Kenneth Branagh og Emma Thompson í hlutverkum sínum.

Dauð hóra?

For man is a giddy thing, and this is my conclusion

5.4.106

Atburðarás: Hópur hermanna snýr heim úr stríði og þiggur gistingu hjá Leonato, aðalsmanni í Messína. Þeirra á meðal er hinn ungi Claudio sem fær strax augastað á Hero, dóttur Leonatos, og piparsveinnninn Benedict sem endurnýjar kynni sín við Beatrice, frænku þeirra feðgina, en þessi tvö njóta þess mjög að munnhöggvast. Vinir þeirra ákveða að koma þeim saman með þvi að telja hvoru um sig trú um að hitt sé yfir sig ástfangið af viðkomandi, sem snarvirkar. Hins vegar ákveður illyrmið Don John að spilla fyrir ástum Claudios og Heroar og tekst að sannfæra Claudio að Hero sé lauslát. Claudio afneitar Hero við altarið, hún hnígur niður og er falin fyrir brúðguma sínum meðan vinir hennar reyna að greiða úr málum, sem tekst að lokum með hjálp vitgrannra vaktmanna sem urðu vitni að blekkingarleik Don John og hjálparkokka hans.

Ég man mjög vel eftir fyrstu kynnum mínum af Much Ado About Nothing. Það er alls ekki algengt að leiktexti veki manni hlátur við lestur, en ég á minningar um mig skellandi uppúr yfir harmkvælum Dogberry við að koma út úr sér vitrænum setningum. Eða Þistli, réttara sagt, eins og hann heitir í Helgaþýðingu. Shakespeare hafði aðeins leikið sér að „malapropisma“ áður, ekki alltaf með frábærum árangri, en hér fannst mér fyndnin fyndin. Meira að segja á pappírnum. Douglas Adams kallaði þetta reyndar „desperate stuff“, en ég var og er ósammála því. Gott stöff.

Æ síðan hef ég haft umtalsvert dálæti á verkinu. Sem magnaðist upp nokkrum árum síðar þegar makalaust vel heppnuð bíómyndagerð Kenneths Branagh leit dagsljósið og setti leikritið eftirminnilega á kortið utan aðdáendahóps skáldsins. Þar var líka hin grínuppspretta verksins í meistarahöndum þar sem voru þau hjón(aleys)in Branagh og Emma Thompson sem fjandvinirnir Benedict og Beatrice.

Það er eitthvað unaðslega áreynslulaust og þar með snilldarlegt við fyrsta fynd. Beatrice heyrir að von sé á andskota sínum og spyr frétta af honum á þennan hátt:

I pray you, how many hath he killed and eaten in these wars? But how many hath he killed? for indeed I promised to eat all of his killing.

1.1.40–42

Tónninn í orðaskylmingum B&B er einhvernvegin hárréttur. Vingjarnlegur en beittur, og ótal túlkunarleiðir færar um hvað særir, og hversu mikil löngunin er til að særa, og hver forsagan er. Þessi snilldarlega fimm orða setning Beatrísar opnar allar dyr:

I know you of old

1.1.138

Viðureignir þeirra geta skyggt aðeins á það hvað Beatrice er snilldarlegur karakter. Og dásamleg kona. Og militant feministi:

Adam’s sons are my brethren; and, truly, I hold it a sin to match in my kindred.

2.1.56

Og svo er líka í bland við alla mælskunautnina svona dásamlegar, einfaldar og djúpar línur:

BENEDICK

I do love nothing in the world so well as you: is not that strange?

4.1.262

Toscana-sólskinið í Branagh-myndinni litar óneitanlega hvernig Much Ado hefur sest til í huganum síðan maður sá hana. Það er samt langt í frá að vera eini tónninn sem þar er sleginn. En hann er grunntónninn. Rétt að rifja upp að rót myndarinnar, og fyrsta glíma Branaghs við hlutverkið, var í uppfærslu sem hann fékk Judi Dench til að leikstýra (hennar frumraun í stólnum). Í ævisögu (æskusögu?) sinni rifjar Branagh upp að Judi var mjög í mun að gefa gaum „myrkari hliðum verksins, undarlegri afstöðu þess til kynlífs og skuggalegum eiginleikum sem í því bjuggu“ (þýðing mín).

Þeir eru þarna í stöflum. En áhorfendur elska B&B og Dogberry og er hætt við að láta sig ræfilstuskuna Hero og hlandfötuna Claudio litlu varða. Hinsvegar bendir Arden-ritstýran Claire McEachern, bókmenntaprófessor við UCLA, á í sínum fína formála að fræðingar og „hægindastólatúlkendur“ hafa gjarnan meiri áhuga á „meginplottinu“ – fordæmingu Claudios á brúði sinni við altarið eftir að hann er blekktur til að trúa upp á hana hinu versta lauslæti, úrvinnslu þess og sérstaklega viðbrögðum brúðgumans og föður brúðarinnar.

