Belgía, tólf stig

Eitt það besta við það að hafa búið erlendis í næstum ellefu ár er að hafa algjörlega misst af allri Júróvisjóngeggjun klakans í nær allan þann tíma. En nú er ég undirbý flutning heim á ný þótti mér ágætt að taka að mér að skrifa nokkrar línur um komandi keppni. En fyrst ætla ég að rifja aðeins upp.

Júróvisjónkeppnir æsku minnar voru einhvern vegin þannig að við krakkarnir héngum yfir henni á meðan það var sælgæti í nammiskálinni og svo fórum við út að leika. Þegar við komum inn aftur spurðum við stundum hver vann. Þetta skipti okkur í sjálfu sér litlu máli.

Svo ákváðu Íslendingar að taka þátt í keppninni og fyrsta innlegg okkar var Gleðibanki Magnúsar Eiríkssonar fluttur af Icy hópnum. Hann samanstóð af Helgu Möller, Pálma Gunnarsyni og Eiríki Hauksyni. Þó Gleðibankinn sé þokkalegt lag þá fannst mér á sínum tíma að lag Eyjólfs Kristjónssonar, Ég lifi í draumi, hefði átt að fara áfram en Björgvin Halldórsson söng það.

Eftir fullvissu þjóðarinnar um glæstan sigur Gleðibankans fór svo að lagið lenti í 16. sæti og átti sú bölvun eftir að liggja á framlögum Íslands um nokkurn tíma. En allt er þegar þrennt er og Stjórnin braut ísinn með Einu lagi enn sem náði fjórða sæti. Árið eftir sendu Íslendingar það lag sem mér þykir best af framlögum Íslands og í raun eitt besta popplag sem Ísland á, Draum um Nínu. Eyjólfur Kristjánsson samdi og söng með Stefán Hilmarsson sér til hjálpar.

Á þessum árum varð hvert lag að vera útsett fyrir stóra hljómsveit og vera sungið á tungumáli þjóðarinnar sem það sendi. Nokkuð var deilt á þetta fyrirkomulag þar sem dægurlagatónlist notaðist lítið við stórar hljómsveitir lengur og það þótti vera talsverður dragbítur fyrir þjóðir sem áttu ekki ensku að móðurmáli að mega ekki keppa á því tungumáli. Enda enska frummál poppsins og það þótti gefa Bretum og Írum talsvert forskot sem aðrar þjóðir nutu ekki. Að lokum fór svo að kvartanirnar báru árangur og valið var gefið frjálst um hvaða tungumáli var sungið á.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér þykir keppnin hafa misst vissan sjarma við það að hafa breytt þessum atriðum og þá alveg sérstakleg þetta með tungumálin. Væri t.d. nokkuð varið í sigurlag ársins 1982 ef sungið hefði verið A little bit of peace fremur en Ein bisschen Frieden? Hins vegar þá verð ég að viðurkenna að ég hef aldrei heyrt Waterloo Abba sungið á sænsku og mér gæti ekki staðið meira á sama. Ég held að það sem ég vilji í raun segja er að ég vildi óska þess að þátttakendur veldu oftar að synga á sínu eigin tungumáli.

Ég notaði nýlega tvær kvöldstundir með amerískri konu minni til að horfa á lögin sem keppa um djásnið í þetta skiptið. Við drukkum bjór og skelltum í okkur Birkiskotum og ræddum saman um það sem við sáum og heyrðum. Henni finnst þessi keppni æðisleg sem verður væntanlega til þess að ég mun neyðast til þess að fylgjast með keppninni á meðan við búum á Íslandi í framtíðinni. Hennar fyrstu kynni af Júróvisjón voru árið 2006 þegar Ísland sendi Silvíu Nótt og finnsku þungarokkararnir í Lordi unnu.

Það er sjaldgæft að framúrskarandi lagasmíðar á borð við Waterloo, Making Your Mind Up eða Poupée de cire, poupée de son taki þátt í keppninni og því velti ég því fyrir mér hvernig ég myndi flokka lögin sem ég er að rýna í og ákvað á endanum að setja upp þrjá flokka. Þeir eru afspyrnulélegt, miðjumoð og síðast, allt í lagi og verða teknir fyrir í þessari röð.

Afspyrnulélegt

Það verður að segjast sem er að lögin í þessum flokki eru misjafnlega léleg. Sum þeirra virðast vera miðuð að því að sjá til þess að viðkomandi land vinni keppnina alls ekki. Þetta á við framlög Danmerkur sem senda alveg óttalega leiðinlegt lag með enn leiðinlegra myndbandi þar sem söngkonan syngur fyrir áheyrendur sem virðast teiknaðir. Ég á samt voðalega erfitt með að trúa því að sú sé raunin og vona að þetta hafi bara komið svona út í myndvinnslu. Önnur lög sem virðast eiga það markmið eitt að vinna ekki eru það finnska og hollenska. Það finnska er bara leiðinlegt en í því hollenska eru óttaleg leiðindin  mögnuð upp með Wilson Phillipslegu lagi sem einhverjum datt í hug að sniðugt væri að troða inn einu metal gítarsólói. Eins datt enn öðrum snillingnum í hug að það væri góð hugmynd að birta hluta af texta lagsins á landslag í myndbandinu. Það gerir enginn ráð fyrir því að textar í lögum keppninnar séu góðir. Enn síður átti maður von á því að slök gæði þeirra yrðu auglýst í myndböndum þeirra. En, það gerist merkilega oft.

