Stefnulaust ferðalag: Síðasta vegabréfið

Titill síðustu ljóðabókar Gyrðis Elíassonar ber með sér von um ákveðið vonleysi. Þetta er vegabréf til annars heims, þess sem við snúum ekki aftur frá, dauðans. Titillinn ber með sér ákveðnar væntingar og það sama á við um tilvitnunina eftir Jens August Schade á fyrstu síðu bókarinnar:

     Maður getur fallið
svo djúpt
að maður fari að falla
aftur upp á við

(bls.5)

Þetta bendir til þess að fallið niður leiði upp sem ég myndi sjá sem einhvers konar upprisu, þ.e. sálin að fara upp, inní aðra veröld. Að fallið sé dauðinn. Án þess að vilja fara nánar út í þá sálma að þá skapaði bæði titillinn og tilvísunin eftirvæntingu í mínum huga.

Samtímis óttaðist ég að opna bókina og byrja að lesa og frestaði þess í lengstu lög. Gyrðir Elíasson á margar bækur að baki, sumar hverjar góðar. Eftirvæntingin sneri að hinu mjúka vonleysi sem gott er að ylja sér við og einkennir oft bækur Gyrðis en óttinn sneri svo að því að hún myndi ekki standast þessar væntingar. Jóhann Helgi Heiðdal skrifaði í síðasta ljóðapistli eitthvað um að væntingar myndu brengla ljóðlestur en það er eiginlega vonlaust fyrir undirritaða að skrúfa þær niður þegar menn eru orðnir svona mikil vörumerki eins og Gyrðir. Þá er fallið líka svo hátt og mikið.

Fyrsta ljóðið, Brothætt, gefur í skyn að það sé glerveggur milli heimsins og ljóðmælandans sem hlustar mikið á Philip Glass. Sem fyrsta ljóð og eitthvað sem gefur tóninn fyrir komandi ferðalag fannst mér það frekar veikt og flækt í orðaleiki sem drógu töluvert úr styrkleika ljóðsins. Ljóðin sem komu í kjölfarið teiknuðu upp skýrari myndir og þeim tókst að draga mig inní heim sem er ferskur og koma mér í samband við ljóðheiminn eins og ljóðið Æðruleysi:

„Raddir vorsins þagna,“
sagði gamla konan
um leið og kötturinn
hennar beit
höfuðið af sólskríkjunni
sem hafði villst inn um eld-
húsgluggann í rigningunni

(bls. 9)

Þegar ég las bókina alla í fyrsta sinn fannst mér ekki mikið til hennar koma en þegar ég las hana aftur stækkuðu ljóðin mörg hver en að sama skapi höfðu önnur runnið sitt skeið á enda. Sum ljóðin virtust eingöngu byggjast upp á orðaleikjum, s.s. eins og Ódysseifskvíði og Álitamál þar sem skáldið segir m.a. að: „þannig er það með orðið deiliskipulag. Það er í grunninn bara deiluskipulag, því það gerir ekkert annað en að auka ósamlyndi fólks,…“ Þetta finnst mér vera almenn athugasemd og ætti heima annars staðar en í ljóði. Auk þess stökk mér ekki bros á vör. Kannski er ég á botninum en ekki komin það langt niður að ég sé á leiðinni upp aftur. Önnur ljóð náðu að draga upp fallegar myndir, eins og ljóð Gyrðis eru oftar en ekki þekkt fyrir:

Bandarískt ljóð
heima og heiman

Gabbró er ekki steintegund
heldur falskur friður þess
sem situr á verönd í síð-
degissól með byssu sem
lögð er þvert yfir arma
ruggustólsins

             (bls. 11)

Fyrir utan orðaleikina sem einkenna þessa bók þá fann ég fyrir þrá skáldsins til að skilja og reyna að ná yfir þá tilfinningu að vera á þessu óskiljanlega ferðalagi sem lífið er. Hann minnist æskunnar en myrkrið er aldrei langt undan:

Ævintýri um orðleysi

Bak við fjöllin er borg
sem enginn hefur heyrt um
í fólkinu búa hugsanir
sem enginn hefur heyrt um
í hugsunum þess búa orð
sem enginn hefur heyrt –

    (bls. 55)

Titillinn Síðasta vegabréfið öðlaðist svo aðrar meiningar eftir að ég las ljóðið Vegabréf þar sem ljóðmælandinn er að skrifa sitt síðasta bréf úr vegkantinum en mér fannst það stela einhverju frá titlinum og sjálfri tilvitnuninni, ekki nema fallið sem snýst uppí andhverfu sína sé kímnigáfan og það séu skilaboð skáldsins. Að líta á húmorinn sem úrsögn frá vonleysinu. Það má vel vera en ef tilætlunin er sú þá finnst mér bókin ekki standa undir sjálfri sér.

Gyrðir er og verður Gyrðir og því er ekki hægt að breyta. Mér finnst ljóðabókin líða svolítið fyrir húmorinn sem sum ljóðin snúast of mikið um. Það eru perlur þarna inná milli en ég átta mig ekki alveg á hvert bókin stefnir. Ég bið ekki um boðskap en ég vil fá heiðarlegt ferðalag.