Rétt bráðum hreyfir hún höfuðið

Úr smásagnasafninu Ég hef séð svona áður

Ég þarf að deila herbergi með Tobba. Ég er ósáttur við það. Túrar útheimta mikla samveru, við gerum nánast allt saman: keyrum, sándtékkum, borðum, bíðum, blöðrum við fólkið, förum saman í morgunmat. Nóttin er eina von okkar um að fá að vera einir, þó að það sé bara rétt á meðan við sofum. Við biðjum alltaf um aðskilin herbergi. Það hefur klikkað í þetta skipti. 

Í upphafi samstarfs okkar og lengi framan af hafði ég gaman af Tobba. Mér fannst sniðugt að fylgjast með honum, hvað hann gat verið sérvitur. En nú er ég orðinn leiður á duttlungunum hans, þeir pirra mig. 

Þegar við komum upp á herbergi eftir tónleika setur Tobbi í gang rútínuna sína: opnar töskuna, tekur fötin upp úr henni, setur þau í skápinn, þó að við gistum bara eina nótt, finnur snyrtitöskuna, setur tannburstann í glas inni á baði, stillir tannkremstúpu upp við hliðina á glasinu, hann passar sig að kaupa alltaf tiltekna tegund af tannkremi sem er seld í túpu með þykkum tappa svo hún geti staðið upprétt. Honum finnst hann þurfa að nota allt í herberginu. Nú hefur hann fundið buxnapressu inni í skáp, hann tekur hana fram og pressar gallabuxur sem hann er með til skiptanna. Svo sest hann við skrifborðið og flettir möppu sem liggur þar, les um gönguleiðir á svæðinu og veitingastaði sem bjóða upp á heimsendingu. Hann hefur ekkert með þessar upplýsingar að gera. Hann er búinn að borða. Ég veit allt um það, ég sat með honum. Og hann er ekki á leiðinni í neinn göngutúr. Hvorugur okkar hefur áhuga á því. Við höfum komið það oft í þennan útnára, það er ekkert hérna sem við eigum eftir að skoða. 

Þegar ég hætti að nenna að fylgjast með þessu kveiki ég á sjónvarpinu. Það eru fáar stöðvar á tækinu. Á stöð eitt er verið að sýna bíómynd. Hávaxinn maður með kúrekahatt situr í rútu, hann virðist þurfa að sitja þar í marga daga, líður í gegnum miðríki Bandaríkjanna, spjallar við aðra farþega, horfir út um gluggann, lætur hugann reika, flöktir á milli fortíðar og nútíðar. Smám saman kemur í ljós að hann er á leiðinni til New York.

Midnight Cowboy, segir Tobbi og lokar möppunni. Hann hlammar sér sín megin í hjónarúmið.

Hefurðu séð hana? spyr ég. 

Já, já, ég hef séð hana, segir Tobbi.

Maðurinn með hattinn lætur sig dreyma um ástarleik við brúnhærða konu. Þau liggja nakin uppi í rúmi og kyssast. Hann hlustar á ferðaútvarpið sem hann hefur tekið með sér í rútuna, hann talar við aldraðan mann, svo aldraða konu. Svo hverfur þetta fólk, aðrir farþegar birtast í staðinn. Dagurinn líður, það kemur nótt og svo annar dagur. Allt í einu situr nunna við hliðina á manninum. Af útvarpinu má skilja að maðurinn nálgast áfangastað sinn. Hann gleðst því.

Sjáðu þetta, segir Tobbi og bendir á skjáinn. Rétt bráðum hreyfir hún höfuðið frá glugganum, hættir að tyggja, svo lítur hún á hann. 

Tobbi gerir munnhreyfingar eins og hann sé að tyggja eða sjúga eitthvað innan samanbitinna vara. Svo snýr hann höfðinu að mér og glennir upp augun. 

Ég lít á skjáinn. Ég horfi á nunnuna hreyfa höfuðið og gera nákvæmlega eins munnhreyfingar og Tobbi var að gera rétt í þessu. 

Þetta er ótrúlegt! kalla ég upp yfir mig. Hvernig vissirðu þetta? 

