Steypa

Einu sinni var þjóð sem hafði mikið dálæti á steypu, steinsteypu. Þau reistu sér hús og blokkir og byggingar og létu meira að segja steypa yfir garðana sína: „Því þá losnum við hratt og örugglega við þessi grös sem spretta svo hratt, að ekki sé talað um hin eilífu smáblóm sem laða að sér skordýr og flugnager,“ sögðu þau og klöppuðu steypunni. Húsin voru sterk og rammgerð, járnabindingarnar með eindæmum þannig að jarðskjálftar og aðrar hamfarir áttu ekki roð í þetta gráa öryggi. Allir voru ólmir í að eiga sem mest af steypu og stóðu í löngum röðum, heilu dagana, til að fá lán hjá bankastofnunum til að geta örugglega átt steypu og geta átt því láni að fagna að geta borgað reglulega af lánum með miklum vöxtum. Sum létu sig dreyma um ferðalög, jafnvel heimsreisu en þá voru þau minnt á mikilvægi þess að borga fyrir sína steypu og vera ekkert að láta sig dreyma um annað. Sumum leið illa í hjónaböndum og vildu út en svo þorðu þau ekki, steypuleysi var verra en ofbeldi, hungur og örbirgð. Æðsta ósk allra, æðsta hamingjustunan var að geta hallað sér upp að sinni eigin steypu, klappað henni og strokið. Vísindamenn reyndu að þróa steypu sem lét matvæli vaxa á yfirborðinu, það gekk svo langt að þeim tókst að láta hamborgara þrýstast út úr stofuvegg í Árbænum. En hann var víst ekki bragðgóður, var þurr og vesæll en fólkið lét sig samt hafa það. Hamborgarastofuveggir dreifðust fljótt um önnur hverfi.

Hinir steypulausu voru litnir hornauga, þessi flökkulíður sem var með allt niðrum sig, þetta lið sem gat ekki gert nein PLÖN, þetta rótlausa pakk. Fyrr á öldum var æðsta dyggð allra að verða bóndi og þeir sem ekki vildu verða bændur voru álitni undarlegir með meiru. Þessi þjóð leit sömu augum það fólk sem vildi ekki eiga sína eigin steypu, fólk sem vildi svokallað „frelsi“ og sagði lífsgæðin fólgin í að geta leyft sér ferðalög, góðan mat og tómstundir. Í þessu sama landi hafði líka ríkt erlend einokunarverslun í 185 ár og eftir það voru heilu kynslóðirnar að reyna að skilja hvernig landinn gat látið kúga sig svona mikið og svona lengi. En þetta var reyndar eitthvað sem steypuþjóðin var ekkert að velt fyrir sér, fortíðin kom þeim ekki við, það var framtíðin sem skipti máli. Steypan, PLÖNIN og áætlanagerðin og að „halda rétt á spöðunum“. Síðar hófst eitthvað sem kallað hefur verið banka-alræðisaldir eða verðtryggingartímar en þeir ríktu í svo mörg hundruð ár að enginn vill ræða það heldur. Einokunarverslunin bliknar víst við hlið þeirra tíma. Þjóðin hefur engan tíma fyrir svoleiðis snatt og fortíðarhjal, þau þurfa að kaupa steypu til að vera örugg.

Nú er sambúð þjóðar og steypu orðin fullkomin. Hamborgarar halda áfram að koma út úr stofuveggjum og svo hafa sérstakir eldhúsveggir verið hannaðir sem taka við fólki á banabeði. Þannig fer steypan inn í þjóðina og þjóðin inn í steypuna og myndar fullkominn samruna í eilífum samhljómi. Af hinum steypulausu er lítið að segja, þeir hokra utangarðs og fá aldrei aldrei að komast inn í öryggið sem steypusamrunanum fylgir.