Pínulítil kenopsía

Gíraffi, krókódíll og önd-kanína koma arkandi inn í Kringluna, með hjörtun full af söknuði og þrá eða ekki: Um Pínulitla kenopsíu

Ég vil byrja á að segja að ég er hrifinn af bókinni Pínulítil kenopsía: Varúð, hér leynast krókódílar, eftir Jóhönnu Maríu Einarsdóttur. Mér finnst hún góð. Þá er það frá og við getum vikið að öllu hinu, sem er öllu óljósara, til dæmis hvað er svona gott við hana.

Blaðamenn á ráfi um Kringluna

Þegar ég var unglingur virtust blaðamenn hafa vanið sig á að ráfa um Kringluna í leit að almenningsálitinu milli kosninga og spyrja ókunnugt fólk, ef ekkert annað virtist aðkallandi, hvort það tryði á ástina. Trúir þú á ástina, þreytulega kona sem vildir heldur vera í allt öðru landi með allt aðra innkaupapoka? — Já, verður maður ekki að gera það. — En þú, trúir þú á ástina, skeleggi, feimnislegi, fúlskeggjaði iðnaðarmaður? — Trúa ekki allir á ástina? — En þið hérna, menntaskólakrakkar á fyrsta ári, sem deilið með ykkur djúpsteiktum rækjum og súrsætri sósu í boxi af Stjörnutorgi, trúið þið á ástina? Og sakbitni þingmaður, þú með varaþurrkinn sem svarar áreiðanlega með tilvitnun í Hávamál, hvað með þig, trúir þú á ástina? Eitthvað svona. Þetta virtist eðlilegasti hlutur í heimi, og að svo skyldu svörin birtast í blaðinu, með ljósmyndum sem hverja og eina þurfti að framkalla, stækka, skanna, keyra út á filmu, færa yfir á plötu og svo prenta, það virtist líka sjálfsagt. Í þá daga kostaði fyrirhöfn að spyrja fólk hvort það trúði á ástina en ég veit ekki hvort blaðamenn spyrja svona lengur.

Hvað átti þetta að þýða?

Síðdegisblöðin spurðu Kringlufarana, og ég geri ekki ráð fyrir að blaðamenn DV hafi byrjað morgnana á að ráðfæra sig við Moggann um hvað ástin væri, áður en þeir hlupu út í Kringlu að spyrja aðra hvort þeir trúðu á hana, en það má ímynda sér það, því á hverjum morgni prentaði Mogginn þennan Ást er … dálk sinn, og vegna þess að ég er að brenna út á tíma, skila þessari umfjöllun alltof seint, mun ég hvorki fletta því upp hvar hann er uppruninn né hvort hann birtist enn í Morgunblaðinu, en í stuttu máli var einhver áróður þarna sem ég er ekki viss um að sé þar lengur, sem annað hvort snerist um ást eða beitti henni fyrir sig, hélt því aldrei fram að ástin væri til dæmis byltingarkennt afl eða tilraunastofa lýðræðisins, hvað þá problematísk, til dæmis dulargervi fyrir kúgun kvenna.

Hvað átti það að þýða?

Ég trúi ekki á Moggann en Pínulítil kenopsía krefur mig um að gerast ókaldhæðinn í að minnsta kosti eitt paragraf. Kannski væri betra að sleppa greininum og kannski er þetta orð, að trúa, orðið snúnara í meðförum, en segjum að við gerum ráð fyrir ást og teljum okkur vita eitthvað um hana. Hún beri með sér ákveðna litadýrð og ákveðna skerpu, opnun — sé ekki blind heldur beri þvert á móti kennsl á sólskinið í heiminum, sólskinið í þungskýjuðu dögunum þess vegna (Bataille sagði eitthvað í þá veru).

