Úr Skollaeyrum

núðlusúpa

líta inn í ísskáp
leita að stæðilegum bitum

kaupa gúrku og hummus
láta mygla inni í ísskáp:
grænan hummus
brúna gúrku

kaupa frosið spergilkál
geyma lengi
lengi, lengi
fagurgrænt í frystinum

kaupa poka af
tuttugu litlum eplum
fylgjast með þeim rotna
í eldhúsglugganum

og sötra núðlusúpu
úr stórri skál

orðin

ég hlýt að hafa fæðst
á Esjunni

í kjöltu hennar
kúrir hvít læða
teygir úr sér, malar
glottir til mín
yfir sundið

einu sinni
hjúfraði ég mig þar
og gljúfrin hvísluðu:
hættu að hugsa!
þá var ég stráin
birkitrén, blómin
í hlíðunum
orðlaus
og varð
ekki neitt

ég man ég sveif!
í smáum eindum
en mér er ætlað
að standa, full
orða
hérna megin
hafsins

því ég er
orðin