjá í myrkrinu leiðir þau nefnilega að hinum bersynduga lýð sem byggir kastala Frank N‘ Further þar sem frjálsar ástir og kynusli eru yfirgnæfandi. Kassalaga veröld parsins, þar sem aðalmarkmiðið er að verða eignuð hvort öðru í órjúfanlegu hjónabandi, er umturnað og þau fá að láta á reyna öll sín skynfæri og takmörk.

Rocky Horror hefur verið sett á svið margsinnis um heim allan en nýjasta uppsetningin í Borgarleikhúsinu er í leikstjórn Mörtu Nordal en Bragi Valdimar Skúlason hefur þýtt verkið upp á nýtt.

Erfitt er að hugsa ekki að einhverju leyti til kvikmyndarinnar þegar maður horfir á sýninguna. Væntingar verða alltaf meiri ef  verkin eru virkilega vinsæl eða fræg í ákveðnu formi eða ákveðinni uppsetningu. Varast skal samt sem áður að gleyma því að hver uppsetning á sig sjálf, ef svo mætti að orði komast. 

Verkið sem er skrifað af Richard O‘Brien var fyrst sett upp árið 1973 í Bretlandi í Royal Court leikhúsinu. Síðar átti O‘Brien þátt í því að setja verkið upp í kvikmyndaformið þar sem hann lék sjálfur eitt af lykilhlutverkunum, dygga þjóninn Riff Raff. 

The Rocky Horror Show var nokkuð byltingarkennt verk á þeim tíma sem það var fyrst sett á svið en það er talið vera fyrsti stóri söngleikurinn sem sýndi mismunandi kynhneigðir og frjálst kynlíf. Í dag er verkið talið ýta undir valdeflingu sem beinist að rétti einstaklinga til að skapa sig sjálfir eftir eigin höfði óháð kyni eða fyrirframgefnum samfélagslegum mótunarhefðum og á sama tíma að réttinum til að elska þá hvern þann sem maður vill elska. 

Verkið hefur öðlast svokallaðan költ-status og á stóran aðdáendahóp sem er mjög hliðhollur verkinu en aðdáendur klæða sig jafnvel upp í búninga á sérstökum miðnætursýningum þar sem hægt er að lifa sig algjörlega inn í atburðarrásina. Rocky Horror er nefnilega mjög gagnvirkt verk, en það talar til áhorfenda bæði í óeiginlegum og eiginlegum skilningi. 

Uppsetningin á Rocky Horror sem sýnd er núna á fjölunum í Borgarleikhúsinu þar sem sjálfur Páll Óskar fer með hlutverk hins glæsilega Frank N‘ Further skrifar sig vel inn í þá hefð og það form sem fyrri uppsetningar og kvikmynd hafa skapað. Verkið er að miklu leyti hollustueiður til gamalla hryllingsmynda og vísindaskáldskaps frá 1930 til 1970 og að auki virðingarvottur við rokk og ról og kvikmyndamenningu þess tímabils. Marta Nordal, leikstjóri sýningarinnar, heldur í þetta þema verksins en bæst hefur við örlítið meiri glamúr. Þessi glamúr fylgir líklegast Palla sjálfum en einnig má greina áhrif í anda glysrokks í sumum atriðum, Þá sérstaklega í búningavali. Leikmynd Ilmar Kristjánsdóttur er falleg og fer frá því að vera mjög látlaus eða nánast tóm yfir í glæsta stiga og risastóra vængi sem láta Pál Óskar nánast drottna yfir stóra sviði leikhúsins eins og gyðja. Ég tók sérstaklega eftir að skipulag hljómsveitar og umgjörðin utan um hana var einstaklega vel gerð, einnig var gaman að því hvernig hljómsveitin var toguð inn í atburðarrás jafn mikið og áhorfendur. Svo skemmdi ekki fyrir að sjá Lay Low rokka bassann. Töffari. 

Það eru engar efasemdir um það að Páll Óskar á þessa sýningu. Honum er að minnsta kosti greinilega ætlað að eiga hana. Hann var mjög flottur sem sérvitri klæðskiptingurinn Frank en ég myndi ekki endilega segja að hann væri ofar öðrum í leik. Margir leikarar í sýningunni voru einstaklega flottir og gerðu hlutverkum sínum góð skil. Björn Stefánsson stóð sig svo vel sem hinn kengbogni Riff Raff að erfitt er að ímynda sér hlutverkið fara til nokkurs annars leikara. Hann reyndar klikkar aldrei í neinum hlutverkum sem ég hef séð hann smeygja sér í á leikferlinum, einn frábærasti kandídát í öll þau skrítnu og ýktu karakterhlutverk sem í boði eru. Brynhildur Guðjónsdóttir var skemmtileg sem Magenta, gerði hana kómískari en maður er vanur og það var mjög skemmtileg viðbót við persónuna og Arnar Dan Kristjánsson ljáði Rocky meiri samúð heldur en Peter Hinwod gerði í kvikmyndinni. 

