Djass af sígildum meiði

Mánudjass @ Húrra er sjö laga djassplata tekin upp lifandi á Húrra við Tryggvagötu. Afrakstur tveggja ára gamals prógrams, þegar platan kom út, á Húrra þar sem hinir og þessir tónlistarmenn koma og spila djass með húsbandinu. Á plötunni leika Birgir Steinn Theodórsson á kontrabassa, Birkir Blær Ingólfsson á saxófón, Hrafnkell Gauti Sigurðsson á gítar, Kristofer Rodriguez Svönuson á trommur og slagverk og Sölvi Kolbeinsson á saxófón. Andri Guðmundsson leikur svo á bassa í lagi sínu Dig. Upptökustjórn og hljóðblöndum er í höndum Kjartans Kjartanssonar. Húrra gefur út.

Platan hefst á viðkunnanlegri útgáfu á þjóðlaginu Íslands farsældar frón. Saxófónleikararnir tveir spila tvísönginn í vel djassaðri vélingu og það kemur vel út. Á meðan halda aðrir hljóðfæraleikarar sveitarinnar við naumhyggjulega spilamennsku og leyfa söxunum að njóta sín. Annað lag plötunnar er Ísóbel, latin djasslag, eftir Birgi Stein bassaleikara. Þetta er vel sett saman lag og vel flutt. Hrafnkell á stórgott gítarsóló sem nær góðum hæðum og ekki er bassasóló Birgis síðra.

Síðasta lag A hliðar er Sunnudagsmorgunpopp eftir Sölva Kolbeinsson og er sérlega góður endir á góðri hlið. Lagið svingar vel og öll sóló virka vel og ég verð að minnast sérstaklega á stórgóðan rytmagítarleik Hrafnkels.

B hliðin hefst á laginu Primo eftir Kristófer trommuleikara og er í rólegri kantinum. Stemningin í laginu, ekki melódían, minnir mig eilítið rólegan Mingus og þá kannski sér í lagi Self Portrait In Three Colors. Næst kemur Dig gestsins Andra Guðmundssonar sem er ágætis Latin Jazz lag. Þriðja lag B hliðar er 2 eftir Hrafnkel gítarleikara. Það er angurvært og dreymandi og líður hjá þægilega og áður en maður veit af eru sex mínútur horfnar og maður veit ekkert hvað varð af þeim. Plötunni líkur á Krús Birgi Steins. Þetta er gott keyrslulag og tilraunakenndasta lag plötunnar en kaflar í því minna mig örlítið á Ornette Coleman í Naked Lunch sándtrakkinu.

Mánudjass er djassplata af sígildum meiði og þrátt fyrir að leita talsvert á gömul mið í stíl og formi þá er hún aldrei gamaldags. Mér finnnst gaman að hún sé tekin upp læf, sérstaklega í rólegri lögum þar sem maður heyrir örlítið í áheyrendum. Það er einhvern vegin vinalegt. Ég er hrifnastur af Íslands farsældar fróni og Sunnudagsmorgunpoppi en vil samt taka fram að það er ekki veikan punkt að finna á þessari plötu og hún heldur dampi allan tímann.