Ég bara man eftir þessu, segir hann. Nunnan er svo góð týpa. 

Þú ert snillingur, segi ég. Mig langar að segja eitthvað fleira en er orðlaus. 

Tobbi þakkar mér hrósið.

Í myndinni er maðurinn með hattinn kominn inn á hótelherbergi eða þangað sem hann virðist ætla að halda til. Hann ætlar greinilega að vera þarna í dálítinn tíma, hann hefur hengt upp tvær myndir, eina af berbrjósta stelpu, hina af Paul Newman. Hann reynir að kveikja á sjónvarpinu.

Hefurðu séð þessa mynd oft? spyr ég Tobba. 

Mjög oft, svarar hann. 

Hvað erum við að tala um? 

Tíu sinnum? 

Örugglega oftar. 

Hvað þá? Tuttugu sinnum? spyr ég uppnuminn og er alveg búinn að gleyma því hvað ég var orðinn þreyttur. 

Allavega það.

Oftar en tuttugu sinnum? 

Tobbi kinkar kolli. 

Þrjátíu sinnum? 

Fjörutíu sinnum? 

Ég veit það ekki. Ekki sjaldnar en það. 

En hugsanlega oftar? 

Já, það getur verið, segir Tobbi. Ég gæti trúað að ég hefði séð hana svona sextíu sinnum. Kannski sjötíu sinnum.

Ég hlæ, skríki. Ég hef ekki hlegið svona lengi. Ég sé að Tobbi fer hjá sér en ég get ekki haldið aftur af hlátrinum. 

Af hverju hefurðu séð hana svona oft, Tobbi? spyr ég. 

Við mamma horfðum stundum á hana saman. Það er að segja oft. Við horfðum oft á hana saman.

Ég hætti að hlæja. Hann hefur ekki minnst á mömmu sína í áraraðir, sjálfsagt ekki síðan við vorum að byrja. Hún var veik og dó, það var Tobba þungbært þegar hann var barn og hvíldi enn þungt á honum þegar hann var ungur maður. Það hefur eflaust verið mjög erfitt fyrir hann að skilja að einhver sem elskaði hann þráði að deyja. Við áttum innilegt samtal um hana seint um nótt eða undir morgun fyrir fimmtán eða tuttugu árum, grétum báðir ef ég man rétt, en höfum ekkert talað um hana síðan. Og segjum ekkert núna. Engu við þetta að bæta. 

Í morgunverðinum daginn eftir fylgist ég með honum setja tvær brauðsneiðar í ristina. Á meðan brauðið ristast hefur hann til eina pakkningu af smjöri, tvær ostsneiðar, eina sneið af skinku, eina af malakoffi. Hann fær sér jógúrt í skál, smá múslí og hunangsslettu, banana sem hann mun innan skamms brytja ofan í jógúrtina. Kaffi, vatn og appelsínusafi. Hann fær sér alltaf það sama, hann hefur alltaf fengið sér það sama. Nema það hafi breyst, en þá hafa breytingarnar átt sér stað svo hægt að ég hef ekki tekið eftir því. 

Um kvöldið eru svo aðrir tónleikar, við spilum gömlu góðu lögin fyrir sama fólkið og kemur alltaf, sömu andlitin. Þau koma aftur og aftur, vilja alltaf heyra það sama. 

Eftir tónleikana tökum við flug heim, við þurfum ekki að gista aðra nótt að þessu sinni. 

Að ári fáum við tölvupóst frá tónleikahaldaranum í útnáranum. Hann tjáir okkur að því miður geti hann ekki boðið okkur að spila þetta árið, aðsóknin á staðnum hans hafi dvínað síðustu ár og áhuginn á okkur sé hreinlega ekki jafn mikill og hann var. 

Hvað ætli það geri til? hugsa ég. Ætli við förum ekki að hætta þessu.

Ég hef séð svona áður kom út 16. nóvember og hefur að geyma tólf nýjar smásögur eftir Friðgeir Einarsson, höfund bókanna Takk fyrir að láta mig vita og Formanns húsfélagsins. Friðgeir er einn af forsprökkum leikhópsins Kriðpleirs.