„Lífið er fallegra þegar maður er þunnur“

Vaxtarverkir þúsaldarkynslóðarinnar

Það er skrýtið að vera ungur í dag. Við göngum um með tæki í vasanum sem geta veitt okkur alla heimsins þekkingu og komið okkur í snertingu við einstaklinga hinum megin á hnettinum með því bókstaflega að veifa fingri. Við getum tekið smálán og hoppað upp í næstu flugvél til Benidorm en berjumst samt við að hafa efni á að fara til tannlæknis og eignast þak yfir höfuðið. Ungt fólk hefur sennilega aldrei haft fleiri tækifæri en í dag en samt höfum við sennilega aldrei haft jafn lítil völd. Heimurinn hefur aldrei verið minni en einstaklingurinn hefur ef til vill aldrei verið jafn einangraður. Höfundur þessarar greinar tilheyrir sjálfur þeirri kynslóð sem í daglegu tali hefur verið nefnd þúsaldarkynslóðin (millennials) og er sá hópur fólks sem fæddist frá upphafi níunda áratugarins og fram yfir miðbik þess tíunda. Kynslóð sem hefur gengið í gegnum hraðari tækniframfarir en flestar aðrar kynslóðir og er á sama tíma að upplifa á eigin skinni allar verstu afleiðingar kapítalismans; eftirköst fjármálakreppunnar, dauðakippi nýfrjálshyggjunnar, endurvakningu fasismans og yfirvofandi ógn loftslagsbreytinga.

Fyrir síðustu jól komu út tvær nýjar skáldsögur eftir unga íslenska rithöfunda sem báðar eiga það sameiginlegt að fjalla á beinan og óbeinan hátt um þúsaldarkynslóðina en umræddar bækur eru Að heiman eftir Arngunni Árnadóttur og Fyrir allra augum eftir Sverri Norland. Bækurnar eru báðar með fyrstu skáldsögum höfunda (Að heiman er fyrsta skáldsaga Arngunnar og Fyrir allra augum er önnur skáldsaga Sverris) sem bæði eiga það sameiginlegt að tilheyra áðurnefndri þúsaldarkynslóð (Arngunnur er fædd árið 1987 og Sverrir árið 1986).

Hinn rótlausi hipster

Að heiman var gefin út í október 2016 af forlaginu Partusi sem hefur hingað til sérhæft sig í útgáfu ljóðabóka eftir upprennandi ljóðskáld og er bókin fyrsta skáldsagan sem forlagið gefur út. Söguhetja bókarinnar er Unnur, 23 ára kona sem við upphaf sögunnar er nýkomin heim til Íslands eftir árslanga dvöl sem skiptinemi í sagnfræði við Humboldt háskólann í Berlín. Við heimkomuna má segja að Unnur upplifi hálfgert öfugt menningarsjokk, henni bregður við hvað allt á Íslandi er lítið miðað við víðáttu stórborgarinnar. Á Íslandi er ekki hægt að hverfa í fjöldann og alveg eins víst að maður rekist á fyrrverandi tengdamæður á hverju götuhorni:

Hvenær er land of lítið? hugsar hún. Þegar maður rekst á mæður tveggja fyrrverandi elskhuga í Bónus? Þegar maður mætir kviðmágkonu í Austurstræti? Þegar maður mætir ömmu æskuvinar síns, vinkonu frænku sinnar og tveimur kviðmágkonum í sundi? Þegar maður mætir bróður fyrrverandi kærasta vinkonu sinnar, móður æskuvinar síns og þremur fyrrverandi kennurum í Lækjargötu?

Unnur eyðir fyrstu dögunum eftir heimkomuna í stefnulausri rútínu, fer með mömmu sinni að versla og ráfar um Reykjavík. Í einum af bæjarröltum sínum rekst hún á Láru, gamla vinkonu sína frá því úr grunnskóla og stuttu síðar býður hún Unni að koma með sér í ferðalag út á land ásamt vini sínum Sveini. Félagarnir keyra saman hringinn í kringum landið og stoppa m.a. í Vestmannaeyjum, Fáskrúðsfirði og Akureyri.