Að gera ráð fyrir ást myndi þá fela í sér að þrátt fyrir allt, þrátt fyrir allan sinisisma heimsins og raunveruleikans — og það er tvísýnt hvort er heldur tímanna tákn, útbreiðsla þessa orðs eða þýðingavandinn sem umlykur það og heldur því að mestu frá eyjunni, marandi á hálfu kafi í kaldhæðni efnahagslögsögunnar ef ekki innan landhelginnar — að þrátt fyrir allan sársaukann, ljótleikann, kaldhæðnina, vegvillurnar og grimmdina, þá vari eða þrífist þarna möguleiki á tengslum milli fólks, tilhneigingu einnar manneskju til annarrar, sem sé bæði góðvilji og girnd, sjálf ókaldhæðin með öllu, og megi kalla þessu nafni.

Og ef við vitum eitthvað um þennan möguleika getum við kannski haldið því fram að hann birtist öðru fremur í tilteknum kossum, þessum (undarlega eða) sérkennilega unaði þess að snertast í viðkvæmni og löngun, manneskja á manneskju. Kossinn er fáránlegt fyrirbæri á okkar dögum, kannski einmitt vegna þess að honum verður ekki auðveldlega miðlað. Hann er bara þar sem hann er og jafnharðan er hann farinn. Kossar eru hláturmildir en þá varðar ekki mikið um það sem býr utan þeirra og því standa þeir auðveldlega af sér alla heimsins kaldhæðni, hvort sem þú vilt að orðið þýði íróníu, sinisisma eða sarkasma.

Kossinn blífur en að öðru leyti er ást eitthvað sem leitar sér nýs tjáningarmáta á hverjum tíma. Tími, í merkingunni tíðarandi og saga, er hér andstæðingur, eitthvað til að sneika sér hjá, berjast við, flýja eða leita leiða gegnum. Að gera ráð fyrir ást er þá að trúa á að minnsta kosti eina hetjusögu: það er tvísýnt á köflum en að lokum fer allt ekki bara einhvern veginn, að lokum fer allt einmitt þannig að John McClane lifir af, sprengjan sem hann aftengdi verður ekki hans síðasta.

Það sem Jóhönnu Maríu tekst (kannski) í Pínulítilli kenopsíu er að vera ópaþetískur, óvæminn og þó ókaldhæðinn boðberi ástar á annars tvísýnum tímum í sögu hennar. Þetta gerir hún með því að grafa kenndirnar og tengslin á bólakaf í orðaflaumi sem er svo óðamála að jafnast á við lítið snjóflóð. Það rétt aðeins glittir í hana en glittir þó (kannski).

Fjarverur

Þetta viðfangsefni blasir ekki við, við fyrsta lestur bókarinnar, í það minnsta ekki við byrjendum eða fallistum í tilfinningalæsi. Við fyrsta lestur naut ég litadýrðarinnar og leikjanna. Leikir bókarinnar að fjarverum eru ekki algengir í íslenskum bókmenntum, og helst að Hermann Stefánsson hafi sinnt þeim til þessa — sem Jóhanna þakkar í kreditlista fyrir góð ráð og yfirlestur.

Í bókinni er því lofað að sögð verði saga af hálsstuttum gíraffa, brandari jafnvel, sem — og hér kemur spoiler alert á síðustu stundu — sést síðan hvergi. En fjarverurnar eru fleiri og viðameiri: í bókinni eru ekki (eða rétt svo varla og í það minnsta ekki nafngreindar) persónur og þar er sagt að verði ekki neinn söguþráður. Ég bókarinnar lætur móðan mása um allan fjárann, flest áhugavert, grípur niður í neti orðanna, orðanna í heiminum, sem fara sínar villikattaleiðir. Égið kallar þennan frásagnarhátt póstmóderníska tilraun, sem er svosem áreiðanlega ekki rangt. Meira (kannski) um það síðar.