Þetta er auðvitað feðraveldisleikrit dauðans. ALLIR kallarnir trúa umsvifalaust orðum Don Pedro og Claudio um stjórnlaust lauslæti Heróar. Líka faðir hennar, sem ætti þó að taka þeim með öllum fyrirvara, hafandi þekkt stillingarljósið dóttur sína frá því hún var með bleyju. Og er nú líklegt að stúlka sem er tilbúin að hlýta forsjá föðurins í einu og öllu þegar kemur að hjónabandi (ekkert bendir til að hún hafi minnsta áhuga á Claudio fyrr en hún er gefin honum) sé í laumi undir stjórn eigin kynhvatar?

Allir eru síðan verulega fljótir að gera yfirbót þegar allt kemst upp, og harmleikurinn er stöðvaður í uppsiglingunni. Kannski aðeins of fljótir – það situr eftir ansi súrt bragð í munni manns, sem og efasemdir um að þetta verði gott hjónaband. Ólíkt hjúskap Benedicts og Beatrice, sem getur eiginlega ekki orðið annað en snilld. Annað hvort þeirra mun samt örugglega stundum þurfa að sofa á sófanum. Þau er bara þannig fólk. Gott fólk.

Vaktmennirnir eru líka gott fólk, og þó Brávallargötutalandi Dogberrys sé í forgrunni fannst mér núna eiginlega fyndnast þegar Borachio játar loksins aðild sína að illvirki Don Johns – svertingu mannorðs Heróar – og það er eins og hann játi aðallega af örvæntingu yfir að Vaktin muni aldrei koma henni óbrjálaðri til skila upp á eigin spýtur og sýningin standi til eilífðar. Taking one for the team. Takk Borachio.

Vanhæfni vaktmannanna er náttúrulega bæði dramatísk nauðsyn og kómískt krydd. En McEachern bendir á að aulahátturinn er líka byggður á raunveruleika ritunartímans, þar sem fáliðað og illa skipulagt „varðlið“ átti að halda uppi lögum og reglu í borgum á borð við London, þar sem allt var ævinlega við suðupunkt. Enda var „The Watch“ alræmd fyrir að vera mjög á móti skapi að skipta sér af heldra fólki og almennt seinþreytt til afskipta. Eins og kemur skýrt fram í fyrstu senunni með Dogberry & co:

DOGBERRY

This is your charge: you shall comprehend all vagrom men; you are to bid any man stand, in the prince’s name.

SECOND WATCHMAN

How if a’ will not stand?

DOGBERRY

Why, then, take no note of him, but let him go; and presently call the rest of the watch together and thank God you are rid of a knave.

VERGES

If he will not stand when he is bidden, he is none of the prince’s subjects.

DOGBERRY

True, and they are to meddle with none but the prince’s subjects. You shall also make no noise in the streets; for, for the watch to babble and to talk is most tolerable and not to be endured.

WATCHMAN

We will rather sleep than talk: we know what belongs to a watch.

3.3.24–38

Illmenni verksins, Don John, er ansi burðugur sem slíkur. Það má litlu muna að hann fái sínu framgengt.Trúgirni kallanna um kokkáleringareðli kvenna djúpstæð, sem þeir (og þær) breiða yfir með (of) rausnarlegum skammti af mjög lélegum kokkálshornabröndurum. Af sjeikspírskum skúrkum er DJ líkastur Jagó:

I had rather be a canker in a hedge than a rose in his grace, and it better fits my blood to be disdained of all than to fashion a carriage to rob love from any: in this, though I cannot be said to be a flattering honest man, it must not be denied but I am a plain-dealing villain. I am trusted with a muzzle and enfranchised with a clog; therefore I have decreed not to sing in my cage. If I had my mouth, I would bite; if I had my liberty, I would do my liking: in the meantime let me be that I am and seek not to alter me.

1.3.25–34

Reyndar má segja að ef Jagó hefði haft jafn úrræðagóðan og „faglegan“ hjálparkokk og Borachio reynist (í staðinn fyrir fáráðinn Roderigo) hefði ekkert komist upp. Einber tilviljun flettir ofan af ráðabruggi þeirra félaga hér.

Og meðan við erum í samanburðarfræðunum, er ekki smá Lér í þessari grimmu ræðu Leonatos yfir dóttur sinni, sem hann er vandræðalega fús til að trúa öllu illu upp á:

Do not live, Hero; do not ope thine eyes:
For, did I think thou wouldst not quickly die,
Thought I thy spirits were stronger than thy shames,
Myself would, on the rearward of reproaches,
Strike at thy life. Grieved I, I had but one?
Chid I for that at frugal nature’s frame?
O, one too much by thee! Why had I one?
Why ever wast thou lovely in my eyes?
Why had I not with charitable hand
Took up a beggar’s issue at my gates,
Who smirch’d thus and mired with infamy,
I might have said ‘No part of it is mine;
This shame derives itself from unknown loins’?
But mine and mine I loved and mine I praised
And mine that I was proud on, mine so much
That I myself was to myself not mine,
Valuing of her,–why, she, O, she is fallen
Into a pit of ink, that the wide sea
Hath drops too few to wash her clean again
And salt too little which may season give
To her foul-tainted flesh!

