Þýðing: Þorvaldur S. Helgason

Reyndu að lofa hinn afskræmda heim


Reyndu að lofa hinn afskræmda heim.
Mundu löngu júnídagana,
og villt jarðarber, dropa af rósavíni.
Brenninetlurnar sem þekja skipulega
yfirgefin heimkynni útlaga.
Þú verður að lofa hinn afskræmda heim.
Þú fylgdist með glæstum snekkjum og skipum;
eitt þeirra átti langa ferð framundan,
á meðan óminni saltsins beið hinna.
Þú hefur séð veglausa ferð flóttamannanna,
þú hefur heyrt glaðværan söng böðlanna.
Þú ættir að lofa hinn afskræmda heim.
Mundu augnablikin þegar við vorum saman
í hvítu herbergi og gardínurnar flöktu.
Snúðu aftur í huganum til tónleikanna þegar tónlistin leiftraði.
Þú safnaðir akörnum í garðinum um haustið
og laufin þyrluðust yfir ör jarðarinnar.
Lofaðu hinn afskræmda heim
og gráu fjöðrina sem þröstur missti,
og ljúfa ljósið sem reikar og hverfur
og snýr aftur.