Seinni hluti fyrsta kafla hæðist að því hversu margt hefur þá þegar farið framhjá lesandanum, sem er þarmeð sleginn út af laginu, löðrungaður mildilega. Um leið er þessi meginþráður bókarinnar kynntur til sögunnar: fjarvera, fjarvistir, vöntun. Það sem er ekki þarna og það sem þú sérð ekki þó að það sé þarna, sæir ekki þó að það væri þar. Í öðrum kafla er titill bókarinnar gerður að nafni á þessari vöntun: kenopsía.

Hefurðu heyrt um fyrirbærið kenopsíu? Það stendur fyrir þá skrítnu tilfinningu þegar þú ert stödd eða staddur á stað sem vanalega væri iðandi af lífi og tilheyrandi hávaða, en er nú fullkomlega yfirgefinn og hljóður. Það er tilfinningaleg síðmynd sem gerir staðinn svo gersamlega tóman að hann verður ofur-tómur, og fjöldi fólks er talinn í mínustölum; yfirþyrmandi fjarvera þess glóir eins og á neonskilti. … Ég hef einmitt upplifað þetta.

Í kjölfarið segir égið af göngu sinni um tóman Laugaveg undir morgun en kynnir beint í kjölfarið til sögunnar og skilgreinir annað, nýinnflutt hugtak, Altschmerz:

Langvarandi þreyta gagnvart gömlum vandræðum sem þú hefur átt í — sömu leiðinlegu gallarnir eða kvíðinn sem hefur nagað þig árum saman.

Égið segist varla kannast við þetta fyrirbæri á eigin skinni en:

kannski að þú , kvenkyns lesandi, tengir við þetta á þeim nótum að þú kunnir ekki að velja þér karlmenn. Fellur alltaf fyrir þessum svokölluðu bad boys … Sætir strákar, jafnvel aðeins yngri … Það hef ég allavega gert.

Að því sögðu hefjast leikar. Knappir kaflar bókarinnar hoppa, skoppa, teygja sig og toga, ef ekki í allar áttir þá að því er virðist í hvaða átt sem er: hér er stjörnukerfið Betelgás, þarna er bókmenntahreyfingin Oulipo og George Perec, vangaveltur um hvernig megi mæla stærð regnboga, stærðfræðisönnun sem enginn skilur nema höfundur hennar, þrettán orða setning, Julia Kristeva við hlið Destiny’s Child, myllumerki, mjúkur ostur, prump, ljóshraði, veðurfræði, jarðfræði, nanómetrar lita og — skyndilega er bókin búin.

En þessi fjarskyldu viðfangsefni eru, þegar að er gætt, ekki bara hvað sem er. Gegnum nálgun hins óðamála égs á þau öll liggur þessi þráður, að eitthvað vantar. 3. kafli spyr: „Hver brennir minningar?“ og svarið við hinni retórísku spurningu er auðvitað enginn. Eða þar um bil. Minningabruninn myndi leiða til einnar vöntunar, en brennuvargana sjálfa vantar líka og þar sem textinn svarar retórísku spurningunni aldrei berum orðum vantar þaríofan að staðhæft sé um vöntun þeirra. 4. kafla vantar (!) en 5. kafli tilkynnir að „engar skýrar útlínur“ séu á „manninum eða nokkru öðru fyrirbæri“ — mörkin vantar. Í 6. kafla kemur fram að mannverur hafi enga sál eða að öðrum kosti vanti betra orð yfir hvað sem það er. Þegar kemur að 7. kafla og Oulipo-hreyfingunni snýst hann um 300 blaðsíðna lipógram George Perec, bók sem vantar bókstafinn E og heitir á frönsku La Disparition. Að þýða titilinn sem Vöntun væri ekki alvarlegt brot.

Og svo framvegis og svo framvegis.