4.1.123–142

Þegar kom að því að velja útgáfu til ágláps var nokkur vandi á höndum. Ég ákvað samt fljótlega að leyfa Branagh-myndinni að lifa í minningunni um sinn. Það hvarflaði að mér að horfa á óperuna Beatrice et Benedict, en bæði fann ég enga upptöku á internetinu eða á íslenskum bókasöfnum, og svo hef ég ekki enn heyrt tónlist eftir Berlioz sem mér finnst ekki óbærilega leiðinleg, svo það var nú kannski eins gott.

Það var freistandi að kíkja á BBC-myndina, ekki síst fyrir það að hún var víst gerð tvisvar, því í fyrri útgáfu hafi hún verið svo léleg að hún taldist ekki sýningarhæf.

Eitt var alveg víst: Ég myndi horfa á upptöku af uppfærslu Christopher Luscombe fyrir RSC frá 2015. Sú var partur af tveggja verka konsepti, sem gekk út á að tengja Much Ado við Love’s Labour’s Lost og láta eins og það sé hið dularfulla Love’s Labour’s won, sem heimildir eru um að hafi verið til en er nú glatað – eða endurskírt.

Eins og tryggir lesendur muna lætur Lushcombe Lost gerast 1914 og enda á því að ungu mennirnir eru munstraðir í herinn. Í Won/Much Ado erum við síðan 1918, sem er vel viðeigandi, því Don Pedro og menn hans eru jú einmitt á heimleið af vígvellinum. Það er hæfilega óskýrt hvort heimili Leonatos er sjúkrahús eða hefðarsetur, hvort Hero og Beatrice eru heimasætur eða hjúkkur. Það veldur engum vandræðum, og verulega lipurlega unnið með bæði möguleika og vandkvæði sem kvikna við tímaflutninginn. Það verður til fullt af frjóum tengingum, heildarkonseptið er pínu brilljant, en mestu varðar að þetta er fjári vel gert. Þarna verður t.d. „vaktin“ algerlega raunsæisleg: auðvitað eru engir nothæfir menn eftir, allir sem eitthvað gátu eru grafnir í forina í Ypres og Dogberry sjálfur jafnvel illa farinn af gasi eða áfallastreituröskun. Fyndinn samt.

Þau Michelle Terry og Edward Bennett eru firnaflott sem B&B, en þess má geta að Terry er nýráðinn leikhússtjóri Globe-leikhússins í London. Sam Alexander er líka magnaður sem illvirkinn Don John, og heimsbiturð hans ágætlega studd af því hvernig stríðið hefur greinilega leikið hann.

Frábær mynd. Reyndar er fyrri hluti tvíleiksins síst verri, þó það verk sé ekki eins bitastætt. Eða kannski einmitt af því að verkið er ekki eins bitastætt þá gleður mann hvað sýningin er skemmtileg.

Og svo komast ég að því að árið 2012 rölti Joss Whedon, pabbi vampírubanans Buffyar, í fótspor Branaghs og gerði bíómynd eftir verkinu. Engar stórstjörnur (mest fólk sem hefur unnið með Whedon áður) og lítið húllumhæ en ágætiseinkunnir á internetinu. Það fannst mér forvitnilegt.

Myndin er svarthvít. Við erum í nútímanum. Í USA. Í heimi skipulagðra glæpa (þetta eru náttúrulega fokking Sikileyingar hjá Shakespeare). Í ríkmannlegu úthverfahúsi í Kaliforníu (þetta var víst tekið heima hjá Whedon). Og það gengur flest upp. Þetta er afbragðsmynd. Kannski aðeins í daufara laginu þar sem lágstemmdur „sjónvarpsleikstíllinn“ er hér allsráðandi. En allt kemst til skila og stundum hrein unun að sjá stefnumót mælsku og methods. Verst kemur Vaktin og Dogberry út úr þessu. Meikar engan sens, karakterarnir óskýrir og fyndnin fer út um gluggann. Kemur merkilega lítið að sök.

Much Ado er viss stiklusteinn milli tveggja tíma í gleðileikjaritun Shakespeares. Orðfimin – orðfimigleðin – og léttleikinn úr fyrri gamanleikjum er þarna, gerfimheimstilfinningin líka, en svo er þarna áður óséð raunsæi og dramatík.

Fyndnin er fyndnari, dramað er dramatískara, safinn er rammari og meira af honum en við höfum áður séð. Allavega ef við horfum framhjá hinum illflokkanlega Kaupmanni í Feneyjum. Að sumu leyti er Much Ado líka skyldari honum en gamanturnunum tveim sem rísa á næstu árum, As You Like It og Twelfth Night. Það er stutt í tragedíuna hér. En svo er ærslast framhjá henni og gengið frá trúlofunum.

Hey Nonny Nonny.

Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra.  Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast. 

Textinn.