Mynd: pixabay.

Eytt


Við erum þegar í sjálfheldu
búin að rúlla niður þverhnípi
brenna reipi
brenna skó
sitjum á sillu milli lifandi og dauðra
búin að ýta á alla rauðu takkana
snúa tveimur lyklum
drekka allt grunnvatnið
allan bjórinn og bolluna
búin að lifa áratugum saman í eftir –
eftir að-inu
eftir að við rústuðum öllu

segjandi sögur af því sem áður var
yfir eldinum
brennandi síðustu leifarnar af því sem áður var
borðandi síðasta dósamatinn
án þess að vita hvaða dagsetning er
og án þess að vita hvort það sé í lagi.

Er í lagi að vera við?
Það er aldrei að vita,
þessi veröld heldur að minnsta kosti áfram
engar eldingar
engir svartir hestar
ekkert brotið brauð
engir fiskar
ekkert sverð úr eldi
enginn Baldur
ekkert smjör
bara við sem sitjum og horfum á
horfum á steinana rúlla niður þverhnípið
og vonumst eftir að heyra lendinguna

„góðir farþegar við erum alveg að fara að lenda
þetta er flugstjórinn, þessi sem hefur stjórn á aðstæðunum, þessi sem veit hvað er að gerast, veit veðrið og tímann og daginn og staðinn,
ekki örvænta“

Og við erum þessi sem sitjum og klöppum
bíðum eftir sætisbeltaljósunum

eftir því að okkur sé sagt að allt sé í lagi
að allt sé öruggt
að það megi yfirleitt gera eitthvað yfirleitt vera eitthvað yfirleitt hugsa eitthvað yfirleitt vera áfram
yfirleitt

Ég hitti gamla konu sem spurði hvort ég væri herra ég sagði já hún sagði nú? þegar ég var ung var aðal kappsemin að vera karlmannlegur ég þagði og kláraði franskarnar mínar ég þagði og hélt áfram að lesa bókina mína og þagði og setti á mig heyrnartól og þagði og labbaði út og missti af þremur strætisvögnum og þagði.

En við reynum, þýðir ekkert annað, reynum að gleyma og halda áfram

Finnum okkur öruggan stað til að vera á, reynum að velja hamingjuna, vera réttu megin í lífinu, reynum að snúast um fólk, reynum að veita bestu þjónustu á íslandi, reynum að gera ekki ekki neitt, reynum að vera skattfrjáls, reynum að vera skemmtilegustu íslendingarnir og finnast skemmtilegast að versla, reynum að horfa minna á rúv, reynum að horfa meira á rúv, hlusta á útvarpsleikfimina í rúminu, drekka bráðnaða bragðarefinn, drekka bjórinn og grunnvatnið og bolluna, baða okkur í hreinasta vatni í heimi og sturta hreinasta kúkavatni heims ofan í sjó og

og

og

og

og

vakna þunn og rísa upp á öðrum degi

í annarri veröld

reynum að flokka og nota maís eða plastpoka og nota taupoka þegar við munum eftir þeim og drekka bjórinn okkar á krana til að spara dósirnar og drekka mjólkina okkar úr kúnni til að spara fernurnar og reykja lífræn local eiturlyf og týna ber og grös og sjálfdauð dýr og mat úr ruslinu og peninga úr bönkunum og búa til endurnýtanlega mólotov kokteila og brenna bara vistvænum kapítalistum og planta trjám og reynum að standa okkur aðeins betur.

og ég er ekkert bara að tala um mig, ég sá þig líka syndga,

þú ert eins og barn sem heldur að allt sé í lagi bara því að amma tók þig í fangið og hræddi þig með draugum og tröllskessum og kreppum og tilfinningalegu bakflæði en sagði svo suss, uss usss
ekki hafa hátt
þetta er í lagi barnið mitt ljósið mitt ástin mín þetta er í lagi
amma er hjá þér
og ruggaði þér
og bara af því hún ruggaði þér hélstu að allt væri í lagi

ekkert er í lagi
þetta eru allt saman getgátur og hómópatar og heilun og ég veit ekki hvað og hvað

og hvað á svo að gera í þessu
á ég að gera það?