Væntingar eða fordómar?

Hamingjan leit við og beit mig

Mér finnst ég einhvern veginn þurfa að taka fram að ég hef engan sérstakan áhuga á nútímaljóðlist, svo það sem eftir kemur er ekki skoðun einhvers sem er sérstaklega fróður á því sviði.

Það er ekki vegna þess að mér finnist nútímaljóðlist léleg eða neitt þvíumlíkt – ég hef ekki kynnt mér hana nóg til þess að hafa sterka skoðun á henni. Ég veit ekki nákvæmlega hvers vegna það er. Ég hef gríðarlegan áhuga á bókmenntum og klassísku ljóðskáldunum (sérstaklega rómantísku skáldunum) og les þau mikið. Það er bara svo gríðarlega mikið til af góðum bókum sem maður á eftir að lesa og maður hefur takmarkaðan tíma til þess, og því vel ég frekar bækur sem hafa staðist tímans tönn og eru því mun líklegri til að vera góðar – frekar en að lesa nútímaskáld sem gætu endað með að vera sóa tíma mínum. Sömuleiðis hef ég mestan áhuga á þungum og flóknum bókmenntaverkum sem hægt er að sökkva sér algjörlega ofan í – því lengri því betri. Þetta er eitthvað sem mér hefur ekki fundist nútímaljóðlist bjóða upp á og því hefur mig skort nægan áhuga til að kynna mér hana.

En svo má spyrja á móti: ef einhver með mikinn áhuga á bókmenntum (og annarri menningu) er ekki dómbær á verkið, og einungis er mark takandi á gagnrýnendum sem eru öllum hnútum kunnugir í íslenskri ljóðlist í dag, þá getur varla verið mikið í verkið spunnið. List hlýtur á einhvern hátt að vera fyrir alla, ef ekki þá er það a.m.k. ekki nein list sem ég vil kynna mér.

Skrúfaðu niður

Ljóðlistin hefur auðvitað svolítið hættulegri eða meira fráhrindandi ímynd en skáldsögur. Fólk er almennt hræddara við að segja ljóð vera léleg þar sem ljóðalestur og -hlustun er svo sjaldgæf athöfn – eða hæfileiki sem byggir á mjög næmri tilfinningu fyrir tungumálinu og hvernig það hljómar og fæstir sem rækta hann af alvöru (þar á meðal undirritaður). Fyrir mörgum er það að lesa ljóðabók eða hlusta á ljóðalestur eins og að fara í vínsmökkun. Upplifunin er alveg skemmtileg, og maður reynir að fabúlera eitthvað um hvað manni fannst – rembist við að hafa einhverja skoðun. Sannleikurinn er þó yfirleitt sá að hún vekur engar sterkar tilfinningar hjá flestum – hvorki jákvæðar né neikvæðar. Ég tel þetta stafa af því að fólk haldi ljóðlist vera eitthvað ægilega merkilegt, eitthvað sem ætti að vekja sterkar tilfinningar hjá þeim, það býst við vissri upplifun fyrirfram sem kemur svo ekki, en það þorir ekki að segja neitt þar sem hugsanlega upplifuðu allir aðrir þessar tilfinningar. Það vill ekki gangast við því að hafa misst af einhverju mikilvægu.

En það er einmitt í þessu ljósi sem mér fannst opnunarljóð bókarinnar Hamingjan leit við og beit mig eftir Elínu Eddu (gefin út af Meðgönguljóðum) sérstaklega áhugavert:

Stilltu þig!
Það eru
lausar
skrúfur
út um
allt.
Ýttu á
rauða takkann,
slökktu
á vilja
þínum
og skrúfaðu
niður
væntingarnar.

Stilltu þig. (bls.7)

Þessi áhugaverða byrjun minnti mig á þumalputtareglu við bókmenntalestur sem Harold Bloom hamrar statt og stöðugt á (og fær hann hana frá Samuel Johnson): „clear your mind of cant“. Sem sagt: hreinsið hugann af öllum fordómum og undirliggjandi hugmyndum sem gætu brenglað lesturinn og upplifunina af verkinu. Þetta þýðir þó ekki að við hættum að gera kröfur til bókmenntaverka, en ef ég skil Elínu rétt þá geta vissar væntingar um það hvernig góð verk eigi að vera einmitt talist til slíkra fordóma. Þetta er raunar mjög góð og áhugaverð spurning sem ég ætla þó að skilja eftir í lausu lofti og sleppa því að gera tilraun til að svara, enda gefst varla rúm til þess.

Hinn þráláti kvíði

Verkið er stutt, tuttugu blaðsíður og fjórtán ljóð. Þema flestra ljóðanna er andstæðan milli ljóss og myrkurs, sumars og veturs, himinsins og jarðarinnar. Þau lýsa hreyfingu frá dökku sálarástandi í byrjun:

Einhvern tíma
             varð hugur minn myrkur

Einhver hefur búið til
              þetta myrkur
og breitt það yfir mig eins og sæng.

(bls.10)

Í átt að einhvers konar bjartsýni og ljósi í lokin:

Ég sé ekki skýin
fyrir blámanum
og hinn þráláti kvíði
víkur
fyrir tilhlökkun.