Vala Kristín var stórgóð Kolombía og sýndi vel hvernig hún er margslunginn persónuleiki. Í raun svona eftirá að hyggja fékk hún ekki alveg nægilega gott rými í vissum atriðum til að tjá tilfinningarnar, en ef litið er dýpra er atburðarrásin ekki sífelld gleði og skemmtun. Einnig hefði mátt gefa henni fallegri búning en hann stakk örlítið í stúf því þegar maður hugsa um Kolombíu hugsar maður um mjög litríka persónu. (Þarna er samanburðurinn við kvikmynd líklegast að festa mig í ákveðinni sýn). Haraldur Ari og Þórunn Arna stóðu sig einnig mjög vel sem Brad og Janet. Alveg hæfilega nógu geld og gerðu hlutverkunum góð skil. Halldór Gylfason náði vel til áhorfenda sem sögumaðurinn og kom með skemmtilega brandara, reyndi að toga sem mest viðbrögð upp úr stífum íslenskum leikhúsgestum. Við eigum það mjög oft til að vera allt of formleg í leikhúsi – ekki láta ykkur detta það í hug á þessari sýningu. Að lokum var söngvarinn Valdimar að óvörum mjög góð rödd fyrir Eddy. Maður hefur svona orðið vanari að sjá hann í mjúku tónunum. Ég hefði þó viljað sjá Eddy hreyfa sig meira um sviðið. Það vantaði eitthvað örlítið fútt í leikinn hjá honum.  

Sjónarspilið var flott og leikmynd, búningar og dansar flæða mjög vel saman en Rocky Horror skrifar sig inn hefð karnívalsins sem snýst um að allt sé leyfilegt (fyrir utan ofbeldi) en karnívalið á sér stað á mörkum listar og lífs. Miklar ýkjur sveipa karnívalið og er mikið um leik og látbragð, en frelsið er þar allsráðandi. Rocky Horror snýr einmitt að því að sýna hverni kyngervi er leikið og ýtir á mörkin og potar algjörlega í gagnkynhneigða, formfasta og fyrirframgefna samfélagsmótun sem Brad og Janet eru fulltrúar fyrir. Markmið Rocky Horror er að brjóta þau gildi upp og sýna að þeirra leið sé ekki endilega sú rétta. Það má þó alltaf setja ákveðið spurningamerki við það að Frank, sem er sérstakur talsmaður þarna fyrir það að allir eigi að fá að ráða sér sjálfir og skapa sig sjálfir, sé einmitt maðurinn sem er að búa til mann sem á að vera fullkominn og nákvæmlega eftir hans eigin höfði og forskrift. Þörf hans fyrir að stjórna er í raun mjög sterk. Hann er nánast eins og risastórt barn í brúðuleik og spilar með alla í kringum sig og hugsar eingöngu um sjálfan sig. Þykist vera guð sem ákveður hvernig allir eigi að vera en það er í töluverðri mótsögn við hugmyndina um valdeflingu. Páll Óskar nær að ljá persónunni þennan eiginleika en gaman er að sjá hvernig hann skiptist frá því að vera mjög hvass og leiðinlegur í að vera blíður og elskaður. Palli auðvitað fæddur í hlutverkið að vera elskaður og láta aðra horfa á sig í aðdáun og syngja frá hjartanu en það var einstaklega skemmtilegt að sjá hann líka í öðrum gír en maður er vanur, hvernig hann skiptir grímum svona snögglega og verður stundum ljótur. 

Frjálsar ástir er líka eitt stórt þema í verkinu en erfitt er að fá ekki smá óbragð í munninn af því að horfa á senuna þegar Brad og Janet er spillt af Frank. Senan er alveg á virkilega gráu svæði ef maður hugsar aðeins betur út í hvað er í raun að gerast en samt sem áður er hún markvisst látin vera kómísk og áhorfendur fengnir til að hlæja að því þegar parið er platað til að taka þátt í einhverju sem þau vissu ekki að þau væru að taka þátt í eða jafnvel vildu ekki í upphafi. Eitthvað sem er algjörlega úr takti í dag eða í raun bara alla tíð. Þarna er farið dálítið yfir mörk karnívalsins og yfir í ofbeldið. Ég persónulega hefði viljað sjá að þessi sena myndi breytast töluvert frá upprunalega verkinu en hún er virkilega slæm miðað við endinn og tilætlaðan heildarboðskap verksins. 

Sá hluti uppsetningarinnar sem á mest lof skilið eru þó þýðingarnar á textunum eftir Braga Valdimar Skúlason. Textarnir lifðu sínu eigin lífi og voru nánast ein aðalpersóna sýningarinnar. Bragi hefur náttúrulega alltaf verið lúnkinn í orðaleikjunum og í notkun sinni á óalgengum og skemmtilegum orðum. Íslenska tungan kemur fram sem hrífandi verkfæri, fullt af möguleikum og fær að njóta sín í gegnum tónana. Furðulega var ekkert erfitt að tengja við lögin í nýjum textabúningi þrátt fyrir að maður kunni þau öll utan að á ensku. Spennan við að heyra næstu orðaleiki varð bara sífellt meiri og uppskar textinn oftar en ekki mikið tíst og hlátur áhorfenda. „Kemur ljós í ljós“ er persónulegt uppáhald en einnig hvernir Bragi hefur látið allt ná að ríma svo fagurlega og hvernig hann skapar ný orð þegar það á við. Orðið kynsnillingur fer þar fremst í flokki. Góður kandídát í orð ársins.  

Ef litið er á heildina er sýningin stórgóð skemmtun og mikið sem gleður bæði augað og eyrað. Mörg atriði í sýningunni eru vissulega mjög klúr og mögulega gott fyrir einhverja að vera andlega tilbúnir fyrir slíkt. Sýningin heldur sig alveg við formið á verkinu og er þar af leiðandi ekki að gera neitt nýtt eða þróa verkið neitt frekar. Gaman er að sýningum sem eru víxlverkandi og áhorfendur dregnir gagngert inn í söguheiminn. Rocky Horror í borgarleikhúsinu tekst það vel án þess að láta áhorfendum líða of óþægilega.