Tamningar

Guðfræðingar fást enn við klípu sem Tómas frá Akvínó glímdi við, síðar Leibniz og fjöldi annarra: ef Guð er algóður, og gerir þar með alltaf það sem er best, getur hann þá líka verið frjáls? Hefur algóð vera val um að gera nokkuð annað en það besta eða útrýmir algjör gæska öllu frelsi?

Tómas komst að niðurstöðu, Leibniz komst að niðurstöðu, og guðfræðingar samtímans komast líka að niðurstöðu. Þær vekja enn ekki áhuga minn en klípan er forvitnileg því hún ratar alla leið niður á jörð: getum við bæði verið góð og frjáls? Ef annað er á kostnað hins, er þá samt gefið hvort okkur ber að velja, alltaf og undir öllum kringumstæðum?

Að bera að velja – bara í þessu orðalagi blasir við þessi gómsæta mótsögn: maður getur ekki valið nema maður ráði, í öllu vali birtist þannig frelsi okkar, en í hvert sinn sem við föllumst á að okkur beri að velja eitt umfram annað lítur út fyrir að við skerðum þetta frelsi í praxis. Málið er vafalaust flóknara en svo – en það blasir ekki við, heldur þarf að laða flækjuna fram í löngu máli og taka á móti henni af guðfræðilegri nennu eða heimspekilegri.

En þetta flaug í mig, þessi forna klípa, þegar ég las fyrirmæli frá ungum höfundi til eldri höfundar1 um hvaða lærdóm sá síðari ætti að hafa dregið af tilverunni: aldraður höfundur „ætti með réttu“, samkvæmt hinum unga, að vera „vitur, gjafmildur, inspírerandi, kærleiksríkur, réttsýnn.“ Þess í stað er eldri höfundurinn, aftur samkvæmt þeim yngri, „snákur“, „slímugur“, „konungur net- og nátttröllanna: eins konar fjasandi myrkrahöfðingi“, eitthvað „staðnað, útbrunnið, óþolandi“, „belgingslegur, karlkyns, guðs-kryfjandi, predikandi, gegnum-holt-og-hæðir-sjáandi besserwisser“, „orðinn að stöðnuðu trölli: bitrum hellisbúa sem grettir sig framan í sólina þá sjaldan hann skríður fram í dagsljósið“, „vankaður þverhaus sem bylur óhindrað tóma vitleysu“ og „megnar ekki að ná hárri elli með meiri reisn en raun ber vitni“, en á á hættu að „enda sem rusl á gólfinu“. Auk þess sem mér sýnist þeim yngri finnast sá eldri svolítið sjálfbirgingslegur.

Og það hvarflaði að mér að kannski væri ráð að endurheimta dýrlingatrúna sem við glötuðum í siðaskiptunum – sem var aldrei beinlínis trú, en ákveðið hlutverk, tignarstaða, fyrir fólk sem leggur sig fram um að vera gott, alltaf að verulegu leyti á kostnað frelsis síns. Það gæti ef til vill létt þeim misskilningi af listafólki að þetta sé þeirra hlutverk, og að fagurfræði sé undirgrein siðfræðinnar.

Birtist fyrst á vef höfundar.

   [ + ]

1. Yngri höfundurinn heitir Sverrir og sá eldri Guðbergur en það skiptir ekki öllu.