Mercy Otis Warren, ljóðskáld og byltingarkona. Mynd: Wikicommons.

Til varnar ljóðlistinni #3

Eða:  Ars Poetica (undirstrikað til áhersluauka)

Eða: „Brennist að lestri loknum“

Ég bið til Guðs að fólk virði þann þagnarmúr sem umlukið hefur ljóðlistina, að það haldi áfram að sýna ljóðum hvorki lotningu né hafa þau að spotti; að fólk hvorki fyrirlíti né upphefji þau. Hvort um sig felur í sér athygli og er af þeim sökum óþolandi.

Ég geri ekki kröfu um neitt.

Ég er hættur að gera kröfur.

En ég bið ykkur: Látið eins og

ljóðið sé ekki þarna.

Annars verða afleiðingarnar óumflýjanlegar:

Einn morgun munum við vakna og sjá að einhver hefur, óafvitandi, í skjóli næturinnar, komið ljóðinu fyrir á rófi kúlsins. Þá mun eftirsjá engu breyta.

Þá munum við horfa uppá okkar síðasta skjól verða eldinum að bráð. Þá mun hjarta mitt bresta.

Verkakonur, stjórnmálamenn, brandarakallar, tannlæknar, listamenn, fólk: Ekki gera grín að ljóðlistinni, ekki dást að ljóðlistinni, ekki tala um ljóðlistina. Ég bið ykkur: Haldið áfram að gleyma henni.

Ég bið ykkur:

Haldið áfram að gleyma henni.