Snertlar við söguþráð

Það eina sem bókin lofar að sig muni vanta, eða að þar verði ekki, er söguþráður. Líkt og bókin, eða ég hennar, sér fyrir þegar hún leggur lesanda fyrir að „hugsa ekki um krókódíla“, ferðast lesandinn þá gegnum bókina með söguþráð á heilanum — og finnur hann. Vöntunin væri ekki ærleg ef hún léti sig ekki vanta einmitt þar sem hennar er vænst. Og söguþráðurinn, söguþráðaranginn, hefur að gera með þetta sem eitt sinn hélt blaðamönnum síðdegisblaðanna uppteknum á annars stefnulausu ráfi þeirra um Kringluna milli kosninga.

Fyrst er minnst á þessa bad boys, eins og getið var á framan að framan, sem geta valdið manni Altschmerz ef ekki kenopsíu. Tæpri bók síðar segir:

Besta og skilvirkasta leiðin til þess að láta tímann líða sem hægast er að koma sér í ástand ástarsorgar. Í slíku ástandi er líðandi tímans á við hreyfingu jarðskorpufleka. Ein vika getur auðveldlega teygst yfir í mánuð … Viljir þú spara, skaltu finna þér hentugan maka til þess að missa.

Nokkrum paragröfum er varið í ástarsorg þarna undir lok bókar. Að öðru leyti ber ekki bara lítið á tilfinningalífi persóna í ritinu, heldur persónum yfirleitt, hvað þá tengslum á milli þeirra. Þessi tvö hnit í textanum skera sig að því leyti úr. Í báðum tilfellum, við upphaf og endi bókar, heldur textinn fjarlægð á tilfinningarnar sem þar er lýst, sumpart af yfirvegun, jafnvel kankvísi, en hagar sér annars eins og hann viti kannski ekki alveg hvernig hann á að bera sig eða vera á svipinn. Eins og manneskja, frammi fyrir ást eða ástarsorg. Á ensku gæti maður kallað nálgunina tangential — lýsingarorð úr stærðfræði, yfir línu sem snertir kúrvu, aðeins rétt svo og án þess að skarast við hana. Íðorðasafnið segir að á íslensku heiti tangens nú snertill. Kannski nægir það, kannski er þetta snertilega gert.

Þarna er með öðrum orðum ekki beinlínis söguþráður en þó snertill við söguþráð, nánar til tekið tveir snertlar: bókarégið átti einhvern og missti. Þegar þeir hafa gert vart við sig og neita að hverfa lesandanum sjónum birtast aðrir þættir hins leikglaða texta, sem áður virtust ekki eiga skýr tengsl hver við annan, í nýju ljósi.

Áttundi kafli ber yfirskriftina: „Love is: Someone camping in your brain“ og fer að mestu leyti í að lýsa „ástarfilter“, því tímabundna ástandi þegar ástfangin manneskja sér heiminn gegnum spurninguna „hvað myndi minn heittelskaði segja?“. En aðrir bókarhlutar taka líka að liggja undir grun um að spretta ekki aðeins af orðaleikgleði heldur vera í raun og veru persónulegir, snúast í raun og veru um tilfinningar og tengsl. Að öll þessi annars ólíka vöntun séu spegilbrot sem spegla öll sama missinn.

Kannski er hægt að æfa sig í að minnka áhrif tungumálsins á þá blekkingu sem orðin beita þegar við skiljum að tvær manneskjur, eða okkur sjálf og aðra manneskju, eða hlut? Ég vona það,

— segir undir lok 17. kafla. Og ef mann tekur að gruna að á bakvið þessa almennu vangaveltu um aðskilnað fólks leynist tiltekinn aðskilnaður tiltekinna sögupersóna, hvað þá með lýsinguna á stærðfræðitímanum í 18. kafla, „Afsakið prump“:

Eitt sinn var kona sem horfði á mynd af y- og x-ás, þar sem tvær beinar skálínur fóru hvor í sína áttina frá núllpunkti. Hún upplifði hugsanavillu þar sem henni fannst að eftir því sem lengra væri komið frá núllpunkti, myndu línurnar í raun sameinast þar sem bilið á milli þeirra væri styttra en bilin á milli x-áss og annarrar línunnar og y-áss og hinnar línunnar. En það var rangt hjá henni.