Eitt af því sem einkennir bókina hvað mest er ágreiningur á milli þeirra sem tilheyra ákveðinni menningu og þeirra sem eru henni utanaðkomandi. Þegar Unnur snýr heim frá árslangri dvöl sinni í Berlín er sjónarhorn hennar á Ísland einhvers staðar mitt á milli þessara tveggja póla. Sem fæddur og uppalinn Íslendingur hefur hún skilning og aðgang að menningu landsins eins og innfæddur en sem einstaklingur sem er að snúa aftur heim eftir búsetu erlendis sér hún Ísland með eins konar ytri auga. Unnur virðist vera ofurnæm fyrir öllum ytri aðstæðum sem hún mætir og er að einhverju leyti að heiman hvert sem hún fer eins og höfundur orðaði það í þættinum Orð um bækur:

Hún upplifir allt framandi og furðulegt. Umhverfi hennar er henni jafn fjandsamlegt hvort sem hún er á Kaffibarnum eða í Vestmannaeyjum og hún er í rauninni sko gestur, eða að heiman alls staðar, bæði í Bónus í Kópavoginum og á Akureyri. Hún er að horfa á allt svona einhvern veginn utan frá svolítið.

Unnur er verðugur holdgervingur hins póst-móderníska og rótlausa veruleika þúsaldarkynslóðarinnar. Að ytra byrði lifir hún forréttindalífi sem ung, íslensk kona, nýkomin úr skiptinámi við virtasta háskóla Berlínar en í sálarlífi hennar ríkir stöðug óvissa sem veldur því að hún finnur sig hvergi heimakomna. Ferðafélagar hennar, þau Sveinn og Lára, endurspegla jafnframt þetta rótleysi hvor á sinn hátt. Sveinn er að jafna sig eftir sambandsslit og Lára er að flýja fjölskylduerfiðleika heiman fyrir. Í ferðalagi sínu um Ísland lenda þau oft í ágreiningi þegar þau rekast á fólk með aðra heimssýn eða úr öðrum menningarkimum en þau tilheyra. Í Vestmannaeyjum uppsker Lára andúð Eyjamannsins Gests á hinu svokallaða „101-liði“ eftir að hún andmælir honum þegar hann segir Eyjamenn hafa verið eins og flóttamenn í kjölfar gossins 1973. Þau eru ferðamenn í eigin landi þar sem þau virðast hvergi passa almennilega inn. Meira að segja sjálf náttúra landsins virðist þeim á einhvern hátt framandi og tilgerðarleg, „Ísland er klisja“ eins og Lára orðar það þegar þau stoppa á Jökulsárslóni. Þau eru á milli tveggja heima, hvorki börn né fullorðin og finnst jafnvel fólk af sömu kynslóð og úr sama menningarheimi og þau vera framandi. Á Akureyri lýsir Unnur yfir fyrirlitningu sinni á tveimur ungum hipsterum sem þau sjá á Götubarnum en verður steinhissa þegar Lára bendir henni á að hún sé alveg jafn mikill hipster sjálf. Slík viðbrögð fanga nokkuð vel grundvallar hugmyndafræði hipstersins; sem skilgreinir sig fyrst og fremst í andstöðu við eitthvað annað. Þegar komið er aftur á heimaslóðir tekur fátt betra við, baráttan við að tilheyra er jafn erfið í Reykjavík og á landsbyggðinni, þar tekur hún bara á sig aðrar birtingarmyndir. Í staðinn fyrir óupplýst sveitafólk og markaðsvædda náttúru taka við hinar marghöfða ófreskjur nútíma Íslendingsins; leigumarkaðurinn og Lánasjóður íslenskra námsmanna.

Upplifanir eins og þær sem persónur Að heiman ganga í gegnum eru ekki einangraðar við skáldskap eða ungt fólk á Íslandi heldur eru þær birtingarmynd ákveðins ástands sem virðist vera sameiginlegt þúsaldarkynslóðinni á Vesturlöndum í dag:

[…] þetta ástand að kannski standa að einhverju leyti allar dyr opnar, geta skroppið í skiptinám eða flutt til útlanda en hafa samt engan sérstakan tilgang, ekkert sérstakt hlutverk í heiminum kannski. Og svo er það líka þetta að búa við ýmiss konar lúxus, eiga snjallsíma sem færir manni allar mögulegar upplýsingar sem eru til í heiminum en vera samt skítblankur um leið og komast ekkert út úr foreldrahúsum.