(bls.20)

Lýsingarnar og myndmálið minna óneitanlega á baráttu við þunglyndi, en upplausn sjálfsins er líka áberandi: „…ég vissi ekki hvort ég væri til“ (bls.13). Að því leyti minnti verkið mig á frábæra bók William Styrons um þunglyndi, Sýnilegt myrkur – og það meina ég afar jákvætt, því hún er líklega besta bók um þetta efni sem ég hef lesið. En Styron notar mjög svipað mál til að lýsa því ástandi.

Kannski er fullmikið að segja að verkið fjalli beinlínis um þunglyndi – þótt myndmálið gefi það vissulega oft til kynna. Það sem ljóðin tjá gæti einnig verið viss tilvistarlegur doði eða firring, að upplifa umhverfi sitt sem eitthvað framandi, auk erfiðleika í samskiptum við annað fólk, eitthvað sem flestir ættu að kannast við – mismiki þó. Þannig minnti verkið mig einnig á tilvistarspekinga eins og Kierkegaard og Heidegger. Þrátt fyrir að Elín tali um myrkur og kvíða, frekar en angist og heilindi, þá virðist hún deila þeirri innsýn þeirra að það sé eitthvað sem kemur og fer í augnablikum. Hamingja eða heilindi er ekki varanlegt ástand sem náð er fyrir fullt og allt. Það er ekki eitthvað sem sjálfið afrekar með því að lesa sjálfshjálparbækur, borða rétt eða stunda nýjasta líkamsræktaræðið. Maður gerir í rauninni ekki neitt sérstakt að utanverðu. Ferlinu eru mun betur lýst sem breytingu á sjónarhorni. Á vissum augnablikum er einfaldlega eins og það birti til, eins og Elín lýsir í síðasta ljóði bókarinnar:

Það er heiðskírt.
Bæði á himninum
og í huga mér.

 (bls.20)

Ekki er þar með sagt að maður hafi sagt skilið við fyrra sálarástand (eða tilvistarstig eins og Kierkegaard kallaði það) fyrir fullt og allt. Sálarástandið er enn partur af manni og maður er enn fullfær um að sjá heiminn í því ljósi, en maður sér einnig meira – sjóndeildarhringurinn hefur víkkað.

Hvísl sjálfsins

Ég hef annars ekki, eins og ég hef þegar nefnt, næga þekkingu til þess að benda á hverjir mér finnist vera helstu áhrifavaldar Elínar meðal nútímaljóðskálda, og hvernig hún standist þann samanburð. Af þeim sem ég hef lesið er það þó einna helst Tomas Tranströmer sem verkið minnti mig á. Að því leyti að ég upplifði svolítið það sama og þegar ég las hann: ljóðin eru mjög hljóðlát, einhvers konar hvísl jafnvel, brothætt og viðkvæm fyrirbæri. Ljóðin, eins og upplifunin sem þau lýsa, virðast alltaf eiga hættu á að leysast upp í neindina ef ekki er farið varlega.

Verkið er þó ekki gallalaust. Það er t.d. ekki hægt að segja að efnið sé neitt sérstaklega frumlegt. Að svo miklu leyti sem ég hef kynnt mér þær virðast skandinavískar bókmenntir, sérstaklega eftir ungskáld, meira og minna fjalla um brothætt og dimm sjálf og sálarástönd (ásamt uppvaxtarárum skáldsins!). Ekki að það sé ekki verðugt efni að skrifa um, og það þarf að taka fram að þetta er ekki eitthvað sem einkennir verk kvenna fyrst og fremst. Karlarnir eru enn verri –  Knausgaard er auðvitað miðja þessarar stefnu (eða Proust reyndar, ef út í það er farið.)

Þetta er kannski ósanngjarnt að einhverju leyti. Verk Elínar er ekki „auto-fiction“ á sama hátt. En samt. Ég man eftir gagnrýni Gore Vidal á vestrænu skáldsöguna sem ég las einhvern tímann: af frægustu verkum sögunnar að dæma mætti halda að mikilvægasta viðfangsefni tilvistarinnar – og það eina sem vert er að skrifa um – væri hjónaband. Þannig var það kannski á 19.öld og fram á 20., en í dag virðist það ekki lengur vera hjónaband heldur lýsing á uppvaxtarárum og huglægri upplifun brotakennds sjálfs á hversdagsleikanum. Ég er auðvitað að ýkja, alveg eins og Vidal, en mér finnst þessi ófrumleiki þó nokkuð sláandi, sérstaklega miðað við tímana sem við lifum. Eða kannski er ég bara ekki að lesa réttu verkin?

Mistök vanrækslunnar

Það sem heillaði mig að öðru leyti við verkið er áhrifarík notkun Elínar á mjög einföldu máli og endurtekningum, og við lesturinn var ég alltaf að reyna að ímynda mér hvernig skáldið myndi sjálft lesa upp ljóð sín. Reyndar tel ég mann varla geta gefið upp endanlegan dóm fyrr en maður hefur heyrt það.

Heilt yfir var verkið áhugaverð lesning. Engin einstök eða sérstaklega eftirminnileg upplifun, nema þá frábært fyrsta ljóðið sem minnir einmitt á að öll list þarf ekki að vera þannig.

Það sem ég get þó sagt með fullri vissu er að þessi upplifun, að lesa og skrifa um Hamingjan leit við og beit mig, hefur sannfært mig um að það eru stór mistök hjá mér að vanrækja lestur á nútímaljóðskáldum.