Sum lög á maður erfitt með að sjá hvort keppendur séu að meina það sem þeir eru að gera. Ítalska lagið t.d. er alveg óttalega lélegt, þó telja megi þeim til hróss að syngja á sínu eigin tungumáli þó þar sé farin stormskersleiðin og fleygt inn ýmsum alþjóðlegum frösum til að reyna að fanga athyglina. Hins vegar er afspyrnulélegur textinn þýddur og birtur í myndbandinu sem var alveg nógu voðalegt fyrir með sinni  górillu og japanska backdroppi. Ég geri mér vel grein fyrir því að þetta á að vera háð en mér þykir það einfaldlega ekki vel heppnað nema síður sé. Önnur vond lög með undarlega vond myndbönd eru framlag Tékklands sem er eins og nærfataauglýsing miðuð að Bridget Jones, Svartfjallaland með söngvarann með svipuhárið og Kýpur með George Michael wannabe og konu í langerma sundbol.

Svo eru það vondu lögin þar sem er greinilegt að verið er að reyna sitt besta. Hér í flokki eru austurríska lagið með söngvara sem er verri í því að vera Ed Sheeran en Sheeran sjálfur, norska lagið er svo lélegt að það eina góða sem ég gæti mögulega sagt um það er að hokkígrímurnar í myndbandinu voru flottar. Annars hefði farið betur að hafa það hljóðlaust. Svo er það Serbía með svo generískt popplag að ég var alveg handviss um að ég hefði heyrt það áður og Malta með myndband sem segir söguna aftur á bak og ég komst ekki hjá því að hugsa með mér að það eina sem gæti mögulega bjargað laginu væri að það væri á aftur á bak líka. Næst eru það hrikalega leiðinlegu lögin. Þar er að finna íslenska lagið, Eistland, Litháen og Búlgaríu. Það búlgarska er þó með smá áhugavert myndband og líklegt að einhver sem sá um það hafi séð Hannibal þáttinn með líkunum í súrheysturninum.

Sér í flokki eru svo lög Króatíu þar sem söngvarinn hoppar á milli áttunda og söngstíls eins og ekkert sé, en útkoman getur ekki orðið önnur en vandræðalega fyndin, Georgía þar sem er að finna línuna

don´t let nobody turn you down, even if the world is round, ég get ekki fyrir mig litla líf skilið hvað þetta á að þýða. Og loksins er það svo Rúmenía með lag sem gæti mögulega verið versta lag keppninnar frá upphafi, það er allt rangt þarna og svo til að toppa það þá er söngkonan fölsk.

Miðjumoð

Vandamálið við að fjalla um miðjumoð er að það er oft erfitt að finna eitthvað um það að segja. Það á við lög Englands, Sviss, Lettlands og Írlands. Þessi lög eru eitthvað svo afskaplega venjuleg og óáhugaverð að ég hef varla nokkuð álit á þeim. Það eina sem mér kemur til hugar er hvorki né. Önnur lög eins og lög Frakklands, Svíþjóðar og Ástralíu eru bara flatt popp og ekkert meira þar. Hvenær fóru Ástralir annars að taka þátt í keppninni? Ísrael er með lag þar sem það eina eftirminnilega er Millennial Whoop, Moldavía má eiga það að þeir taka sig ekki alvarlega og Grikkland er með ágætt viðlag en annars er þetta ekkert sérstakt. Framlag Spánar er ég nokkuðu viss um að ég hafi heyrt áður í auglýsingu um ferðir til Hawaii. Hvíta Rússland býður upp á Mumford And Sonsleg leiðindi úti í skógi.

Allt í lagi

Góðu lögin eru flest ekkert endilega góð lög og líklegt að fæst munu eiga sér líf utan keppninnar. Þar eru lög eins og framlag Albaníu sem er þokkalegt með skemmtilegu fantasíumyndbandi, Azerbajdan er með ágætt lag með viðlag sem minnir nokkuð á One Night In Bankok úr söngleiknum Chess og Úkranía er með þokkalegan rokkslagara sem þó stæðist samanburð við svipað rokk annars staðar að. Makedónía og San Marínó eru líka með fín popplög.

Bestu lögin eru svo framlög Armeníu sem minnir smá á hina kanadísku Feist í upphafi lagsins og hefur skemmtilegan minimalískan rytma, Portúgal gefur skít í poppgaul og sendir djassað frík með sviðsframkomu sem minnir á útúrdópaðann og blindfullann Joe Cocker, ég hef gaman af þessu og að lokum er það langbesta lag keppninnar, en það er framlag Belgíu. Blanche er djúprödduð og minnir nokkuð á Victoria Legrande úr Baltimore sveitinni Beach House. Lagið er kalt tölvupopp og vel sett saman sem slíkt. Þetta er ekki eitthvað sem maður á von á að heyra í keppninni og kom skemmtilega á óvart.

Á meðan ég var að leggja lokahönd á þessa umfjöllun mína fór ég að skoða mig um og sjá hvað aðrir eru að segja um keppendur og spár um hvaða lög ættu besta möguleika til sigurs og hafði gaman af því hvað mín sýn er ólík öðrum. Ég legg auðvitað ekki út með það ætla mér að spá neinum sigri, enda með öllu óhæfur til slíks verknaðar vegna gífurlega lítils áhuga á keppninni og þeirri tónlist sem boðið er upp á í henni yfirleitt. Hins vegar kom mér á óvart að sjá ítalska lagið vera almennt talið sigurstranglegasta lagið þar sem mér þykir það eitt alversta lagið sem fer fram að þessy sinni. Það kom eins á óvart að sjá framlag Belgíu ofarlega á lista sigurstranglegra laga þar sem það er óvenjulegt fyrir keppnina og ég hef gaman af því. Því skulum við bara ljúka þessu með: Belgía, tólf stig.