Helgi Jónsson og Mein kampf unglingabókanna

Ég  minnist þess tvisvar að hafa orðið virkilega pirraður og reiður við lestur unglingabóka, þeirrar annars stórkostlega vanmetnu bókmenntagreinar. Það væri máski ekki í frásögur færandi, nema vegna þess að þessi tvö skipti ásækja mig ítrekað þetta vorið.

Í fyrra skiptið var ég þrettán ára og las í fyrsta skipti bók eftir Helga Jónsson. Ég man ég varð reiður, reiður vegna þess að ein af þessum þremur bókum sem kom út fyrir minn aldurshóp það árið skyldi vera svona stórfenglega illa skrifuð að flestir apakettir með ritvél hefðu gert betur.

Helgi komst svo í fréttirnar fyrr í vetur – þar sem plottið var óþægilega kunnuglegt:

a) einhver uppgötvaði hvað bækurnar væru mikið drasl – og siðferðislega vafasamar í þokkabót. Í staðinn fyrir að ræða þetta af viti er strax byrjað að tala um að banna bækurnar úr bókasöfnum og bókabúðum.

b) fólk áttaði sig á að bókabrennur væru dálítið nasískar eftir að rithöfundar landsins skrifuðu nokkrar greinar um málfrelsi.

c) málið dautt.

Og ég gat ekki annað en dæst.

Ég dæsti þegar rætt var um að banna Helga – en svo endaði ég á að dæsa líka smá þegar hann varð óvart að hálfgerðum píslarvætti. Af því við stoppuðum aldrei almennilega til að ræða bækurnar og hvað væri svona slæmt við þær (og þær sem ég las í upphafi tíunda áratugarins, það var nákvæmlega ekki neitt gott við þær. Ég man svosem illa hvort nauðganir voru málaðar jákvæðum litum, en ég man þó að öll sýn bókana á samskipti kynjana voru afskaplega vafasöm. En aðallega voru þær bara glæpsamlega illa skrifaðar).

Og ég dæsti út af því það er einhver skekkja í málfrelsisumræðu sem snýst aðallega um að berjast gegn því að banna drasl. Það er eitthvað skakkt við hana þótt prinsippið sé göfugt og ég næ ekki að festa fingur á það. Kannski af því að góða stöffið er þaggað öðruvísi, það er ekki bannað – því er bara komið fyrir á jaðrinum, það er búinn til jarðvegur þar sem það er ekki skrifað eða það heyrist síður. Það er búið til kapítalískt hvatakerfi sem hyglar þeim sem dæla út drasli á meðan alvöru rithöfundar voru vandlega fældir frá unglingabókum.

Þetta hefur lagast – en það eymir enn eftir að þessari stigmatíseringu. Annar hver maður sem blandaði sér í umræðuna lét fylgja þennan fyrirvara: „Ég var að vísu alltof töff til að lesa unglingabækur, ég var bara að lesa Laxness og Kafka á meðan hinir krakkarnir héngu í sjoppubókmenntunum.“

Ég vona að þetta hafi mest verið innihaldslausar grobbsögur – af því ég held að það sé ekkert sérstaklega hollt fyrir bókmenntaþroska fólks að sleppa heilu æviskeiðunum úr. Það er auðvitað ekkert að því að lesa fullorðinsbækur líka þegar maður er krakki eða unglingur – en máttur bókmennta felst að miklu leyti í þeim galdri að veita manni bæði nýja sýn í aðra heima og aðrar manneskjur – en líka nýja sýn á sjálfan sig og eigin  heim. Þessi tvíþætta dýnamík held ég að sé lykilhluti af galdrinum – ef við getum aldrei lesið um okkur sjálf þá vantar okkur lykilinn til að skilja öll kafkaísku sólkerfin í fjarskanum.

Og það sem skapaði höfundaverk Helga Jónssonar (eða að minnsta kosti það sem gerði þær miðlægar í unglingabókaflórunni) var einmitt þetta landlæga snobb upp á við, þetta hatur á unglingabókum og það fálæti sem því fylgdi. Bækurnar hans Helga eru einfaldlega sjálfgefin niðurstaða (e. self-fulfilling prophecy) þeirrar afstöðu. Eftir að hafa fælt kynslóðir íslenskra rithöfunda frá unglingabókum verða menn svo gapandi hissa þegar íslensk ungmenni koma illa út í lestrarkönnunum.

13 vondar ástæður

Hvernig skrifar maður um móral í bókum? Góðan eða vondan … það er snúið. Rithöfundar þurfa í vissum skilningi helst að vera passlega siðlausir við iðju sína, þora að orða allan fjandann sem þeir myndu aldrei orða undir öðrum kringumstæðum – og bækur sem eru óhóflega móralskar eru almennt vondar, hvort sem mórallinn er góður eða vondur – en stundum eru bækur einfaldlega vondar af því mórallinn er mannskemmandi og stundum þarf bara að ræða þær á þeim forsendum.

Það þýðir ekki að það eigi að banna þær. Jafnvel þótt þær séu jafn vafasamar og Mein Kampf – sem ég man einmitt eftir að hafa selt tveimur unglingspiltum þegar ég vann í Bóksölunni og það ískraði í þeim hláturinn allan tímann. En ég þóttist viss um að þetta væru bara ungir menn með skelmislegan húmor, ekki verðandi Breivikar Íslands. Ef þeir hefðu keypt sér 13 Reasons Why hefði ég hins vegar haft meiri áhyggjur.

