Hasar á Hólmanum

Um spennu- og glæpasöguna Blóðengil eftir Óskar Guðmundsson. Blóðengill er gefinn út af Bjarti og telur 363 síður.

Þann 11. desember 2011 hringdi sex ára gömul hálfnorsk stúlka að nafni Mira í neyðarlínuna og sagði móður sína, Christinu, liggja í blóði sínu í rúminu og hreyfa sig ekki. Sjálf var hún læst inn í skáp í eldhúsinu. Maðurinn (óboðni gesturinn) í húsinu lokaði hana í skápnum. Hún hringdi úr leyninúmeri svo óhægt reyndist um vik að finna út hvar hún var stödd. Ræst var út leit. Þegar húsið fannst voru stúlkan og móðirin horfnar. Blóðið í rúminu líktist snjóengli, blóðengli og fingur finnst undir rúminu. Hjálmar, ofbeldisfullur eiginmaður Christinu, fellur undir grun. Auðvitað er ekki allt sem sýnist. Annars væri sagan þunnur þrettándi. Inn í rannsóknina fléttuðust vafasamur sjúkraþjálfari að nafni Tómas, vafasamur lögfræðingur að nafni Pálmi og sonur Tómasar Styrmir sem var eigandi öldurhúsa og óttalegt afstyrmi. Christina hafði verið í tímum hjá Tómasi. Pálmi var lögfræðingur hennar. Hún var sökuð um að hafa ætlað sér að ræna Miru þegar hún fór með hana til Noregs eftir miklar barsmíðar Hjálmars.

 

„Farðu inn til mömmu og við skulum reyna að vekja hana saman. Viltu gera það fyrir mig?“

„Nei, sagði Mira.

„Af hverju viltu það ekki?“

Löng þögn. Eins og Mira hefði hreinlega lagt á.

„Halló? Mira ertu þarna?“

„Já.“

„Af hverju viltu ekki fara inn til mömmu?“

„Af því að það er svo mikið blóð.“

„Blóð? Hvar er blóð“

„Á mömmu.“

(bls. 13)

 

Þannig, nokkurn veginn, hefst spennu- og glæpasaga Óskars Guðmundssonar, Blóðengill. Rannsóknarlögregluþjónninn Hilma þarf, ásamt Oddgeiri aðstoðarmanni sínum og fleiri löggum, að rannsaka atvikið og berst leikurinn um Reykjavík og nágrenni Reykjavíkur; að Nesjavallavirkjun og til Noregs. Sagan gerist í desember árið 2011 og blandast því blóðlykt hangiketslyktinni og jólaskrautinu. Veður er ekki beysið, það er snjóþungt og vindasamt. Áður en yfir lýkur falla fleiri í valinn, uppkemst um öfuguggahátt, nauðganir, vændi, heimilisofbeldi auk annars ofbeldis. Bílaháska, eldsvoða, nauðgunarlyf, hefndarmorð, skothvell, og þar af leiðandi byssur, er einnig að finna á síðum verks. Ef lykt mætti greina væri lyktin atarna all Hollywood-leg. Lyktin magnast og upp við hvernig skipt er á milli sena, snöggar skiptingar og óforvandis litið til baka. Líkt og í kvikmyndunum.

 

Við þetta bætist glæpaforinginn Vladas sem Hilma fékk upp á móti sér í síðustu bók með því að koma upp um glæpastarfsemi hans. Hann situr um ástvini Hilmu í hefndarskyni og lætur þokkapilta sína fylgja henni um hvert fótmál. Atburðarrásin er allæsileg en jafnframt dramatísk.

 

Hilma hafði sjálf kynnst þeim þegar hún fékk hlutverk moldvörpunnar og kom sér þannig inn í raðir Vladasar þar sem fíkniefni, peningaþvottur, mútur, mansal og hórmang komu við sögu. Opinberlega og á yfirborðinu hafði hann verið virtur og mikilsmetinn í viðskiptaheiminum. (bls.19)

Saga þessi er önnur saga höfundar. Fyrra verk höfundar Hilma, kom út árið 2015 og svo aftur í endurskoðaðri útgáfu í ár. Blóðengill tekur við þar sem hinni sleppir. Rannsóknarlögreglukonan Hilma hefir ekki fyrr leyst morðmál þeirrar sögu en viðtekur annað mál. Eins og í fyrri sögunni er Hilma í aðalhlutverki. Aukinheldur koma fleiri persónur þeirrar sögu fyrir. Líkt og tíðkast í glæpasögum með sama aðalkarakter fær lesandi að kynnast meginfígúrunni betur og kemst að ýmsu sem ýjað var að í fyrra verki. Sumt úr Hilmu er svo endurtekið fyrir þá sem ekki lásu það verk. Ekki er lífsnauðsynlegt að hafa lesið Hilmu á undan þessu.