Um þessar línur og stefnu þeirra segir neðanmálsgrein 78:

Ég ætla ekkert að fegra það. Þessi kona er ég. Konan átti langt og innihaldslaust samtal við stærðfræðikennarann sinn fyrir framan allan bekkinn í menntaskóla, þar sem hvorugt skildi hitt. Ég tönnlaðist sífellt á því að línurnar hlytu að sameinast á einhverjum tímapunkti og kennarinn sagði bara: „Nei, þannig er það ekki, það gæti ekki gerst“ og las svo beint upp úr bókinni útskýringu á myndinni sem hann hafði teiknað upp á töfluna. Að lokum gáfumst við upp á að reyna að skilja hvort annað og ég hélt áfram að þjást af hugsanavillum.

Eiga stærðfræðitímar til sterkari snertla við ást og missi?

Og 21. kafli, um „tilgangslaus rými“ — maður minn! Og svo framvegis og svo framvegis.

Aftur á móti

Tíundi kafli bókarinnar heitir „Codex Seraphinianus“ og fjallar um samnefnda bók eftir Luigi Serafini. Bókin er samansett úr myndum af fyrirbærum sem annars eru ekki til, á ritmáli sem höfundurinn bjó til sjálfur. Um verkið segir Pínulítil kenopsía:

Þetta er vissulega allt stórfurðulegt, en ef orð Luigis Serafini eru virt, þá er þetta allt fullkomlega merkingarlaust. Getum við sætt okkur við það? Getum við bekennt að eitthvað svo undarlegt, framandlegt, undur-fallegt, en að sama skapi svo ókennilegt, sé sett fram í algjöru merkingarleysi? Hver væri þá tilgangurinn? Er í alvöru svona erfitt fyrir fólk að samþykkja merkingarleysu?

Ég stend frammi fyrir þeim möguleika að hafa ef til vill sett mig í sömu stellingar og allt það fólk sem samkvæmt Kenopsíunni vinnur „hörðum höndum, nótt sem nýtan dag, við að finna boðskap ritsins“, þvert á yfirlýstan ásetning höfundar. Að þegar ég held að ég sjái glitta í söguþráð, eitthvað sem bindi ritið saman í snyrtilega, aristótelíska einingu, sé ég í raun að lesa í bókmenntalegt ígildi Rorschach-blekklessu. Að hvað sem vellur upp úr mér sé dæmt til að vera umsögn um spegilmynd.

Um bókina er fleira að segja. Það mætti jafnvel telja löst á henni. Póstmódernismi er ekki, að ég held, framandi, nýstárlegt eða út af fyrir sig fráhrindandi hugtak fyrir flesta sennilega lesendur bókarinnar, eins og hún ýjar ítrekað að, og hefur kannski ekki verið í um 20 ár. Mig rámar í eitt eða tvö önnur viðlíka smáatriði. En þau skipta næstum engu máli, og breyta því ekki að bókin er svolítið frábær. Annað hvort er hún frábær ástarsöngur, jafnvel rómantísk gamanmynd, með töffaralegri fjarlægð á þó innilegar, sárar tilfinningar, eða hún klæðist Rorscach-kamúflasi, fær um að gera hvað sem á vegi hennar verður að bleki í blettinn. (Eins og öndin-kanínan hans Wittgensteins sem er önd og er kanína er hún þó aðeins annað í einu.) Bókin er tilraun. Ég þori ekki að fullyrða hvaða tilraun, en þó get ég sagt að hún tókst.

Kenopsíunni lýkur á fyndnustu lokaorðum ársins, og þó víðar væri leitað, loforði sem höfundur svíkur vonandi jafn vandlega og önnur loforð bókarinnar: „Sorrí, ég lofa að gera þetta aldrei aftur.“