Kynslóðaleiðinn

Skáldsaga Sverris Norland, Fyrir allra augum, sem kom út í sama mánuði og Að heiman hjá JPV útgáfu kafar einnig ofan í raunir þúsaldarkynslóðarinnar. Sögumaður bókarinnar er ungur laganemi og teiknari að nafni Úlfur Kristbergsson og fjallar sagan um samband hans við fjöllistakonuna og samfélagsstjörnuna Dísu Eggertsdóttur. Sagan hefst á Þjóðarbókhlöðunni í miðri jólaprófatörn þar sem Úlfur er staddur að læra fyrir lögfræðipróf þegar Dísa vippar sér skyndilega upp að honum og byrjar að spjalla við hann. Upp úr því hefst skammlíft nokkurra daga ástarævintýri sem lýkur þegar Dísa fer til útlanda, þá búin að stimpla sig rækilega inn í hug og hjarta Úlfs. Næsta eina og hálfa árið fylgist Úlfur svo með Dísu klífa hæstu hæðir bókmennta- og tónlistarheimsins á Íslandi þar til hún er orðin ein umtalaðasta kona samfélagsins.

Í bókinni má finna ýmsar hugleiðingar um stöðu ungs fólks í heiminum í dag eins og þegar Dísa leitar ráða hjá Úlfi varðandi grein sem hún er að skrifa fyrir Sirkústjaldið sem ber titilinn „kynslóðin sem kann ekki að láta sér leiðast – eða hvað?“ og:

[…] fjallar svona í grunnatriðum um það hvernig við höfum alltaf úr endalausri afþreyingu að moða og svo framvegis / þú veist, hvernig við getum alltaf gripið til símans og horft á nokkur myndbönd, lesið greinar, hlustað á hlaðvarp eða tónlist, sent skilaboð, whatever og hvaða áhrif það hefur á okkur – hvernig það breytir jafnvel smám saman heilanum í okkur / hvort heilinn í okkur sé að breytast …

Dísa setur hins vegar spurningamerki við þessa sífelldu gagnrýni fjölmiðla og eldra fólks á hennar kynslóð og er sjálf þeirrar skoðunar að ungt fólk hafi í raun aldrei verið „upplýstara og víðsýnna en einmitt í dag“ og þó að daglegt líf þúsaldarkynslóðarinnar sé yfirfullt af hvers kyns afþreyingu og tímaþjófum þá útiloki það alls ekki að þeim geti leiðst:

[…] í vissum skilningi erum við sjálfsagt frekar „kynslóðin sem leiðist alltaf“ / svo böggar mig líka bara alltaf svoldið þegar fólk alhæfir um „kynslóðir“, setur á þær einhverja stimpla, tilhneigingin til að finna regnhlífarhugtök sem eiga að ná yfir risastóran hóp af fólki, í þessu samhengi heila „kynslóð“, virkar svo úreld og kjánó – svo „karlaleg“ […] ég held að það gangi sjaldan upp, ef nokkurn tímann, að skilgreina heila kynslóð!

Fyrir allra augum er bók sem fjallar um sambönd fólks á öld samfélagsmiðla og það hvernig við erum sífellt að spegla okkur í hvort öðru með hjálp tækninnar. Úlfi finnst það mesta furða hvers vegna vinsæl og eftirsótt manneskja á borð við Dísu skuli hafa litið við honum, fyrir honum er Dísa „rödd sinnar kynslóðar“ á meðan hann lítur á sjálfan sig sem „þögn sinnar kynslóðar“. Viðhorf þeirra til lífsins eru jafnframt gjörólík, Dísa nærist á athygli annarra og lifir lífu sínu svo að segja fyrir allra augum á meðan Úlfi er fullkomlega óskiljanlegt hvernig hægt er að gera slíkt þar sem hann lítur svo á að raunverulegt líf manneskju eigi sér stað innra með henni. Það er í þessu sem átök verksins kjarnast en það er í viðhorfi persónanna og væntinga þeirra til hvors annars sem boðskap þess (ef tala má um slíkt nú á dögum) er að finna. Úlfur lítur á Dísu sem manneskju sem er með allt á hreinu í sínu lífi (sem hún virðist vera að ytra byrði) og finnst hann sjálfur vera með allt niðrum sig en þar sem Úlfur er sögumaður bókarinnar fá lesendur aðeins að heyra innri rödd hans og sýn þeirra á Dísu er því alltaf frá hans sjónarhorni.