Það gerði ég nefnilega sjálfur, týndur í bókabúð í New York rambaði ég á bók sem kom inná nördalegt áhugamál mitt á einmitt því augnabliki, segulbandsspólur í skáldskap. Þetta var 13 Reasons Why og ég keypti hana, las í einum rykk þegar ég kom heim og bölvaði henni allan tímann. Hún er síðuflettir, hún má eiga það – en fleira gott get ég ekki sagt um hana.

Ég lét vera að senda hatur mitt út í kosmósið þá, líka þegar hún var þýdd á íslensku – líklega út af því að bókmenntafræðingnum í mér þykir ekki nógu fínt að ræða bækur út frá óhóflega mórölskum forsendum, en þegar bók er jafn svakalega móralíserandi og þessi – og mórallinn jafn vondur, þá er fátt annað hægt. Og núna, þegar internetið dælir út greinum um sjónvarpsþættina og sjálfur Starafugl birtir lofsamlegan dóm um bókina í tilefni  þáttanna er er kominn tími til þess að orða þetta opinberlega:

Þessi bók er mannfjandsamlegur andskoti.

Hann Jay Asher, höfundur bókarinnar, er vissulega flinkari með penna en Helgi Jónsson (þótt það sé samt eitthvað óþolandi við stílinn alveg frá upphafi) sem hefur orðið til þess að merkilega margir tala um þetta sorp sem alvöru bókmenntir – og, það sem verra er, ýja að því að þarna sé einhver hollur og góður boðskapur á ferð, sbr. þessa klausu í bókadómi á Starafugli:

Ég biðla til ykkar, lesið bókina eða horfið á þættina á Netflix ef þið nennið ekki að lesa. Það verður ekki bara hollt og tilfinningalega þroskandi, heldur gætuð þið haft gaman af sögunni.

Ég held ég skilji hvaðan þetta kemur. Svo ég súmmeri nú upp plottið, þá er það í stórum dráttum þetta: unglingsstelpan Hannah fremur sjálfsmorð og skilur eftir sig 13 segulbandsspólur. Hver ætluð einum einstaklingi – en hver og einn hlustar á þær allar í gegn. Sögumaðurinn er svo Clay, unglingspiltur sem var bálskotinn í Hönnuh. Spólurnar geyma svo, eins og nafnið gefur til kynna, ástæðurnar fyrir því að hún framdi sjálfsmorðið.

Ég gæti alveg með góðum vilja fundið jákvæðan móral um að þetta sýni okkur að það hvernig við komum fram við náungann hafi alltaf áhrif, jafnvel meiri en við höldum. Og að bókin sé ágætt tæki til að ræða um sjálfsmorð. En það væri lygi.

Mórallinn er nefnilega þessi í raun: hún er einfaldlega að ásaka þessa þrettán einstaklinga (sem fyrir utan einn námsráðgjafa eru unglingskrakkar eins og hún) um að þau hafi drepið hana. Eitthvað sem er stjarnfræðilega andstyggilegt – en er samt presenterað í bókinni sem eitthvað heilbrigt. Þar kemur frásagnaraðferðin til sögunnar – Clay er nógu ástfanginn af Hönnuh til að halda með henni í gegnum þykkt og þunnt, og það er hann sem túlkar spólurnar fyrir okkur – og virkar óneitanlega á löngum köflum eins og málpípa höfundarins.

Sögurnar á spólunum spanna svo allan skalann, sumir áttu vissulega alveg skilið að fá þessa ákæruspólu í hausinn en aðrir alls ekki – og það er eitt af stóru vandamálunum líka, hvernig allt er lagt að jöfnu, nauðganir eru lagðar að jöfnu við smásyndir og alvöru skúrkar settir á sama bás og krakkar sem hafa lítið gert af sér annað en að vera jafn ráðvilltir og Hannah.

Þannig klúðrast tækifæri á ágætis boðskap um það hvaða áhrif gjörðir þínar hafa á annað fólk og umbreytist í afskaplega vafasaman móral um að þú berir ábyrgð á allra þeirra eymd ef þú stalst strokleðrinu þeirra.

Sem umfjöllun um sjálfsvíg gerir bókin einnig afskaplega takmarkað gagn – við skynjum nefnilega sjaldnast vanlíðan Hönnuh, heldur fyrst og fremst hefndarþorsta hennar; þetta er sjálfsmorð sem hefnd, eymdarútgáfan af pay it forward pælingunni. Hannah breytist þannig í dauðanum í eineltistudda – sem lætur öllum líða illa út af öllu því smálega sem hún getur týnt til og sett út á varðandi persónleika þeirra og gjörðir. Og höfundurinn spilar grimmt með og tryggir að aðrar persónur geri nú stundum eitthvað algjörlega úr karakter, bara til að réttlæta Hönnuh.

Vondar bækur sem þessar geta samt alveg orðið til góðs í einstaka tilfellum – ef þær eru ræddar af viti. Þær eru hins vegar miklu líklegri til þess að ala á alls kyns ranghugmyndum um sjálfsmorð, einelti og þunglyndi – en við því eru góðar unglingabækur auðvitað besta móteitrið.

Og framleiðsla á því móteitri er blessunarlega í örum vexti. Nú er að koma upp kynslóð rithöfunda sem skrifar óhrædd alvöru bækur fyrir unglinga, kynslóð sem mun vonandi tryggja næstu kynslóð á eftir betra unglingabókauppeldi en Helga Jónsson og Jay Asher. Og það verða sem betur fer alltaf til Hafnfirðingabrandarar og Aþenur og Christine Nöstlinger og Peð á plánetunni jörð og fleiri góðar mixtúrur sem minna mann á hversu frábær og stórkostleg og sorgleg og yfirþyrmandi og fyndin unglingsárin eru í alvörunni.