 

Fortíð Hilmu tengist óbeint því máli sem til rannsóknar er að því leytinu til að barnið Hilma varð vitni að heimilisofbeldi, eins og Mira. Er á tíðum fléttað saman afturliti og hvernig samfélagsleg staða Hilmu var bágborin á hennar uppvaxtarárum. Guðmann, yfirmaður Hilmu, tengist henni sterkari böndum en flestir. Hann „hafði margsinnis komið á heimili Hilmu þegar hún var barn og unglingur. Og það voru engar kurteisisheimsóknir.“ (bls. 22) Hann þurfti að hafa afskipti af heimili hennar sakir heimilisofbeldis fjölskylduföðursins.

 

Jafnframt er haldið áfram með Vladasar-hlutann og botn fæst í hvort lögreglumaðurinn Kjartan sé á mála hjá Vladasi eins og Hilmu grunar og hver örlög Eyþórs, góðvinar Hilmu, verða. Ráðist var á hann í Hilmu af vikapiltum Vladasar og liggur hann þungt haldinn á spítala. Er hann vaktaður af lögreglumanni. Nema hvað.

 

Þessi tilfinning Hilmu um að Vladas hefði náð Kjartani á sitt band var of sterk til að láta hana sem vind um eyru þjóta. Kjartan hafði misst tökin á sjálfum sér og lífinu yfirleitt. Starfsframinn innan lögreglunnar var á hraðri niðurleið, alkóhólþorstinn var viðvarandi og fjárhagsvandinn elti hann á röndum. Hann var í rauninni á síðasta snúningi og Hilma vissi að hann hafði aldrei getað sætt sig við að henni, þessum stelpuskratta, hefðu verið falin mikilvægustu verkefnin og það fljótlega eftir að hún hóf störf innan rannsóknarlögreglunnar. (bls. 20)

 

Augljóslega er Hilma fyrirferðarmest á síðum verksins og fær lesandi að kynnast, eins e.t.v. má geta sér til um, harðri konu, hörkutóli af gömlum skóla sem þó á það til að brynna músum. Persónan er því máski af aðeins öðru sauðahúsi en gengur og gerist. Hún er og naktari, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu; hún er full af væntumþykju en jafnframt hatri og svo er hún sínkt og heilagt að klæða sig úr hverri spjör. Hún getur státað af kynþokka en er jafnframt „þakin tuttugu og átta skurðsárum og átta brunaförum eftir sígarettur. Á maganum, á bakinu, á brjóstunum.“ (bls. 62) Svo hefir hún ör þvert yfir andlitið. Vladas var valdur að því.

 

[Hún] lét vatnið skella á hvirflinum. Fannst hún sjá þessar hugsanir streyma niður líkamann, yfir brjóstin og geirvörturnar, niður magann, sköpin, bæði lærin og loks hvernig þær hurfu ofan í niðurfallið. Hún skrúfaði fyrir vatnið. Hlustaði á hvernig það draup og henni leið vel. Fullnæging. Fullnæging haturs sem hún hafði sleppt lausu. Hún horfði á niðurfallið þar til það kyngdi síðustu dropunum.

Hún gekk inn í stofu og lagðist nakin í sófann. (bls. 63)

Sögumaður þessarar sögu er, eins og í Hilmu, alvitur. Þótt er ýmsu, líkt og lög og regla gera ráð fyrir, haldið leyndu fyrir lesanda. Frásagnarstíllinn er skýr og því að gera skilmerkilegur. Ekki er vandkvæðum bundið að fylgja atburðarrásinni. Og það einkenni svona sagna að „pína“ lesanda til að lesa áfram með því að láta kafla enda á einhverju óljósu eða með að láta eitthvað mikilvægt koma í ljós þannig að lesandi verður að halda áfram til að komast að því hvað það er hér haldið í heiðri.

Ekki er hægt að halda því fram að hér sé um samfélagslega sögu að ræða í þeim skilningi að leitast sé við að benda á sárasótt samfélagsins. Engu að síður eru mál sem hafa verið í umræðunni notuð sem efniviður. Þar má t.d. nefna kynferðisofbeldi og vændi. Saga þessi er t.a.m. nokkuð skyld Gatinu eftir Yrsu Sigurðardóttur hvað því viðkemur. Blóðengill er þó annars konar saga þar sem hún leggur meiri áherslu á hasar en mörg íslensk ættmenni sín. Spurningin er bara hvort lesanda hugnist slíkt. Ef sú er raunin er hægt að hugsa sér margt verra en að taka sér þetta verk í hönd og fá smá hasar á Hólmanum í toppstykkið.