Það er ekki fyrr en undir lok bókarinnar að við fáum sjónarhorn Dísu á Úlf og komumst þá að því að sýn hennar á sjálfa sig er gjörólík þeirri sýn sem allir aðrir (þ.m.t. Úlfur) hafa á henni og að henni finnst Úlfur vera alveg jafn mikið með allt á hreinu í sínu lífi eins og honum finnst hún vera:

Þú varst svo glaður og pottþéttur. Á fleygiferð í gegnum lögfræðina, einnig listrænn, fyndinn, sætur, hæfileikaríkur en um leið hógvær og auðmjúkur … Þurftir ekki að sanna neitt fyrir neinum. Ég átti miklu lengra í land, vissi ekkert hver ég var. Mig grunar stundum að þessi endalausa listsköpun mín sé aðeins ein stór tilraun til að búa mér til einhverja ytri sjálfsmynd því að ég veit ekkert hver ég er í rauninni, innra með mér.

Þegar Úlfur kemst að því að þrátt fyrir alla sína sigra er Dísa alveg jafn týnd í lífinu og hann sjálfur er eins og hann átti sig á því að hans eigið líf er kannski ekkert svo slæmt eftir allt saman. Hann langar að útskýra tilfinningar sínar fyrir Dísu en getur ekki tjáð sig almennilega: „Það sem hamlaði mér í veröldinni – stíflaði mig, hálfpartinn kyrrsetti mig – voru tilfinningar.“ Vandamál Úlfs er að hann er svo fastur inni í sjálfum sér að sýn hans á lífið og hann sjálfan er orðin skökk og hann fattar ekki að hann er mun heilsteyptari persóna en hann telur sér trú um að hann sé.

Undir lok bókarinnar virðist rofa til í huga Úlfs og hann sættir sig við að samband þeirra Dísu sé komið á enda. Þó að Úlfur og Dísa nái aldrei almennilega saman endar bókin þó á jákvæðum nótum með því að Úlfur virðist orðinn sáttari við lífið og tilveruna og þroskaðri eftir allt saman. Raunar eiga báðar bækurnar það sameiginlegt að þrátt fyrir að lýsa lífi ungs fólks sem bæði rótlausu og óreiðukenndu enda þær á jákvæðum og vongóðum nótum.

Í von um traust eldri kynslóða

Fyrir allra augum endar með áðurnefndum sambandslokum Úlfs og Dísu og Að heiman endar á því að Unnur er á leiðinni á stefnumót með Sveini sem hún er þá orðin skotin í:

Lífið er fallegra þegar maður er þunnur, hafði Lára sagt. Og þegar maður er að fara í göngutúr með Sveini, bætir Unnur við í huganum. Þegar maður á stefnumót í höfuðborginni. Áfangastað í geiminum. Möguleika á að búa eitthvað til í sameiningu. Tækifæri til að breyta heiminum. Heimurinn er stærri en Kaffibarinn og meira að segja stærri en Laugavegurinn. Heimur okkar beggja er stærstur allra og hann er fullur af möguleikum.

Það er erfitt að vera ungur en eins og Sverrir Norland orðar það á kápuflipa Fyrir allra augum þá er það líka „sárt og klikkað og skrítið, og auðvitað fáránlega gaman“. Þrátt fyrir að Fyrir allra augum og Að heiman beri tilgangsleysi þúsaldarkynslóðarinnar vitni þá fela þær báðar í sér einhverja ótrúlega fallega von. Von um að þegar allt kemur til alls þá getum við unga fólkið fundið tilgang og hann sé ekki að finna í hlutunum í kringum okkur, skjánum fyrir framan okkur eða steypunni utan um okkur, heldur tengslunum sem við myndum við annað fólk og við okkur sjálf. Og það er eitthvað sem er mikilvægt að minna á. Það er vissulega skrýtið að vera ungur í dag en það hefur líka sjaldan verið vinsælla að kvarta yfir ungu fólki eins og í dag. Við erum klámkynslóðin, aumingjakynslóðin, sjálfhverfa kynslóðin, kynslóðin sem ólst upp í þeirri trú að þau væru betri en aðrir og fengu samt medalíu fyrir að lenda í síðasta sæti. En við erum líka kynslóðin sem gat af sér Free the Nipple, Facebook, yngsta handhafa Friðarverðlauna Nóbels sögunnar o.m.fl. og þrátt fyrir að við séum vissulega sjálfhverf og eigum erfitt með að líta upp úr símunum okkar þá höfum við heldur aldrei haft fleiri mögulega á að tengjast öðru fólki. Kannski er vonin og smá þolinmæði og traust frá eldri kynslóðum það eina sem þúsaldarkynslóðina raunverulega skortir. Ég veit það ekki en ég held að við séum allt í lagi.