Mótþrói

Á mánudaginn næstkomandi verður Mótþrói – ljóðahátíð og útgáfuhóf í Iðnó klukkan átta, þar sem tvær ljóðarkir líta dagsins ljós. Fá gestir frítt eintak af báðum ljóðörkunum meðan birgðir endast.

Skáldin sem koma að verkefninu eru Anna Hafþórsdóttir, Brynjólfur Þorsteinsson, Ella Wiberg, Eydís Blöndal, Fríða Ísberg, Hertha Richardt Úlfarsdóttir, Hólmfríður María Bjarnardóttir, Jón Örn Loðmfjörð, Nanna Vibe, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Sólveig Eir Stewart, Stefanía dóttir Páls, Úlfur Bragi Einarsson og Þorvaldur Sigurbjörn Helgason.

Mamma

Þú kallar mömmu mína mömmu
og hún svarar
og segir mér að hætta í símanum

Ég ranghvolfi augunum
og ranghvolfi þeim aftur
yfir að hafa ranghvolft þeim

Þegar þú ert komin í jakka og skó
segir mamma að þú sért ekki með húfu
svo ég set hana skjálfandi á þig

Ég skelli á eftir okkur
og skelli svo bílhurðinni
yfir því að hafa skellt hurðinni á eftir okkur

Og mamma sendir mér sms
og segir mér að hætta að skella, það skjálfi allt og nötri

Og ég skelf og nötra
og reyni að rifja upp hvað uppeldisbækurnar sögðu
en það eina sem kemst að

er að þú sjáir mig ekki
eins og uppeldisbækurnar segja að þú eigir að sjá mig

Eydís Blöndal

Í Timbúktú eru engir Íslendingar

Benidorm er borg á Spáni
þar búa 69.000 manns
og á hverju ári koma þangað fimm milljón túristar
einu sinni sagði utanríkisráðherra Íslands að uppáhaldslandið sitt væri Benidorm
á Benidorm eru fleiri hótel en heimili
og þrjátíu Íslendingabarir þar sem hægt er að hlusta á tíu tíma útgáfu af Ég er kominn heim
og gera víkingaklappið með tíu Spánverjum
þeir heita allir Alfonso og kunna að segja „rassgat í bala“ á lýtalausri norðlenzku
mig langar ekki að fara til Benidorm
mig langar að fara til lands þar sem Ísland er ekki til
þar sem enginn hefur nokkru sinni heyrt um Björk eða Sigur Rós
lands þar sem heimskortið sýnir bara blátt Atlantshafið norðan við Bretlandseyjar
lands þar sem ég er hvorki víkingur né álfur
bara enn einn hvítur kall með bumbu sem þarf að ræna

Þorvaldur Sigurbjörn Helgason

Þessi týpa

Það sést í gegnum
grímuna þína
fötin og hárið á þér

Þú ert að reyna
að vera þessi týpa

týpan sem gerir merkilegt
týpan sem tórir
týpan sem blæðir ekki

En það er ekki að virka

Ég er nefnilega týpan
sem sér í gegnum fólk
eins og þig

Sólveig Eir Stewart